laugardagur, 30. október 2010

Kama Sutra í Kajuraho

Árið 1838 var breskur landkönnuður á ferðinni um Makudhya Pradesh sem er fylki norðarlega í Indlandi. Til að stytta sér leið braust hann í gegnum frumskóg nokkurn með föruneyti sínu. Þar rambaði hann á dýrðleg hof inn í miðjum frumskóginum, hof sem frumskógurinn hafði gleypt og varðveitt í nokkrar aldir. Flest hofanna voru í rúst en þó voru um 25 þeirra í nokkuð eða jafnvel mjög góðu ástandi. Það sem vakti sérlegan áhuga voru stytturnar og freskurnar sem hoggnar höfðu verið í mjúkan og ljósan stein úr árbakka Ken árinnar. Flestar myndirnar sýndu menn og fíla í bardögum en svo voru höggmyndir sem sýndu fólk í hinum ýmsustu kynlífsstellingum úr kama sutra fræðunum. Einstaklega áberandi voru styttur af barmmiklum konum með sveigju í baki og upprétta handleggi, í eggjandi dansi. Viti menn, nýr ferðamannastaður hafði fæðst.

Við komum hingað til Kajuraho til að skoða þessi hof og höggmyndir. Við leigðum okkur sitthvort ´80s vasadiskóið með leiðsögn um svæðið. Þannig fengum við að vita að samkvæmt helgisögum á tunglguðinn Chandra að hafa hrifist svo mjög af ungmey nokkurri þegar hún baðaði sig í lækjasprænu að hann kom til jarðar og gat henni son. Á þessi sonur að hafa byggt hofin við Kajuraho. Hins vegar halda sagnfræðingar því fram að Chandela ættveldið hafi staðið fyrir byggingu hofana á árunum 950 til 1050. Hofin eru helguð hinumm ýmsustu guðum: Shiva, Vishnu, Parvati, Surya, Kali, Ganesh og jafnvel Nandi, nautinu sem dregur vagn Shiva.

Við helgiathafnir voru guðunum færðar fórnir úr frumefnunum fimm; blómakransar og ávextir (jörð), bjölluhljómur (ether), eldur í lömpum og reykelsi (loft), og svo á vatn að hafa flætt um þar til gerðar rennur innan hofsins. Fyrir framan altarið var upphækkað svið sem var notað sem danspallur. Í öllum hornum upp í lofti voru styttur af þokkafullum kvendönsurum og sitthvoru megin ofan við sviðið voru gluggar og þar stóðu seiðkarlar sem stýrðu hreinsunargaldri á meðan brúðurin steig stimamjúkan dans á sviðinu fyrir neðan. Þvílík athöfn! Þetta hefur aldeilis verið sjón að sjá.

Við tókum góðan slatta af myndum og linsan beindist helst að kama sutra styttum. Við munum reyna að uppfæra þær á vefinn eins hratt og auðið er því ég veit að margir bíða spenntir haha!

miðvikudagur, 27. október 2010

Lífsreynsla fyrir allan peninginn

Undanfarna daga höfum við verið í höfuðvígi heilagleika hindúasiðs, Varanasi. Mig langar til að byrja þessa færslu á að mæla með borginni sem algeru mösti fyrir Indlandsfara af öllum gerðum. Um leið og við komum út úr lestinni frá Bodhgaya hófst fjörið, leigubílstjórar og útsendarar þeirra flykktust í kringum okkur og franska konu sem við hittum í þvögunni. Þetta er náttúrulega alvanalegt en fljótlega brá út af hefðinni og skemmtileg uppboðsstemning myndaðist, Slegið í fyrsta öðru ooooog þriðja: túristabúnt fyrir þig mæ frend!

Til að koma í veg fyrir svik og pretti, sem iðkaðir eru jöfnum höndum við heilagleikann, höfðum við pantað gistingu hóteli sem Lonely Planet mælti með. Bókin lýsti því sem svo að herbergin væru "large, clean and homely". Það reyndist á minni ensku vera "dark and dingy". Klukkan var orðin margt og við of þreytt til að sjoppa svo við fórum inn í dimman klefann og lögðumst til hvílu. Morguninn eftir fluttum við á frábært hótel við fyrsta hanagal og hittum þar vini, Noémi og Florent, sem voru með okkur í brúðkaupinu í Digha.

Svona brölt er allt hluti af reynslunni og þegar upp er staðið er þetta bara skemmtilegt, til að njóta fjallstinda þarf að heimsækja dalina líka. Varanasi er sannarlega full af hvoru tveggja. Gaman að fylgjast með sjálfum sér og sjá hvernig viðhorf til alls breytast um leið og maður hefur öruggt skjól: Gott hótelherbergi uppi á þakterras með útsýni yfir allan heiminn!

Terrasinn reyndist fullkominn staður til að fylgjast með tveimur aukasamgöngukerfum sem liggja ofanaá borginni. Fyrra kerfið er samgönguleið apanna, þeir hoppa þak af þaki og hvíla sig í skuggsælum skotum. Terrasinn okkar var vinsæll þar sem þar höfðu þeir bæði stóla og borð. Seinna kerfið var mun ofar og af öðrum toga. Hvern einasta eftirmiðdag þegar vindarnir breytast æfa þúsundir heimamanna á öllum aldri sig í að stýra heimasmíðuðum flugdrekum. Þann 14. janúar ár hvert er haldin flugdrekakeppni og er undirbúningurinn vægast sagt tilkomumikill, er samt hræddur um að fuglarnir séu ekki sammála mér.

Á neðri hæðum borgarinnar er engin einföld leið að neinu nema þá helst þegar gengið er upp eða niður með ánni. Nokkrar umferðaræðar liggja um borgina, allar fullar af mótorhjólum, beljum, sölubásum, mótor- og hjólarikkshawvögnum og stundum fílum. Aðrar samgönguleiðir þarf að fara fótgangandi þar sem þær liggja um eldgömul, kræklótt og örmjó miðaldastræti. Af fenginni reynslu get ég staðfest að það að ganga í flasið á svörtu risanauti í dimmu húsasundi seint að kveldi er ógleymanleg reynsla. Þar þarf að láta hart mæta hörðu en stundum er bara ekki pláss til þess og þá þarf að fara aðra leið. Í Varanasi telja menn það gæfumerki að stíga með vinstri fæti í mykju, heilladísirnar umvöfðu spúsu mína samkvæmt því -mikið lukkudýr þar á ferðinni.

Nokkrum sinnum gengum við upp og niður með Gangesfljóti og virtum fyrir okkur það sem fram fór. Þangað fer fólk til að baða sig, þvo þvott, bursta tennur, synda, hitta helga menn, fá rakstur og nudd, hugleiða og fylgja látnum til hinstu hvílu. Flest atriðin eru hirst og her með ánni en hið síðastnefnda er framkvæmt allan sólarhringinn á tveimur stöðum. Þar eru lík alla jafna brennd og í húsum þar við bíða aldraðir dauðans svo þeir megi leggjast til hinstu hvílu í hinu helga fljóti. Þó eru ekki allir brenndir. Börnum yngri en 10 ára, óléttum konum, fórnarlömbum kóbraslöngu, sadúum (helgum mönnum) og holdsveikum er hent út í ánna miðja án þess að eldur komi þar nærri. Ástæðan er sú að börnin, óléttu konurnar, sadúarnir og slöngufórnarlömbin þurfa ekki hreinsunareldinn þar sem þau eru hrein af heilagleika í gegn. Holdsveikir brenna víst með vondri lykt og klára dæmið því í næsta lífi.

Við heimsóttum báða brennslustaðina og horfðum á lík konu brennt, allt frá undirbúiningi og langt inn í syndahreinsunina, hvernig líkið varða smátt og smátt óþekkjanlegt. Einnig sáum við einn af þeim sem ekki hlaut bálköst á floti rétt hjá og verð ég að segja að bálkösturinn virkaði á mig sem eðlilegri leið í við þessar aðstæður. Fjölskyldur látinna stóðu þarna við og var áhugavert að standa svo nærri tímamótum annara, sjá siðina, lífið og dauðann. Þessu gleymir maður nú sennilega ekki.

Síðasta samgönguæðin sem við prófuðum var Ganges sjálf. Við lögðum í siglingu rétt fyrir sólarupprás til að sjá morgunverkin frá annari hlið, allt afskaplega litríkt lifandi og fallegt. Talandi um litríkt þá er í Varanasi haldin Puja (stærðarinnar trúarhátíð) hvert einasta kvöld. Möntrusöngur og hreinsunarathafnir á fullu gasi í u.þ.b. klukkustund. Fjöldi fólks mætir hvert einasta kvöld, syngur og leggur inn karma eftir bestu getur. Við tókum þátt í einni svona athöfn og fleyttum kertum á blómafylltum bananalaufsbátum sem ætlaðir voru fjölskyldum okkar. Önnur kvöld létum við duga að fylgjast með dýrðinni enda kappnóg fyrir augu og eyru að meðtaka.

Af öllu þessu má ætla að Varanasi sé skítug borg við mengaða á. Full af kúamykju, hundaskít, rusli og hráka. Það er líka alveg rétt, hún er stútfull af þessu öllu og í ánni fljóta lík fólks og hræ kúa auk þess sem magn saurgerla í hverjum lítra er þrjúþúsundfalt viðmiðunarmagn. Það er það magnaða við staðinn að þrátt fyrir akkúrat þetta skín sjarmerandi karakterinn í gegn, með kryddaðri reykelsisangan, og fer létt með það. Takk Varanasi.

föstudagur, 22. október 2010

Myndir úr indversku brúðkaupi

Við erum búin að henda inn myndum frá brúðkaupinu í Digha, endilega kíkið á þær á flickr síðunni okkar hér.

Hér koma nokkur sýnishorn:

Gift!



Við með brúðhjónunum

fimmtudagur, 21. október 2010

Í bænum hans Búdda

Við erum núna í smábænum Bodhgaya og komum hingað í fyrradag með næturlest. Bærinn er frægur fyrir eitt og aðeins eitt: Undir bodhi tré nokkru fyrir um 2600 árum uppljómaðist prinsinn Siddarta Gautama og varð Búdda. Bærinn er því einn helgasti áfangastaður búddista enda flykkjast pílagrímar frá Japan, Kambódíu, Tælandi, Víetnam, Bútan, Búrma, Tíbet og Kína til bæjarins. Flestar þessara þjóða eru auk þess með hof og klaustur í bænum og í klaustrunum er hægt að fá gistingu kæri menn sig um það. Í tengslum við allt þetta er síðan fjöldinn allur af námskeiðum í boði í hugleiðslu, vipassana (þagnarbúðir) og búddisma, jafnvel hægt að læra tíbetsku.

Bodhi tréð stendur í dag við fallegt hof sem var reist til heiðurs Búdda fyrir um 1400 árum. Mahabodhi hofið er á heimsminjaskrá SÞ enda um merkilegar minjar að ræða. Reyndar er ekki um upprunalega bodhi tréð að ræða því afbrýðisöm eiginkona konungsins Ashoka hjó það niður þegar henni fannst eiginmaðurinn hafa sýnt búddisma og trénu sjálfu of mikinn áhuga. Hinsvegar hafði einhver verið nógu hagsýnn til að taka afleggjara af trénu og plantað honum í Sri Lanka, svo tréð við Mahabodhi hofið er í raun afleggjari af þeim afleggjara.

Þegar við fórum að heimsækja hofið og tréð var þar allt krökkt af ferðamönnum. Sérstaklega vakti áhuga okkur hópur eldri borgara sem allir báru rauða derhúfu með gulum stöfum. Við giskuðum á að þau væru frá Kambódíu en komumst síðar að því að þau væru frá Búrma. Allir voru ferðamennirnir ólmir í að ná í lauf eða fræ af þessu merka tré og stóðu í því að troða spítum gegnum rimlana til að reyna að krækja í merkilegheitin alveg þangað til vörðurinn kom að þeim. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með aðförunum, og enn fyndnara var að tréð lét eitt af fræjum sínum detta beint ofan á hausinn á Baldri. Þeir sem sáu þetta vildu meina að um blessun væri að ræða svo Baldur lagði fræið á þar til gert fat sem fórn til Búdda eða trésins.

Núna erum við á netkaffihúsi hér í þessum annars lágstemmda bæ. Hér er möl á gólfum og tjald yfir, semsé einhverskonar kaffihúsatjald. Svo eru mýs á vappi sem við höfum gaman að fylgjast með. Ansi smáar og sætar en aðeins of kvikar fyrir minn smekk. Ég held mig allavega frá bekkjunum sem þær hlaupa undir og vona að þær haldi sér frá matnum mínum :)

Næsti áfangastaður: Varanasi. Lonely Planet segir borgina ekki hlífa neinum svo við erum nett spennt að sjá hvernig við fílum Varanasi.

sunnudagur, 17. október 2010

Ta-ta Darjeeling!

Á morgun kveðjum við Darjeeling. Bærinn kúrir sig í fjallshlíð litla 2134 metra ofan við sjávarmál og ætli maður nokkurn skapaðan hlut annan verður maður að hlykkjast niður eftir fjallvegum 500 til 1000 metra niður (2-4 klst.) og svo aftur upp í næstu fjallshlíðarkúru.

Við komum hingað fyrir tíu dögum ásamt fjórum vinum úr brúðkaupinu í Digha. Komum okkur strax fyrir í herbergi sem við leigjum af Matildu og Genesis, hjónum á eftirlaunum sem reka vinsælt gistiheimili hér í bæ. Darjeeling er alger andstæða borga sem þekktar eru fyrir að sofa ekki að því leyti að klukkan átta á kvöldin lokar allt og öll ljós eru slökkt, það skýrir líka hvers vegna fólk er árrisult og engum þykir tiltökumál að fylgjast með sólarupprás milli fimm og hálfsex. Koma mér í hug máltæki eins og: Í háttinn klukkan átta, morgunstund gefur gull í mund og morgungull kallar á miðdegisblund. Höfum haft það gott hérna, aðallega rólegt ef frá er talin þriggja daga fjallganga.

Ég ætla nú ekki að tíunda gönguferðina lið fyrir lið en þetta var bæði upp og niður og svo aftur lengra upp og aðeins niður aftur. Í lok fyrsta dagsins, eftir 14 kílómtra göngu, gistum við í afar einfaldri en huggulegri bændagistingu. Þess ber að geta að bændagistingin var í Nepal. Rafmagnsnotkun var algerlega í lágmarki og húsið ókynt. Fyrir vikið varð eldhúsið aðalfélagsmiðstöðin enda eldstóin þar (og maturinn!). Húseigendur buðu okkur te og elduðu ofaní okkur bæði kvöld- og morgunmat meðan 9 ára nágrannadóttir gekk um beina. Á öðrum og þriðja degi gengum við u.þ.b. 21 km á hvorum en það sem meira er um vert að í 3636 metra hæð í Sandakhpur klukkan 5:20 sáum við sólina gægjast upp á milli fjallanna og lita hæstu tinda heims bleika, appelsínugula, gula og skjannahvíta. Ber þar helst að nefna hinn stórbrotna tind Khangchendzonga (8.598 m). Einnig sáum við hið margfræga Everest (8,848 m) þó það væri talsvert lengra frá.

Darjeeling er mikill ferðamannastaður og svolítið annar hópur þar en maður er vanur að sjá í Indlandi. Tók ég t.d. mun meira eftir frönskum ferðamönnum heldur en áður. Annað sem var öðruvísi en á flestum ferðamannastöðum Indlands: Úlpur, lokaðir skór, húfur, vettlingar, flíspeysur og så videre. Hér er talsvert svalara en niðurfrá.

Að þessu sinni var líka mikið af túristum frá öllum helstu nærsveitum (alveg til Delhi skilst mér) þar sem hátíðahöld kölluð Durga Puja stóðu yfir. Durga Puja þýðir í raun bara Durga Partí en Durga þessi er kvenorkudæmi, einhvers konar gyðja, afar flókin að gerð, erfitt að nálgast eða botna nokkuð í. Hún er semsagt þessi fjarlæga típa á sama tíma og hún er líka móðir alheimsins, afar mögnuð gella og tákngervingur heildar. Hún er vinsæl og veit af því. Í tilefni af hátíðinni var svið á aðaltorgi bæjarins og dans- og tónslistaratriði í lange baner, svolítil 17. júní stemning.

Í lokin má nefna að Darjeeling bær er frægur fyrir mikla teræktun og ber nokkuð þar á lífrænni ræktun, við heimsóttum verksmiðju Harrods sem einmitt er með lífrænt te. Einnig kíktum við í dýragarð staðarins og var jafnmikið tekið af myndum af okkur og Bengaltígrunum, Indverjum finnst nefnilega voðalega gaman að eiga myndir af sér með Norrænum fyrirmennum. Stundum hef ég líka gaman af þessum myndatökum en stundum alls ekki. Þennan dag hafði ég gaman af þeim :)

miðvikudagur, 6. október 2010

Fréttir úr stórborginni

Dagarnir hafa liðið hratt hér í Kolkata og við erum búin að reyna eitt og annað. Við erum hér í félagsskap þriggja annarra para sem við kynntumst í brúðkaupinu: Fabian og Anissa, Yoann og Claire og Noémie og Flo. Við erum búin að ganga um helstu götur borgarinnar, ferðast með metróinu sem er bara ein lína í sitthvora áttina, skutlast um í gulum leigubílum og sitja föst í rosalegri umferðateppu sem virðist standa yfir frá sjö á morgnana til níu á kvöldin.

Mér finnst vert að minnast á að Kolkata er ólík öðrum stórborgum í Indlandi. Hún er vinalegri, borgarbúar eru mjög hjálpsamir en láta mann annars alveg vera og við höfum enn ekki lent á neinum sem vill svíkja og pretta sem er svo mikið um í t.d. Delhi. Þá virkar borgin líka hreinni á okkur, hér eru t.d. ekki opin holræsi eins og í Bangalore og svo er alveg frábært að geta nýtt sér metróið þó að biðraðir í miðasöluna séu langar og hæggengar.

Fyrr í vikunni heimsóttum við hjálparstofnun móður Teresu þar sem við fengum m.a. að sjá yfirlit yfir ævi hennar, hrátt herbergið sem hún bjó í lungann úr ævinni og gröfina. Við notuðum tækifærið og skráðum okkur sem sjálfboðaliðar til eins dags og mættum snemma um morguninn daginn eftir. Við völdum að fara á stað sem heitir Prem Dan þar sem hinir sjúku og deyjandi dvelja. Ég var í því að þvo þvott, bera eldivið og mata sjúklinga á meðan Baldur rakaði andlit og höfuð karlanna, hengdi upp þvott og skrúbbaði gólf. Þetta var vægast sagt mjög sérstök upplifun og oft á köflum erfið, sér í lagi var erfitt að sjá holdsveikt fólk og sárin sem veikin skilur eftir sig. En þarna voru margir sjálfboðaliðar sem höfðu verið í nokkrar vikur og augljóslega orðnir vanir aðstæðum og farnir að þekkja vistmenn með nafni, og tókust á við aðstæður með brosi og hlátri.

Í dag fórum við svo á öllu hefðbundnari ferðamannaslóðir hér í Kolkata og skoðuðum Victoria Memorial og Indian Museum. Á því síðarnefnda sá ég mína fyrstu múmíu en að öðru leyti hafði safnið ekki upp á margt áhugavert að bjóða.

Í kvöld kveðjum við stórborgina og förum ásamt tveimur af frönsku pörunum til Darjeeling með næturlest. Það verður frábært að komast aðeins úr hitanum og rakanum, og svo skilst mér að Darjeeling sé virkilega þess virði að heimsækja. Látum heyra í okkur síðar :)

mánudagur, 4. október 2010

Í litlu hofi við hafið

Komin aftur til Kolkata eftir ljúfar stundir í Digha þar sem við vorum til að mæta í brúðkaup góðs vinar. Digha er nokkrar lestar-klukkustundir suðvestur af Kalkútta og er í raun lítið annað en mjög einfalt þorp með tveimur eða þremur lúxushóelum. Hingað kemur miðstéttarfólk úr nágrenninu til að hvíla sig á skarkala borganna og liggja í afslöppun á laugabökkum.

Til að undirbúa okkur almennilega fyrir hátíðahöldin fórum við ásamt nokkrum öðrum gestum og fjárfestum í indverskum spariklæðnaði í fínustu fatabúð þorpsins, ég fór til rakara og Ásdís fékk hennaflúr á hendurnar. Allt saman sérlega þjóðlegt og afskaplega skemmtilegt. Á morgni brúðkaupsins fór Ásdís svo ásamt öðrum kvendýrum hjarðarinnar og lærði að vefja sig sarí, kom svo aftur inná herbergi eins og glitrandi, litrík bollywoodbomba.

Það var semsagt á þeim herrans degi 1. október, nánar tiltekið afmæli Gandhis, sem okkar kæri vinur Valery giftist heitkonu sinni Puspu. Athöfnin fór fram í litlu hofi við hafið. Þetta var látlaust en fallegt. Þarna sat fólk á gólfinu umhverfis altarið (forvitnir þorpsbúar fylgdust grannt með að utan) og hlustaði á helgan mann kyrja möntrur og blessa brúðhjónin og fjölskyldur þeirra með öllum tiltækum ráðum og fjölmargir guðir kallaðir til vitnis: Shiva, Khali, Vishnu, Krishna og svo mætti leeeengi telja. Að kvöldinu var svo haldin veisla á heimili systur brúðarinnar. Kvöldið eftir var svo haldið vestrænt partí uppá hóteli með fjölþjóðlegu diskótjútti í restina.

Einn af hápunktum veru okkar í Digha var tvímælalaust að hitta Gary, sem við kynntumst líka í Bangalore í den, og unnustu hans Judy. Mikill innblástur sem maður fær af því að hitta svo jákvætt og orkumikið fólk, tókum þau meira að segja í jógatíma! Reyndar kynntumst við ofsalega mörgum og skemmtilegum manneskjum og fórum einmitt samferða nokkrum þeirra hingað til Kalkútta aftur. Nú er planið einfaldlega að berja nokkra áhugaverða staði í harðfisk með augunum, góðar stundir.