föstudagur, 23. ágúst 2013

Kjúklingabaunir og ertur í indversku karrýi

Kjúklingabaunir & ertur

Þessi uppskrift er í miklum hávegum höfð á okkar heimili. Ég er búin að útbúa þennan rétt ansi oft og alltaf kemur hann jafnvel út.

Ég myndi segja að rétturinn væri blanda af norður Indlandi og suður Indlandi. Hráefnin, eins og blómkál og tómatar, eru mjög hefðbundin norður indversk hráefni, en úr kókosmjólkinni fáum við suður indversk áhrif. Ef rétturinn væri alfarið norður indverskur væri notuð súrmjólk í stað kókosmjólkur. Og ef þetta væri alfarið suður indverskur réttur? Ja, mér dettur einna helst í hug að þá væri fiskur í stað kjúklingabauna!

Hvað sem því líður þá er þetta frábær réttur. Hann er tiltölulega einfaldur en á sama tíma sparilegur, svo hann dugar vel sem sunnudagsmatur eða þegar gestir koma í mat. Hann er skemmtilega léttur fyrir sumrin en svo er hægt að spæsa hann aðeins og þá er komin frábær vetrarkássa sem fírar upp í manni.

Þessi uppskrift kemur, eins og svo margar aðrar góðar, úr bókinni hennar Sollu, Grænn kostur Hagkaupa. Vindum okkur í uppskriftina.

HVAÐ
1 msk ólívuolía
1 laukur
1-3 hvítlauksrif (smekksatriði, ég nota alltaf meira en minna)
1 ferskur chili, rauður (annars þurrkaður chili, kannski 1/6 tsk til að byrja með)
2 sm engiferrót
2-3 msk karrýmauk (milt eða sterkt)
1 blómkálshaus, í minni kantinum
400 g soðnar kjúklingabaunir (eða ein dós)
1 dós kókosmjólk
100 g grænar sykurertur eða niðursoðnar haricote verte
2 tómatar
salt + pipar
ferskt kóríander

HVERNIG
1. Við byrjum á því að búa til paste úr lauknum, hvítlauknum, chili og engiferinu: Skerið lauk og hvítlauk gróft. Afhýðið engiferið (með skeið!) og skerið í grófa bita. Skerið og fræhreinsið chili. Setjið lauk, hvítlauk, engifer, chili og karrýmaukið í matvinnsluvél og maukið. (Ég hef reyndar alltaf notað töfrasprota í þetta verk því matvinnsluvél var lengi vel ekki til á heimilinu og enn í dag dugar töfrasprotinn betur hér en matvinnsluvélin mín.)
2. Bútið blómkálið niður í þægilega munnbita.
3. Skolið tómatana og skerið í smáa teninga.
4. Ef þið notið sykurbaunir: skolið og skerið hverja í þrennt. Ef þið notið haricote verte úr dós: látið renna af þeim í sigti.
5. Ef þið notið kjúklingabaunir úr dós: látið renna af þeim í sigti.
6. Hitið olíu á pönnu og steikið maukið í 2-5 mín., hrærið vel í á meðan.
7. Bætið núna við blómkálinu, kjúklingabaununum og kókosmjólkinni, hrærið. Náið upp suðu og látið svo eldast undir loki við meðalhita í 15 mín. Gott að ýmist hræra 2-3 sinnum eða skekja pönnuna svo kássan fari á smá hreyfingu.
8. Bætið núna sykurertunum/haricote verte og tómötum út í og eldið áfram í 10 mín. án loks.
9. Salt + pipar, smakkið ykkur til hér.
10. Klippið ferkt kóríander yfir og berið fram.

Ég ber þennan rétt iðulega fram með góðum hýðisgrjónum. Solla mælir einnig með tómat-mozzarellu-basilíkusalati og það fer mjög vel saman við þennan rétt.

Eins og ég segi alltaf: कृपया भोजन शुरू कीजियै!*

Kjúklingabaunir & ertur

* Hindi fyrir: please start eating!

Engin ummæli: