Við yfirgáfum Taman Negara þjóðgarðinn í gær og höfðum komið því svo haganlega fyrir að upp úr hádegi við tækjum daglestina beinustu leið til Singapore. Upphaflega voru okkur bornar þrjár lygar á borð: 1. að lestin væri aldrei full (því þetta væri ný leið), 2. að matur væri seldur um borð (Auðvitað, svaraði maðurinn á ferðaskrifstofunni, augljóslega undrandi á spurningunni) og 3. við kæmum til Singapore kl. 21.
Þegar við komum út á lestarstöð uppgötvuðum við að við höfðum engin númeruð sæti, aðeins það sem kallast ordinary ticekt. Ungur maður á vegum ferðamannaráðs þarna á bæ varð fyrir svörum þegar við tókum að grennslast fyrir um þetta. You can sit anywhere, anyplace, somewhere, var svarið hans. Okkur létti við að heyra þetta og hlógum mikið að þessu því við héldum að hann ætti við að við gætum setið hvar sem við vildum í lestinni.
Ferkari eftirgrennslan leiddi hins vegar í ljós að lestin var yfirbókuð og við fengum þau svör að við yrðum að berjast fyrir sætum eða einfaldlega sitja á gólfinu. Pabbi varð svo hissa að upp úr honum hrökk: Are you joking? Nei, ekki aldeilis, okkar maður var grafalvarlegur og meinti hvert orð.
Sitja á gólfinu! Hversu fáránlegt er þetta, spurðum við hvort annað. Eigum við ekki bara að sitja á þakinu líka? Ummæli unga mannsins fengu nú aðra merkingu í okkar huga: við neyddumst til að sitja anywhere, anyplace, somewhere.
Og hvernig fór svo um lestferð þá? Við pabbi vorum sífellt að skipta um sæti og skima eftir lausum sætum en ekki Baldur (kem að því síðar) svo ekkert varð úr náðugu lestarferðinni sem ég hafði gert mér í hugarlund þar sem ég gæti dottið ofan í A Thousand Splendid Suns. Það var enginn matur seldur um borð en okkur pabba tókst að hlaupa út úr lestinni í einu stoppinu til að kaupa vatn, hnetur og snakk. Þá renndi lestin ekki inn á lestarstöðina í Singapore fyrr en hálf eitt á miðnætti.
Og hvað varð svo úr spánni með að sitja á gólfinu? Það kom í hlut Baldurs sem fann sér stað milli tveggja sæta og gerði sér að góðu að dúsa þar alla ferðina. Í hreinskilni sagt fór langsamlega best um hann af okkur öllum, gólfið var nefnilega hlýtt og sætin vörðu hann fyrir ofurloftkælingunni. Þetta var lestarferð sem segir atsjú!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli