Þegar ég fór í mína daglegu heimsókn á læknastofuna í dag leit hjúkkan upp frá afgreiðslunni og sagði brosandi: Bad news. Ég fékk hnút í magann en reyndi að sjálfsögðu að sannfæra mig um að þetta væri tælenskur húmor sem ég einfaldlega skildi ekki.
Það kom svo í ljós að fréttirnar voru bæði góðar og slæmar, en þó miklu frekar góðar en slæmar. Sárið var búið að gróa það vel neðan frá og öll sýking horfin svo læknirinn taldi að tímabært væri að sauma fyrir það og leyfa því gróa. Það voru góðu fréttirnar. Slæmu fréttirnar voru að sjálfsögðu þær að til að sauma fyrir sárið þarf að sauma spor í ilina mína og af því var ég ekki parhrifin. Ég fékk staðdeyfingu en það var engu að síður frekar sárt að láta stinga sig með nál í sárið og finna fyrir sauminum renna gegnum götin sem læknirinn var búinn að stinga gegnum ilina.
Í heildina voru sporin aðeins þrjú og hefðu að mínu mati ekki mátt vera fleiri. Eftir aðgerðina var mér plantað inn í loftkælt herbergi pabba með ávexti, ís og drykki í ísskápnum meðan þeir tveir fóru á tölvuveiðar. Ég hafði úr að velja að horfa á sjónvarpið eða kíkja í bækurnar The secret life of bees og Water for elephants, sem sagt algjör dekurrófa.
Þegar strákarnir snéru aftur með tölvuna í farteskinu lumuðu þeir á Nelly Furtado disknum Loose fyrir sjúklinginn með sporin í ilinni, sárabætur á Saumadegi eins og pabbi kallar daginn. Eins og ég segi, algjör dekurrófa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli