Meðan Ásdís hvíldi sig heima í dag ferðuðumst við Elfar um nokkra ólíka heima. Fyrsti heimurinn var loftkældur leigubíll en þá er maður farinn að kannast nokkuð vel við. Annar heimurinn var þjónustumiðstöð Acer, meira um hann síðar. Þriðji heimurinn var íbúðahverfi með öllu tilheyrandi og vitanlega vorum við einustu ferðamennirnir á svæðinu. Þarna voru, eins og víða í Asíu, fjölskyldur með atvinnurekstur á neðri hæðinni og íbúð á þeirri efri. Þarna voru bílaverkstæði, hárgreiðslustofur, sjoppur og ýmislegt annað í bland.
Fjórði heimurinn leyndist svo á bakvið þetta huggulega íbúðahverfi og var það fátækrahverfi. Íbúar hverfisins tóku okkur fagnandi og fengum við tugi sabadíka og sabadíkab úr öllum áttum. Á einum stað var meira að segja tæbox veðbanki (plastdúkur á jörðinni). Miðað við önnur fátækrahverfi sem ég hef heimsótt voru aðstæður mjög góðar, rennandi vatn og rafmagn og engin skítafíla.
Fimmti heimurinn blasti svo við þegar komið var í gegnum þann fjórða: gullflúrað musteri til heiðurs Búdda. Gullflúraða musterið var vægast sagt gullfallegt og samanstóð af nokkrum byggingum og afgirtum garði. Þegar kemur að flúri eru Tælendingar að mínu mati heimsmeistarar.
Sjötti heimurinn var svo Lumphini garður en hann kannast einhverjir lesendur sjálfsagt við frá síðasta Bangkokstoppi. Þar var tekinn góður hringur, æfingar og að sjálfsögðu kíktum við í þolfimitíma. Til þess að gera ferðina asíska í gegn hossuðumst við með tuc-tuc (léttivagni) heim á hótel.
Sjöundi og síðasti heimur (sjöundi himinn) dagsins var sannarlega nýr því karldýr þessa ferðatríós gerðu sér lítið fyrir og skelltu sér bæði í hand- og fótsnyrtingu. Þetta ku hafa verið fyrsta skipti fyrir báða og því alveg kominn tími á að prófa. Öllum að óvörum var þetta ofsalega notalegt dekur og vitanlega stefnt á aðra heimsókn þegar neglurnar fara að vaxa aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli