Föstudaginn síðasta lögðum við af stað í þriggja daga frumskógarferð um Taman Negara þjóðgarðinn. Ferðin í garðinn er ævintýri út af fyrir sig: fyrst rútuferð í þrjá tíma og síðan bátsferð upp á í aðra þrjá tíma á litlum eintrjáningi með appelsínugulum björgunarvestum. Afskaplega notalegt í alla staði og ekki spillti umhverfið fyrir, heill frumskógur af frumskógi.
Við komum seinnipartinn í Kuala Tahan, þorpið við þjóðgarðinn, og komum okkur fyrir á hótelherbergjum okkar. Að þessu sinni lágu herbergi okkar Baldurs og pabba saman, svo vel meira að segja að það var hurð á milli! Baldur fékk þá meinloku í hugsanastykkið að ekki væri hægt að fara inn í herbergið okkar öðruvísi en í gegnum herbergið hans pabba, og neitaði með öllu að opna okkar hurð. Sérviskupúkinn kominn í ham.
Þetta fyrsta kvöld rigndi svo mikið að við urðum að kaupa okkur regnstakka til að komast leiðar okkar. Það eina sem ofurlitla og reglulega óskipulagða verslunin bauð uppá voru kolsvartir stakkar, ökklasíðir og framhneppir, og með þeim fylgdu tvö kaskeiti. Þegar við Baldur vorum komin í kápurnar góðu minntum við helst á meðlimi stormsveitar Hitlers.
Stakkarnir komu þó í góðar þarfir því við komumst þurr yfir á fljótandi veitingastaðinn þar sem við borðuðum kvöldmat. Veitingastaðurinn er kallaður fljótandi veitingastaður því hann flýtur ofan á ánni sem skilur að þjóðgarðinn og þorpið. Stakkarnir gerðu hins vegar lítið gagn í næturgöngunni sem ætlunin var að fara í því henni var frestað sökum rigninga. Það er víst lítið vit í því að skima eftir skordýralífi skógarins þegar heimili þeirra eru á floti og þau öll í felum.
Á laugardeginum fór aðaldagskráin fram, þá fórum við í fjallgöngu og þjóðgarðstrekk, gengum yfir stærstu hengibrú heims, fórum í bátsferð um flúðir og í heimsókn til frumbyggjanna Orang Asli.
Það er erfitt að velja hvað stendur helst upp úr öllu þessu. En kannski það hafi verið göngutúrinn yfir laufkrónum trjánna í hengibrúnni. Hengibrúin var einmitt fyrst á dagskrá svo það má segja að við höfum byrjað á toppnum. Hengibrúin er í sex hlutum, hver hluti misjafnlega langur. Aðeins mega fjórir vera á brúnnum í einu og þá með fimm metra millibili. Ekki var þetta alltaf virt, til dæmis þegar við Baldur létu pabba taka mynd af okkur á brúnni. Og svo mátti heldur ekki taka myndir af brúnni, úbbs. Það er reyndar ágætisregla því maður er svo upptekinn af því að njóta upplifunarinnar af því að ganga á brúnni, finna hana dúa og dvelja innan um og ofan við laufkrónurnar.
Fjallgangan, sem tók við eftir hengibrúnni, var ekki sérlega krefjandi enda tindurinn aðeins rúma 300 metra yfir sjávarmáli. Dýralífið sem við sáum á skógarbotninum var hins vegar mjög áhugavert sem og kræklótta rótarflækjan sem við gengum framhjá. Útsýnið af hæsta punkti, Teresek hæð, yfir Tahan fjöll, var fallegt: grænar hlíðar, blár himinn og hvít skýin.
Síðasti dagskráliður var sigling um flúðirnar og þá kom sér vel að vera með vatnsheldar umbúðir á fætinum og í sandölum. Við blotnuðum semsé ansi vel, sérstaklega við Baldur sem sátum fyrir miðju bátsins og virðumst hafa vakið reiði árinnar. Allavega sá hún ástæðu til að demba sér yfir okkar í meira magni en aðra bátsfélaga.
Hundblaut mættum við í heimsókn til Orang Asli ættbálksins sem býr í frumskóginum. Fyrir voru nokkrir hópar ferðamanna sem biður spenntir eftir að sjá "skemmtiatriðin". Þau voru helst: sjá hvernig maður kveikir eld með spýtum og stráum og skjóta eiturörvum í mark. Við fengum öll að spreyta okkur á langa rörinu sem notað er til að skjóta örvunum, en ekkert okkar fékk að prufa að koma af stað eldi (sem betur fer, það virkaði á mig sem heilmikið púl).
Áhugaverðast fannst okkur þremenningum þó fólkið sjálft sem býr í strákofum sem margir hverjir hafa ekkert trégólf og stráþök sem eru örugglega míglek. Að öðru leyti var lítið "frumstætt" að sjá, þau klæddust stuttermabolum og stuttbuxum, reyktu sígarettur, borðuðu súkkulaði og drukku Néstle þurrmjólk. Þvottur hékk til þerris og leirtau beið uppvasks, börnin fóru í feluleiki við ferðamennina á meðan unglingarnir ranghvolfdu í sér augunum og létu sig hverfa. Ósköp hversdagslegt svona í miðjum frumskóginum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli