miðvikudagur, 26. júní 2002

Heyr, heyr! Ég tek undir með síðasta ræðumanni, enda ekki annað hægt.

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið....

Veðrið úti er svo frábært að ég get ómögulega hugsað mér að sitja mínútunni lengur hér inná Bókhlöðu að gramsa í mannfræðitímaritum. Baldur er búinn að vinna klukkan 13 þannig að ég held ég hætti snemma í dag og hætti líka klukkan eitt.

Á svona degi á maður nefnilega að fara í sundlaugina og ekki bara hvaða sundlaug sem er, heldur verður maður að fara í Laugardalinn. Þar á maður að liggja í makindum í disknum eða liggja í sólbaði og skríða í pott 4 þegar hrollur kemur í beinin.

Síðan á maður að fara og fá sér ís, labba um Austurvöll og skoða mannlífið, klára ísinn og fara þá niður á tjörn að henda gamla brauðinu sem er búið að vera í bílnum frá því í ferðalaginu þar seinustu helgi í endurnar og gæsirnar og vonast innilega eftir að sjá litla gula unga á vappi.

Síðan á maður að fara í frísbí á góðu, grænu túni. Punktur og pasta, bókin er búin.

föstudagur, 21. júní 2002

Eitt og annað: Af í og ý

Baldur skrifaði þessa líka fínu færslu í gær eftir miklar takkaýtingar af minni hálfu. Fólk var farið að kvabba í mér að hafa ekki skrifað svo lengi en enginn áfellist Baldur! Svo ég setti upp fílupokasvip og sagðist ekki nenna að skrifa alltaf ein í þessa dagbók okkar, hefði hann kannski engan áhuga á þessu (þetta típíska hjónakvabb).

Núnú, hann tók sig sem sagt til, bretti upp ermarnar á stuttermabolnum (yeah right) og hóf skrifin. Hann taldi sér trú um að hann væri undir mikilli pressu við skrifin og skrifaði því að af miklu kappi og postaði strax án þess að prófarkalesa textann. Það lenti því á mér þennan blessaða rigningarmorgun að lesa yfir færsluna og kíkja eftir stafsetningarvillum.

Mikil ósköp, þær voru nokkrar. Og kem ég þá að kjarna máls míns. Sem ég les yfir textann skera örfá orð sig úr heildinni sökum ljótleika síns, eins og t.d. skrýmsli og Krýsuvík. Að mínu mati voru þessi orð bæði rituð með venjulegu í en ekki ý. Til að hafa vaðið fyrir neðan mig skellti ég mér því á síðuna leit.is og leitaði að þessum tveimur orðum til að sjá hvort væri rétt.

En mikil ósköp, í báðum tilvikum fann ég alveg heilan helling af síðum sem skrifðu orðin með í og ý. Þetta flækti málin óneitanlega fyrir mér og ég fór að velta fyrir mér hvort ég hefði verið svo óheppin að ramba akkúrat á þau orð íslenskunnar sem má skrifa bæði í og ý, eins og í spítu (spýtu). Frómt frá sagt þá þoli ég ekki slík orð, er ekki bara hægt að hafa einfalda reglu, taka ákvörðum og segja síðan: Já, héðan í frá verður orðið spíta aðeins skrifað með bókstafnum í og bókstafurinn ý mun ekki koma til greina og mun slíkt teljast til stafsetningarvillu.

En á hvaða grundvelli tók ég þá ákvörðun að leiðrétta texta Baldurs og setja frekar í í stað ý í orðunum skrýmsli og Krýsuvík? Jah, ég er ekki alveg viss en ég held að ákvörðunin hafi aðallega grundvallast á trúverðugleika og áreiðanleika síðnanna sem birtu fyrrgrein orð (þ.e. skrímsli og Krísuvík).

Þær síður sem skrifðu Krísuvík með í voru að mínu mati áreiðanlegri en þær sem skrifuðu orðið með ý. Þær sem notuðust við í voru t.d. hostel.is, austurleid.is, flensborg.is, gtyrfingsson.is, hraunbuar.is, landbunadarraduneyti.is, natturuvernd.is, grindavik.is og síðan einhver ferðaskrifstofan. Þar fyrir utan voru 180 síður sem fundust undir leitarorðinu Krísuvík en aðeins 3 undir hinu: Krýsuvík. Sem sagt, Krísuvík er það.
Að orðinu skrímsli. Orðið skrímsli er skemmtilegt orð. Ég tengi það alltaf við bækurnar um Einar Áskel og skrímslið sem hann taldi að dveldist undir rúmi hans. Í mörg ár var ég hrædd við að láta fæturnar dangla fram af rúmbrúninni af hræðslu við þetta Einar Áskels skrímsli. Ég er nokkuð viss um að það sé skrifað með í þar sem 219 síður gerðu slíkt hið sama en aðeins 25 notuðu ý í orðinu. Hananú!

fimmtudagur, 20. júní 2002

Ferðasaga

Jæja, eins og flestir vita fórum við í ferðalag um síðustu helgi. Við ákváðum að skoða Reykjanesið í smáatriðum og gefa okkur tíma í það. Við byrjuðum á því að keyra inn í Voga við Vatnsleysuströnd og tjölduðum þar.

Um morguninn prófuðum við svo að fara í lókalsundlaugina sem var bara firnagóð auk þess sem potturinn er heimili vatnaskrímslis nútímans... nefnilega ofurnuddtækisins. Eftir sundferðina pikknikkuðum við svo við kirkjuna og þurrkuðum tjaldið þar sem það hafði rignt um nóttina.

Næst á dagskrá var að kíkja á Garð, stoppuðum ekki í Keflavík í þetta sinn en það kemur seinna. Við keyrðum nú bara þar um en skoðuðum Garðskagavita og þar hitti ég líka svakalega spaka langvíu sem var rosalega mikið hrifin af fyrirsætustörfum. Nú áfram héldum við sem leið lá í gegnum Sandgerði, Hafnir og fram hjá Saltverksmiðjunni.

Þá var komið að hápunkti Reykjaness að okkar mati, nefnilega Reykjanesvita og Valahnjúki. Valahnjúkur er gróinn hóll þar sem einhver hefur einhverntíma búið og ef maður gengur upp brekkuna horfir maður beint niður þverhnípta klettana á brimandi sjóinn fyrir neðan og auðvitað er allt krökkt í fuglum. Þarna eyddum við drjúgum tíma í að skoða fugla og taka myndir.

Nú var okkur farið að langa nær sjónum og fórum því niður í fjöruna sem er nú ekki alveg eins og maður ímyndar sér fjörur (sandur, skeljar...) heldur var hún þakin risastórum steinum sem sumir voru eins og egg í laginu, aðrir eins og golfkúlur og enn aðrir holir eins og frumstæð leirker.

Eftir þetta allt saman lá leiðin til Grindavíkur sem var nú eins konar drive through því við vildum ná að Selatöngum áður en klukkan væri orðin háttatími. Við leggjum af stað út á hinn alræmda og grófgerða veg sem liggur að Krísuvík og sjáum eftir smá akstur skilti á hægri hönd sem vísar á Selatanga. Við beygjum inn og BONK... ég drep á bílnum, fer út og segi: ÓNEI!

Það sem hafði gerst var einfalt. Olíusían hafði orðið fyrir árás frá einhverjum steini sem lá í leyni (bundið mál) og var nú skökk á bílnum og öll olían farin af vélinni. Við vorum utan þjónustusvæðis símalega séð en náðum þó í 112 og fengum samband við Grindarvíkurpólitíið sem kom fljótlega og kallaði eftir aðstoð.

Eitthvað hafa skilaboðin skolast til á leiðinni til dráttarbílsins því hann kom ekki fyrr en þremur tímum eftir óhappið. Það var þó lán í óláni að þessir strákar voru hinir vænstu drengir og áttu til síu og olíu og öllu var kippt í liðinn einn, tveir og þrír. Þessi atburður varð líka til þess að við fórum ekki bara framhjá Keflavík heldur vorum við dregin þangað af örlögunum.

Þegar þessi svaðilför var á enda skutumst við í Kópavoginn og sváfum heima um nóttina. Morguninn eftir fórum við svo á Pétursstaði á Stokkseyri og tékkuðum á svæðinu. Áfram héldum við svo um sveitirnar í kring þar til við vorum komin í Skálholt, þá skoðuðum við kirkjuna og fornleifauppgröftinn sem er í gangi.

Þaðan fórum við svo á Þingvelli og tjölduðum við Gjábakka. Það var ágætt nema að við vorum ekki ein í svefnpokanum, það var nefnilega einhver kónguló sem vildi hlýja sér hjá okkur og beit mig í leiðinni svona eins og tíu sinnum. Á leiðinni heim skelltum við okkur svo í sund í Ljósafosslaug og keyrðum svo Grafninginn.

Og þannig var nú það.

miðvikudagur, 12. júní 2002

Ferðalög

Nú er kominn sá tími árs sem Íslendingar leggjast í ferðalög. Við Baldur erum Íslendingar og ætlum því að leggja upp í nokkur ferðalög þetta sumarið. Planið er að reyna að sjá sem mest af landinu enda verður þetta víst seinasta sumarið í bili á fróni.

Fyrsta ferðalag sumarsins verður farið næstu helgi. Hvert stefnan verður tekin er síðan annar handleggur því ekki höfur við enn gert neitt ferðaplan eins og í fyrra. Ætli það sé ekki best að kíkja á gamla planið, sjá hvert við fórum, hvað við eigum eftir og plana síðan út frá því?

Í tilefni þess að Ísland verði landið sem við sækjum heim þetta sumar fórum við í gær á stúfana og keyptum okkur Íslandskort. Við létum ekki staðar numið þar heldum fórum við rakleitt niður í túristamiðstöðina í Bankastræti og birgðum okkur upp af bæklingum. Taskan stútfylltist og ég sé fram á að það taki sinn tíma að renna í gegnum þetta lesefni. Við þurfum að öllum líkindum að grúfa okkur yfir nýja kortið og rína í bæjarnöfn og staðarheiti til að vita hvert okkur langar.

Hvað um það, næstu helgi verður við einhversstaðar út í sveit í tjaldi, með prímus að sötra te.

mánudagur, 10. júní 2002

Dalalíf og fleiri sápur

Við erum búin að vera duglega að nýta okkur safnkost Borgarbókasafnanna að undanförnu. Við fórum t.a.m. upp í Gerðuberg fimmtudaginn seinasta og fundum þar rekka með helling af skemmtilegu fræðsluefni. Rúsínan í pylsuendanum er að fræðsluspólur eru fríar og því gátum við tekið eins og okkur lysti. Reyndar er hámarkið fimm spólur í senn og urðum við að sætta okkur við það með semingi.

Af þessum fimm erum við búin að horfa á tvær. Önnur var úr þáttaröðinni Lonely Planet og fjallaði um Eyjaálfu, nánar tiltekið eyjarnar Fiji, Vanuatu og Solomon eyjar. Þar var ég vel með á nótunum enda búin með námskeiðið Etnógrafía Eyjaálfu.

Sú síðari, Micro Cosmos, var alveg frábær og skemmtum við okkur konunglega yfir henni. Hún fjallaði nefnilega um skordýr og undraveröld þeirra sem við mannskepnurnar verðum ekki mikið varar við. Við komumst t.d. að því að könglulær eru eldsnöggar að bregðast við þegar vitlaus engispretta stekkur ítrekað í vefinn hennar þangað til að lokum hún festist. Það var eins og hún væri að plasta bretti, svo snögg og afkastamikil var þessi könguló. Eftir þessa meðferð var engisprettan eins og múmía, nema hvað hún var uppdópuð af köngulóareitri.

Núna erum við mætt aftur á bókasafnið en með annað markmið í huga. Við erum að leita að hljóðbókum til að hlusta á í labbitúrum. Úr nógu er að velja og áttum við Baldur erfitt með að ákveða hverja væri best að taka til að byrja með. Ég ákvað að gerast þjóðleg og tók því Dalalíf I: Æskuleikir og ástir á meðan Baldur valdi söguna Hið undarlega mál Jekylls og Hydes. Þar fyrir utan tókum við sitthvora slökunarspóluna.

Mættur í vinnu

Dagurinn í dag var óvenjulegur að einu leyti, ég mætti í vinnuna. Það var alveg barasta ágætt að mæta aftur, ég á að vera hálfan daginn fyrst um sinn en svo eykst það sjálfsagt.

Núna erum við Ásdís á bókasafninu að taka hljóðbækur. Á næstu dögum ætlum við að prófa að labba í vinnuna og fannst okkur það snjallræði að lesa bækur á meðan, nota tímann skiljú.

föstudagur, 7. júní 2002

Eins og bráðin smjörstykki

Við kíktum í heimsókn til Einars og Sólveigar í gær og fengum þá að sjá litla gimsteininn þeirra, hana Sædísi Ósk. Fyrst þegar okkur bar að garði var hún nýsofnuð og því urðum við að tippla inn á tánum til að fá á hana litið.

Þegar við vorum hins vegar hálfnuð með vöfflustaflann heyrðist hljóð úr horni, búhú, fæ ég engar vöfflur? Akkuru er ég skilin eftir útundan? Þá var náð í prinsessuna og við Baldur féllum alveg kylliflöt fyrir henni. Hún er gullfalleg og svo skýr.

Það var eins og hún væri mikið að pæla í hlutunum og þegar Einar fór að gretta sig til að fá hana til að brosa horfði hún á hann í forundran. Það var eins og hún væri að hugsa: Hvað er eiginlega að honum pabba? Síðan kom svipur sem virtist segja: Ég þekki þennan náunga ekki!

Hún varð mjög hrifin af Baldri og þegar hún brosti bráðnaði maður eins og smjör. Baldur er nefnilega svo klár, hann kann fótanudd og við Sædís virðumst eiga það sameiginlegt að finnast fótanudd alveg óskaplega gott.

fimmtudagur, 6. júní 2002

Munaðarlaus

Jæja þá eru folöldin flogin og komin með faraldsfæturna undir sig á ný. Ég skutlaði þeim á völlinn í gær og var svona að gæla við að láta stinga mér í handfarangurinn en það er víst búið að staðla allt svoleiðis og ekki er ég staðlaður.

Þau ætluðu að gista í París eina nótt og svo á að stökkva af stað til Montóðalsins í Stilkalandi. Ég vildi nú ekki senda þau ein út í hinn hættulega heim þannig að ég samdi við lífvarðafyrirtækið JÓK (Júlían, Ólöf og Karl) og verða þau stand by. Þau þekkja vel til folaldanna og eru því besta fólkið í verkið, svo er líka nauðsynlegt að hafa njósnara á staðnum.

miðvikudagur, 5. júní 2002

Mamma og pabbi kveðja landið og miðin

Í gærmorgun þegar Ásdís var nýlögð af stað í vinnuna þá hringdi síminn og í honum voru mamma og pabbi að spyrja mig hvort ég væri til í að fara í smá lautarferð. Ég var meira en lítið til í það og sóttu mig med det samme á Digranesveginn.

Ég bjóst við að næsta skref væri Heiðmörk eða eitthvað svoleiðis en það var ekki þannig. Við fórum sem leið lá beint út úr bænum í átt til Hveragerðis en í staðinn fyrir að fara þangað fórum við Þrengslin. Þar stoppuðum við aðeins til að litast um, taka myndir og rétta úr okkur.

Þegar við vorum búin að keyra í smástund frá þeim stað þá beygðum við útaf á torfæran veg sem er ekki ætlaður öðrum en jeppamönnum. Þetta var sandvegur og við fórum upp einhverja brekku í fjórhjóladrifinu og viti menn handan hennar var gullfallegt útsýni beint yfir magnaða sandfjöru og að sjálfsöðgu sjóinn, maður sá meira að segja mjög vel til Vestmannaeyja.

Þegar við vorum búin að leika í nokkrum dömubindaauglýsingum í fjörunni með tilheyrandi látum fórum við í kaffi til Jóhanns Óla fuglafréttaritara RÚV. Hann býr á Stokkseyri í mjög sætu nýuppgerðu húsi. Útsýnið þar er stórkostlegt og í gær sást svo vel í allar áttir að það var eins og hver einasta þúfa og hver einasti jökull stæðu á tánum svo maður sæi þau aðeins betur.

Eftir að hafa kvatt Jóhann Óla þá heimsóttum við náttúruperluna Urriðafoss þar sem ég tók heilan helling af myndum með tilheyrandi príli og látum. Á þessum tímapunkti vorum við öll orðin svolítið þvæld og rykug þannig að eðlilegast var að skella sér í sund og var það gert í Skeiðalaug.

Eftir sundferðina pikknikkuðum við bigtime með forrétti, aðalrétti og að sjálfsögðu tvöföldum eftirrétti. Hrein og södd héldum við svo aftur af stað og var stefnan tekin á Skálholt þar sem vinur okkar séra Egill Hallgrímsson er prestur. Hann var að vísu ekki heima þegar okkur bar að garði en konan hans hún Ólafía tók vel á móti okkur og bar fram svaladrykki og nammi meðan við biðum.

Það var mjög gaman að heimsækja þau og staðurinn er frábær. Eftir að hafa skoðað mótorhjólið hans Egils og spjallað helling var haldið í bæinn þar sem folöldin þurftu að kasta kveðju á fleiri.

Þetta er fréttaritari dagbókarinnar í Árnessýlu.

þriðjudagur, 4. júní 2002

Kaktusar í leirpottum

Það var stelpukvöld hjá mér í gær og mannfræðigengið mætti á svæðið: Sigga, Dögg, Lísa og Birgitta. Elva er út í Svíþjóð og mætti vitaskuld ekki. Þetta er víst í seinasta skiptið sem gengið Verð að skilja hittist því Birgitta er að flytja til Þýskalands og Sigga verður í Svíþjóð í vetur. Þetta verður eitthvað fátæklegt næsta vetur. Hvað um það, hver nennir að pæla í vetri þegar veðrið er eins dásamlegt og það er í dag?

Af skrifstofunni sem ég vinn í hér í Odda hef ég frábært útsýni. Það eina sem skyggir á eru kaktusarnir tveir í sætu leirpottunum sínum. Iðagræn týn, heiður himinn, laufguð trén, gosbrunnurinn í tjörninni og í síðast en ekki síst Esjan góða. Skrýtið hvað hún virðist nálægt héðan séð, það er eins og Þingholtið sé við rætur fjallsins.

Nú er ég alveg að verða búin með þennan vinnudag og get þá haldið galvösk út í sólskinið. Ég held að skynsamlegasta ákvörðunin sem maður getur tekið í slíkri blíðu sé að fara í sund. Baldur er reyndar að ferðast um landið með folöldunum sínum áður en þau strjúka til Frakklands. Ég verð því bara ein í þetta sinn, ein í þeim skilningi að ég verð Baldurslaus. Það þýðir einfaldlega að enginn verður til staðar til að kasta bolta í hausinn á mér, skvetta vatni framan í mig eða synda mig niður.

mánudagur, 3. júní 2002

Ys og þys út af heilum helling

Ég sit núna upp á skrifstofu Dr. Unnar Dísar Skaptadóttur mannfræðings. Þetta er þriðji vinnudagurinn og ég fíla mig í tætlur. Fyrsta verkefnið mitt var að læra á forritið SoloWeb 2,5 til að gera heimasíðu fyrir Unni. Ég er nefnilega að vinna sem aðstoðarmaður hennar í sumar, aðstoða við rannsóknir og undirbúning námskeiða. Ég verð svona allt múligt man. Geggjað.

Ég ræð mér algjörlega sjálf, hvenær ég mæti, hversu mikið ég vinn og hvenær ég hætti. Ég held ég taki mér frí á föstudögum í sumar og vinni aðeins meira hina fjóra daga vikunnar. Það er gott plan. Held ég. Vonandi.

Helgin leið hratt og það var af nógu að taka. Föstudagurinn fór auðvitað allur í útskrift Andra. Veislan var alveg öldingis ágæt, okkur Baldri kom mest á óvart að þeir feðgar, anti-grænmetisætur, hefðu ákveðið að hafa tapas-rétti á boðstólum. Það eina sem var kjötkyns var lax á prjónum. Annars samanstóð veisluborðið af ristuðum snittum, ólívuolíubornum með allskyns gómsætu áleggi. Einnig aspas til að dífa í sósu. Lítil salöt í salatblöðum. Gærnmetisætum leið eins og blóma í eggi (Baldur varð að Baldursbrá).

Áfram með smjörið. Laugardagurinn byrjaði á keyrslu upp í Haukadal því til stóð að græða upp landið á Tortu. Það tók þennan galvaska hóp ekki langan tíma að sá og klára allt úr pokunum og því var næst á dagskrá að pikk-nikka.

Við Baldur vorum svo miklir lúðar að taka lítið sem ekkert nesti með okkur en það kom ekki að sök þar sem Stella amma var með þetta dýrindis kartöflusalat í farteskinu. Ég hef aldrei borðað svona góðan mat í pikk-nikk áður, nei hei. Við sátum við í dágóða stund en um hádegisbil var haldið heim á leið.

Þegar þangað var komið drifum við Baldur okkur yfir til pabba til að hjálpa til við flutningana. Þeir feðgar voru nefnilega að flytja yfir í Pókavoginn. Þegar okkur dreif að var allt á fullu, Erna og Alda ráku á eftir köllunum til að geta byrjað að þrífa og þeir greyin höfðu vart undan við að hlaupa með kassa og poka út í bíl. Annars var mestmegnið búið og því sluppum við með skrekkinn. Í staðinn tók ég bara myndir af elsku Þingásnum því þangað á ég víst ekki eftir að koma í bráð.