Við tókum rútuna aftur til Phnom Penh snemma í morgun. Við vorum búin að sjá allt sem við höfðum hugsað okkur að kíkja á í Kampot, næsti áfangastaður er Siem Reap en til að gera langa ferð þarna á milli bærilegri ákváðum við að klippa hana í tvennt og gista nótt í höfuðborginni. Aðalástæðan er samt sú að í dag er Harry Potter dagur og við vissum af einni bókabúð í borginni sem seldi bókina á útgáfudegi.
Miðja vegu til Phnom Penh byrjaði rútan að renna til á veginum svo við köstuðumst harkalega til og héldum að við hefðum lent á blautum moldarvegi. Út um framrúðuna sáum við hvar rútan óð áfram á vitlausum vegahelmingi og stefndi á lítinn skurð við vegkantinn. Sem betur fer náði bílstjórinn þó að stöðva vagninn áður en til þess kom og vil ég ekki hugsa til þess hvernig hefði endað hefði hann ekki náð því.
Þegar mér varð litið út um gluggann sá ég að við vorum alls ekki á neinum moldarvegi heldur hafði einhver bilun í stýrisbúnaði komið upp og orsakað stjórnleysið. Okkur farþegunum var smalað út úr rútunni og tíndumst við öll undir lítið bárujárnsþak hinu megin við veginn þar sem við hímdum í tvo tíma. Var ég búin að minnast á að það er regntímabil í Suðaustur Asíu núna? Það rigndi sumsé allan þennan tíma og við Baldur vorum bara með einn ponsjó svo við prísuðum okkur sæl með litla þakið og ég reyndi að hugsa ekki of mikið um bókabúðina í Phnom Penh og nýju Potter bókina sem biði mín þar.
Þegar við komumst til borgarinnar, tveimur tímum á eftir áætlun, héldum við rakleitt á sama hótelið og síðast, nema núna fengum við okkur mun stærra herbergi með tveimur viftum, almennilegu salerni og vaski. Reyndar nær vaskurinn upp undir bringuspjalir, grínlaust, svo ég á erfitt með handþvott og tannburstun, en það er bara kómískt.
Þegar þarna var komið sögu var erting á ilinni, sem hafði látið á sér kræla nokkrum dögum fyrr, farin að trufla mig svo mjög að ég átti orðið erfitt með gang. Ég vildi þó ekki láta það stöðva mig í að nálgast bókina, nógum tíma fannst mér hafa verið fórnað. Ég var nú þegar komin með áhyggjuklump í magann sem ég neitaði að horfast í augu við en var þó þarna samt: Hvað ef bókabúðin lokar snemma á laugardögum? Hvað ef bókin er uppseld? Svo við tókum mótorhjólaleigubíl að bókabúðinni og ég reyndi að reka ekki á eftir bílstjóranum, rútuferðin var enn of fersk í minni til þess.
Þegar allt kom til alls þá var bókabúðin enn opin og ég hefði þess vegna geta komið upp úr átta að kvöldi þar sem hún lokaði ekki fyrr en níu. Og bókin var ekki uppseld heldur var rekkinn hálffullur og vel það þegar okkur bar að garði. Eini Þrándurinn í Götu var að velja gott eintak og að velja hvort maður tæki eintak af barnaútgáfunni eða þeirri fullorðins. Eftir alvarlegar umræður urðum við sammála um að kaupa barnaútgáfuna (sem er Harry Potter-legri) og eftir að hafa grandskoðað nokkur eintök urðum við loks sátt við eitt þeirra sem við að endingu keyptum. Og nú eigum við splunkunýja Harry Potter bók sem ég get ekki beðið með að sökkva mér ofan í.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli