föstudagur, 15. júní 2007

Suður á bóginn

Tíu dagar í Kathmandu að baki eins og hendi væri veifað. Við vissum ekki hvað beið okkar þegar við héldum frá Indlandi og hefðum við fengið að vita að það væru beinverkir og hiti hefðum við að öllum líkindum haldið okkur fjarri!

Þrátt fyrir veikindin náðum við að njóta þess að vera í Kathmandu, borgin er eftir allt saman lítil, lifandi og viðráðanleg. Við gengum mikið um Thamel túristabælið, lentum oft í rigningu og neyddumst einu sinni til að taka hjólarikkara heim þegar götur urðu ófærar. Við keyptum fjórar heitustu Bollywood myndirnar og eina ferðahandbók, borðuðum fáránlega margar búrrítúr á skömmum tíma og uppgötvuðum bestu pítsur Asíureisunnar fram til þessa... á næstseinasta deginum.

Heimsóknin hingað hefur fært mér heim sannindi um að Nepal sé vel þess virði að heimsækja. Heimsóknin var eiginlega hugsuð sem úttekt, sjá hvort hingað væri gaman að koma og trekka, og nú er endanlega komið á ferðalistann trekk um Annapurna svæðið einhvern október eða nóvembermánuð og útsynisflug yfir Everest. Ef einhver annar hefur hugsað sér að koma hingað í trekk get ég sagt ykkur það að hér er hægt að fá allt til að undirbúa slíka gönguferð, eina sem maður þarf að hafa í farteskinu er spenningurinn, áhuginn og smá gönguþrek.

Nú ætlum við að kveðja Nepal í bili og halda suður á bóginn. Ég ætla ekki að gefa upp hvert við höldum en segi bara að við höfum ekki séð tilgang í að fara á tælenska veitingastaði hér í Kathmandu.

Að venju eru myndir komnar á netið, að þessu sinni í Nepalalbúmi: Hér!

3 ummæli:

Tinnsi sagði...

Vááá, þið eruð alvöru ferðalangar! Hvernig endar þetta, á skreppi til tunglsins?

ásdís maría sagði...

Ef þú bara vissir, ballið er rétt að byrja...

baldur sagði...

Tunglið, veistu um einhver tilboð? Til er ég!