Við tókum tvær vespur á leigu í dag til að geta keyrt um eyjuna. Hún er svo lítil og fámenn að engar almenningssamgöngur eru í boði, aðeins pallbílar sem gegna hlutverki leigubíla, og svo vespurnar sem koma manni á helstu staði svo fremi að vegir og veður leyfa.
Þar sem böngalóarnir okkar eru nokkurn veginn á syðsta odda Koh Tao lá leiðin beint í norður. Við þurftum stundum að minna pabba á að í Tælandi keyra þeir vinstra meginn, annars gekk allt snuðrulaust fyrir sig. Eyjan er afskaplega falleg, mjög gróðursæl og hæðótt. Bestu vegirnir eru steyptir og þá er hægt að keyra jafnvel þó rigni. Aðrir vegir eru illa farnir eftir rigningar og þegar rignir verða þeir ófærir litlum vespum.
Við keyrðum út að jóga- og tai chi stöðinni Here and Now, þaðan er útsýnið yfir hafflötinn mjög fallegt. Þaðan keyrðum við út að Hat Sai Ree strönd og settumst í sætisrólu sem einhver hafði komið haganlega fyrir. Næst keyrðum við alveg suður eftir eyjunni og sunnar en okkar hótel, alveg að Frelsisströnd. Á leiðinni sáum við skemmtilega auglýsingu frá paint ball fyrirtæki: Shoot a friend today!
Við gerðum heiðarlega tilraun til að komast á suðaustur odda eyjunnar þar sem apagriðland er að finna. Fyrri vegurinn leiddi okkur upp bratta hlíð sem vespan réð ekki við og þar með hættum við við þá tilraun. Seinni vegurinn sem við reyndum við leiddi einnig að mjög brattri hlíð og í þetta sinn fór ég af svo Baldur og pabbi gætu spólað af stað og séð hvort eitthvað áhugavert væri handan hæðarinnar. Svo reyndist ekki vera og þar með við gáfum við upp á bátinn öll plön um að heimsækja suðausturhluta eyjunnar.
Á leiðinni heim gerði skyndilega fárviðri. Eins og hendi væri veifað tók að blása svo mjög að ég varð að halda derhúfunni og gleraugunum á nefinu á Baldri, umferðaskilti valt um koll og því næst opnuðust himnarnir og steyptu yfir okkur regningu. Á nokkrum augnablikum var orðið ófært vespunum okkar og við orðin hundblaut. Við fundum lítið skýli við veginn og meðan ég kleif upp þrepin til að koma mér í var skall grein af pálmatré rétt við fætur mínar svo ég hrópaði upp fyrir mig. Sem betur fer slapp ég inn í skýlið heil á höldnu, en þarna skall grein nærri hælum!
Við biðum af okkur hitabeltisstorminn í tuttugu mínútur og hættum okkur ekki út fyrr en stytt hafði verulega upp. Þá var mér líka orðið ansi kalt af því að sitja kyrr í votum klæðum og var fegin að geta brunað heim á leið. Það var samt ógeðslega gaman að lenda í svona fárviðri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli