fimmtudagur, 3. nóvember 2005

Haustganga um Søerne

Á miðvikudögum er frítt í söfnin hér í Kaupmannahafnarborg. Við vorum á leiðinni á Thorvaldsenssafn í gær þegar svo skemmtilega vill til að það springur á afturhjóli Baldurs. Ég segi skemmtilega því úr varð svo frábær ganga. Við vorum nefnilega stödd við Skt. Jørgens Sø sem er hluti af vötnunum (ásamt Peblinge Sø og Sortedams Sø).

Við höfðum alltaf ætlað okkur að taka göngutúr um vötnin en fram til þessa ekki gefið okkur tíma í það en þarna vorum við stödd, strönduð með fatlað hjól en starfhæfar löbbur. Þar sem við stóðum á gatnamótum Gyldenløvesgade og Vester Søgade byrjuðum við á því að ganga meðfram Skt. Jørgens Sø. Veðrið var dásamlegt, heiðskýrt og svalt í lofti. Myndavélin var með í för og tókum við myndir af öllu því sem vakti athygli okkar.

Á vegi okkar varð m.a. ógrynni af kosningaáróðri í formi auglýsingaskilta frambjóðenda, auglýsing á ljósastaur fyrir eitthvað sem kallast kultloppemarked, bann við baðferðum og fiskeríi, veggja- og götukrot og fátæklegt snuddutré (svo fátt eitt sé nefnt). Ekki má gleyma öllu fallna laufinu og haustlitunum sem sköpuðu svo skemmtilega umgjörð um vötnin.

Við endann á Skt. Jørgens Sø stendur glæsileg, rúnuð og geysihá bygging sem hýsir Tycho Brahe Planetarium & Omnimaxteater. Þar eru tröppur sem hægt er að tylla sér á og virða fyrir sér fuglalífið og gosbrunnana sem sprautast upp úr vatninu.

Þegar komið er hinu meginn við vatnið kallast vegurinn sem gengið er eftir því skondna nafni Svineryggen. Þegar Svínsbaki sleppir tekur við Peblinge Dossering sem liggur meðfram Peblinge Sø. Þar settumst við niður og gæddum okkur á nýbökuðum brownies og ferskri mjólk, hlaupandi aðhaldsfólkinu eflaust til mikillar mæðu (eða grænnar öfundar).

Þar sem Peblinge Sø og Sortedams Sø mætast liggur Dronning Louises Bro og síðan tekur Nørrebrogade við. Þar er að finna tælensk/kínverska búð og kíktum við þangað inn, bæði til að forvitnast og þýða loppnar loppur. Við komum síðan við á reiðhjólaverkstæði og gátum hjólað í okkur hita á leiðinni heim.

Eftir svona mikla haustupplifun fannst okkur tilvalið að elda eitthvað úr haustuppskerunni. Þar sem nafrískur réttur kvöldsins áður hafði lagst svo vel í okkur elduðum við sambærilegan rétt úr kartöflum, gulrótum og rófum. Í eftirrétt voru það síðan hausteplin sem færðu okkur ilmandi eplaköku með rjóma.

Hér að neðan eru síðan velvaldar myndir úr göngutúrnum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Lukkaðist kúskúsið ekki vel hjá ykkur? Ég verð að fara að fá mér rófur, þær verða illfáanlegar hér þegar líða tekur á veturinn.

Nafnlaus sagði...

Gaman að fá svona góða, myndskreytta frásögn af þessari óvæntu gönguferð umhverfis vötnin (Sjóina á Hafnar-íslensku). En ég vona, að þið gefið ykkur tíma til að skoða Planetarium- það er vissulega þess virði.

ásdís maría sagði...

Kúskúsið heppnaðist frábærlega, kærar þakkir fyrir leiðbeiningarnar. Við fórum einmitt til Arabans við hliðiná og þar sá ég rófur í fyrsta sinn síðan ég kom hingað. Mér brá reyndar pínu að sjá að þær eru hvítar að innan en ekki gular en þær bragðast jafnvel.

Gott að heyra að heimsókn í Planetarium sé áhugaverð, þá fer það á gátlistann okkar.