þriðjudagur, 30. desember 2003

Dásamlegt

Mikið er gaman að fá almennilegan snjó! Heiðar kom í heimsókn áðan og ætluðum við í göngutúr. Göngutúrinn varð ekki ýkja langur en útivistin umtalsverð. Við bjuggum til flottasta par í heimi, ísfólkið.

Það merkilega er að þrátt fyrir nafnið þá elska þau hvort annað mjög heitt og ef þau verða ekki bráðnuð á morgun má sjá þau á túninu við endann á Suðurgötu.

fimmtudagur, 25. desember 2003

Gleðileg jól!

Við Ásdís vorum að koma heim eftir heljarinnar matar- og pakkatörn. Ég söng í kirkjunni klukkan 18 og Ásdís hlustaði. Borðhald og matreiðsla gengu að mestu án stórslysa og kvöldið var frábært.

Þegar klukkan var svo orðin miðnætti var sunginn afmælissöngur fyrir elsku Ásdísi sem nú er orðin tuttuguogfjögurra ára.

Gleðileg jól allir saman :)

mánudagur, 22. desember 2003

Ef

Ef þið viljið vita hvað þið heitið á kínversku kíkið þá hingað. Ég heiti þetta. Þetta er nú allt á léttum nótum, líklega er allt í lagi að kalla mig Baldur þegar ég er í Kína.

Kvíðið ekki

Jæja þá er ég kominn heim. Þegar ég yfirgaf Morgunblaðshöllina fyrir tveimur klukkustundum þá fór eins og ég hafði spáð fyrir. Þó skal tekið fram að spádómurinn varð ekki allur að veruleika. Nei það voru engir klökkir starfsmenn. Þeir voru velflestir farnir heim til að gráta sig í svefn. En kvíðið engu á nýju ári mun ég koma aftur og gæta ykkar.

sunnudagur, 21. desember 2003

Drama

Nú fer vaktinni að ljúka. Ekki nóg með það heldur er þetta síðasta vakt ársins hjá mér þannig að þegar ég geng út í kvöld verður spilað á fiðlur, klökkir starfsmenn munu veifa, naktir blómálfar dansa fljúgandi og batmanmerkið mun lýsa á himninum. Hvað gerist næst? Jú, ég sný mér við og segi með hægð: I´ll be back.

Fróðleiksmoli: Í dag hefði Frank Zappa, sá mikli töffari, átt afmæli.

laugardagur, 20. desember 2003

Jólamaturinn útbúinn

Hihi, búinn í vinnunni og kominn heim. Er á fullu að undirbúa jólamatinn. Já ég er alveg frábær. Vinn stöðugt í fjórtán klukkustundir og útbý jólamatinn í leiðinni. Reyndar var ég svo duglegur að ég hugsa að hann endist fram á annan í jólum.

Hvað fólst í þessum mikla og flókna undirbúningi sem hetjan ég náði að afgreiða með litlafingri? Ég játa, I´m a pornodog, ég hringdi á Grænan kost og pantaði hnetusteikur. Hvortsemer er það miklu auðveldara :)

Ankannalegt

Sit við tölvuna í vinnunni. Allt er eins og það á að sér að vera, nema ég. Mér líður skringilega. Það er eins og... ...eins og ég eigi ekki eftir að mæta í neitt próf á næstunni og ekkert skilaverkefni hangi yfir mér. Jibbííí :)

Venjulega þegar ég er í vinnunni rembist ég við lærdóm með misjöfnum árangri en nú er bara ekkert þannig og þykir mér hvíldin góð.

Ást

Í kvöld fórum við í mat til Elfars eins og lög gera ráð fyrir á föstudagskvöldi. Þar spiluðum við meistara völundarhússins og spjölluðum.

Eftir spil stungum við af í bíó til að sjá myndina Love actually. Það var gaman. Always look on the bright side og life eins og snillingarnir sungu. Myndin er semsagt ansi hressandi gleðigjafi í skammdeginu.

föstudagur, 19. desember 2003

Sofið út

Líklega hefur safnast upp einhver þreyta í prófunum. Í gær reiknaði ég ekki með því og fór bara að lyfta og útrétta fyrir jólin. Í gærkvöldi fór ég svo fremur seint að sofa, nánar tiltekið klukkan eitt.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég vaknað milli átta og níu en í morgun vaknaði ég ekki fyrr en rúmlega ellefu. Mig rámar eitthvað í það þegar Ásdís fór á fætur til að taka síðasta prófið sitt en augljóslega vaknaði ég ekki við það.

Í gær var ég að spjalla á netinu við Tómas vin minn sem er búinn að vera í Danmörku (kemur heim í dag) og sagði honum að snjókoma væri afar ósennileg á næstu dögum. Þegar ég svo ruslaðist á lappir lá við að ég fengi ofbirtu í augun þegar ég leit út. Ég hlýt að líta vel út en óháð því þá var og er enn snjór yfir öllu. Gaman!

miðvikudagur, 17. desember 2003

Búinn!

Jæja, þá er streðinu lokið að sinni. Var að koma úr síðasta prófinu, reikningshaldi. Hefði vel getað þegið hálftíma í viðbót en það er önnur saga. Aðalatriðið er að nú er hið alræmda jólafrí komið. Maður bara áttar sig ekki á svona löguðu :)

mánudagur, 15. desember 2003

Sit og les

Nú er ég að fara í háttinn eftir smá rekstrarhagfræðirispu. Hvað er hagfræði? Eftirfarandi skilgreining er bráðskemmtileg og virðist enn vera í góðu gildi.

Auðfræðin [hagfræðin] tekur manninn svo sem hann nú er, hefir verið og mun verða, veikan, skeikulan, ófullkominn, en jafnframt framförulan og framfæran og vill vísa honum veg framfaranna.
Arnljótur Ólafsson lærði, Auðfræði 1880

þriðjudagur, 9. desember 2003

Bloggað milli auglýsinga

Ó, ég er sko ekki sniðug núna, í staðinn fyrir að læra meira fyrir prófið á morgun er ég núna að glápa á Queer eye for the straight guy á Skjá einum. Mér tókst meira að segja að draga Baldur að skjánum. O well, ég er svo sem búin að fara yfir allt námsefnið svo kannski ég slappi bara smá af.

Þjóðhagfræði að baki

Jæja, þá er það búið. Þá sest maður bara í sófann með þessari gellu sem beið eftir mér þegar ég kom heim, fær sér jarðarber, skyr og rjóma. Ekki fer þó vel á að sitja lengi því það styttist í næsta próf og jólin líka.

Ef ég sit í sófanum fram að jólum þá gæti ég verið orðinn eins og feitur marsbúi og fengi enga pakka því enginn myndi þekkja mig. Að lokum yrði ég svo settur í dýragarð og enginn myndi vita hver ég væri. Meðan ég dúsa í dýragarðinum ærist íslenskt samfélag af spenningi vegna enn eins óupplýsts mannhvarfs. Þó er enginn horfinn. Ok, bæ ;)
Þarna kom það, ég er orðinn drullusyfjaður. Góða nótt :)

boring

Fyrir allnokkru gekk ég til náða. Það gerði ég af því að það er próf á morgun. Ég er ekki sofandi eins og oftast á þessum tíma sólarhringsins heldur er ég andvaka og það er voða gaman. Það hafa nú svakalegri hlutir gerst. Til dæmis var skúringakona étin í næsta húsi nýlega. Alveg ferlegt, eins gott að ég er bara vaktmaður.

Úr því að ég er vakandi þá er ég að hugsa um að læra þangað til ég verð syfjaður og kannski fjölyrða um það á vefinn. Hver veit?

laugardagur, 6. desember 2003

Stjórnun að baki

Já nú er prófið í stjórnun að baki. Var bara að koma úr því í þessu. Ekki þýðir það samt að stríðið sé búið, ooo seiseinei. Næst er það þjóðhagfræðin hjá manni sem er háll sem áll, enda heitir hann Axel Hall. Hall er sennilega alþjóðlegt orð fyrir háll. Ætli það sé nokkuð vit í að segja meira, Axel gæti kíkt á dagbókina en það má hann ekki fyrr en eftir prófið.

miðvikudagur, 3. desember 2003

Lesilesilesilesi

Sit heima, les þjóðhagfræði og hlusta á Brahms. Nánar tiltekið er ég að lesa Mankiw og hlusta á ungverska dansa. Ekki er nú sami stíllinn á mér og í gærkveldi þegar ég ásamt Ásdísi og Pétri afa snæddi dýrindis forsetafisk. Nú eru það bara salthnetur, sólblómafræ hörfræ og vatn. Einfalt en næringarríkt og tekur engan tíma frá lestrinum. Kannski maður gefi sér nú samt tíma í alminnilegan kvöldverð á eftir.

Notalegt að sitja inni og blogga meðan Kári lætur móðann mása úti í bleytunni, ahh. Kannski maður bruggi sér bara smá te í múmínbollann sinn, ekki bagalegt og stíllinn kominn á rétt ról.

þriðjudagur, 2. desember 2003

Reikningshaldsverkefni skilað
Í gær kvaddi ég Hrapp og Skell með pompi og prakt. Kveðjustundin var magnþrungin og mikill léttir að vera laus við þá félaga. Þetta var síðasta verkefni annarinnar svo nú er próflestur hafinn.