sunnudagur, 31. ágúst 2003

Vinna meira

Ég er að hugsa um að vinna á hverjum degi. Hér hef ég hvorki meira né minna en 7000 fermetra húsnæði til umráða, sítengingu við netið mér að kostnaðarlausu, sjónvarp, video, síma, laun og svo er best hvað ég er heppinn með mat.

Undanfarna tvo daga hef ég verið að vinna og báða dagana hefur Ásdís ofurgella komið með vægast sagt frábæran mat. Í gær bakaði hún dýrindis pizzu og í dag var það schnilldargóður linsupottréttur. Það væsir nú ekki um mann hér í höllinni.

laugardagur, 30. ágúst 2003

Allt eða ekkert

Eftir matarleiðangur föstudagsins fórum við á Grænan kost þar sem við höfðum mælt okkur mót við Elfar nokkurn. Þangað fórum við í matarpælingum enda held ég að ég hefði breyst í svarthol ef ég hefði ekki tekið í taumana á þeirri geigvænlegu þróun sem þegar var hafin.

Nákvæmlega, ég var að fokking-deyja úr hungri og þannig nennir maður nú ekki að vera til eilífðarnóns. Ef ég hefði breyst í svarthol hefði líklega enginn þurft að kaupa ryksugu framar.

Því var þrennt í stöðunni: að duga eða drepast, að éta eða ekki, hafa allar framtíðartekjur af heiðarlegum ryksugusölumönnum. Giskið á hvað ég valdi. Hárrétt! Ég át, enda ætlaði ég nú ekki að hafa lifibrauð áðurnefndra ryksugumanna af þeim. Ég bara er ekki þannig týpa. Einfaldlega allt of sætur í mér.

Eftir matinn skelltum við okkur í bíó þar sem við horfðum á myndina All or nothing sem er á breskum kvikmyndadögum Háskólabíós. Ég segi ykkur ekkert um hana því ég þoli ekki kvikmyndareview og ætla því ekki að sóa tíma ykkar né mínum í slíkt prump.

Góðar stundir.

föstudagur, 29. ágúst 2003

Hassperur

Jæja, kominn nýr dagur með fullt af verkefnum. Það sem ég átti erfitt með að drattast á lappir í morgun. Eitthvað þreyttur (latur). Í dag er fyrirlestur fyrir hádegi og dæmatími eftir hádegi eins og hefur verið, en ekki á morgun. Þetta er síðasti dagur undirbúningsnámskeiðsins og út-að-versla-dagur. Á mánudag hefst svo kennsla eftir stundatöflu.

Prófið í gær gekk ágætlega, ég sat og leysti verkefni fram á síðustu mínútu. Eins gott að koma höndunum í form fyrir námstíðina, ég held ég fái harðsperrur (hassperur segja sumir) eftir gærdaginn.

miðvikudagur, 27. ágúst 2003

Hin verndaða rútína stundatöflumannsins

Mér segir svo hugur um að nú sé að hefjast skólarútína. Ég hef undanfarið sótt undirbúningsnámskeið í reikningshaldi tvisvar á dag og þar af leiðandi í upphitunarformi fyrir alvöru lífsins. Á morgun verður skyndipróf úr námsefninu þannig að það er best að rifja upp í dag.

Á föstudaginn verður svo farið yfir prófið og svo byrjar skólinn á mánudaginn. Það er alltaf eitthvað gott við stundatöflur, námsáætlanir og svoleiðis, einhvers konar verndað umhverfi fyrir þá sem líður vel í rútínu.

mánudagur, 25. ágúst 2003

Örlaukur

Á laugardaginn bjó ég til lauksúpu. Ég tel mig nú ekki vera neinn brautryðjanda í súpugerð en ég gerði hana frá a til ö í örbylgjuofninum. Þetta tók mig svona korter og árangurinn var alveg hreint firnafínn. Prófið bara sjálf.

Innihald:
450g laukur
50g smjör
2 msk maísmjöl
1 hnífsoddur cayenne pipar
2 grænmetisteningar
0,85 l af vatni
salt og pipar eftir smekk
rifinn ostur eftir smekk (frekar meiri en minni þó)
steinselja

Setjið smjörið í stóra skál (sem kemst þó í örbann) og bræðið á fullum styrk í eina mínútu. Á meðan skerið þið laukinn í þunnar sneiðar og hrærið við smjörið í skálinni og eldið í 4 mínútur á fullum styrk. Að þessum fjórum mínútum liðnum hellið þið vatninu út í skálina ásamt kryddi og þurrefnum og hendið inn í ofninn og hafið í fimm mínútur við fullan styrk. Stráið svo ostinum yfir, látið hann bráðna og skreytið með smá steinselju.

sunnudagur, 24. ágúst 2003

Myndaalbúm

Laugardagurinn leið ljúflega við Enyusöng og afslöppun. Við fórum ekki einu sinni út úr húsi fyrri part dags, við vorum svo löt. Ég bakaði að vísu bananabrauð sem etið var með bestu lyst auk smjörs og osts.

Við vorum þó ekki með öllu aðgerðalaus; Baldur lærði heima fyrir þetta undirbúningsnámskeið í reikningshaldi og ég tók mig til og gróf upp gömul myndaalbúm. Ætlunarverk mitt var að finna pláss fyrir nýju myndirnar sem við vorum að fá úr framköllun.

Þetta voru þrjú albúm sem um var að ræða, eitt frá mér, eitt frá Baldri og eitt sem var alveg tómt. Þar sem ég er dottin úr þjálfun við að raða myndum í albúm tók það mig smá tíma að skipuleggja hvernig best væri að raða myndunum.

Ég komst loksins að eftirfarandi niðurstöðu: Myndirnar af jólunum 2000 fóru í mitt albúm og allar hinar myndirnar af okkur Baldri fóru í Baldurs albúm og svo auðvitað nýja albúmið. Þetta voru myndir af Fríðu Sól og Kisu, ferðinni okkar um Norðurland sumarið 2001 og svo myndir af 17. júní sama ár.

Það var afskaplega gaman að skoða þessar gömlu/nýju myndir og í leiðinni renndi ég yfir myndir sem þegar voru komnar í albúm, myndir af tilhugalífi okkar Baldurs og fyrstu sambúðarvikum.

Síðan þessar myndir hafa verið teknar höfum við ekki tekið fleiri myndir á filmu enda fengum við stafrænu vélina í júní 2001 og bara tekið á hana síðan. Það þarf þó ekki að þýða að við hættum að raða í myndaalbúm, mér finnst það nefnilega gaman og gott að geta gripið í þau þegar gesti ber að garði. Nú þarf bara að fara að velja myndir til útprentunar og bretta upp ermar, raða, líma, raða, líma.

fimmtudagur, 21. ágúst 2003

Bláber

Já þetta gekk allt saman eftir. Við fórum upp í Munaðarnes í gær og tíndum fullt, fullt, fuuullt af bláberjum, bökuðum vöfflur og átum helling af bláberjum en það hafði ekkert að segja. Við þurfum að halda vel á spöðunum í dag og á morgun og eta bláber.

Ekki hringja, ekki reyna að tala við mig ég verð upptekinn næstu tvo daga. Ég þarf að eta bláber.

miðvikudagur, 20. ágúst 2003

Berjamó

Okkur fannst svo gaman í berjamó sunnudaginn seinasta að ákveðið hefur verið að fara aftur upp í Munaðarnes seinni part dags í dag og tína ber við Paradísarlaut. Oh, hvor det er dejligt!

Ég ætla bara að tína bláber því ég fíla ekki krækiber. Svo ætlum við að baka vöfflur og fá okkur bláber ofan á og kannski smá hlynsíróp og rjóma. Namm.

Sokkar

Ekki voru nú vandræði að finna á mig sokka, ég fékk heil sex pör.

Nú er ég í frímínútum og ákvað að nota tímann í smáblogg. Í gærkvöldi heimsótti ég Pétur afa og Dag. Var margt spjallað og fór ég heim með tvo fulla Hagkaup-size poka af dýrindis grænmeti.

Þar sem ég á nú svo mikið grænmeti fór ég í smá tilraunir. Fyrsta tilraun var grænkáls og brokkólí safi sem ég drakk í morgunmat. Vægast sagt kraftafæði.

þriðjudagur, 19. ágúst 2003

Sokkar úr fortíðinni

Ég er búin að eyða lungann úr deginum í að lesa gamlar dagbókarfærslur okkar Baldurs og ó, það er svo gaman!

Ein skemmtileg tilviljun, við hjónakorn vorum búin að ákveða að fara í Europris í dag eftir vinnu og birgja okkur (þ.e.a.s. mig) upp af sokkum á tilboði. Baldur heimtar reyndar líka að fá sokka en maðurinn er svo stórfættur að það er ekki hægt að segja að hann sé maur! (einkahúmor) Við ætlum reyndar að nýta ferðina og kaupa tómata í leiðinni því í verslunarferðinni í Bónus í gær voru ekki til tómatar, appelsínur og gulrætur. Hneisa.

Hvað um það, tilviljunin er þessi: Áðan í nostalgíukastinu las ég þessa færslu um ferð okkar í fyrrnefnda verslun þar sem svipaður varningur rataði ofan í kerruna og mér líst hreint ekki á blikuna. Ættum við að hætta okkur á þessar slóðir aftur eða eigum við að gera það sem brennt barn gerir ávallt, þ.e. að forðast Europris?

P.s. Mig langar ógurlega mikið í nýja sokka svo allt bendir til þess að við brennum okkur, æ.

Sumarbústaðarblíða

Á föstudaginn eftir vinnu fórum við beinustu leið upp í Munaðarnes ásamt Elfari, í samfloti voru Andri og Sigrún. Strax og þangað var komið var kveikt í kolum og byrjað að elda. Útkoman var vægast sagt frábær: salat, smjörsteiktur silungur, grillaðar bakaðar kartöflur og frábær smjör og rjómasósa. Lítið man ég hvað gerðist meira það kvöld sökum matarvímu.

Á laugardeginum var sofið út og farið í smá gönguferð + sundferð (ég synti 1000 m), svo var slappað af eins og lög gera ráð fyrir. Eftir slökun gerðum við svo það sem allt fólk í sveitasæluslökunarsumarbústaðarferðum gerir, við fórum niður í bæ og fylgdumst með menningarnótt Reykjavíkurborgar.

Vingsuðumst í gegnum bæinn, droppuðum í Fóu feykirófu og héldum svo á afmælistónleika Rásar 2 þar sem við sáum Sálina hans Jóns míns og Stuðmenn. Hljómsveitir sem klikka ekki. Eftir flugeldasýninguna fórum við aftur í sveitasæluna.

Sunnudagurinn lofaði góðu strax um morguninn með glampandi sól og dúnalogni. Ekki dugði að hanga inni á slíkum degi. Við ókum c.a. 9 mínútna frá Munaðarnesi þar til við komum að skilti sem á stóð Glanni Paradís. Þar beygði ég og við skoðuðum fossinn Glanna, lögðumst í bláberjaát og reyndum að finna Paradísarlaut. Það mistókst, að ég held. Að lokinni göngunni var svo byrjað að undirbúa enn aðra veislu og var hún ekki síðri en sú fyrri.

Ég gleymi aðalatriðinu! Agh! Það var ekki eitt heldur allt með því að við dveldum þarna. Það var nefnilega hægt að hækka og lækka alla eldhúsinnréttinguna (komplett með skápum og allegræ) með rafmagnsstýringarjúniti, ég legg ekki meira á þig lagsmaður.

föstudagur, 15. ágúst 2003

Af bein- og sjálfskiptingum

Þessar þrjár vikur sem Nolli var á verkstæði voru Kalli afi og Ólöf amma svo góð að lána okkur Suzuki jeppann sinn.Venjuleg lét ég Baldur um að keyra hann þar sem hann er frekar þungur í stýri en ég gat þó ekki alltaf verið slík prinsessa og stundum keyrði ég jeppann sjálf.

Þetta er beinskiptur bíll sem mér finnst gaman að keyra og eftir þrjár vikur af slíkrum akstri var maður orðinn ansi vanur því að notast við beinskiptingu.

Fyrir viku síðan þegar við náðum í Nolla brá mér hins vegar ansimikið í brún. Ekki nóg með að stýrið væri eins og úr baðmull heldur vantaði alveg kúplingu og gírana! Ég byrjaði á því að þreyfa fyrir mér með vinstri fæti í leit að kúplingunni en þá rann upp fyrir mér þessi staðreynd.

Fólk segir yfirleitt við mann að passa sig að hætta ekki að keyra beinskipta bíla því það sé svo erfitt að venja sig aftur á gírana. Í mínu tilviki er því hinsvegar öfugt farið, ég á ekki í neinum vandræðum með það en hins vegar finnst mér ansi erfitt að venja mig af gírunum. Ég hef t.d. lentí því að ætla að kúpla en í staðinn þrusað á bremsuna! Og þá man ég alltaf: Ó, ég er á sjálfskiptum.

Yatze anyone?

Um daginn keyptum við Baldur yatze spilið í Bónus og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar, sáum fram á margar góðar kvöldstundir þar sem við spiluðum af lífi og sál.

Einn galli er þó á gjöf Njarðar sem við sáum ekki fyrir, hvorugt okkar man leikreglurnar svo illt er í efni. Ég hef reynt að leita að þeim á netinu en enn ekki orðið ágengt.

Svo ef þú lesandi góður (sem ert væntanlega líka ættingi eða vinur) manst þessar reglur eða veist hvar er hægt að nálgast þær þá væri mjög vel þegið að fá smá emil um það. Oft var nebbla þörf en nú er nauðsyn, við ætlum sko í bústað á morgun.

fimmtudagur, 14. ágúst 2003

Af stífstraujuðum sængurfötum og miðnæturbakstri

Gærdagurinn gekk vonum framar og komum við öllu í verk sem á tékklistanum var og gott betur. Með gott betur á ég við að í straujárnsleiðangrinum mundum við eftir öðru apparati sem við höfum lengi ætlað að festa kaupa á, það er eggjasuðutæki.

Við keyptum sem sagt straujárn frá Philips í Heimilistækjum ásamt eggjasuðutæki frá Melissa. Þá keyptum við hvít/græn röndótt straubretti í Rúmfatalagernum og fórum með filmurnar í framköllun í Bónus. Skólataskan mín fór í viðgerð hjá skóara í Smáralind og ætlaði sá að skipta um sleðann á rennilásnum. Svo má ekki gleyma yfirdýnunni sem við sóttum í hreinsun.

Þegar heim var komið drifum við okkur í að rífa allt upp úr pakkningum sínum eins og óðir krakkar á jólum. Forgangsverk var að koma yfirdýnunni á rúmið og þegar það var búið og gert fannst okkur tilvalið að setja hreint á rúmið. Þá fannst okkur enn tilvaldara að prufukeyra straujárnið og straubrettið svo við gerðum okkur lítið fyrir og straujuðum hreinu sængurfötin. Þegar við vorum síðan búin að búa um rúmið var það svo girnilegt að mann langaði strax upp í rúm að kúra.

En dagur var ekki að kveldi kominn enn þrátt fyrir þessa ofangreindu iðjusemi. Við skutumst nebbla í sund með pater meus þar sem við syntum tilskylda 500 m. Ég fór þrjár ferðir flug og var ansi ánægð með framfarirnar á því sviði. Ég er alltaf að ná betri tökum á þessum stíl sem Baldur er alltaf að tala um :)

Við buðum síðan pabba í tebolla eftir sund til að plana helgina og þá fékk ég þá brjálæðislegu hugmynd að baka möffins. Sem ég og gerði og man ég ekki eftir að hafa bakað um miðnætti áður. Muffurnar smökkuðust mjög vel.

Á tékklista dagsins í dag er m.a. að kaupa batterí í úrin okkar beggja. Mitt hefur verið batteríslaust í nokkra mánuði en Baldurs í nokkur ár! Þá ætlum við að kíkja til Péturs afa en svo vill til að hann á afmæli í dag. Heppilegt að ég skuli hafa bakað í gær.

miðvikudagur, 13. ágúst 2003

Gott form

Í blíðviðri gærdagsins átti sér stað mikill íþróttaviðburður. Hann tók u.þ.b. 90 mínútur og ég var alveg búinn á eftir. Við drifum okkur í Breiðholtslaugina og tókum skemmtilega sundæfingu. Æfingin samanstóð af 90 mínútna frjálsri upphitun í letipottinum þar sem ég náði meira að segja að dotta. Eftir þessa miklu æfingu nenntum við ekki að teygja en það kom ekki að sök ég finn ekki neinar harðsperrur, líklega af því að ég er svo vanur sundmaður.

Tékklistinn og frestunarárátta

Við Baldur höfum átta vanda til að fresta hlutunum fram í hið óendanlega. Var svo komið að okkur ofbauð framtaksleysi okkar og tókum við á það ráð að skipuleggja betur hvern dag. Á hverju kvöldi áður en gengið er til náða eyðum við því nokkrum mínútum í að gera lista yfir það sem við viljum koma í verk daginn eftir og númerum atriðin eftir mikilvægi, mikilvægasta er nr. 1 o.s.frv. Þetta er hinn svokallaði tékklisti.

Með þessari aðferð höfum við nú þegar komið ýmsu í verk sem hefur verið í biðstöðu ansi lengi. Um daginn fórum við t.d. með yfirdýnuna á rúminu okkar í hreinsun en sú dýna hefur mátt dúsa upp á skáp í rúmt ár núna eða frá því við fluttum í Hrauntunguna.

Við vorum til að byrja með svo bjartsýn að við töldum okkur trú um að hún kæmist í litlu smáþvottavélina okkar. Það var hins vegar borin von svo í staðinn reyndum við bara að gleyma henni upp á skáp. Yfirdýnan á því tékklistanum hreinsun að launa.

Með þessu skipulagi tókst mér líka að kaupa afmælisgjöf fyrir mömmu í tæka tíð en ég hef verið svolítið gjörn á að draga slíkt alveg fram á síðustu stundu og jafnvel gefa afmælisgjafirnar eftir afmælisdaginn sjálfan. En ekki lengur. Ég er meira að segja búin að kaupa afmælisgjöf fyrir brósa og hann á ekki afmæli fyrr en í lok september!

Dagurinn í dag er ekkert öðruvísi en undanfarnir dagar að því leyti að nóg er af atriðum á tékklistanum. Þessu ætlum við að koma í verk:

1. Fara í Bóksölu stúdenta og kaupa þar dagbók og pennaveski.
2. Fara með skólatöskuna mína (faktískt séð á Baldur hana) í viðgerð, láta laga rennilásinn.
3. Ná í yfirdýnu úr hreinsun.
4. Fara með þrjár filmur í framköllun sem beðið hafa þess síðan í maí 2001!
5. Senda myndir til Frónfjarlægra ættingja gegnum svokallaðan tölvupóst eða emil.
6. Kaupa straujárn á útsölu og straubretti.

Mikið verður gaman að koma öllu þessu í verk. Mest hlakka ég til að skoða straujárn (hef aldrei farið í svoleiðis leiðangur áður) og auðvitað að fá myndirnar úr framköllun. Af hverju vorum við eiginlega að taka myndir? Það kemur í ljós.

þriðjudagur, 12. ágúst 2003

Váááhh

Ég er á Bókhlöðunni eins og stendur í vinnutengdu erindi. Ég gat þó ekki staðist freistinguna og varð að prófa nýju tölvurnar hérna í Bókhlöðunni. Þeir sem til þekkja vita hvað þarft var orðið að skipta um græjur og það hefur nú verið gert með stæl. Lítil borðtölva, flatur skjár, mús með geisla og skrolltakka og stíft og gott, nýtt lyklaborð. Uhh, hvad jeg er lykkelig:)

Óprúttnir náungar

Þegar við komum heim úr útlandaferðinni um daginn þurftum við að fara með bílinn okkar Nolla í viðgerð til að skipta um einhvern skynjara. Sú viðgerð tók lengri tíma en við var búist þar sem panta þurfti varahlut frá Bandaríkjunum og það tók sinn tíma.

Nú, nú hvað um það, við biðum sem sagt í þrjár vikur eftir bílnum okkar og á föstudaginn kom loksins þessi blessaði skynjari til landsins. Þeir í Ræsi hræddu okkur síðan með einhverju tali um að þeir kæmust ekki að til að setja skynjarann í fyrr en eftir helgi svo við urðum ósköp súr. Þeir hringdu hins vegar seinna um daginn með þær gleðifréttir að bílinn væri kominn í lag og biði nú eftir foreldrum sínum. Þannig að þegar við sóttum hann var það langþráð stund enda ekki sést í þrjár vikur.

Nolli var hins vegar ekki alveg eins og hann á að sér að vera, eitthvað vantaði... Ah, nýja, rauða skoðunarmiðann fyrir 2004, hann var horfinn! Einhverjir óprúttnir náungar höfðu séð sér leik á borði og ákveðið að skrapa af honum alla skoðunarmiða undanfarinna ára eða alveg niður í einn ljótan, grænan endurskoðunarmiða. Og við sem vissu ekki einu sinni að Nolli hefði einhvern tímann þurft að fara í endurskoðun fyrir okkar tíma.

Auðvitað var skoðunarstöðin svo lokuð þegar við komum þar askvaðandi á Nolla þennan föstudagseftirmiðdag svo alla helgina við urðum að keyra Nolla um allan bæ með þessu græna ferlíki, Nolla til háborinnar skammar og hneisu.

Í gær fórum við hins vegar og fengum eldrauðan og splunkunýjan 04 miða svo Nolli getur varpað öndinni léttar. Hjúkket!

mánudagur, 11. ágúst 2003

Frábær helgi

Helgin leið ansi hratt enda höfðum við margt fyrir stafni. Á laugardaginn fórum við að sjálfsögðu í Gay Pride skrúðgönguna sem var með litríkasta móti.

Þar sem það rigndi eins og hellt væri úr fötu áður en gangan hófst tókum við Baldur með okkur regnhlífar (eða parachute eins og Baldur kallaði það í London!). Til að vera í stíl við daginn voru regnhlífarnar okkar bleikar og bláar. Þar að auki lánaði Pétur afi Baldri regngallann sinn svo hann var varinn í hólf og gólf ef svo má að orði komast.

Þegar við komum að Laugaveginum var gangan hafin og eftir að hafa fylgst með vögnunum líða hjá gengum við til liðs við hana. Þrátt fyrir að varla væri þverfótandi fyrir barnavögnum og regnhlífum var þetta svaka gaman og mikil stemmning. Göngunni lauk síðan á Lækjagötu frammi fyrir sviði sem sett hafði verið upp beint fyrir neðan MR.

Margir söfnuðust í brekkuna við MR til að sjá betur á sviðið en við létum okkur nægja að dúsa á miðri umferðargötunni. Þarna var bæði fjölmennt og góðmennt (fer ekki alltaf saman) og ég verð svei mér þá að segja að ég vissi ekki að Íslendingar ættu allar þessar regnhlífar til. Skemmtiatriðin voru síðan alveg frábær og ögraði mannskapurinn rigningunni með því að taka lagið og syngja: Mér finnst rigningin góð, trallallallalla, oho!

Eftir Gay Pride kíktum við síðan til mömmu því hún átti 45 ára afmæli. Það var alveg æðislega gaman og sátum við og kjöftuðum langt fram á nótt og hræddum hvort annað með skuggalegum sögum. Til hamingju með daginn um daginn elsku mamma!

Gærdagurinn var síðan allur með rólegra sniði. Tókum því rólega fram eftir degi og fórum síðan Á næstu grös með afa, Degi og Stellu. Síðan fórum við unga fólkið í keilu sem ég hef ekki gert í mörg herrans ár. Mér gekk samt sæmilega, allavega vann ég hin þrjú!

föstudagur, 8. ágúst 2003

Páfagaukur rak þjófa á flótta

Þessa skemmtilegu frétt fann ég á mbl.is:

"Páfagaukurinn Matilda, sem býr nálægt Middlesbrough á Englandi, reyndist betri en enginn þegar hún stökkti innbrotsþjófum á flótta. Jacki Burnett, eigandi Mathildu, sem fékk fuglinn í afmælisgjöf fyrir fjórum árum, hefur hefur kennt gauksa að spyrja gesti spjörunum úr. Þegar Mathilda varð innbrotsþjófanna var spurði hún: Halló, hver ert þú? Þegar ekkert svar barst spurði fuglinn og byrsti sig: Halló, þú þarna. Komdu hingað strax! Þetta dugði til að þjófarnir lögðu á flótta."

Mér líst mjög vel á þetta pakkatilboð, gæludýr og þjófavörn í senn. Einnig hefur verið hægt að gera slík reyfarakaup með hunda en svo ég segi eins og er þá er ég ekki svo mikið fyrir hunda og líst mun betur á að fá mér varðkött eða páfagauk. Hamstra er aftur á móti ekki hægt að fá á slíkum kjarakaupum, þeir eru ekkert sérlega ógnvekjandi.

Ef ég fengi mér páfagauk myndi ég sko pottþétt kalla hann Kíkí.

miðvikudagur, 6. ágúst 2003

Ég mæli með...

... að horfa á norsku myndina Elling. Hún er alveg þrælfyndin og yndisleg.

... að fara í Breiðholtslaug á góðviðrisdegi eins og í dag, synda nokkur hundruð metra og leggjast svo á einn fjölmargra sólbekkja á sundlaugarbakkanum og slappa af.

... að fara á Grænan kost í dag því réttur dagsins er hnetusteik með hrísgrjónum og sveppasósu. Namm :)

... að fara í Alvöru Álfheimabúðina (Erluís) og fá sér ítalskan sorbet ís, helst með sítrónubragði.

Að lokum mæli ég eindregið með dönsku þáttunum Nikolaj og Julie, hágæðaafþreying (orðalag Baldurs) á miðvikudagskvöldum. Hej, hej!

sunnudagur, 3. ágúst 2003

Höfuðpaur allra innipúka

Til mótvægis við allar útihátíðir er haldin hátíð í Reykjavík sem heitir Innipúkinn. Ég er hins vegar sannfærður um að enginn af þessum innipúkamönnum sé jafn mikill innipúki og ég um þessa helgi. Ef einhver þeirra rambar inn á síðuna þá getur sá hinn sami gert samanburð hér með.

Prógramm hins sanna innipúka:
Laugardagur: Vakna um 6:45, et þjóðlegan morgunverð, er svo úti í korter og svo inni í 14 tíma.
Sunnudagur: Vakna um 6:45, et fjölþjóðlegan morgunverð, er svo úti í korter og svo inni í 14 tíma.
Mánudagur: Vakna um 6:45, et einhvern slatta, er svo úti í korter og svo inni í 9 tíma af því að verslunarmannahelgin er að verða búin og maður aðeins byrjaður að linast.

Ég vona að þetta bloggerí mitt teljist til samráðs við aðra innipúka (sem vissulega myndi ýta undir slaka samkeppni) og bið Samkeppnisráð að halda að sér höndum í a.m.k. tíu ár en þá skal ég setja símanúmerið mitt á heimasíðuna.

laugardagur, 2. ágúst 2003

Horft á jarðlíf

Mikið er veðrið hér í Reykjavík dýrðlegt. Nú er ég fegin að hafa ekki átt annað val en að vera í bænum yfir helgina. Reyndar á Baldur ekki eins gott og ég, hann þarf nebbla að hanga inni í Mogga í allan dag.

Ég ætla að vera honum til samlætis svona í morgunskimunni en ef veðrið heldur áfram á þessari braut get ég engan veginn verið svo kurteis til lengdar.

En núna ætlum við að snúa okkur að David Attenborough og horfa á þáttinn Life on Earth. Hann er frá 1979 svo hann ætti að renna ljúft áfram eins og allt frá því ári.

föstudagur, 1. ágúst 2003

Af bíói og bæjarferð

Myndin í gær var alveg frábær og við grenjuðum úr hlátri. Svona er að vera Woody Allen aðdáandi, það er ljúft.

Í dag höfum við hins vegar snúið okkur að öðrum og alvarlegri málefnum. Smá útréttingar í bankanum og allt þetta hefðbundna sem klára þarf þann 1. hvers mánaðar. Að því loknu töltum við niður í miðbæ til að kíkja á bókasafnið en festumst í köngurlóarvef á leið þangað, nefnilega geggjuðu ljósmyndasýningunni á Austurvelli.

Við vorum þegar búin að skoða slatta af myndum í einu horni Austurvallar og fórum því núna í annað horn þar sem við sáum m.a. sláturhús í Indlandi, litunarker í Marokkó, baðmullarsnepla lagða til þerris í Indlandi og íbúðarblokk í fátækrahverfi í Brasilíu.

Mettuð af fegurð náttúru og mannkyns losuðum við okkur úr vefnum og komumst loks á bókasafnið. Tilgangur ferðar okkar þangað var að birgja sig upp af góðum og velvöldum kvikmyndum fyrir helgina.

Við ætlum nefnilega ekki út úr bænum heldur ætlum við ósmeik að nýta okkur myndbandstæki saklausra ættingja og sjónvarpstæki þeirra til að geta glápt á Italiensk for begyndere, The Cider House Rules og Malena. Núna erum við á leiðinni upp í Gerðuberg og Foldasafn til að ná í Elling og, auðvitað, eina frábæra Woody Allen mynd - Manhattan Murder Mystery.

Góða helgi góðir hálsar :)