Fyrir skömmu rákumst við á bókaflokk sem skrifaður er til að kynna búddisma fyrir hinum ýmsu spendýrum, svosum björnum og kindum. Ekki hef ég séð neina slíka bók fyrir apa og eru mögulegar ástæður:
1. Hin dýrin vilja ekki að apar kynni sér önnur trúarbrögð en hindúisma, þar hafa þeir sinn eigin guð Hanuman.
2. Apar eru blankir, ólíkt kindum og björnum, og því enginn markaður fyrir bækur af þessu tagi.
3. Apar vita allt um búddisma og hafa því ekki áhuga á einföldum byrjendaritum.
Í dag komumst við að því að þriðja ástæðan er allíklegasta skýringin. Við fórum í göngutúr að hofi sem heitir Swayambhunath en meðal heimamanna gengur það undir heitinu Apahofið. Eins og nafnið gefur til kynna er allt krökkt af öpum, bæði með og án myndavéla.
Ekki er hlaupið að því fyrir hvern sem er að heimsækja staðinn því til að komast inn fyrir hliðin þarf að klífa 365 þrep og þegar maður er búinn að því rukkar hliðvörðurinn aðgangseyri. Sniðugt að láta ekki vita að það kosti inn fyrr en fólk er komið alla leið upp.
Frá hofinu nutum við útsýnis yfir allan Kathmandudalinn, slöppuðum af eftir pallaleikfimina og keyptum geisladisk með hinni frægu búddísku möntru om mani padme hum. Auðvitað eru kippur af Búddamunkum á svæðinu, ýmist að ræða heimsmálin, kyrja eða gefa apafjölskyldum Maríukex.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli