miðvikudagur, 23. október 2013

Grænkálssnakk

Grænkálssnakk

Þessar grænkálsflögur smakkaði ég í fyrsta sinn hjá  henni Ingibjörgu jógínu. Vá! Þvílíkt lostæti! Þær eru saltar og stökkar og mann langar bara í meira og meira.

Ingibjörg hafði útbúið sínar flögur í þurrkofni, en þar sem ég á enga svoleiðis fína græju fann ég uppskrift á netinu sem gerir ráð fyrir því að maður noti bakarofn.

Þessi uppskrift kemur frá Joanna Goddard.

Áður en við hefjumst handa er eitt atriði sem verður að vera á hreinu: grænkálið þarf að vera eins þurrt og hægt er að ná því, svo að flögurnar verði síður slepjulegar.

HVAÐ
Vænt búnt af grænkáli (helst lífrænu)
1 msk sesam eða ólívuolía
1-2 tsk soja eða tamarisósa
1 msk sesamfræ

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Þvoið og þurrkið grænkálið rækilega. Fjarlægið stilkana.
3. Rífið grænkálið niður í bita ofan í skál.
4. Bætið við olíunni, sojunni og fræjunum, blandið saman við kálið með höndunum. Leggið ykkur fram um þekja hvert einasta blað vel og vandlega.
5. Leggið grænkálsblöðin á ofnplötu klæddri bökunarpappír. Ef búntið er vel vænt gætuð þið þurft að dreifa þeim á tvær plötur.
6. Inní ofn í 6-10 mín. Hér þarf að fylgjast vel með því það er erfitt að gefa upp nákvæman tíma. Það er best að taka flögurnar út áður en þær verða að ösku!

Njótið þess að næra líkamann á þessum grænu eðalflögum!

Engin ummæli: