miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Koh Tao

Í gærkvöldi stigum við upp í tveggja hæða næturrútu og var ferðinni heitið suður frá Bangkok til að ná ferju um morguninn út í Skjaldbökueyju eða Koh Tao upp á tælensku. Öll vorum við spennt fyrir því að ferðast á annarri hæð svo langa leið enda ekkert okkar farið nema stutta vegalengd í breskum strætisvagni áður.

Ekki veit ég hvort spenningurinn hafi svipt okkur svefni en eitthvað var það því ekki kom mér dúr á auga og svipaða sögu er að segja um samferðarfólk mitt. Góður matur á flippuðu vegaveitingahúsi um hánótt gerði geimið allt miklu bærilegra, alltaf betra að vera andvaka með mettan maga.

Þegar við stigum á land hér á Skjaldbökueyju í morgun vorum við öll svolítið sjúskuð og þreytt en náðum að fá tvo böngalóa með samliggjandi svölum leigða og voru sturta og lúr vel þegin. Útsýnið er fallegt nótt sem nýtan dag og er ég viss um að Paradís líti einhvern veginn svona út.

Skjaldbakan er oft kölluð perla Tælandsflóa og fyrstu kynni gefa manni augljóslega hugmynd um hvers vegna. Hún er pínulítil, 21 ferkílómetri, og hér búa nokkur þúsund manneskjur sem allar byggja líf sitt að einhverju leyti á stríðum ferðamannastraumnum, hingað koma 100.000 stykki árlega. Það sem eyjan er sennilega þekktust fyrir eru köfunarskólar en þeir eru á hverju horni og því auðvelt að nálgast hinn alþjóðlega PADI stimpil.

Á árum áður var Skjaldbökueyja óbyggð og ekki hræðu að sjá nema vera skyldi fiskimaður að bíða af sér storm eða slæman sjó. Árið 1899 sá þáverandi konungur þó ástæðu til að heimsækja staðinn og slá eign sinni yfir hann. Hann setti merki sitt á klett og mætir fólk þangað til að sýna gamla kónginum virðingu með tilbeiðslu og öllu tilheyrandi.

Ekki gerðist mikið á eynni fyrr en 1933 en þá opnaði ríkið fangelsi fyrir pólitíska fanga. Það var starfrækt í fjórtán ár en þá var allt liðið náðað og fangelsinu lokað. Sama ár sigldu hingað tvíburabræður frá Koh Phangan ásamt fjölskyldum sínum og hófu búskap, jafnvel þótt eyjan væri eign konungsins setti hann ekki út á þetta atferli. Í kjölfarið byggðist eyjan hægt og sígandi upp og sprakk svo út þegar ferðamenn uppgötvuðu hana og er enn mikill uppgangur í öllu og nú hafa þrír ferðamenn í viðbót uppgötvað staðinn.

Engin ummæli: