föstudagur, 31. ágúst 2012

Fossvogshlaupið

Í gær var Fossvogshlaupið haldið í annað sinn og Baldur ákvað að slá til og hlaupa með. Fór kvöldið áður og hljóp 3 km til að sjá hvort hann ætti erindi og fékk pabba til að hjóla á eftir sér með hraðamæli á hjólinu til að tíma- og hraðamæla. Hann ákvað svo í gær að jú, hann væri alveg til í að skella sér, enda hafði 3 km hlaupið skilað ágætum niðurstöðum.

Fjölskyldan í Eskihlíð ætlaði líka öll að taka þátt með ýmsu móti, Kristján ætlaði að hlaupa 5 km eins og Baldur, og Stella og duglegustu stelpur landsins ætluðu að sjá um drykki og veitingar ofan í hlauparana. Ég, sem verð móð af því einu að horfa á hlaupandi fólk, ákvað að fara í góðan göngutúr um Elliðaárdalinn og ná til baka í tæka tíð til að sjá Baldur þeytast í mark.

Ég fór frá Víkingsheimilinu og kraftgekk upp dalinn. Ég meira að segja hlaup svolítið, til að hrista aðeins upp í innkirtlunum. Fór eins stóran hring og ég gat, yfir brúnna við sundlaugina og til baka aftur. Þetta eru rétt tæpir sjö kílómetrar og ég fór þá á sléttum klukkutíma og var ansi sátt við mitt.

Þegar ég sneri aftur að Víkingssheimilinu var búið að ræsa hlaupið svo ég kom mér fyrir í grasinu og vissi að ég þyrfti ekki að bíða lengi eftir hlaupurunum. Það reyndist rétt því þeir alfremstu voru mætti á svæðið einhverjum 17-18 mínútum eftir ræs. Ég færði mig út á götuna til að geta hvatt minn mann og rétt náði að öskra einhverju á eftir honum, svo hratt fór hann framhjá og óþekkjanlegur í svona hlaupagír.

Eftir hlaupið söfnuðumst við saman við drykkjarföngin þar sem Stella og stelpurnar höfðu ekki undan við að fylla í glös og deila út ávöxtum. Baldur kom í mark á 20:09, tíu sekúndum frá markmiðinu. Ég held hann geti nú unað sáttur við sitt en ég hef samt á tilfinningunni að hann vilji bæta tímann. Það er víst ekki hægt að taka af honum metnaðinn, það er alveg víst.

Eftir að hafa staðið góða stund úti við var okkur orðið kalt inn að beini og brunuðum því í Vesturbæjarlaugina. Hún er að verða uppáhaldslaugin mín. Þar er potturinn almennilega heitur og gufan alveg frábær. Það jafnast fátt á við sundferð í kvöldrökkrinu, nema vera skyldi flatbaka hjá Devitos sem einmitt reyndist vera okkar næsti áfangastaður. Ef maður má ekki fá sé flöbbu eftir gott hlaup þá er þetta hvort eð er allt hætt að meika sens. Látum ósnerta þá umræðu að ég hljóp sjálf ekki svo greitt, flabban var alveg jafngóð fyrir því.

Frískur að hlaupi loknu
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled

miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Álafoss

Í dag fór ég í dagsferð upp í Álafoss með mömmu.

Yfirlýst markmið: Ná í tvöfaldan plötulopa.

Óopinbert markmið: Ævintýrast í Mosó, taka myndir og borða eitthvað sætt.

Við völdum rigninga- og vindstilltan dag til verksins enda ætlunin að ferðast um á strætó. Ég tók vagninn niður á Klambratún og gekk þaðan yfir túnið á leið minni að Hlemmi. Á Hlemmi höfðum við mæðgur mælt okkur mót. Í tilefni þess hve veðrið var fínt hafði kona ein komið upp sölubás við eitt sólríkt hornið á Hlemmi og hafið sölu á grænkáli, rauðrófum, kryddjurtum og öðrum góðmeti. Þetta fannst mér frábært framtak, það þarf ekki meira til til að lífga upp á andrúmsloftið.

Leið 15 gengur beint upp í Mosfellsbæ og eftir dágóðan rúnt í þeim vagni fórum við út og gengum spottakorn til að koma okkur á áfangastaðinn sem var Álafoss. Þar er einmitt seldur lopi í ýmsu formi og mig vantaði nokkrar plötur af tvöföldum lopa til að geta hafist handa við að prjóna á sjálfa mig lopapeysu. En áður en við komumst svo langt hittum við reyndar stóð af hestum sem við heilsuðum upp á.

Eftir að hafa skoðað verslunina í bak og fyrir og látið vigta plötulopann og greitt fyrir samviskusamlega, ákváðum við að taka smá rölt um bæinn. Að einhverju leyti var bærinn enn í hátíðarskrúða frá nýafstaðinni bæjarhátíð Í túninu heima. Til marks um það voru trén skreytt bleikum slaufum og blöðrur voru bundnar við stólpa.

Mosfellsbær er ansi gróinn og fallegur eftir því. Við gengum í gegnum Álafosskvosina, meðfram læk sem þar rennur og háum öspum. Reynirinn skartar þessa dagana glæsilegum appelsínugulum reyniberjum sem ég hef aldrei neitt átt við en skilst að hægt sé að búa til úr þeim gott hlaup og saft. Þarna lét ég hins vegar nægja að dást að þeim og mynda.

Við enduðum gönguna inni í Mosfellsbakaríi sem er eitt það glæsilegasta bakarí sem ég hef komið í. Keyptum okkur smurð kryddbrauð til að seðja sárasta hungrið og splæstum svo í tertu ársins með heslihnetubotni og Freyjukaramellum. Fengum nett sykursjokk í kjölfarið en góð var sneiðin.

Í vagninum frá Mosó og niður á Hlemm rúntuðum við svo um allt Grafaholtið og Grafarvoginn, og vegna vegaframkvæmda keyrði bílstjórinn eins og djöfullinn væri á eftir okkur og fór sömu götur og hringtorg margoft. Undir miðbikið vorum við alveg orðnar ruglaðar og vissum ekki hvort við vorum að koma eða fara þegar vagninn tók að stíma í átt að Mosó aftur. Þetta var hins vegar ágæt skemmtun og góð útsýnisferð og þarna fékk ég rúntað um götur sem ég hef aldrei heimsótt fyrr.

Leiðir skildu á Hlemmi og ég tók vagninn heim í Garðabæinn. Á leiðinni hvíldi ég mig á hljóðbókinni og hlustaði í staðinn á nokkur vel valin lög frá sumrinu. Fékk kökk í hálsinn því tónlistin hafði umsvifalaust hrifið mig með sér inn í minningar frá Lovund og tíma okkar þar og allt í einu saknaði ég vina okkar og lífsins okkar þar alveg óskaplega. Ég veit ekki alveg hvað skal gera við svona tilfinningaflækjur en mér skilst að hægt sé að búa til úr þeim gott hlaup og saft.

Untitled
 
Untitled
 
Hneggjar
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Mæðgur
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Terta ársins hjá Mosfellsbakarí

þriðjudagur, 28. ágúst 2012

Garðabær-Árbær og til baka

Við höfum verið að hitta vini okkar í smáum og rólegum skömmtum þessar vikur sem við höfum verið á landinu. Ekkert liggur á, allt hefur sinn tíma. Í gær var einmitt kominn tími til að hitta vinkonu okkar Viridiönu, eða Viri. Hún er vinkona okkar úr Yoga Shala, hún og reyndar öll hennar fjölskylda því þegar hún giftist til Íslands komu foreldrar og systkini hennar með frá Mexíkó og settust hér að. Magnað fólk!

Við tókum fram fínu hjólfákana okkar og beittum fyrir hraðamæli, tróðum sunddóti í körfur og settumst svo á hnakk. Tókum stefnuna á Kópavog til að byrja með og hjóluðum í gegnum Akrahverfið í Garðabæ sem ég vissi ekki að væri til, hvað þá meira. Fórum niður í Kópavogsdalinn og hjóluðum meðfram Dalveginum yfir að Mjóddinni þar sem við beygðum upp í Bakkahverfin. Fórum upp góða en aflíðandi brekku og stungum okkur inn í Elliðaárdalinn fyrir ofan stífluna.

