Einhvern tímann á meðan á Singapúrdvölinni stóð minntist ég á það við Ásdísi að íbúar borgarinnar væru áberandi litlausari í klæðaburði en t.d. Tælendingar. Fljótt á litið virtist ég hafa rétt fyrir mér en það varði ekki lengi. Það er nefnilega stundum þannig að þegar maður minnist á eitthvað svona fara hinir litríku að gera vart við sig.
Nokkrum augnablikum eftir samtalið tók ég eftir buxum með skotapilsmynstri. Hljómar ekkert sérlega frumlegt, en þegar búið er að festa belti í sama stíl á milli hnjánna má segja að göngulagið veki meiri athygli en mynstrið á buxunum. Í sömu andrá gekk framhjá okkur gaur sem var tiltölulega steríótípískur að flestu leyti ef frá er talinn heiðblár og snyrtilega framgreiddu toppur. Þarna fékk Singapúr nokkur rokkaraprik því greiðslan minnti helst á póníhest og það þarf sterk bein til að bera þannig daginn út og inn.
Eitt skiptið stóð ég á snakki við félaga mína í sjoppunni, kemur þá ekki þessi líka uberlitríki gaur inn: Vampírutennur, aflitað hár, heiðgul augu og eyrnalokkar sem helst minntu á trjádrumba sem einhvern veginn hefðu flækst í eyrnasneplunum. Innkaupin hjá kauða voru heldur ekki af verri endanum, fullur faðmur af eiturgrænum sápubrúsum.
Sennilega eru vampírur fram úr hófi snyrtilegar, veikar fyrir grænu eða þá að gaurinn vinni sem uppvaskari. Eigi veit eg það svo gjörla en hitt veit ég þó, að Singapúr er ekki eins steríl og yfirborðið gefur til kynna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli