miðvikudagur, 6. október 2010

Fréttir úr stórborginni

Dagarnir hafa liðið hratt hér í Kolkata og við erum búin að reyna eitt og annað. Við erum hér í félagsskap þriggja annarra para sem við kynntumst í brúðkaupinu: Fabian og Anissa, Yoann og Claire og Noémie og Flo. Við erum búin að ganga um helstu götur borgarinnar, ferðast með metróinu sem er bara ein lína í sitthvora áttina, skutlast um í gulum leigubílum og sitja föst í rosalegri umferðateppu sem virðist standa yfir frá sjö á morgnana til níu á kvöldin.

Mér finnst vert að minnast á að Kolkata er ólík öðrum stórborgum í Indlandi. Hún er vinalegri, borgarbúar eru mjög hjálpsamir en láta mann annars alveg vera og við höfum enn ekki lent á neinum sem vill svíkja og pretta sem er svo mikið um í t.d. Delhi. Þá virkar borgin líka hreinni á okkur, hér eru t.d. ekki opin holræsi eins og í Bangalore og svo er alveg frábært að geta nýtt sér metróið þó að biðraðir í miðasöluna séu langar og hæggengar.

Fyrr í vikunni heimsóttum við hjálparstofnun móður Teresu þar sem við fengum m.a. að sjá yfirlit yfir ævi hennar, hrátt herbergið sem hún bjó í lungann úr ævinni og gröfina. Við notuðum tækifærið og skráðum okkur sem sjálfboðaliðar til eins dags og mættum snemma um morguninn daginn eftir. Við völdum að fara á stað sem heitir Prem Dan þar sem hinir sjúku og deyjandi dvelja. Ég var í því að þvo þvott, bera eldivið og mata sjúklinga á meðan Baldur rakaði andlit og höfuð karlanna, hengdi upp þvott og skrúbbaði gólf. Þetta var vægast sagt mjög sérstök upplifun og oft á köflum erfið, sér í lagi var erfitt að sjá holdsveikt fólk og sárin sem veikin skilur eftir sig. En þarna voru margir sjálfboðaliðar sem höfðu verið í nokkrar vikur og augljóslega orðnir vanir aðstæðum og farnir að þekkja vistmenn með nafni, og tókust á við aðstæður með brosi og hlátri.

Í dag fórum við svo á öllu hefðbundnari ferðamannaslóðir hér í Kolkata og skoðuðum Victoria Memorial og Indian Museum. Á því síðarnefnda sá ég mína fyrstu múmíu en að öðru leyti hafði safnið ekki upp á margt áhugavert að bjóða.

Í kvöld kveðjum við stórborgina og förum ásamt tveimur af frönsku pörunum til Darjeeling með næturlest. Það verður frábært að komast aðeins úr hitanum og rakanum, og svo skilst mér að Darjeeling sé virkilega þess virði að heimsækja. Látum heyra í okkur síðar :)

Engin ummæli: