miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Hafið samband

Við erum núna komin í farsímasamband.

Baldur: +45 60 70 33 39
Ásdís: +45 60 70 33 49

þriðjudagur, 30. ágúst 2005

Field's og froskar

Við kíktum í verslunarmiðstöðina Field's í dag. Hún líkist Smáralindinni að því leyti að gangarnir eru víðir og rúmt er um mann en þar endar samanburðurinn enda Field's mun stærri en Smáralindin. Ferðin var aðallega farin fyrir forvitnissakir.

Við fundum heilsuverslun sem því miður seldi mest lítið af þeim varningi sem við erum vön að kaupa í heilsuverslunum heima. Leitin að almennilegri heilsuverslun heldur því áfram. Við rákumst einnig á verslunina Olíur og edik sem sérhæfir sig einmitt í olíum og ediki. Þá er töluvert af tískuverslunum í kjarnanum og keypti ég mér pils og tösku í Vero Moda.

Úr Field's héldum við yfir til Stellu og Kristjáns og hjálpuðum þeim að bera upp tonnið. Okkur tókst líka að koma upp hillum í stofunni og við Stella röðuðum bókum í þær eftir kúnstarinnar reglum á meðan strákarnir komu upp skrifborði í gesta/barnaherberginu. Við hjóluðum síðan heim seint um kvöld í rökrinu og voru fegin luktunum sem við höfðum fyrr um daginn fest kaup á í Bilka.

Ps. Við gleymdum myndavélinni okkar heima þennan dag svo við birtum engar myndir en bendum á myndasíðu froskanna.

mánudagur, 29. ágúst 2005

Bakken

Í gær fórum við í skemmtigarðinn Bakken. Að sjálfsögðu voru keyptir heilsdagsmiðar til þess að hægt væri að prófa sem flest tæki. Þegar við vorum orðin þreytt á öllum hamaganginum var mjög þægilegt að geta gengið út úr garðinum og í rólegt og þægilegt skógarsvæði. Slík rólegheitaganga dugði til þess að hlaða batteríin til þess að snúa aftur í húllumhæið.

Í heildina fórum við 17 ferðir og voru margar þeirra allsvakalegar. Síðla kvölds snerum við svo heim glöð í bragði, lúin og annað okkar sjóveikt.

Við erum á hægri myndinni :)

Vatnsrússíbaninn...

Time is fun when you're having flies

Í dag eru komnar fjórar vikur síðan við fluttum inn á Frederikssundsvej og þar með fjórar vikur sem við höfum verið hér í Köben. Tíminn hefur tilhneigingu til að líða ótrúlega hratt þegar mikið er um að vera.

laugardagur, 27. ágúst 2005

Froskar í mat

Í kvöld buðum við froskunum í mat og var þemað blandað: ítölsk súpa, grískt feta-salat og danskur Valhallarís í eftirrétt, bar ísinn nafnið Baldur. Var kvöldið hið skemmtilegasta og fannst gestunum þægilegt að geta staldrað svo lengi í IKEA-sýningarbásnum, sem íbúðin okkar er, og prufað allt í rólegheitunum.

Baldur liggur á borðinu með skeið í sér.

föstudagur, 26. ágúst 2005

Útskrift og "froskabúrið" hreinsað

Þá er ég búin að útskrifast úr dönskunámskeiðinu og fékk þetta fína plagg því til sönnunar. Á því segir m.a. að Ásdis Maria Elfarsdôttir (skemmtileg stafsetning) hafi sótt "intensive language instruction course in Danish focussing on oral expression and listening comprehension and has successfully passed the final examination."

Við þau ykkar sem hafa hug á því að fara í skiptinám við KU mæli ég eindregið með þessu dönskunámskeiði. Kennslan er frábær og skilar virkilegum árangri, einkum er kemur að tal- og hlustunarþjálfun.

Seinna um daginn fórum við síðan að kíkja á Stellu og Kristján og nýju íbúðina þeirra. Þau höfðu beðið okkur um aðstoð við þrif á íbúðinni og þegar við komum á staðinn skildum við af hverju: íbúðin er risastór! Hún var þó ekki nándarnærri eins skítug og við höfðum gert okkur í hugarlund og því sóttist okkur fjórum verkið vel.

Þau buðu okkur síðan upp á dýrindis flatböku fyrir vel unnin störf og síðan var skrafað fram eftir kvöldi. Einstaklega skemmtilegt kvöld og til hamingju með nýju íbúðina Stella og Kristján, hún er virkilega skemmtileg.


Hér er flatbakan góða.

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Þreyti próf

Nú tekur að líða að lokum þessa dönskunámskeiðs sem ég hef sótt undanfarnar þrjár vikur. Þessi tími hefur verið dásamleg endurupplifun á unglingsárunum með sínum dönskukennslustundum, dönskustílum og dönskuhlustunaræfingum. Skóladagurinn hefst kl. 9 og honum lýkur kl. 12:30 og þá er maður frjáls fram eftir degi eða þar til kemur að því að sinna heimanáminu en það tekur yfirleitt ekki meira en 30 mínútur.

Þessi stundaskrá hefur fært mig inn í ansi þægilega rútínu en nú sér fyrir endann á henni í bili því síðasti skóladagurinn er á morgun. Við í bekknum tókum nefnilega próf í dag og á morgun er síðan "útskriftin". Mér finnst ég vera að endurupplifa menntaskólaárin út í gegn og fíla það í tætlur.

þriðjudagur, 23. ágúst 2005

CBS student

Nú er ég byrjaður að mæta í flotta skólann minn. Um þessar mundir stendur yfir ákveðin undirbúningsvika fyrir skiptinema. Hér eru allraþjóða kvikindi og hefur mér þegar tekist að kynnast nokkrum t.d. frá Svíþjóð, Þýskalandi, Ítalíu, Argentínu, Bandaríkjunum, Spáni og Tælandi. Þess ber að geta að mötuneytin í skólanum eru mjög góð og verðlagið sérdeilis sanngjarnt svo ekki þarf að hafa áhyggjur af sulti. Hér má skoða myndir af skólanum mínum.

mánudagur, 22. ágúst 2005

Massarnir mættir!

Já nú eru kögglarnir Baldur og Ásdís búin að finna sér fastan dvalarstað fyrir utan lögheimilið. Í dag mættum við í fyrsta skipti saman í gymmið og keyptum okkur kort. Þess ber að geta að valið var langt frá því að vera handahófskennt þar sem ég hef stundað ákveðnar vettvangsrannsóknir meðan Ásdís var á dönskunámskeiði.

Ég hef skoðað allnokkrar stöðvar hér í grenndinni og bar þessi af hvað varðar staðsetningu og aðstöðu, hún var reyndar sú langlangbesta. Stöðin er á tveimur hæðum og er neðri hæðin eins og sniðin að okkar þörfum, gúmmímottur um öll gólf, fullt af stöngum, lóðum og handlóðum.

Æfing dagsins var nú svona almenns eðlis og meira notuð til að kynnast gymminu og ná grúvinu á staðnum. Grúvið reyndist vera í góðu lagi og lóðin voru þung þ.a. við erum þrælsátt. Ekki spillir að kortin okkar eru einhvers konar stúdentakort og gilda í allar Hard Work stöðvarnar.

föstudagur, 19. ágúst 2005

Rölt um Amager

Í skólanum hjá mér í dag var myndin Okay eftir Jesper W. Nielsen sýnd. Þar sem hún kvað vera gott sýnishorn af dönskum kaldhæðnishúmor fannst okkur Baldri tilvalið að kíkja á hana og sáum alls ekki eftir því enda eðalmynd á ferð.

Að myndinni lokinni röltum við frá KUA (Københavns Universitet Amager) og tókum smá hring um Amager. Við kíktum m.a. í Amager Centret og pikknikkuðum í Lergravsparken.

Þaðan héldum við síðan í átt til Amagerstrandar en hún hafði daginn áður verið vígð af Frederik krónprinsi og Mary. Margt var um manninn á ströndinni þótt liðið væri á daginn og greinilegt að margur heimamaðurinn var að taka út nýju ströndina. Einhverjir flatmöguðu í sandinum, nokkrir hugdjarfir syntu í sjónum en flestir röltu bara um í rólegheitunum og gæddu sér á einhverju góðgæti.

Við óðum í flæðamálinu og létum það duga enda ekki búin fyrir sjóbað. Við hjóluðum síðan heim úr strandparadísinni alveg í skýjunum yfir því að búa í borg sem býður upp á strönd í bakgarði manns.

fimmtudagur, 18. ágúst 2005

Vestbad

Veðrið hefur leikið við borgarbúa þessa vikuna. Okkur fannst kjörið að nota alla þessa skínandi sól til að fá smá lit á föla kroppa. Þegar við dvöldum í Kaupmannahöfn árið 2001 fórum við nokkrum sinnum í sundlaugina Vestbad, sem var rétt hjá tjaldstæðinu, og vorum mjög hrifin. Við ákváðum að endurnýja kynni okkar við hana og eyða einum sólríkum degi þar. Við héldum snemma af stað á hjólfákum okkar og komum við í bakaríinu og Netto búðinni sem við versluðum svo oft við á sínum tíma.

Þegar í Vestbad var komið breiddum við úr strandmottunni okkar og tókum til við að flatmaga. Við vorum hvort um sig með sína dönsku bókina og reyndum að sannfæra okkur um að þetta væri ekki algjör letidagur þar sem við værum nú að lesa danskar bókmenntir og þar með á einhvers konar dönskunámskeiði, bara utandyra.

Við entumst þó ekki lengi við lesturinn enda er hægt að finna sér margt annað til dundurs í Vestbad. Í innilauginni er hægt að synda eða leika sér með sundleikföng. Í útisundlauginni er hægt að fara í rennibrautina og ofurhugar geta stokkið af háu bretti ofan í djúpa laugina. Þá er að sjálfsögðu hægt að fara í frisbí, eltingaleik og boltakast en skemmtilegast af öllu er þó að reyna fyrir sér á trampólínunum.

Síðla dags snérum við heim á leið, rjóð og sælleg - jafnvel pínu sólbrennd.

Fyrir utan Vestbad á yndislega sólríkum og heitum degi.

Axlarstaðan séð aftan frá.

Gaman saman.

Krossfiskurinn Baldur.

Hoppa hæð mína af gleði.

þriðjudagur, 16. ágúst 2005

Musteri heimilisins

Í dag gerðum við svolítið sem hvorugt okkar hefur nokkurn tímann á ævinni gert áður. Við keyptum okkur ódýrt dönskunámsskeið: sjónvarp og dvd-spilara. Ég man eftir skemmtilegri konu sem kallaði græjur af þessu tagi musteri heimilisins.

Þegar við vorum búin að setja musterið upp og tengja það við orkustöðvar sínar komumst við að því að við vorum ekki bara með ríkisstöðvarnar heldur nokkra tugi af alls konar stöðvum, dönskum, sænskum, norskum, þýskum, frönskum, enskum og amerískum. Þetta er líka í fyrsta skipti sem sem við höfum margar stöðvar og heitir þetta víst kabeltv meðal heimamanna.

Við horfðum á fræðsluþætti á Animal Planet, National Geographic og Discovery, allt með dönskum texta. Þó ber að varast textann því stundum ráfar maður inn á norsku eða sænsku stöðvarnar.

sunnudagur, 14. ágúst 2005

Absalon Camping

Fyrir fjórum árum vorum við Ásdís að túristast hér í Kaupmannahöfn og vorum á tjaldstæði í Rødovre sem heitir Absalon Camping. Í dag lögðum við land undir hjól og heimsóttum tjaldstæðið til að athuga hvort fjarlægðin gerði fjöllin blá eða hvort þau væru bara bleik eða eitthvað.

Við lögðum af stað héðan í svona-alltílagi-veðri en komumst að því að Absalon Camping er, eins og í minningunni, sólríkur og hlýr staður. Heimsóknin tókst með afbrigðum vel og öllum að óvörum drógum við fram frisbídisk og létum öllum illum látum, príluðum í trjám, vógum salt og ég veit ekki hvað og hvað.

Ásdís að reyna að vega salt með mér, hehe.

Jamm, alltaf gott að pikknikka.

Létum við eins og sannir villimenn.

laugardagur, 13. ágúst 2005

Zoologisk Have

Í dag hjóluðum við í dýragarðinn. Þegar þangað var komið sáum við að verð á árskorti samsvaraði þremur heimsóknum í garðinn. Við rukum því til og keyptum okkur sitthvort árskortið og heimsóttum nokkur dýr. Garðurinn er stór og við vorum sein á ferð þannig að við náðum ekki að skoða hann allan en það er allt í lagi, við eigum árskort.

Garðurinn hentar til fleiri hluta en að skoða bavíana, tígrisdýr, fíla og ferðamenn því þarna er kjörið að spássera í rólegheitunum og fá sér t.d. ís með árskortshafaafslætti. Við nýttum okkur þetta heita tilboð að sjálfsögðu og keyptum að auki dýrindis popp sem síðar reynist sannkallaður penguin-magnet.

Eftir þessa ævintýralegu ferð í dýragarðinn gengum við um Frederiksberg Have og fundum þar einhvers konar snuddutré. Hvað er nú það? Jú, það er tré sem foreldrar nota til að fá krakka til að hætta að nota snuddur. En hvernig fær tré barn til að hætta að nota snuddu? Börnin gefa trénu snudduna svo tréð geti gefið þær börnum sem þurfa á þeim að halda.

Af þessu má læra að foreldrum finnst eðlilega þægilegra að ljúga að börnunum sínum heldur en að segja að þau séu orðin stór og að snuddan skuli í ruslið.

Penguin Magnet

Yogakennsla

Smásamanburður, takið eftir myndinni á veggnum.

Playmate of the year

fimmtudagur, 11. ágúst 2005

Ikea túr 4

Það hljómar ótrúlega en á þeim 11 dögum, sem liðnir eru síðan við komum, höfum við nú náð því að fara fjórum sinnum í Ikea. Þetta hlýtur að vera einhvers konar met en hvað sem því líður erum við komin með nóg af Ikea í bili.

Í þetta sinn fórum við til að ljúka því sem eftir var og efst á blaði var rúmið sem okkur hafði ekki bara einu sinni heldur tvisvar mistekist að kaupa. Við höfðum fengið veður af því að rúmið okkar góða væri loksins til á lager svo við biðum ekki boðanna heldur fórum á staðinn og gátum loks keypt Sultan Storfors boxerdýnu með 25 ára ábyrgð.

Í leiðinni keyptum við einnig hægindastól, hornborð, auka eldhússtól og drekaplöntu (Dracaena Margin). Í þetta sinn ruglaðist ég ekki á stigagöngum þegar ég hljóp upp til að opna fyrir Baldri og sendibílsstjóranum sem roguðust með rúmdýnuna þessar fjórar hæðir.

Okkar fyrsta verk var að sjálfsögðu að pakka niður vindsænginni, þakka henni gott samstarf og setja upp nýja rúmið. Fram eftir kvöldi skemmtum við okkur síðan við að setja saman borð og stóla og koma þessum mublum haganlega fyrir í íbúðinni. Fundum einnig góðan stað fyrir drekaplöntuna og appelsínugula lampann sem við keyptum.

Þegar allt var komið á sinn stað litum við yfir stofuna og áttum ekki til orð yfir hversu notaleg og skemmtileg hún var orðin. Hápunktur dagsins var þó óneitanlega að fá að leggjast til hvílu í nýja 160 sentimetra rúminu okkar.

Svo spennt að fá loksins dýnu og yfirdýnu!

Appelsínugulur strumpur.

Eldhússtóll.

Baldur setur saman hægindastólinn.

miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Frisbí í Frederiksberg Have

Í dag hjóluðum við niður í Frederiksberg Have, tjilluðum aðeins og fórum í frisbí. Þetta er skemmtilegur garður og á leiðinni þangað hjólar maður framhjá Frederiksberg Hospital, þar sem mamma fæddist, og skólanum mínum.

Eftir rækilegt frisbíflipp og árásir á einkalíf snigla hjóluðum við glorsoltin heim á leið en þar sem við vorum orðin svo svöng að magar okkar voru við það að falla saman og breytast í svarthol, sogaðist ein Nettóbúð skuggalega nálægt okkur en endaði sem betur fer í körfu á hjólinu hennar Ásdísar.

Á leiðinni að garðinum hjóluðum við framhjá Frederiksberg Hospital.
 
Ásdís og nýi fákurinn hennar.
 
Vænghaf.
 
Ef ég bara teygi mig örlítið lengra...
 
Hippi í grænni laut.
 
Spásserað við höllina.
 
Persónunjósnir.
 
Netto komst í körfuna.

mánudagur, 8. ágúst 2005

Dönskunámskeið

Ég byrjaði í þriggja vikna dönskunámskeiði í dag sem er ætlað skiptinemum við Kaupmannahafnarháskóla. Ég tók metróið (M1) frá Nørreport Station að Islands Brygge og leitaði þar að byggingum 22-24 á Njalsgade 120. Ég rambaði inn í byggingu hugvísindadeildar en fann þar aðeins aðra týnda skiptinema. Saman tókst okkur að síðan að finna rétta staðinn sem var spölkorn frá. Þar skildu leiðir því ég sem manneskja með dönskunám að baki fór beint í stöðupróf á meðan þau hin, sem ég hafði verið samferða, fóru í byrjendahópinn.

Stöðuprófið samanstóð af skriftaræfingu og stuttu munnlegu prófi og að því loknu var ég skráð í einn af efri bekkjunum. Að kynningarfundi loknum söfnuðust síðan allir nemendurnir í sína bekki og komst ég þá að því að af tíu nemendum í mínum bekk voru fimm frá Þýskalandi og fimm frá Íslandi.

Nana, kennslukonan okkar, kynnti fyrir okkur helstu samræðufrösunum á dönsku og hvernig eigi að svara þeim. Það kom mér til dæmis á óvart að sjá hve mikið Danir nota sögnina gøre. Undir lok tímans leyfði Nana okkur síðan að spreyta okkur sjálf tvö og tvö. Du hedder Ásdís, ikke? Jo, det gør jeg.

föstudagur, 5. ágúst 2005

Heimilisbakstur

Síðan kassarnir komu höfum við verið upptekin að taka upp úr þeim og gleðjast yfir innihaldi þeirra. Hver hefði trúað því hve gaman það er að taka dagblöð utan af leirtaui og finna því sinn stað í eldhúsinnréttingunni? Eða brjóta saman handklæði og sængurföt og velta fyrir sér hvar best sé að koma því fyrir?

Nú erum við búin að taka upp úr öllum kössunum og íbúðin er ekki bara orðin heimilislegri, hún er orðin okkar heimili með okkar smáhlutum sem við þekkjum og finnst gott að hafa í kringum okkur.

Í dag ákvað ég svo að stíga skrefið til fulls og beita einu besta vopni hreiðurgerðar: bakstri. Að baka gefur manni tilfinningu fyrir eldhúsinu og færir heimilinu dýrindis ilm. Bananabrauðið var ekki aðeins gagnlegt vopn í hreiðurgerðinni heldur einnig gómsætt miðdegissnarl með smjöri og osti.

Ásdís og Baldur - baka ekki vandræði, baka bara heimili :)

Á góðum stað

Jæja, þá er komið að skýrslunni. Nú erum við flutt til Danmerkur og búin að koma okkur fyrir. Ferðin hingað gekk eins og í góðri lygasögu að því undanskyldu að okkur hefur ekki tekist að koma kveðjum til Margrétar Þórhildar eins og við vorum beðin um. Maður verður þá bara að notast við Andfax 3000 MasterFx+ hugskeytagræjuna sem allir eru víst með innbyggða.

Við erum rosalega ánægð með íbúðina og staðsetninguna, strætó stoppar beint fyrir utan, grænmetissalar á báða bóga, ódýrir veitingastaðir úti um allt og matvöruverslanir svo langt sem augað eygir.

fimmtudagur, 4. ágúst 2005

Lína Langsokkur reddar deginum

Okkur var farið að lengja eftir kössunum okkar í gær svo við hringdum í Samskip til að taka púlsinn. Þar var okkur tjáð að farmurinn væri nýkominn í bæinn og að við mættum búast við kössunum okkar milli 16 og 18. Það stóðst og mætti flutningabíll á svæðið rétt fyrir sex.

Í honum voru tveir litríkir kappar sem hjálpuðu okkur að koma dótinu inn í gang. Þrátt fyrir hamaganginn tókst okkur nú að halda uppi smá samtali þar sem fram kom að þeir væru að flýta sér þar sem þeir þyrftu að fara að leika í uppfærslu á Línu Langsokk. Ég náði því nú ekki hvaða hlutverk þeir léku en kannski voru þetta Tommi og Anna eða Lína og Níels - nema þeir hafi sameiginlega séð um hestinn.

Þegar tekið var upp úr kössunum kom í ljós að allir hlutir voru í góðu lagi. Eftir þó nokkuð puð kom að verðskuldaðri hvíld, nefnilega Lostglápi.

Baldur hendist upp stigann frár á fæti.
 
Búslóðin í kössum.
 
Loksins fengum við koddana okkar.
 
Tekið upp úr kössunum.

miðvikudagur, 3. ágúst 2005

Ferðalag í Ikea

Mér finnst með réttu að tala um ferðalag þegar ég tala um verslunarferð okkar í Ikea í gær. Við vorum eldsnemma á fótum enda langur dagur frammundan og vissara að taka hann snemma. Þar sem ferð okkar í Ikea í Gentofte kvöldið áður hafði ekki skilað þeim árangri sem vænst var eftir (þ.e. rúmi) höfðum við sofið á hörðu trégólfinu þessa nóttina - það útskýrir nú að mestu leyti hve árrisul við vorum þennan annan dag okkar í stórborginni.

Við höfðum því einsett okkur að fara í Ikea í Tåstrup sem okkur virtist ekki vera svo ýkja lengra frá okkur en sú í Gentofte. Við komumst fljótlega að því að það var misskilningur. Við urðum til að mynda að taka lest út til Tåstrup og taka þaðan innanbæjarvagn að versluninni.

Þegar við vorum komin á áfangastað tók við strangur vinnudagur sem fólst í að prufa sófa og stóla, borð og lampa. Okkur til mikillar gleði var okkur tjáð að rúmið, sem við höfðum mætur á, væri til á lager og fengum við þar til gert plagg sem við áttum að vísa við kassann. Þegar við komum drekkhlaðin þangað var okkur þó tjáð að síðasta rúmið hafði verið selt svo við sáum fram á aðra nótt á beru gólfinu. En heimsókn í Jysk reddaði okkur þessari líka fínu vindsæng, við það léttist brún okkar töluvert.

Við fengum að fljóta með sendibílnum og þegar heim var komið tóku Baldur og bílstjórinn að henda úr bílnum á stéttina á meðan ég hljóp upp í íbúð til að opna fyrir þeim og ryðja því litla sem var fyrir gangveginum burt.

Ég hljóp upp stigana hvern á fætur öðrum en aldrei sá ég okkar hurð. Þar sem rökhugsun náði aldrei í skottið á mér (ég hljóp svo hratt) hélt ég bara áfram upp stigana þangað til ég var komin á efstu hæð. Þá var ég orðin virkilega ringluð og taldi mér trú um að ég hefði hlaupið framhjá okkar hurð. Svo ég hljóp niður og sá þá að ég kannaðist ekki við nein af nöfnum nágrannanna. Í eitt augnablik fannst mér ég vera stödd í annarri vídd þar sem möguleikinn á því að íbúðin okkar hefði færst til eða allt breyst meðan við vorum í Ikea var raunverulegur. Þegar ég var aftur komin á jarðhæð fékk ég þó útskýringu á þessari dularfullu upplifun, ég hafði hlaupið upp stigaganginn hjá Frederikssundsvej 60 B en ekki 60 A!

Fegnust var ég þó að Baldur og bílstjórinn voru ekki farnir að bera sófann upp vitlausan stigagang. Bílstjóranum hefur eflaust fundist þetta furðuleg uppákoma en hann lét ekki á því bera og þegar við afsökuðum okkur með því að segjast hafa flutt inn í gær virtist hann taka því sem gildu.

Þegar allur varningurinn hafði verið borinn upp í íbúð tóku við klukkustundir af húsgagnasamanskrúfi: sófi, sófaborð, skrifborð og skrifborðsstóll, kollur og náttborð. Undir lok dags voru híbýli okkar farin að taka á sig mynd íbúðar þar sem sófi var kominn upp og í hann gátum við hlammað okkur. Það var góður endir á degi.

Sófinn sem okkur leist svo vel á og keyptum.
Reyndum en gátum ekki keypt hálfa búðina eins og til stóð.
 
Hálfnað verk þá hafið er.
 
Ta-da: Sófinn tilbúinn til notkunar.