Við byrjuðum daginn á því að fá okkur morgunmat á Oh My Cod en ég hef lagt það í vana minn að fá mér kornflögur og mjólk þar á hverjum degi. Það hljómar sem afskaplega hversdagslegur morgunmatur en þegar maður hefur ekki fengið kornflex í fleiri mánuði er eins og um kóngafæðu sé að ræða. Hvernig verð ég þegar ég kem heim og fæ Cheerious?
Með okkur í morgunmat var sá allra minnsti hundur sem ég hef augum litið. Minni en kettlingur, minni en naggrís, þó aðeins stærri en hamstur. Átta vikna og forvitinn og bræddi hjörtu okkar allra. Hann varð alveg ástfanginn af Baldri og vildi kúra í hálsakotinu og þegar Baldur lagði hann frá sér varð úr grátur og gnístan tanna.
Eftir morgunmat fóru strákarnir með fartölvuna í viðgerð og á meðan hékk ég inn á lofkældu netkaffi og lét fara vel um mig. Ég hafði ofan af fyrir mér með því að horfa á Nelly Furtado myndbönd og komst að því að hún er algjör töffari.
Í kvöld fórum við svo út í Siam Discovery Center og borðuðum á ástralska veitingastaðnum Outback. Við fengum okkur m.a. djúpsteiktan lauk og franskar kartöflur með osti en komumst að þeirri niðurstöðu að Outback í Flórída stendur sig betur á því sviði.
Við enduðum kvöldið kappklædd í bíóhúsi. Höfðum pakkað sokkum og peysum í tösku sem við snöruðum okkur í þegar inn í sal var komið, og gátum eftir það setið í rólegheitum í ofurloftkældu rýminu. Urðum að sjálfsögðu að standa upp þegar konungshyllingin rann yfir tjaldið, þó það hafi þurft að hnippa ansi oft í grandalausan ferðamanninn frá Kópavogi. Við getum óhikað mælt með bíóhúsunum í Bangkok og enn fremur mælum við með Ratatouille, hún er æði!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli