laugardagur, 28. apríl 2012

Laxinn og Lovund



Laxeldið sem við vinnum fyrir heitir Nova Sea og hér að ofan er splunkuný stuttmynd sem fyrirtækið lét gera til að kynna sig og starfsemina. Ég ákvað að deila myndinni hér á síðunni því hún er vönduð og falleg, og það sem best er, hún sýnir hvað Norður Noregur er fallegur og hve fagleg og fín verksmiðjan er sem við vinnum í daglega. Ég hef nefnilega oft á tilfinningunni þegar ég tala við fjölskyldu og vini að þau hafi aðra mynd af vinnunni en raunin er: að hún sé mjög erfið, aðbúnaður slæmur og maður sé kaldur í gegn allan daginn. Mér finnst myndin sýna aðstæður og aðbúnað mjög vel og því mæli ég með henni fyrir forvitna.

Eins og fram kemur í myndinni eru starfsstöðvar Nova Sea dreifðar um nokkrar eyjar en höfuðstöðvarnar eru þó á eyjunni góðu Lovund, þar sem er að finna slátrunar- og pökkunarverksmiðjuna sem við vinnum í auk rannsóknarstofu, söluteyma og fjármáladeildar.

Seinni helmingur myndbandsins sem fjallar um Lovund og pökkunarverksmiðjuna á mest við um starfið okkar, þar sem myndskeið eru tekin innan úr verksmiðjunni og sýna laxinn fara inn í vélarnar sem slægja og síðan yfir á viktina í frauðkössum og allaleið yfir á kælilager. Það er skemmtilegt frá því að segja að við Baldur höfum unnið á flestum þessum starfstöðum, ég aðallega á vikt og inn í slægingu og Baldur inn í slægingu og kælilager að keyra gaffallyftara. Að vinn'á lyftara, ekkert mál!

föstudagur, 27. apríl 2012

Fyrsta í collage


Ég var að uppgötva mér til mikillar gleði fítus í forritinu Picasa sem gerir manni kleift að setja upp myndirnar sínar á þennan skemmtilegan hátt, eða collage eins og það kallast. Ég sé alveg fyrir mér nýtt æði í mótun hjá minni. Spurning samt hvort ég hafi einhvern tíma í það, verandi með nokkur myndbönd í bígerð og prjónandi sokka í ofanálag.

Ég er enn að vinna í því hægt og rólega að uppfæra myndir úr Svíþjóðar-Finnlandsferðinni sem farin var í febrúar en á meðan það á sér stað er hér smá gægjugat á myndir sem voru teknar í Rovaniemi, Tampere og Helsinki.

Finnland, já það kom skemmtilega á óvart og mikið var hressandi að komast í almennilegan vetur. En má maður nokkuð vera að dásama vetur þegar vorið er að pukrast handan við hornið og getur ekki ákveðið hvort það eigi að koma úr felum?

fimmtudagur, 26. apríl 2012

Afmælisbarn dagsins: Baldur




Baldur á afmæli í dag! 33ja ára og aldrei verið betri, ég lýg því ekki. Hann er eins og gott vín eða hrísgrjón, já eða gott lag eða kvikmynd, eldist einkar vel.

Það verður engin veisla eða slíkt í tilefni dagsins en við ætlum nú að gera okkur dagamun og erum í því skyni búin að kaupa gourmet torskefilet í litlu búðinni. Við ætlum að hafa ofnbakaðan fiskrétt með rjómaosti og brokkolí í kvöldmat og í eftirrétt verður salthnetu/karamelluís sem afmælisbarnið valdi. Sambýlingarnir verða heiðursgestir. Semsé einfalt og þægilegt.

Ég setti saman lítið myndband í tilefni dagsins, tileinkað Baldri mínum. Til hamingju með daginn elskan mín!

---------------
Viðbætur 27.04.12: Fiskrétturinn var æði, hrísgrjónin voru karrýgul eins og afmælisbarnið vill hafa þau og svo komu sambýlingarnir á óvart með blöðrufoss niður stigann og gáfu afmælisbarninu spúna og sökkur svo hann geti nú farið að veiða sej (ufsa) út á bryggju. Afmælisbarnið vonast líka til að ná í lúðu og hefur fengið ábendingar um góð veiðilönd fyrir slíkan fisk. Afmælisbarnið vonast líka eftir iPhone frá betri  helmingnum í afmælisgjöf, verður maður ekki að sjá til þess að það rætist?

fimmtudagur, 19. apríl 2012

Konan við 1000°


Mig langaði að nefna þessa færslu Konan við 1000° lesin af konunni á 65.° en mér fannst það óþjállt svo ég hætti við. Þó er það alveg satt.

Já, hvar á maður að byrja í umfjöllun sinni um þetta verk? Ég fæ bara hnút í magann og mér fallast hendur. Rosalegt. Æðislegt. Kinnhestur. Hlátur. Hahahaha. Klemma-aftur-augun-þetta-er-ekki-að-gerast-vil-ekki-lesa-meira... Allur pakkinn?

Til að gera umfjöllunina markvissari ætla ég að tína fram nokkra punkta sem vöktu áhuga minn. Til að staðsetja verkið er best að taka fram að höfundur er Hallgrímur Helgason (HH) og sagan er sögð af Herbjörgu Maríu Björnsson sem deilir hér með lesendum afspyrnu litríku lífi á dásamlega sérstakan og skemmtilegan hátt.

Sögusvið: Ég elska sögulegar skáldsögur - historical fiction - og finnst enn betra þegar sögusviðið er dreift um allar jarðir eins og hér er raunin. Við fáum að kíkja inn á lífið á Íslandi á 8. áratugnum, seinni heimsstyrjöld í Þýskalandi og Póllandi er til umfjöllunar sem og Argentína eftir stríð og og síðast en ekki síst Ísland, eða réttara sagt Svefneyjar, fyrir stríð. Uppáhaldssögusviðið mitt voru Fríseyjar, þar fannst mér höfundi takast einstaklega vel upp að skapa samfélag sem lesandi gekk inn í og var fullur þátttakandi í.

Hugmyndir: Frekar framarlega í sögunni talar sögumaðurinn Herbjörg (Herra) um íslenska þagnahefð og lýsir yfir þeirri skoðun að Íslendingar hafi um aldaskeið ekkert notað tungumál sitt - latínu norðursins - heldur geymt það eins og dýrgrip fyrir hinar Norðurlandaþjóðirnar. Ég hafði einstaklega gaman af því að lesa þessar pælingar, ekki síst fyrir þær sakir að ég bý í Noregi þar sem maður fær úr ólíklegustu áttum hrós fyrir að hafa varðveitt tungumálið svona vel í gegnum aldirnar (Tusen takk, vi er flinke, ikke sant?). Að segja að það hafi verið af því að tungumálið var ekki notað finnst mér skemmtilega róttæk nálgun og ekki svo vitlaus. Eigum við það ekki til að sópa óþægilegu málefnunum undir teppi í stað þess að ræða þau?

"Í þá daga var þögnin ein af meginstoðum íslenskrar menningar. Menn leystu ekki hnúta sína með samræðum og voru duglegri að spá í þagnir en spyrja út. Fólk trúði því beinlínis að hægt væri að þegja af sér heilu lífin. En þetta var svosem skiljanlegt því þarna vorum við að skríða út úr þúsund ára löngum þagnarbúskap til sjávar og sveita þar sem orð voru stritinu óþörf og því best geymd á bók inní stofu og baðstofu. En sú var einmitt ástæðan fyrir því að íslenskan breyttist ekkert í þúsund ár: Við notuðum hana nær ekkert. [...] Heyrt hef ég sagt að sú mikla Íslandsþögn sé til komin vegna samnings sem forðum var gerður við Norðurlönd: Þeir létu okkur óáreitta gegn því að við varðveittum fyrir þá tunguna, sem þeir voru þá óðum að tapa með uppsleikjum sínum við þýskar og franskar hirðir. Og það sem maður geymir fyrir aðra snertir maður ekki sjálfur." (bls. 80-81)
Svo tísti ógurlega í mér þegar ég las þessa setningu, og það tísti lengi í mér: "Norska er niðurstaðan sem fæst þegar heil þjóð tekur sig saman um að reyna að tala ekki dönsku." (bls. 81)

Myndlíkingar: Ég hrasaði um fjölmargar góðar og fallega myndlíkingar sem þjónuðu raunverulega því hlutverki sínu að auðga textann og útskýra aðstæður betur með hjálp myndmáls. Dæmi um þetta er þegar Herra lýsir myrkrinu sem fólst djúpt í hugarfylgsnum SS foringjans Hartmut: "Blikið í augum hans var á einhvern hátt blekfullt, og þótt brosið væri bjart kom það til mín líkt og árblik innst í dimmum helli." (bls. 331)

Húmorinn: Bara frábær, takk fyrir hlátrasköllin! Er enn að flissa yfir senunni þegar Herra hringir og pantar tíma í líkbrennslunni, sérstaklega þegar hún segist ætla að reyna að vera dauð áður en hún mætir, annars verði þau að drepa hana. Líka lýsingin á íslensku jólunum í Argentínu þar sem helgislepjan lak niður veggina. Mér fannst það drepfyndin lýsing og  ná jólaandanum alveg spot on.

Lýsingar: Margar senur úr bókinni standa manni ljóslifandi fyrir hugskotum, svo skýrum dráttum hafa þær verið dregnar. Ég las í einni bókmenntagagnrýni um bókina að HH náði miklu flugi í lýsingum sínum í köflunum um Pólland, og ég er alveg sammála því. Þar eru margar fallegar og einlægar lýsingar að finna: "... á kvöldi svo heitu og kyrrlátu að kertið tók ekki einu sinni eftir því að glugginn stóð upp á gátt en lýsti þeim mun mildilegar þennan undarlega fund" (bls. 326).

Tungumál: Ég tek ofan af fyrir HH þegar kemur að nýyrðasmíð og allri leikgleðinni með málið og útúrsnúninga. Ástarverkfræðingar. Búddabóndi. Gæsalappabrúðkaup. Dettur helst í hug allra síðustu orð bókarinnar, tíu fingur upp til guðs. Hvar fær hann þessar hugmyndir? Eftir lesturinn líður mér eins og risa með nál og tvinna í höndum þegar ég sest og smíða saman orð, það kemur út klossað og klaufalegt. 

Það er svo gaman að lesa svona lifandi texta sem þó er á sama tíma tilfinningaríkur og samúðarfullur. Eins og þegar Herra lýsir ferðinni til Fríslands eftir stríð og situr og syrgir lífið sem hún átti að hafa lifað. Þessi setning snerti einhverja taug í mér og ég las hana maroft yfir bara til að fá það staðfest að þessi tilfinning fyrirfinnist meðal annarra.

Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir HH og ég er viss um að ég hafi byrjað á toppnum. Það hljóta að vera meðmæli, nicht wahr?

Ég tel þessa bók ekki með sem eina af fimm klassísku af því að hún getur ekki samkvæmt formúlunni talist klassískt verk en mér finnst samt að hún ætti að verða klassísk strax. Það hljóta að vera meðmæli, n'est-ce pas?

Púhe, ég vil ekki vera búin að lesa bókina! Það hljóta að vera meðmæli, ikke også?

þriðjudagur, 17. apríl 2012

TED & mannfræðin

Ég notaði vinnudaginn í gær til að velta mannfræðinni fyrir mér. Stóð við handslæginguna, tók upp einn og einn fisk og gerði að honum, risti upp og ryksugaði, annan fisk gat ég sent beint á Bader 1 sem er handmötuð vél sem gerir að fiskinum. Klöngraðist reglulega niður álstigann til að kíkja í körin sem standa við etterens, þangað er fiski fleygt af færibandinu sem vélarnar hafa gert illa eða hreinlega ekki að. Rogaðist með þá upp stigann og gerði að.

Var á meðan þessu stóð að velta fyrir mér mannfræðinni og hvað hún hefur fram að færa. Gat setið löngum stundum á óþægilega mjórri stálstöng þegar ekkert var að gera, þegar enginn lax kom að heimsækja mig. Í haust á ég sex ára útskriftarafmæli úr MA náminu og BA og MA námið tók sex ár. Hér er komin einhver speglun/hliðstæða/endurvarp sem ég hef gaman af. Það er eins og það taki mig alltaf janlanga tíma að jafna mig og það tók að afreka eitthvað.

Í svona vinnu hefur maður heilu körin af tíma og heilarými til að velta vöngum yfir hverju sem helst. Það að enginn lifandi lax hafi komið inn á borð til mín í gær gerir hugsunarferlið líka auðveldara, maður á það nefnilega til að gleyma öllum þönkum þegar einn kraftmikill lax lendir með miklum látum á færibandinu hjá manni og maður þarf að slást við hann og sannfæra hann um að þetta sé búið. (Ég er búin að læra eina af lífsins lexíum af laxinum og hún er stórmerkileg: Aldrei gefast upp)

Svona vinna verður líka til þess að maður fer að velta öðrum valmöguleikum lífsins fyrir sér, tilhugsunin um að festast kannski á svona lítilli eyju í laxaverksmiðju það sem eftir er á ekki endilega uppá pallborðið. Já, mannfræðin. Gæti verið að ég sé farin að sakna hennar? Hmmm, þarf að velta þeirri spurningu fyrir mér í vinnunni í dag!

Ég fór rakleitt heim eftir vinnu og fletti upp mannfræði á vef TED. Datt þar niður á nokkur skemmtileg og fræðandi myndbönd. Deili þeim hér til gagns og gamans.

Wade Davis: Dreams from endangered cultures



Nina Jablonski breaks the illusion of skin color



Amber Case: We are all cyborgs now



Louise Leakey digs for humanity's origins

sunnudagur, 15. apríl 2012

Lundkommardagen













Lundinn kemur til Lovund 14. apríl ár hvert milli klukka 17 og 19. Nei, ég er ekki að grínast. Hér hefur lengi verið haft sem viðurkvæði að lun'j kjæm á þessum degi.

Í gær rann semsé Lundakomudagurinn upp og fyrir okkur Baldur var hann ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að fyrst þegar við fluttum hingað var þessum degi ætlað að marka endalok á dvöl okkar hér. Ef við entumst fram að komu lundanna værum við góð. Það var því sérstakt að upplifa daginn renna upp og vera ekki á leiðinni burt héðan eins og við sáum jafnvel fyrir okkur í fyrstu drögum.

Í tilefni dagsins var slegið upp í hópgöngu. Það er gaman frá því að geta að við höfum aldrei séð svona marga saman komna á eyjunni áður, en hér fylltist allt af heimamönnum af fastlandinu sem hingað voru komnir til að kíkja á lundann og fara á dansiball um kvöldið. Við slógumst með í hópinn og gengum að góðum útsýnisstað vestanvert á eyjunni. Þar tyllti fólk sér niður og hóf að rabba, margir höfðu verið forsjálir og komið með heitt kakó í brúsa og jafnvel eitthvað með því.

Á meðan hópurinn beið fuglanna var haldinn dálítill fyrirlestur fyrir okkur um lundann og komu hans til Lovund. Síðan hóf kór upp raust sína, börnin fór að skrækja enda gaman að vera í stórum hópi fólks og fólk hvíslaði sín á milli að það mætti nú ekki fæla fuglinn frá því að lenda á eyju.

Allt í einu fór mikið kurr um hópinn, þá hafði einhver séð til eins flokks í miklum fjarska. Við störðum öll eins og við gátum út um steinana okkar og eitt og eitt tókum við að greina daufa díla í fjarskanum. Fuglarnir lentu svo á haffletinum dágóða leið frá eynni og var það mál manna að þeir biðu annarra fugla sem heltst hefðu úr lestinni.

Við tók bið eftir fuglunum og margir fóru að velt fyrir sér hvort tímabært væri að halda heim, farið að kólna og svona, krakkarnir orðnir órólegir og farnir að suða um að fara heim og fá godteri. Einhverjir töluðu um að alls óvíst væri að fuglarnir kæmu endilega núna, eitthvað gætu þeir þurft að bíða eftir restinni af hópnum. Við náðum þó ekki að hugleiða þetta neitt nánar því út úr bláma himinsins birtist allt í einu þyrla og tók að hringsóla þarna yfir höfðum okkar. Okkur rak flest í rogastans, eins og gefur að skilja, og allt í einu var lundinn gleymdur í bili og allir komnir á létt skokk og sumir hlaup til að fylgja eftir þyrlunni og sjá hvar hún lenti.

Það snarkólnaði að standa í svona mikilli nálægð við þyrlu og náðu spaðarnir að þyrla upp mosa og öðrum gróðri með látunum í sér. Það kom þó ekki í veg fyrir að við stæðum öll hugfangin eins og börn í leikfangaverslun að skoða flottasta leikfangið og fylgdumst með þyrlunni lenda á mosagrónum kletti þarna á útsýnisstaðnum okkar. Orðið í móanum var að einhver hefði snúið sig illa eða jafnvel brotið fót og því væri sjúkraþyrla frá Sandnessjøen mætt á svæðið.

Varla vorum við búin að ná að meðtaka það að þyrla hefði hlunkað sér niður í selskapinn þegar litlir guttar komu hlaupandi að hópnum sem stóð næst þyrlunni, hrópandi og bendandi til himins: Lundinn er kominn, lun'j e kommen! Og þá var þyrlan gleymd á augabragði og aumingjans manneskjan sem slasaðist, og sneru sér allir sem einn og tóku nú að hlaupa til baka að klettasnösinni góðu. Mikið rétt, rétt fyrir framan okkur voru skýin og himinninn nú iðandi í lundafugli sem hnitaði hringi og flaug þó jafnframt áfram á einhvern merkilegan hátt.

Það var mikil upplifun að verða vitni að þessari stund, og frábært að gert sé svona vel úr þessum viðburði. Fuglinn hélt áfram að koma í smáum hópum sem hófu sig upp frá haffletinum en sá fyrsti til að mæta á svæðið var á slaginu sex. Lundinn í Noregi er eins nákvæmur og heimamenn þegar kemur að klukkunni og það er svolítið gaman að því.

Við stóðum auðvitað og gláptum upp í himinhvolfin á litlu svart og hvítlituðu fuglana í dágóða stund en svo tók maður eftir því að það var orðið ansi kalt, og þá héldum við aftur til baka og vorum frekar rösk, en fórum samt varlega yfir. Við vissum sem var að sjúkraþyrlan var upptekin og vildum alls ekki þurfa að hringja í hana.

föstudagur, 13. apríl 2012

Föstudagurinn þrettándi

Ég held svolítið upp á föstudaginn 13. Það hefur reyndar ekki alltaf verið þannig, ég átti til að mynda það í mér að vera svolítið hjátrúarfull á unglingsárunum, en það fór þó aldrei út í það að ég hefði illan bifur á deginum. Í það mesta fór ég varlegar á þeim degi en öðrum og ég er svo sem alveg hlynnt því enn í dag. Það veitir ekkert af einum föstum degi þar sem maður veitir umhverfi sínum og gjörðum meiri athygli en vant er.

Ég man að ég las fyrir margt löngu minningargrein ungs manns sem látist hafði í slysi. Þar höfðu vinir hans skrifað falleg orð um hann og minntust þess hve lífsglaður hann var. Þá hafði það verið hans hugmynd að halda alltaf upp á alla föstudaga sem þrettánda dag mánaðar bar uppá. Það gerði hann með því að kalla saman vinina og gera eitthvað skemmtilegt saman.

Mér finnst þessi hugmynd brillíant. Hvernig væri til dæmis að hafa það fyrir reglu að bjóða alltaf heim í mat á þessum degi? Hann kemur ekki það oft upp að það sé vesen eða kvöð en nógu oft til að maður getur byggt eitthvað í kringum daginn. Salome, er þetta kannski dagurinn fyrir Súpuwomen Club? ;)

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Appelsínugul og fjólublá








Við fengum nýju jógamotturnar okkar í hús í gær. Baldur fékk appelsínugula, ég fékk fjólubláa (réttara væri orchid). Motturnar pöntuðum við frá Bandaríkjunum, frá Jade og eru þetta Jade Harmony mottur. Þær eru 100% náttúrulegar, úr gúmmí svo gripið í þeim er frábært.

Við tókum okkur dágóða stund í að strjúka mottunum, þefa af þeim og svona heilsa þeim almennilega, bjóða þær velkomnar til Lovund. Síðan, hægt og rólega, rúlluðum við þeim út og þá fylltist stofan af gúmmílykt.

Við biðum ekki boðanna heldur fórum strax að athafna okkur á mottunum. Fyrstu asönurnar sem notaðar voru til að vígja dýrgripina voru Happy Baby, skordýrið, vagg og velta og Shavasana, sem á íslensku er Líkið og er uppáhaldsasana allra alvöru jóga. Það er hin últimeit hvíldarstaða, þar sem maður liggur með hendur út með hliðum, lófar vísa upp og fætur út til hliða, mjaðmabreidd á milli. Svo bara að anda djúpt og reyna að sofna ekki!

þriðjudagur, 10. apríl 2012

Home alone

Það er viðeigandi að ég nefni þessa færslu eftir góðri kvikmynd því þessi færsla fjallar einmitt um hvað við erum búin að vera dugleg að horfa á kvikmyndir undanfarna tíu daga eða svo. Við erum að sjálfsögðu í foreldrafríi og fyrir vikið erum við eins og unglingarnir sem eru einir heima og fá að ráða dagskránni.

Við erum búin að sjá þessar myndir:

Adam (2009): Samband ríkrar pabbastelpu við ungan mann með Asperberg. Ágæt bara.
Bad Teacher (2011): Alveg voðaleg, voðaleg. Ekki sjá hana.
Bridesmaids (2011): Frábær, alveg frábær. Sjá hana!
Crazy, Stupid, Love. (2011): Frábær, alveg frábær. Sjá hana!
Derailed (2005): Clive Owen og Jennifer Anistion, need I say more?
Drive (2011): Ryan Gosling, need I say more? Hröð, flott og fersk.
Friends With Kids (2011): Skemmtileg og ljúf.
Gosford Park (2001): Ef þú fílar Downton Abbey eins mikið og ég þá er þetta mynd fyrir þig.
Life As We Know It (2010): Chick flick sem var betri en við var búist. Geta alveg mælt með henni í léttum tón.
Little Miss Sunshine (2006): Uppáhalds. Hands down ein af mínum uppáhaldsmyndum.
Murder By Numbers (2002): Góð glæpasaga.
One Day (2011): Rómantísk og ljúf, alveg nóg að sjá einu sinni þó sem útfærist eiginlega yfir í: þú lifir það af að sjá myndina aldrei.
The Lincoln Lawyer (2011): Lögfræði/glæpasaga, hörkufín.
The Town (2010): Byggð á bókinni The Prince of Thieves. Glæpir og ástir í meinum. Fær like frá mér.
(500) Days of Summer (2009): Amelie-leg og skemmtileg, falleg og frumleg.

Ég geri ráð fyrir að þetta séu síðustu forvöð fyrir okkur að taka svona hressilega kvikmyndaskorpu. Það er vissulega snjókoma úti og hefur ekki snjóað svona mikið í allan vetur, en vorið hlýtur að koma einhvern tímann, og þá hljóða lögmálin svo að maður verði að vera úti öllum stundum. Ekkert kvikmyndagláp segir sumarguðinn. Því er eins gott að nýta þessi síðustu forvöð og þjappa eins miklu inn og hægt er að koma fyrir.

Í beinu framhaldi af því: Ég veit ekki hvaða mynd verður fyrir valinu í kvöld en ég hugsa að valið standi á milli Blue Valentine og No Country for Old Men.

mánudagur, 9. apríl 2012

One More Cup Of Coffee



Hér er fyrsta stop-motion myndbandið mitt. Umfjöllunarefnið er kaffi og kraftlyftingar, hvorki meira né minna, og auðvitað er Baldur hinn fínasti aðalleikari/leikmunur.

Stop-motion er tjáningarform/listform/miðlun sem gengur út á að mynda viðfangsefni og raða ljósmyndunum síðan upp svo það líti út sem um hreyfða mynd sé að ræða. Ég notaðist við litla 20 cm Cyber-shot þrífótinn minn í einhverjum atriðum og síðan hélt ég á myndavélinni í öðrum. Fyrir vikið verða heildaáhrifin svolítið rústik, þ.e. hreyfðari myndir en ella sem kalla á grófari skiptingar milli mynda í stað flauelsmjúks rennslis. Þannig á það að vera, allavega hjá mér haha!

Eitt áramótaheit í höfn, jei!

sunnudagur, 8. apríl 2012

Páskar



Gleðilega páska!

Hér snjóar sem endranær en það er afskaplega bjart og fallegt. Ansi páskalegt verð ég að segja.

Ég er búin að verja deginum í að setja saman mína fyrstu stop-motion myndaseríu, ætli hún verði ekki tilbúin á morgun. Ég er alveg að fíla þetta form í ræmur!

Það verður ekki mikið um hátíðarhöld hjá okkur. Mesti spenningurinn er fyrir því að opna flösku af Kullamust sem við keyptum í Svíþjóð í febrúar: äpple och päron och ett uns ingefära. Eftirrétturinn hljómar líka vel: Ben & Jerry's Cookie Dough. Ísinn sá er páskaeggið í ár.

Í kvöld er svo stefnt á góða kvikmynd: Little Miss Sunshine. Við sáum hana fyrst fyrir fimm árum í ogguponku litlum bíósal með rútusætum og myndvarpa í Himalayafjöllunum vestri. Hlógum okkur máttlaus þá, vona að hún sé jafngóð í annað sinn.

fimmtudagur, 5. apríl 2012

Skírdagur 2012

Nú hellist yfir mig heimþráin á þessum fyrsta degi páskafrísins. Ef við værum heima á Íslandi værum við nefnilega í dag að bjóða yfir til okkar í Skírdagsbröns. Við byrjuðum á þessu á páskunum 2009 og það eru einir eftirminnilegustu og bestu páskar sem ég hef átt.

Við dekkuðum borðið með nýjum dúk, ég klippti greinar af runna í garðinu og setti í vasa, skreytti með gulum ungum og litríkum eggjum. Bætti svo páskaliljum við til að toppa þetta. Við buðum síðan upp á jacket potatoes með baked beans og osti, eggjaskrömblu og ýmsa skemmtilega safa. Í eftirrétt var hvorki meira né minna en þriggja hæða súkkulaðitertu sem ég hafði bakað og espresso í litlum, hvítum bollum.

Það er gott að halda í hefðir og það er mjög skemmtilegt að búa til nýjar hefðir. Fyrst það var enginn Skírdagsbröns í ár  fór ég að dunda mér við myndavélina og æfa mig. Hér er lítið brot af því sem kom út úr því, meira eftir þrjár vikur.





miðvikudagur, 4. apríl 2012

Blóm, prjón, kerti og kaffi









Lífið heima er svo fallegt. Það er snjór á sólpallinum og sólgeislarnir varpa sér af snjónum og af miklu afli í gegnum rúður og gluggatjöld inn á parketið hjá mér. Þar umbreytast þeir í hlýja birtu sem er ómissandi þáttur í hverju húshaldi. Þess konar birta sem leikur við allt sem gæti fangað auga ljósmyndarans.

Ég var læst úti í gær í rúma klukkustund og í stað þess að arka til baka í laxafabríkkuna til að ná í lykilinn af Baldri lagðist ég á auðan blett á snævi þöktum sólpallinum og fór í sólbað. Mér varð svo heitt að ég varð að fara úr úlpunni, flíspeysunni og síðerma ullarbolnum og lá að endingu á stuttermabolnum með handleggina bera. Þeir hafa ekki séð sól síðan í Indlandi!

Sambýlingarnir eru heima í Svíþjóð í páskafríi og við erum í foreldrafríi. Petra keypti lítið gult blóm til að skreyta fyrir páskana og nú er ég að hugsa um það, blessað blómið.

Ég er að prjóna sokk eftir sænskri uppskrift og ég er föst í hælnum. Ég stakk prjónunum í dokkuna og ég er svolítið hrædd um að þeir muni sitja þar eitthvað fram á vor. Verð að muna að senda mömmu uppskriftina til frekari þýðingar og útskýringa.

Ég drekk ekki kaffi en margir af mínu bestu vinum gera það. Þegar ég fæ leið á reykelsum finnst mér voða notalegt að fá kaffilykt í húsið, sem gerist oft því Baldur er svo góður vinur Lavazza og Segafredo. Svo er hvíta mokkakannan svo myndarleg.

Heyrðu, svo er ég komin í páskafrí sem er þar með laxafrí. Ljúúúúúft!

mánudagur, 2. apríl 2012

Vetrarfærð





Nú er kominn vetur aftur. Eftir snjóléttan vetur og snjólausan mars byrjar apríl með látum. Snjór í lögum eins og lasagna á jörðinni og snjókoma eins og jólakoma.

Snjókoma er alltaf vera aufúsugestur í mínum augum þar sem allt lýsist svo fallega upp við komu hennar og svo marrar fallega í þéttum snjó. Hún er samt ekki eins velkomin svona þegar maður er búinn að tjalda til vorukomu og þarf í flýti að pakka teppi og nesti ofan í bastkörfu og sveipa sig handklæði svo maður heilsi henni ekki á baðfötunum einum fata.

Sjáumst hvað hún endist blessunin. Þetta verður spennandi keppni: Sól vs. snjór.