fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Ein í Asíu

Fyrsti pabbalausi dagurinn að kveldi kominn og við enn á lífi, en vængbrotin mjög :o( Við söknum pabba og erum eitthvað svo einmana. Ég veit að það er skrýtið að vera einmana í Asíu, heimsálfunni með fjölmennum þjóðfélögum á borð við Indland, Kína og Indónesíu, en við erum samt einmana.

Við tökum ákvörðun í gær um framhald ferðalagsins. Við höfðum verið að gæla við að kíkja kannski til Borneo, Malasíumeginn, eða jafnvel til Jakarta eða Bali í Indónesíu, en komumst svo að því að við erum orðin svolítið ferðalúin. Við viljum eiga einhvern spenning og eftirvæntingu eftir fyrir lokaáfangastaði okkar svo við lögðum öll Indónesíu- og Borneoplön á hilluna, í bili.

Leiðin liggur semsé til Tælands og til að tryggja að það gengi eftir lá leið okkar beint í tælenska sendiráðið hér í Singapore. Þar fengum við upplýsingar um breyttar reglur varðandi vegabréfsáritanir.

Þar sem tælenska sendiráðið stendur við Orchard Rd, helstu verslunargötu Singapore, gengum við aðeins um bæinn og virtum fyrir okkur mannlífið. Þaðan tókum við MRT að Raffles torgi og þar týndumst við í hinum ýmsu verslunarmiðstöðvum. Við gerðum ítrekaðar tilraunir til að komast upp úr metróinu en enduðum alltaf inn í einhverri verslunarmiðstöðinni. Að lokum gáfumst við upp og tókum að skoða okkur um. Það endaði með því að við festum kaup á nokkrum geisladiskum, þar á meðal nýja disknum hennar Tori Amos, American Dolle Pussy.

Annars er gaman að því að sjá hve ótrúlega skipulögð Singapore er, jafnvel þó erfitt sé að sleppa út úr sumum kringlunum. Svæðið við höfnina er til dæmis alveg til fyrirmyndar snyrtilegt og vel skipulagt, umferðagöturnar eru hreinar og vel lagðar, í öllum beðum eru snyrtir runnar og sérvalin tré, rómantískir ljósastaurar standa við alla stíga og byggingarnar, nýju skýjakljúfarnir jafnt sem gömlu nýlendubyggingarnar, eru glæsilegar. Og ef Singapore heillar ekki að degi þá gerir hún það örugglega að kvöldi til, þegar ljósaperurnar taka völdin. Sem sagt ekki versti staðurinn til að vera á þegar maður er einmana og með heimþrá.

Engin ummæli: