sunnudagur, 30. maí 2004

Dagsferðin góða

Í gær fórum við hjónaleysin í dágóðan bíltúr með PG (afa Baldurs alt svo) austur fyrir fjall. Við byrjuðum á því að kíkja í garðyrkjustöðina Borg í Verahvergi þar sem Pétur afi keypti stjúpur, silfurkamb og aðrar plöntur sem ég kann ekki að nefna. Þó veit ég að einhverjar þeirra bera bleik blóm því mér var treyst fyrir litavalinu.

Þá treysti PG starfsmanninum fyrir vali á einni plöntu en leist þó ekki á blikuna þegar hann sá að fyrir valinu varð þyrnótt planta - óvenjuleg útlits - sem er víst æt. Mér leist ekki á blikuna þegar ég sá að Baldur var farinn að jappla á henni og lagði á ráðin um að halda henni sem fjærst honum í bílferðinni aftur heim. Einnig keyptum við blómkál, brokkolí og ýmis krydd og krásjurtir í matjurtagarð PG.

Að lokinni vel heppnaðri og ansi árangursríkri heimsókn í gróðurhúsið pikknikkuðum við í lítilli laut. Veður var skaplegt því hiti var í kringum 17 stig. Ráðgert hafði verið að kíkja í sund í þessari ferð en ekki fannst okkur það ráðlegt strax að loknu hádegissnarli (ótti við að sökkva til botns o.þ.h.) svo við fórum í bíltúr til Stokkseyrar.

Þar skoðuðum við höfnina og listaverk Árna Johnsen sem þar er að finna, rákum augun í Draugasetrið sem því miður var lokað (PG og Baldur virtust nú anda léttar við þær fréttir), rákum nefið inn í Þuríðarbúð hennar Þuríðar Einarsdóttur og kíktum á Stokkseyrarfjöru sem er með sérkennilegri fjörum sem ég hef augum litið, að frátaldri fjörunni við Garðskagavita sem er nota bene alveg stórkostleg.

Á bakaleiðinni í sundið kíktum við í Rjómabúið á Baugsstöðum sem stofnsett var 1905 og er samkvæmt upplýsingum þar á bæ eina rjómabú landsins sem enn er búið upprunalegum tækjakosti. Rjómabúið virkjaði lítinn læk sem rennur þarna hjá með því að koma upp vatnshjóli sem knúði einhvern mekkanisma sem strokkaði síðan rjóma og bjó þannig til smjör.

Að lokinni góðri sundferð í Sundlaug Selfoss þar sem við syntum smá, fórum smá í pottinn og lágum smá í sólbaði í blíðviðrinu var kominn tími til að halda heim á leið. Mér tókst að halda ætu plöntunni frá Balduro og koma henni þannig í hús svo nú bíð ég bara spennt að sjá þegar hún blómstrar bleiku.

miðvikudagur, 26. maí 2004

Velkomin heim

Nú erum við komin heim frá Frakklandi. Ferðin var frábær og höfðum við það óskaplega gott enda vel hugsað um okkur í Montkofanum. Við gistum í tjaldi sem er gott og blessað nema hvað það var stundum ansi kalt á nóttunni og vorum við því ansi dúðuð undir sæng.

Á daginn var síðan rosalegt veður, þegar best lét fór hitinn í rúmar 30°C og lá maður þá dasaður í sólbaði. Nánari skýrslugerð kemur síðar. Núna ætlum við nefnilega í sund (heitaheita pottinn!) því okkur er kalt inn að beini. Já kæru farþegar við erum sannarlega komin heim :)

föstudagur, 14. maí 2004

Ljufa Frakkland

Tha erum vid loksins komin til Frakklands eftir langa dvol a Stansted flugvelli (20 tima torn). Vid hofum fram ad thessu legid i leti, etid godan mat og kneifad godar veigar. Kiktum i gaer til Combourg og gengum um hallargardinn sem umlykur Chateau de Combourg en thar sleit franska skaldid Chateaubriand barnskonum.

Tokum i spil i gaerkveld, Kana, sem eg hafdi aldrei adur spilad. Eg fekk tvi godar leidbeiningar, laerdi haegt og rolega og burstadi thau hin sidan ad lokum, gaman, gaman :)

I dag er aetlunin ad rolta um midbae Rennes og i kvold aetlum vid Baldur ad glapa a einhverja mynd tvi folold aetla i danstima. Laet thessa skyrslu duga i bili.

mánudagur, 10. maí 2004

Prófalok

Lífið hefur svo sannarlega leikið við mig síðan ég kláraði prófin. Síðasta prófið var á laugardaginn og þegar ég hafði loksins druslast til að klára það og skila því var ég komin í sumarfrí. Þar sem föstudagspizzakvöldið hafði ekki verið haldið sem skyldi bauð pabbi okkur Balduro mio og brósa þá um kvöldið á frábæran stað í Hafnarfirðinum, Síam. Frábær matur, kósý stemmning - mæli með' onum. Get þó ekki garanterað að það verði eins skemmtilegt og hjá mér, ég var nebbla í svo skemmtilegum félagsskap :)

Sunnudagurinn var einstaklega ljúfur. Eftir að hafa sofið út og kíkt á hjól í Hagkaup kíktum við til PG (a.k.a. Pétur afi) og fórum við saman að ná í mat á Grænum kosti (hnetusteik með sveppasósu, namm) sem við snæddum í garðinum hjá PG. Tilefnið var að vígja nýtt furuborð og gekk það svona ljómandi vel. Ekki spillti veðrið fyrir þar sem sólin skein glatt. Pakksödd fór ég þaðan til að sækja heim hana mömmu mína enda mæðradagur.

Í dag höfum við síðan staðið í allskyns útréttingum, nælt okkur í bækur á safninu, keypt harðfisk, malt og ópal og jafnvel póstkort með væmnum landslagsmyndum. Núna ætlum við að fara að lyfta lóðum eins og okkar er von og vísa og klára svo að pakka niður í töskur. Við erum nefnilega að fara til France demain. Júhú.

föstudagur, 7. maí 2004

Kleppur hraðferð

Nú er ég að fara að skrifa undir ráðningarsamning sumarsins. Fyrir skömmu fór ég nefnilega í atvinnuviðtal hjá vinnuskólanum í Reykjavík. Síðar sama dag var ég orðinn flokkstjórin yfir tveimur fylkingum áttundubekkinga. Er ekki frábært fyrir gaur sem situr allan veturinn innandyra og gerir heimaverkefni að komast út og segja öðrum fyrir verkum? Það finnst mér.

Eftir sumarið geri ég fastlega ráð fyrir að vera brúnn, hraustlegri (ef það er þá hægt) og kunna fullt af nýjum bröndurum.

þriðjudagur, 4. maí 2004

Afmæliskaffi

Síðasta prófið að baki! Að því tilefni fór ég í síðbúið afmæliskaffi til Kalla afa, sem átti afmæli í gær. Þar var glatt á hjalla og mikið af góðu fólki í góðu skapi, skoðaðar myndir, spjallað og hlegið. Nú er ég að fara að sofa og er með hálfgert samviskubit því ég er ekki búinn að læra heima í tólf tíma!!
____

ATH - þessi færsla er skrifuð af Baldri en ekki af Ásdísi eins og virðist vera. Tæknilegir örðugleikar koma í veg fyrir að við getum breytt þessu og biðjumst við innilegrar velvirðingar á því :)

sunnudagur, 2. maí 2004

Ah bú!

Vil byrja á því að óska öllum til hamingju með daginn áður en hann þýtur framhjá...

Hef varið þessum ágæta 1. maí í undirbúning fyrir próf í rekstrarhagfræði 2. Það sér nú fyrir endann á þessu öllu saman því á mánudaginn er þetta barasta allt búið og þá getur maður farið að telja nokkuð hratt niður dagana í útlandaferðina góðu sem þó liggur í heimahaga :)

laugardagur, 1. maí 2004

Hvolpaverksmiðjur

Nú hef ég alltaf verið miklu meira fyrir kisur en hunda eins og Skotta, Stjarna og Funi eru góð dæmi um.

Hins vegar er ég mikill dýravinur almennt og á erfitt með að sjá illa farið með málleysingja. Því finnst mér þetta myndband alveg hræðilegt því þarna er því lýst í myndum og máli hvernig farið er með hunda í svokölluðum hvolpaverksmiðjum þar sem hvolpar eru beinlínis framleiddir eins og hver önnur vara við hræðilegar aðstæður.

Gefið ykkur smá stund til að kíkja á myndbandið - það er ekki skemmtilegt en gott spark í rass þeirra sem gera sér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem neytendur hafa á framleiðsluiðnaðinn.

Rule of thumb

Þetta er þriðji dagurinn sem ég læri undir próf í námskeiðinu Fjölskyldur í nútímasamfélagi. Hef náð að fara yfir efni eins og fjölskyldur fatlaðra, fjölskyldur samkynhneigðra, kyn og kyngervi.

Er núna að lesa um heimilisofbeldi og finnst það ansi óhuggulegt. Geri mér þó fulla grein fyrir mikilvægi umræðunnar. Hafið þið t.d. heyrt um hina bókstaflegu þumalputtareglu?

Í Englandi hér áður fyrr var það lögbundið að eiginmenn mættu berja konur sínar með priki en prikið mátti þó ekki vera þykkari en hans eigin þumall. Maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta þegar maður heyrir af svona lagasetningu. Það er þó til marks um að ég hef alist upp í samfélagi sem telur heimilisofbeldi ekki vera eðlilegan hluta eða rétt eiginmanna og fyrir það er ég þakklát.