laugardagur, 1. september 2007

Tjúttað með tapírum

Í gær fórum við í Zingapore Soo og vorum þar allan daginn og frameftir kvöldi, við keyptum nefnilega aukamiða í aukagarð sem er sérstaklega hannaður fyrir nætursafarí. Þegar við mættum á svæðið var að hefjast sýning á fílasvæðinu þar sem fílarnir sýndu alls kyns fílakúnstir, jafnvægislistir, vinnuaðferðir og auðvitað frussuðu þeir á fólkið á fremsta bekk. Á sýningunni lærðum við að fílar eru í Asíu oft kallaðir gamaldags traktorar og að skítinn úr þeim má nota til pappírsgerðar, talandi um að skíta peningum!

Eftir fílafjörið heimsóttum við prímata af ýmsum gerðum, tapír, krókódíla, tígrisdýr, dvergflóðhesta og simpansa. Auðvitað skoðuðum við miklu fleiri dýr og svo klöppuðum við nokkrum kengúrum. Þau dýr sem komu mér skemmtilegast á óvart voru hinir ofvirku otrar sem sungu og tístu eins og þeir ættu lífið að leysa. Ég komst að því síðar að þeir eru að undirbúa svar við hinni geysivinsælu nagdýraþungarokkshljómsveit Rítalínrottunum. Þeir hafa bara ekki fundið nafn sem stuðlar nógu vel en tónverkin eru tilbúin, það get ég sagt ykkur. Ef einhver er með nafn handa þeim þá má skila því inn sem ummælum :)

Einn áf hápunktum dagprógrammsins var þegar við heyrðum ljónsöskur og samtímis byrjaði fólkið í kringum okkur að hlaupa. Við héldum nú alveg andliti en jogguðum með. Joggið borgaði sig því ég rétt náði að sjá pirrað karldýr stökkva með hramma á lofti á kvendýr, engin smálæti í þessum kisum. Ekki veit ég um hvað málið snerist en tilkomumikið var það.

Á milli dægur- og næturdýraskoðunar stoppuðum við og fengum okkur nokkrar pizzusneiðar, pústuðum aðeins og undirbjuggum næstu törn. Næturprógrammið var algert ævintýri! Við gengum um dauflýsta göngustíga í vægast sagt dularfullu andrúmslofti. Bíddu, þarna sá ég eitthvað... Dvergdádýr, tvær tegundir: stórir dvergar og litlir dvergar! Svo voru hlébarðar, ljón, vörtusvín og auðvitað leðurblökur.

Otrarnir létu nú ekki sitt eftir liggja í nætursafaríinu og héldu annan konsert fyrir okkur, fiskiköttunum til mikils ama. Eftir smárölt skelltum við okkur á sýningu sem hét Creatures of the Night, eitthvað sem maður lætur ekki framhjá sér fara eftir að hafa séð Rocky Horror.

Sýningin minnti helst á samvinnuleiksýningu manna og dýra, ótrúlega flott en þó öngvir netsokkar né korselett. Kynnirinn náði salnum algerlega á sitt band og þegar hún sagði að eitt dýranna hefði sloppið í áhorfendaskarann varð uppi fótur og fit. Ég hélt þetta væri eitthvað djók og hélt kyrru fyrir en þegar starfsmenn sóttu þriggja, ef ekki fjögurra, metra og hnausþykka kyrkislöngu af áhorfendabekkjunum sá ég að þetta var alvörusjóv. Ekki létu otrarnir sitt eftir liggja á þessari sýningu frekar en öðrum og kenndu áhorfendum hvernig ætti að flokka sorp, frekar fyndin dýr.

Eftir þessa ágætu sýningu tókum við litla lest um svæðið með leiðsögumanni og sáum enn fleiri dýr og fræddumst heil ósköp. Þegar klukkan var byrjuð að ganga tólf fórum við að sýna af okkur fararsnið, við áttum nefnilega miðnæturstefnumót við Elan vin okkar. Hann bauð okkur á dæmigerðan lókalstað til að tryggja að við kynntumst Singapúr eins og hún er. Með honum sátum á spjalli til fjögur um nóttina og alltaf varð staðurinn þéttsetnari. Singapúrbúar borða nefnilega á svona stöðum á leiðinni heim af djamminu. Einhvers konar Singapúrútgáfa af Bæjarins bestu.

Gærdagurinn, kvöldið og miðnæturmatarboðið voru kjörin leið til að kveðja þessa skemmtilegu borg. Nú er dagskráin róleg og í kvöld fljúgum við aftur til Tælands.

Engin ummæli: