Enn einu sinni lét maður sig hafa það að fara í nudd. Í dag var á dagskrá blanda af fótanuddi og Thai nuddi. Fótanuddið er einhvers konar svæðameðferð þar sem hver hluti fótarins er fulltrúi líffæris eða líkamshluta en Thai-nuddið er blanda af jógateygjum, vöðvanuddi og hnykkingum.
Eftir notalega upphitun byrjaði nuddið og kom mér verulega á óvart hve handsterk þessi netta kona var, það var sko ekkert gefið eftir. Í fótanuddinu komu í ljós nokkrir aumir blettir en þeir eru mun skárri núna. Ég orða þetta nú frekar hóflega því framan af var fótanuddið rosalegt og greinilega sérgrein konunnar sem líklega hefur unnið við yfirheyrslur áður en hún fór í nuddbransann.
Thai-nuddið var svo punkturinn yfir i-ið, var ég teygður og togaður fram og til baka og kom út mjúkur og ilmandi af Tiger Balm. Ólíkt fótanuddinu voru engir veikir blettir, bara vellíðan. Ég mæli með Thai-nuddi við alla sem vilja dekra við sig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli