föstudagur, 30. september 2005

Turen går til Italien

Eftir dönskutíma í dag röltum við Stella um miðbæ Kaupmannahafnar. Við kíktum á aðalbókasafnið sem ég hafði aldrei áður heimsótt. Mér þótti mikið til koma enda safnið stórt og bókakosturinn góður.

Við skiptum liði og á meðan Stella leitaði að hannyrða- og chick-flick bókum þefaði ég uppi ferðahandbækur. Ég var nefnilega að leita að ferðabókum um Ítalíu og Róm. Heppnin var með mér og ég fann tvær góðar, Turen går til Italien og Politikens visuelle guide: Rom.

Ástæðan fyrir þessum óvænta áhuga mínum á Ítalíu er einföld: Í gær gerðum við kærustuparið okkur lítið fyrir og röltum inn á ferðaskrifstofu Star Tours og fjárfestum í ferð til Ítalíu. Við fljúgum út þann 17. október og komum heim viku síðar. Þá vikuna er nefnilega haustfrí í skólanum hjá okkur og kallast þessi vika víst kartöfluvikan, með vísan í gamla tíma þegar börn bænda fóru heim á þessum tíma til að hjálpa við uppskeruna.

Við verðum á ferðamannastaðnum Terracina sem er um 100 km suður af Róm. Svo vitaskuld stefnum við á dagsferð þangað. Það sem mér finnst þó merkilegast er að Pompeii er einnig nálægt en þangað hefur mig langað að fara síðan ég fyrst heyrði söguna um gosið í Vesuvius og dulafulla varðveitingu hinna látnu. Skemmtilegt nokk þá sáum við Baldur heimildamynd nú nýlega um Pompeii og gosið en þá grunaði okkur ekki að við værum á leið þangað.

Nú er ráð að leggjast yfir bækurnar tvær og lesa sér til um pleisið.

Rigning og hagl

Sem við Ásdís hjóluðum heim í gær féllu nokkrir dropar úr lofti sem er svosum ekki í frásögur færandi. Ég mæli þá svo um að við skyldum hraða förinni þar sem dönsk rigning gæti orðið allmikil. Ekki höfðum við lengi hjólað þegar miklar drunur heyrast að ofan og viti menn, á 30 sekúndum vorum við bæði orðin gegndrepa. Veðurguðirnir létu þó ekki staðar numið heldur þeyttu þeir hlunkastórum haglkúlum yfir okkur þangað til heim var komið.

Eftir fataskipti og þurrkun hjóluðum við ekki (tókum strætó) í mat til Stellu og Kristjáns. Þar fengum við þær fréttir að Kristján hefði líka lent í rigningunni en ekki fengið kaupaukann, haglið. Eftir almenn fréttaskipti fengum við frábæran mat og í eftirrétt var tófúís, ekkert smá góður. Ég er nú ekki mesti tófúkarl í heiminum en þessi ís var alger snilld.

Gegndrepa

Maturinn gómsæti

þriðjudagur, 27. september 2005

Skroppið til Malmö

Við lögðum land undir fót í gær og skruppum yfir til Svíþjóðar. Frá Hovedbanegård gengur lest yfir til Malmö á 20 mínútna fresti og tekur ferðin rétt um 40 mínútur. Til samanburðar má geta þess að það tekur okkur tæpar 30 mínútur að komast að heiman niður í bæ.

Við nýttum tímann í lestinni í lestur og tókum varla eftir því þegar lestin brunaði yfir Øresundsbrúnna. Okkar fyrsta verk í Malmö var að arka á túrist-infó og taka fría bæklinga: Välkommen til Malmö - karta med information. Með hjálp kortsins röltum við í átt að miðbænum.

Dagurinn var fallegur og því nutum við þess að skoða okkur um í Gamla Staden. Rétt eins og í Lundi eru göturnar í Malmö hellulagðar og gefur það skemmtilegan miðaldarbrag á bæinn. Þá hanga blómakörfur neðan úr ljósastaurum, há laufguð tré eru hluti af arkitektúrnum, strætisvagnarnir eru grænir og Volvo-ar keyra um götur. Við vorum sannarlega komin til Svíþjóðar!

Við römbuðum inn á Stortorget sem ber nafn með renntu, það er ansi stórt. Á torginu er að finna mjög skemmtilegan en jafnframt skrýtinn gosbrunn. Hann er girtur af með girðingu í formi einhverja smádjöfla. Fyrir aftan gosbrunninn er síðan stytta af smávöxnum manni með furðulegt höfuðfat og apa á vinstri öxl. Hann er umkringdur fjórum súlum og framaná tveimur fremstu eru hrútshöfuð sem spýta vatni í brunninn.

Við torgið er einnig að finna Rådhuset sem byrjað var að byggja 1546 og því lokið einhvern tímann á 19. öld. Við sáum líka sjónvarpsþáttinn CSI auglýstan undir slagorðinu Bevisen ljuger aldrig. Við hlógum dátt þegar við sáum slagorð sjónvarpsstöðvarinnar sjálfrar: Roligare TV.

Frá Stortoget gengum við síðan sem leið lá niður aðalverslunargötu Malmö, Södergatan. Þar rákumst við á ansi skemmtilegt listaverk, Optimistorkestern eftir Yngve Lundell. Við Gustav Adolfs torg var hægt að kaupa blóm og branda mandlar og ég stóðst freistinguna að kíkja inn í fataverslun.

Við kíktum hins vegar inn í nokkrar verslanir sem hugsanlega seldu þann varning sem við vorum á höttunum eftir, þ.e. bjästi, tribulus terrestris og myndinni Tilsammans á DVD. Sú leit bar engan árangur og fyrr en varði vorum við komin niður á Triangeln sem er enn eitt torgið í Malmö-bæ. Þar stendur risastórt Hilton hótel og það sem meira er, þar stendur kringla. Inn í henni fundum við búðina Konsum og slóumst í hóp með Svíum sem voru að gera sín eftir-vinnu-hvað-á-ég-að-hafa-í-matinn innkaup.

Það var mjög skemmtilegt að kíkja í Konsum, kannski helst af því að hún er öðruvísi en Netto eða Føtex. Við fundum t.d. bjäst í heilsudeildinni og sólhattsgostöflur en við fundum líka það sem öll börn fædd um og eftir 1980 muna eftir: Sana-sol :0) Svo við urðum að kaupa það, það sér það hver maður. Einnig urðum við að kaupa risavaxna pakkningu af sænsku hrökkbrauði, kringlóttu. Og einhvern sænskan drykk sem heitir Pommac. Svo gaman að versla í Sverge.

Eftir svona áreynslu var við hæfi að setjast inn á notalegt kaffihús sem minnti okkur á Súfistann í M&M, þar sem það var líka inn í bókabúð. Þar gáfum við afgreiðsludömunni leiðbeiningar um hvernig ætti að útbúa Swiss Mocha og hún plataði okkur að kaupa muffu með polka bragði.

Þegar kaffihúsið lokaði fannst okkur kominn tími til að halda heim á leið. Við héldum uppteknum hætti og lásum á leið yfir Øresundið. Við komumst að því að það er ekkert betra en að lesa í lest að kvöldi til þar sem notalegt myrkrið fyrir utan er kærkomin hvíld frá upplýstum strætum.

Lesturinn hafinn strax á Hovedbanegård

A chacun son goût - Baldur les æfingabækur

Séð frá Mälar bron yfir Järnvägshamnen

Hellulagðar götur, laufguð tré, blómakörfur í ljósastaurum og skottið á Volvo

Gosbrunnurinn sérkennilegi og rådhuset í baksýn

Bevise ljuger aldrig hos Kanal5 - roligere TV

Optimistorkestern frá 1985

Algjörir naglar

Kvaldi pósturinn

Swiss Mocha og polka muffa

mánudagur, 26. september 2005

Amerískar pönnukökur

Um daginn vorum við Ásdís að versla og fundum rosasniðugt amerískrapönnukökumix. Í gær tók Ásdís svo upp á því að prufa þetta mix í kaffitímanum, á meðan skaust ég eftir mjólk. Þegar ég kom heim átum við eins mikið af pönnsum og við gátum í okkur látið.

Já, það eru sjálfsagt margir sem öfunda mig af því að eiga kærustu sem gerir amerískar pönnsur á sunnudegi. Ég er þó heppnari en svo því um kvöldið fannst mér ég enn greina mjög mikla pönnukökulykt í íbúðinni og viti menn! Ásdís stóð í eldhúsinu og bjó til fleiri pönnukökur en í þetta sinn var það sko ekkert mix heldur að hætti hússins og tókust þær mjöög vel.

Það eina sem ég þurfti að gera var að ná í rjómann, maple sírópið, bláberjasultuna og mjólkina, fjúff erfitt líf :)

laugardagur, 24. september 2005

Afmæli Kristjaníu

Kristjanía hélt upp á 34 ára afmæli sitt í dag. Við hefðum ekki vitað af því hefði ekki einhver sett augýsingu þess efnis á einn rafmagnskassann við Nørrebro. Við vorum óvenju snemma á ferðinni í morgun og vorum upp úr hádegi komin í Føtex að klára helgarinnkaupin. Við kíktum betur á auglýsinguna og sáum að húllumhæið ætti að byrja kl. 16 og standa til miðnættis - aðgangseyrir 50 DKK.

Okkur leist vel á að kíkja en eftir því sem leið á daginn urðum við latari og latari og á endanum viðurkenndum við að Kristjaníu gengið væri kannski ekki okkar krávd. Svo við höfðum það kósý heima og hétum hvort öðru að kíkja í Kristjaníu einhvern annan dag - altså einhvern tímann að deginum til.

En þar sem ég var búin að lesa mér til um Kristjaníu finnst mér ómögulegt að sitja ein að því og læt hér smá sögulegan fróðleik fljóta með. Kristjanía er í austanverðri Kristjánshöfn og er eins konar fríríki sem stofnað var árið 1971 þegar um þúsund manns (hústökufólk, námsmenn og utangarðsfólk) settist þar að með samþykki yfirvalda. Síðan þá hafa hús verið reist án nokkurs skipulags og gamlir hermannaskálar skreyttir á ýmsan máta enda vel þekkt að önnur lífsgildi ríkja innan Kristjaníu en utan hennar.

Þessi fróðleikskorn voru í boði Kaupmannahafnarbókarinnar.

þriðjudagur, 20. september 2005

Restaurant Flow

Oft þegar við Ásdís erum að hjóla heim úr miðbænum eða nágrenni höfum við farið framhjá skilti sem á stendur: Organic vegetarian take-away. Fram til þessa höfum við ekki athugað hvað byggi að baki þessu ágæta skilti þar sem við höfum alltaf verið á svo mikilli ferð. Í dag stöðvuðum við fákana þar sem ég var svo ofboðslega svangur.

Þegar inn var komið tók á móti okkur glaðleg stúlka sem brosti alltaf voða mikið þegar við töluðum okkar á milli um hvað við skyldum fá okkur. Það kom upp úr dúrnum að hún hafði gengið í lýðháskóla með Íslendingum og þannig lært að þekkja málið og tala smá.

Ekki var þó hægt að standa og tala á tóman maga svo við pöntuðum og fengum tvo myndarlega skammta af gómsætu grænmetisfæði á þægilegu verði. Þegar út var komið hjóluðum við í rólegheitum, södd og sæl heim á leið.

sunnudagur, 18. september 2005

Enn bætist vid

Vid viljum bara vekja athygli ykkar elskulegu lesenda á thví ad vid erum enn ad bæta vid færslum frá 1. ágúst og til dagsins í dag (erum komin ad 1. sept.). Munid thví ad skrolla nidur fyrir thessa færslu til ad sjá færslurnar sem birst hafa undanfarna daga.

Vid eigum enn eftir ad birta ca. 12 færslur fyrir septembermánud og komum til med ad setja thær á síduna á næstu thremur døgum. Eftir thad færast færslubirtingar í edlilegt form og ekki verdur lengur thørf á thessu skrolli fram og til baka - vid hløkkum til thess. Hej, hej i bili og ha' det godt.

laugardagur, 17. september 2005

Á hafnarslóð 1: Sigling um síkin

Á þessum fagra laugardegi ákváðum við skötuhjú að gera okkur glaðan dag hér í borginni við Sundið. Eftir sex vikur af því að koma okkur fyrir vorum við loks tilbúin í næsta skref: túrhestast. Við pökkuðum því niður myndavél og Kaupmannahafnarbókinni góðu eftir Tryggva Gíslason og hjóluðum af stað í átt að Langebro eða Löngubrú. Þar læstum við hjólunum og gengum norður með Christians Brygge sem á víst upphaflega að hafa gert Kaupmannahöfn að miðstöð viðskipta um norðanverða Evrópu.

Efst á dagskrá var að komast í siglingu um síki borgarinnar og stefnan var því tekin á Nýhöfn þar sem hægt er að komst í slíkar ferðir. Við tókum Netto bådene sem eiga víst að vera ódýrari en samkeppnisaðilinn. Við stigum um borð hjá Holmens Kirke og þaðan tók báturinn okkur í skemmtilega hringferð.

Margt var um manninn í bátnum og háværir skiptinemar sátu fyrir aftan okkur svo oft áttum við í stökustu vandræðum með að heyra í leiðsögumanninum en helstu atriðin skiluðu sér þó. Við sigldum framhjá Nationalbanken, Amalienborg Slot, Thorvaldsens Museum, undir Marmorbroen og auðvitað framhjá Litlu hafmeyjunni. Skemmtilegast fannst mér þó að sigla meðfram Nyhavn og Christianshavn kanal, stemmningin þar er svo einstaklega dönsk.

Að bátsferðinni lokinni var ákveðið að kíkja betur á Nyhavn en fara þetta sinn landleiðina að henni. Hún var alveg jafn skemmtileg í návígi og því ákváðum við að setjast að snæðingi á veitingastaðnum Nyhavn 17 og gæddum okkur á rauðsprettu með rækjum, kavíar og auðvitað remúlaði.

Þar sem það var nú einu sinni laugardagur - og við syndgum aðeins á laugardögum - fengum við okkur ekta belgíska vöfflu með soft-ice í desert.

Við Löngubrú með Kristjánshöfn á Amager í baksýn.

Baldur þrífur af sér olíuklístur af hjólinu.

Leiðin med Netto bådene.

Blái turn.

Á Nyhavn með veitingastaðinn sem við borðuðum á í baksýn.

Óperan.

Litla hafmeyjan.

Langalína - lystibátahöfn.

Den Sorte Diamant - bókasafn.

Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á...

Baldur á Prinsenbro.

Stórt akkeri á Nyhavn.

Danskur matur.

Baldur Belgi

föstudagur, 16. september 2005

Á Íslandi fær maður auglýsingapésa undir rúðuþurrkuna á bílnum. Í Danmörku fær maður slíka pésa á bögglaberann sinn. Harhar.

Tekið að hausta

Í seinustu viku var svo heitt hér í borginni að ekki var annað hægt en að klæðast pilsi og sandölum ef til stóð að fara út úr húsi. Ég var ekki að ýkja þegar ég skrifaði um hitann á þessum degi. Í þessari 37. viku ársins hefur þó aðeins verið svalara, þyngra yfir og hitinn í kringum 16-18 gráður. Í gær rigndi nú bara á okkur á leiðinni heim úr þrekinu.

Í dag rann svo upp þessi fagri, heiðríki dagur. Þrátt fyrir það er þægilegur svali í lofti og minnir mann helst á þessa dásamlegu haustdaga sem maður fær stundum að upplifa á Íslandi, þegar stirnir einhvern veginn í andrúmsloftinu af fersku lofti.

miðvikudagur, 14. september 2005

(Óvígt) sambúðarafmæli

Við Baldur eigum fjögurra ára sambúðarafmæli í dag. Þann 14. september 2001 gengum við galvösk inn á Þjóðskrá og skráðum okkur í óvígða sambúð. Mig minnir að við höfum fagnað þeim tímamótum með skammti af frönskum kartöflum. Síðan þá hefur það verið upp og ofan hvort við höfum haldið upp á daginn eður ei. Ég var til dæmis ekkert að velta fyrir mér hvaða dagur væri í dag fyrr en Baldur óskaði mér til hamingju með hann (síminn hans pípti til að minna hann á daginn).

Ég tók mig til og gluggaði í myndaalbúmið okkar til að sjá hvort og þá hvenær við höfum gert okkur dagamun þennan skemmtilega dag. Það kom mér á óvart að sjá að við virðumst hafa gleymt okkar fyrsta sambúðarafmæli því ég fann hvorki myndir né blogg-færslur frá þeim degi.

Á öðru sambúðarafmælinu röltum við frá Hrauntungunni yfir í Reynisbakarí í Hamraborginni og keyptum okkur bakkelsi. Á því þriðja tókum við forskot á sæluna og héldum upp á daginn degi fyrr, þann 13. september, en þá vorum við á leiðinni heim frá Mývatni eftir helgardvöl á Egilsstöðum. Við böðuðum okkur í heitri hellalind á Mývatni og áðum síðan á Bláu könnunni á Akureyri.

Í ár elduðum við pasta a la Solla og kveiktum á háum, appelsínugulum kertum.

14. september 2001: Á Digranesveginum, nýskráð í sambúð.

Júlí 2002: Á Digranesveginum med Kisu og Fríðu Sól.

14. september 2003: Í Hrauntungunni á leiðinni í bakaríið.

September 2004: Í Atlavík á leið á Þjóðahátíð á Egilsstöðum.

14. september 2005: Á Frederikssundsvej í Kaupmannahöfn.

Breytingar

Nú erum við búin færa síðuna okkar yfir á hnotskurnin.blogspot.com. Okkur fannst kominn tími á að færa okkur af heimasvæði háskólans þar sem þeirra varnir eru svo öflugar að við gátum aldrei sett inn kommentkerfi eða myndir. Það er okkur því sönn ánægja að færa ykkur þessa tvo möguleika, nú getið þið skoðað myndir sem við birtum á síðunni og skrifað ummæli.

Nú getum við líka farið að birta færslur sem við höfum verið að skrifa undanfarinn mánuð en ekki getað birt á netinu sökum netleysis heimilis okkar. Þessar "nýju" færslur eru nokkrar og ætlum við að birta um fjórar á dag þar til við verðum komin til dagsins í dag. Því biðjum við ykkur að skrolla niður til að sjá nýju-gömlu færslurnar.

þriðjudagur, 13. september 2005

Silkipúðar

Við fórum aftur í Ikea í dag. Í þetta sinn var það til að kaupa smáhluti eins og ramma undir myndirnar fínu sem við keyptum á Strikinu en einnig púða í sófann og annað smálegt. Rétt fyrir lokun vorum við búin að týna saman allt sem var á listanum okkar nema púðaáklæði sem við höfðum séð í Ikea listanum en var hvergi sjáanlegt.

Eftir að hafa spurt einn starfsmanninn hvort þessi tilteknu áklæði væru yfirhöfuð til í versluninni vorum við send þvert yfir bygginguna þar sem við fundum þau hangandi á snaga. Við gripum með okkur tvö áklæði af sitthvorum litnum án þess að huga frekar að því enda var verið að loka og ekki vildum við lokast inn í búðinni (líklegt).

Þegar heim var komið fór ég í það að koma áklæðunum á púðana og varð þá fyrst litið á þvottaleiðbeiningarnar, en yfirleitt geri ég það nú áður en ég festi kaup á einhverju. Mér brá svolítið að sjá að ekki mátti þvo áklæðið heldur aðeins setja það í hreinsun. Hvers konar efni var þetta eiginlega? Jú, þetta var silki.

sunnudagur, 11. september 2005

Glamrar í grillinu

Á föstudaginn var kíktum við loksins í litlu heilsubúðina sem ég hjóla framhjá á degi hverju, Natur & Sundhed helsekost. Þar fundum við, okkur til mikillar gleði, ýmsan varning sem hefur verið í miklum metum á þessu heimili en vantað í búrskápinn síðan flutt var út. Á ég þá einna helst við grænmetiskæfur frá Tartex sem við höfðum leitað dyrum og dyngjum að í öllum verslunum sem við höfum komið í. Talandi um að leita langt yfir skammt.

Við fundum einnig grænmetisborgara og kviknaði þá sú hugmynd að prófa grilltækni okkar. Úr varð að laugardagskósýkvöldið okkar fór í að grilla þessa líka fínu hamborgara á einnotagrilli. Í meðlæti voru bakaðar kartöflur með graslauk og steinselju og frönsku, sjávarsöltuðu smjöri. Í eftirrétt voru belgískar vöfflur með vanilluís og hlynsírópinu sem pabbi færði okkur að gjöf frá Aspen.

Heyri ég einhvern ráðleggja okkur að kíkja í þrekið? Ég held það væri ráðlegt eftir svona veislu.

laugardagur, 10. september 2005

Jóga á stofugólfinu

Eftir flutningana hingað út hefur jógarútínan mín breyst töluvert: hún er horfin. Heima átti ég árskort hjá Jógastöð Guðjóns Bergmanns og mætti reglulega (enda finnst mér jóga vera frábær líkamsrækt) en hér hef ég engri slíkri stöð að skipta.

Mér fannst kominn tími á yfirbót svo ég dró fram Jóga með Guðjóni Bergmann, DVD disk sem Stella og Kristján gáfu okkur ein jólin, skellti honum í spilarann og dró fram rauðu joggingfötin. Ég komst að því, mér til mikillar ánægju, að stofugólfið rúmar vel jógaæfingar og sjónvarpstækið er þægilegur æfingafélagi.

Nú vantar mig bara almennilega jógadýnu, við skildum okkar nefnilega eftir heima á Íslandi.

miðvikudagur, 7. september 2005

Villist aftur

Það mætti ljúga því að mér að í hvert sinn sem ég geri eitthvað í fyrsta sinn hér í Kaupmannahöfn eigi það fyrir mér að liggja að villast. Um daginn villtist ég þegar ég mætti á minn fyrsta fund í mannfræðideild. Í dag var fyrsta kennslustundin og hefði ég hjólað heimanfrá mér hefði ég ekki átt möguleika á að villast enda leiðin um það bil svona: áfram eftir aðalbraut, áfram, áfram, til vinstri, til hægri, aftur til vinstri, komin. Sem sagt ofureinfalt.

Í þetta sinn kom ég hjólandi frá skólanum hans Baldurs og eftir að hafa legið yfir leiðinni á kortinu taldi ég mig tilbúna í slaginn. Þess ber að geta áður en lengra er haldið að um var að ræða einstaklega heitan og sólríkan dag...

Jæja, ég stíg á hjólfákinn góða og hjóla af stað, glöð og kát eins og venjulega. Eina sem ég átti að gera var að halda áfram þar til ég kæmi að Assistens Kirkegård á horni Nørrebro og Jagtvej og taldi ég það nú vera einfalt enda hjóla ég framhjá því horni daglega. En hvað sem því líður þá hjólaði ég í þessum mikla hita og var farin að finna ansi vel fyrir sólinni.

Eitthvað fannst mér leiðin orðin löng svo ég steig af hjólin og rýndi í kortið. Jú, jú, ég var á réttri leið, bara halda áfram, auðvitað ertu ekkert að villast, láttu ekki svona, treystu sjálfri þér - allt þetta flaug í gegnum huga minn.

Fimm mínútum seinna og orðin ansi þreytt á hjólreiðunum stansa ég í annað sinn til að rýna enn betur í kortið. Jæja, já, ekki nema 27 gatnamótum of langt til norðurs! Við þessa uppgötvun snérist ég á hæl og hjólaði eins hratt og orkubirgðir líkamans leyfðu.

Á undraverðan hátt kom ég á nákvæmlega réttum tíma en það keypti ég líka dýru verði: ég var sem nýskriðin úr gufubaði.

þriðjudagur, 6. september 2005

Amagerströnd

Í dag hjóluðum við á nýju ströndina á Amager. Þetta var okkar fyrsta eiginlega strandferð síðan við komum og var veðrið fallegt þó svolítið blési vindurinn.

Ég skellti mér í sjóinn og var þar með laus við vindinn. Það er ágætt að synda þarna en þó þarf að passa sig aðeins á rastafagengi sjávarins, marglyttunum.

Undirbúningur strandferðar

Fun, fun, fun, fun, fun in the sun :)

Á leiðinni útí

Saltkjøt

Pakkað saman

mánudagur, 5. september 2005

Fyrsti dagur skóla og matarboð hjá froskum

Í dag var kynningarfundur fyrir erlenda nema hjá mannfræðideild KU. Eina sem ég vissi var að fundurinn færi fram í byggingu 18 og þar sem ég hafði sótt dönskunámskeið í byggingu 24 á Amager gerði ég ráð fyrir að bygging 18 væri spölkorn frá og hjólaði því kát og sæl yfir á gamlar slóðir.

Þegar þangað var komið kárnaði þó gamanið því enga byggingu 18 var þar að finna. Þá fór mig að gruna að mannfræðideild væri jafnvel á allt öðrum stað í bænum og leitaði því strax inn á næstu skrifstofu sem svo heppilega vildi til að sá um málefni erlendra stúdenta.

Þar fékk ég þær upplýsingar að mannfræðideild væri með alla sína starfsemi hinu megin í bænum, nánar tiltekið á Øster Farimagsgade nr. 5. Konan sem aðstoðaði mig var hin liðlegasta, hringdi í mannfræðideild til að fá leiðbeiningar um hvernig ég skyldi komast þangað, teiknaði leiðina á kort fyrir mig sem hún síðan gaf mér og sendi mig svo af stað með óskum um góða dvöl í Køben.

Þar sem ég var orðin svo sein hvort eð var fannst mér ekki taka því að hjóla í einum spreng og mæta löðursveitt á minn fyrsta fund mannfræðideildar og því tók ég því bara rólega í hjólaumferðinni.

Mannfræðideildina er að finna hjá CSS (Center for Sundhed og Samfund) sem er til húsa þar sem áður var Kommunehospitalet. CSS flutti inn í lok ágúst og því var enn hálfgerður nýbyggingar stíll á öllu þegar mig bar að garði. Engu að síður er um mjög huggulegt lokal að ræða með skemmtilegum hallargarði innan virkisveggjanna.

Mér tókst á undraverðan hátt að hafa uppi á hópnum sem ég tilheyrði en hann var á rölti um hallarsvæðið til að fá kynningu á aðstöðu nemenda.

Um kvöldið kíktum við síðan í mat til Stellu og Kristjáns og hittum þar fyrir Ernu og Sylviu. Maturinn og eftirrétturinn bragðaðist afbragðsvel og ekki spillti fyrir að fá að sitja í huggulegum sófa, við notalegt kertaljós, hlusta á góða tónlist og hlæja með skemmtilegu fólki. Takk kærlega fyrir okkur froskar og til hamingju með nýinnréttuðu íbúðina - okkur Baldri finnst við eiga smá í stofunni ykkar :)

laugardagur, 3. september 2005

Endur í Frederiksberg Have

Enn á ný lögðum við leið okkar í Frederiksberg Have með frisbídisk en að þessu sinni var aukapoki í farteskinu, gamalt og hart brauð. Okkur langaði svo að gefa öndunum hér í Danmörku eitthvað að borða, rétt eins og við gerðum reglulega heima.

Eftir hjólatúr, rölt og frisbíkast heimsóttum við fuglana sem voru heldur betur glaðir að sjá okkur. Hins vegar áttuðum við okkur á því þegar við byrjuðum að gefa þeim að brauðið var álíka hart og hrökkbrauð en það mýktist sem betur fer eftir smátíma í vatninu.

Einn svanurinn vildi nú helst koma upp á bakkann og knúsa brauðpokann en við náðum að plata hann ofaní aftur með vænum brauðbita. Þar sem maður er ekki vanur að sjá svani kom á óvart hversu risastórir þeir eru og að hljóðin frá þeim minna alls ekki á álftirnar heima heldur meira á svín.

Þar með er ég kominn með nýja hljóðbreytingakenningu sem á eftir að gjörbylta íslenskum málvísindum, í verður a og fær hvítar fjaðrir í leiðinni. Já, svín breytist í svan og með fjaðuráhrifunum liggur þetta í augum uppi.

fimmtudagur, 1. september 2005

Bæjarferð: Rizz Razz og þrjú málverk

Við kíktum niður í bæ seinnipartinn í dag. Hjóluðum að Ráðhústorgi og læstum hjólunum nálægt 7/11 búðinni á horni Striksins. Síðan gengum við í rólegheitunum niður Strikið og virtum fyrir okkur verslanir og mannlífið.

Það skemmtilega við Strikið er að þar er alltaf mikið af fólki og yfirleitt eru einhverjir götulistamenn til taks til að stytta manni stundir. Í þetta sinn sáum við tvo gaura uppstrílaða sem indíana Norður Ameríku, spilandi á panflautur.

Múnderingin sem þeir klæddust var svo yfirdrifin að sýning þeirra missti trúverðugleika sinni en það skipti engan máli, þetta var nefnilega áhugavert fyrir augað. Við sáum einnig annað sem kætti okkur en það var skartgripaverslunin Ásdis sem er í einni af hliðargötum Striksins.

Baldur bauð mér síðan á miðjarðarhafshlaðborð hjá Rizz Razz og þar gæddum við okkur meðal annars á falafel, chilli- og hvítlaukssósu. Þegar þarna var komið sögu var tekið að rökkva og við tókum stefnuna heim. Á bakaleiðinni upp Strikið rákumst við hins vegar á götusala sem lagt hafði ýmis málverk til sýnis á stéttina.

Við stöldruðum við hjá honum og eftir smá prútt enduðum við á því að kaupa af honum þrjú málverk sem eiga að prýða heimili okkar hér í Kaupmannahöfn.

Baldur við Ráðhústorgið.

Ásdís og Ásdis