Þar áðum við á bekk enda mín ekki alveg komin á fullt hjólaskrið eftir pest síðustu viku. Sátum með bakið í Árbæjarsafn og horfðum yfir stífluna og dalinn sem breiðir úr sé með Breiðholtið sér á hægri síðu og Árbæinn á vinstri.

Héldum áfram og komum við í Bónus til að kaupa vatnsmelónu, ekki vill maður koma tómhentur í heimsókn. Knúsuðum vinkonu okkar í bak og fyrir, fengum okkur vatnsmelónu með mexíkóskri chiliblöndu (æði) og spjölluðum svo eins og við hefðum ekki hist í áraraðir, sem er einmitt raunin.

Áður en við kvöddumst hafði verið ákveðið að blása til sopa de Baldur, en svo er mál með vexti að síðla sumars 2010, þegar við vorum á leiðinni til Indlands í jógakennaranám og ferðalög, blés ástralska vinkona okkar Jen til kveðjuhófs, því hún var að flytja til baka til Ástralíu en ætlaði reyndar að hafa viðkomu í Indlandi og taka jógakennaranámið með okkur. Allir mættu með eitthvað til borðhaldsins og Baldur eldaði suður indverska kasjú-karrý-kókossúpu sem hitti svona líka í mark hjá mexíkósku vinum okkar. Viri sagði að þau hefðu nú látið sig dreyma um súpuna, sopa de Baldur, í tvö ár og draumar eru til þess að láta þá rætast svo nú er ekkert annað í boði en að bretta upp ermarnar og elda fyrir níu.

Frá Viri kíktum við svo í Árbæjarlaug þar sem einhver vanstilling á hitanum plagaði laugarvatnið. Vatnið á brautunum var heitt eins og í kröftugum potti, vatnið í heitasta pottinum var kaldara en í þægilega nuddpottinum og í gufunni varð manni kalt af því að sitja og bíða eftir að verða heitt í gegn. Vatnið í sturtunum rann hins vegar rétt svo okkur varð nú ekki meint af.

Hjóluðum heim Elliðaárdalinn sem er einn af mínum uppáhaldsstöðum í borginni. Þar hefur gróðurinn breytt um svip síðan fyrir mánuði þegar við komum til landsins. Fjólublátt hefur vikið fyrir rauðbleiku, og grænt er sumsstaðar að víkja fyrir appelsínugulu. Þetta er ófrávíkjanleg þróun árstíðanna, fyrirsjáanleg og svo óskaplega falleg.

Áðum síðan við Kópavogskirkju á Borgarholtinu áður en við tókum síðasta sprettinn heim í Garðabæinn. Frá Borgarholtinu sést til allra átta: Keilir, Fossvogurinn, Nauthólsvíkin, borgin, Esjan, Akrafjall og Skarðsheiðin, Snæfellsnesið og á góðum dögum sýnir jökullinn sig.

Í Elliðaárdalnum
 
  Untitled
 
Untitled
 
Af Borgarholtinu
 
Kópavogskirkja
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled

mánudagur, 27. ágúst 2012

Döðlu- og súkkulaðikaka með bláberjarjóma


Þegar við vorum á Vesturfarasetrinu á Hofsósi um daginn keyptum við okkur hið mjög svo skemmtilega hefti Íslenskur uppáhaldsmatur. Þar er að finna ýmsar klassískar uppskriftir eins og t.d. að fiskibollum og fiskisúpu, plokkfiski og seyttu rúgbrauði, lummum, pönnukökum, rabarbarasultu og laufabrauði. Semsé nauðsynlegt hefði inn á hvert heimili.

Þarna er líka uppskrift sem ég rak strax augun í og klæjaði í fingurnar að gera bara hér og nú! Það er uppskrift að döðlu- og súkkulaðiköku með bláberjarjóma. Og það vildi nú bara svo til að þennan sunnudaginn átti ég einmitt nýtínd og bústin og blá bláber beint úr Haukadal, með kraftinn úr Strokki í fræjum og safa. Svo ég skellti í eina svona seinnipartinn og notaðist m.a. við Kitchen Aid hrærivélina hennar Huldu. Þetta er í fyrsta sinn sem ég prófa slíka græju og Vá! þvílíkur munur. Þarf að drífa mig í að gifta mig sem allra fyrst!

Ég ætla að deila herlegheitinum hér á síðunni en mæli eindregið með að fólk verði sér úti um heftið því þetta er svo skemmtilegt framtak.

Innihald:
3 egg
150 g sykur
150 g hveiti
1 tsk lyftiduft
100 g suðusúkkulaði
100 g döðlur

Saxa niður döðlur og suðusúkkulaði í litla bita og setja til hliðar.

Þeyta saman egg og sykur þar til blandan er ljós og létt. Því næst er hveiti og lyftiduft sigtað saman og blandað varlega út í hræruna og að lokum suðusúkkulaði og döðlum.

Deiginu er skipt og bakað í tveimur bökunarformum sem eru um það bil 24 sm í þvermál. Muna að smyrja formin vel. Formin eru sett í 180°C heitan ofn og bakað í 15-20 mín.

Einum sólarhring áður en kakan er borin fram er þeyttur rjómi og bláber sett á milli botnanna og ofan á efri botninn. Svo er fallegt að skreyta kökuna með smá súkkulaðispæni.

Namminamminamm!












sunnudagur, 26. ágúst 2012

Berjamór á Tortu

Það var haldið á Tortu í gær, jörð í Haukadal sem er í eigu fjölskyldu Baldurs. Í bakgarðinum er Strokkur sem leikur sínar listir svo þetta er allt frekar tilkomumikið.

Venjan er sú að halda Tortudag á vorin og þá höfum við farið og borið áburð á landið. Nú er hins vegar svo komið að landið er að miklum hluta gróið og grænt og því var blásið til síðsumarshittings. Svo heppilega vill til að síðsumur og berjalyng eru gott kombó.

Við komumst að því við komuna á Tortu að það er eiginlega þörf á því að halda gróðrinum í skefjum frekar en hitt. Baldur fór því í það ásamt öðrum að klippa til runna og annan gróður á meðan við hin komum okkur fyrir í lynginu með tínur og dalla.

Það er ansi afslappandi iðja að tína ber undir berum himni. Við fengum smá gjólu en annars var fínt veður og þurrt en þurrkurinn er einmitt svo mikilvægur þeim sem eru í berjamó. Svo var ekki verra að lyngið var vel blátt og við náðum að tína vænan slurk þrátt fyrir að mörg berjanna væru farin að láta á sjá.

Þegar kom að því að borða nestið fengum við inni í bústað á landinu og sá vakti mikla hrifninu. Það er ekki amalegt að eiga bogadreginn og bjartan bústað á besta stað á landinu, við vorum öll sammála um það.

Svo er bara spurning hvað maður gerir sniðugt með öll þessi ber sem tíndust ofan í dallinn? Ég er með hugmynd...
Á Tortu í berjamó
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Skyr með bláberjum og rjóma

fimmtudagur, 23. ágúst 2012

Batamerki

Á Gló

Þá er maður búinn að liggja fyrir veikur síðustu daga. Kom heim af Grímsnesinu hnerrandi í annarri hverri setningu, stífluð og fljótlega komin með eymsli í hálsinn. Lagðist í rúmið með hita og lá mánudag og þriðjudag.

Baldur var svo sætur að fara út í Fjarðarkaup og versla inn gnótt af fínum söfum: grænmetissafa, heilsusafa, engifersafa. Líka appelsínur, möndlumjólk, flatbrauð og ólívutartex og hálsbrjóstsykur úr hvönn.

Eftir góða hvíld og umhyggju var ég í gær orðin rólfær og útbjó þá bananaís úr möndlumjólk, svona vegan útgáfu sem er ansi frískandi. Náði líka að fara á Gló í hádeginu með pabba og Huldu í yndislegu veðri þar sem hitamælarnir sýndu 18 gráður.

Í dag fór ég síðan út úr húsi því pestin er farin þó svo að enn sé svolítið í að ég ná fullu batteríi. Kíkti í heimsókn til mömmu og þaðan fórum við Baldur á Aðalbókasafnið. Sátum heillengi og kíktum í bækur og ég byrjaði að lesa bókina Ljósa eftir Kristínu Steinsdóttur.

Frá bókasafninu röltum við aðeins um miðbæinn og skruppum inn í 10-11 til að fóðra síhungraðan Baldurinn. Þar hittum við Helenu vinkonu okkar úr sjósundinu. Við áttum mjög skemmtilegt og inspírerandi samtal, svo mjög að eftir að við höfðum kvaðst fórum við Baldur á kaffihúsið fyrir ofan Iðu og héldum samtalinu gangandi okkar á milli.

Við ákváðum að taka strætó heim og urðum til þess að verða okkur úti um skiptimynt. Til þess urðum við að fara í hraðbanka og svo í Iðu til að skipta yfir í fimm hundruð kalla og hundrað kalla. Það er mikið fyrir þessu haft! En áður en við fórum upp í strætó varð okkur hugsað til bláberjanna okkar af norðurlandi svo við skruppum aftur inn í 10-11 til að verða okkur úti um skyr og rjóma. Tókum svo leið 1 heim í Garðabæinn og fengum okkur rjómaskyr í kvöldmat.

Í strætó

mánudagur, 20. ágúst 2012

Grímsnesið

Rut amma mín keypti sér sumarbústaðarlóð á Grímsnesinu fyrir peninga sem hún nurlaði saman með skúringum og öðrum leiðum. Síðan keypti hún sér nýlegan bústað og lét flytja hann á lóðina sumarið '79. Hún var þar öllum stundum og við barnabörnin voru oft send til hennar. Ég á margar góðar minningar þaðan leikandi með Siggu frænku. Þá smurði Rut amma brauð með gúrku og skar horna á milli svo úr urðu tveir þríhyrningar. Það fannst mér mjög heillandi og þurfti greinilega ekki mikið til.

En bústaðurinn var ansi frumstæður, ekkert rafmagn eða rennandi vatn og á unglingsárunum var maður alveg hættur að nenna að fara í bústaðinn. Nú hefur bústaðurinn hins vegar verið tekinn í gegn. Nú er komið rafmagn og rennandi vatn, hitaveita meira að segja, klósett og sturta. Þessar breytingar hafa átt sér stað undanfarinn áratug, alltaf smá bætur hér og þar, en á síðustu árum hafa breytingarnar hins vegar verið örari og umsvifameiri. Nú er bústaðurinn kominn með nýjan inngang, nýklæddur að utan, risaverönd, búið að fletja út grasflötina og byggja lítinn geymslukofa.

Eftir flakk undanfarinna ára var kominn tími fyrir mig að kíkja við og taka út herlegheitin. Við tókum því stefnuna á Grímsnes í hefðbundinn sunnudagsrúnt með pabba og Huldu. Komum við í Litlu Kaffistofunni og fengum okkur létt nesti. Upp með öllum veggjum eru veifur og fánar ýmissa fótboltafélaga, m.a. Rosenborg fáninn sem Baldur lét mynda sig með í bak og fyrir til að geta sent Kim, aðdáenda nr 1, sönnunargögn.

Upp í bústað hugaði Hulda að jarðarberjaplöntunum á meðan við hin tókum fram sólstólana og nutum þess að horfa yfir landið og út að Ingólfssfjalli. Rifum í okkur harðfisk og ég fann su doku bók og fór að glíma vit þrautina.

Eftir að hafa viðrað bústaðinn lokuðum við og læstum og keyrðum sem leið lá upp í Slakka. Þangað kom ég síðast sumarið '98 með pabba, Andra og vinkonu minni Gry sem þá var í heimsókn á landinu. Hulda sagði að henni hefði alltaf langað að kíkja en alltaf vantað börn til að fara með. Nú vorum við Baldur semsé komin í það hlutverk. Við létum heillast af silkihænunum og svo voru svínin líka mjög skemmtileg, sérstaklega þegar þau stungu hausunum út um kringlótt götin og tóku að hrína á okkur.

Frá Slakka lá leiðin yfir í sundlaugina á Borg sem er lítil og sæt og alveg fínt að synda á brautunum. Enduðum síðan á Kaffi Krús á Selfossi í pizzu. Sigldum svo heim á leið eftir þessa vel heppnuðu heimsókn austur fyrir fjall.

Untitled
 
Stellið
 
Untitled
 
Skarpur
 
Onk!
 
Untitled
 
Húsbóndinn
 
Silkihæna
 
Forvitinn
 
Snotur
 
Untitled
 
Untitled