miðvikudagur, 31. júlí 2002

Einn dagur...

Á morgun er stóri dagurinn. Þá flytjum við endanlega frá Digranesveginum. Íbúðin er ansi tóm orðin, aðeins rúmið eftir inní herbergi og kommóðan góða. Og hamsturinn auðvitað. Og plöntur. Og eldhúsborð sem setja þarf í geymslu. Og síðan matur inní ísskáp. Að öðru leyti er íbúðin tóm og nú þarf bara að hefjast handa við leiðinlegasta partinn: þrifin.

þriðjudagur, 30. júlí 2002

Þvottavél fundin

Á sunnudaginn var brettum við upp ermar og hófum flutningana yfir í Hrauntunguna. Þó ég segi sjálf frá þá komum við ansi miklu í verk. Við fluttum hillusamstæðuna mína og 23 kassa. Nolli er ekki það rúmur að hann taki slíkan farangur þannig að Peugeotinn hans pabba og kerran hjá Kalla afa og Ólöfu ömmu voru fengin að láni.

Mitt í allri þessari ös fengum við símhringingu frá manni sem hafði augljóslega séð auglýsinguna okkar á netinu og bauð okkur fimm ára þvottavél til sölu. Við vorum óð og uppvæg og vildum endilega koma og kíkja á græjuna. Þegar þangað var komið sáum við að þetta var Philco þvottvél, 1000 snúninga og í þrælfínu ástandi. Við keyptum hana á staðnum. Reyndar keypti pabbi hana fyrir okkur og sagði að þetta væri innflutningsgjöfin! Takk fyrir það elsku pabbi.

Gærdagurinn var engu minni í sniðum hvað flutninga varðar. Við tókum allar þær mublur sem tök var á auk þess að tæma fataskápinn og matarbúrið. Síðan var farið á nýja staðinn og skáparnir þar þvegnir áður en við hófumst handa við að raða inní þá.

Og síðan í dag stöndum við Unnur upp fyrir haus hérna á skrifstofunni að breyta og taka til. Það var allt úr skorðum vegna einhverja framkvæmda og því nýttum við okkur tækifærið og færðum allt í skorður en ekki þó í fyrri skorður. Nú lítur skrifstofan ljómandi vel út en við aftur á móti hnerrum og hnerrum eins og við eigum lífið að leysa enda mikið ryk sem leynist í bókunum.

föstudagur, 26. júlí 2002

¡Hola!

Um daginn horfðum við á spænsku myndina La niña de tus ojos með Penélope Cruz. Sá atburður var hluti af nýju átaki okkar Baldurs í að horfa meira á spænskar myndir. Ekki veit ég hvernig við fengum þá flugu í höfuðið að slíkt átak væri okkur nauðsynlegt en þar sem flugan suðar þar óð (í hausnum sko) þá er best að verða að ósk hennar.

Fyrsta myndin í þessu átaki okkar var Fresa y chocolat en sú mynd sannfærði mig um að myndir S-Ameríku og Spánar væru vel þess virði að kíkja á. Í raun má segja að sú mynd hafi komið af stað þessu átaki ef átak skyldi kalla.

Sú næsta í röðinni var ein af myndum spænska leikstjórans Pedro Almodovar, ¡Atame! eða Bittu mig, elskaðu mig á hinu ástkæra. Þar fara Victoria Abril og Antonio Banderas með aðalhlutverk og útkoman en vægast sagt frábær.

Og núna um daginn var það eins og áður sagði myndin La niña de tus ojos. Góð mynd og sérkennileg blanda. Sprenghlægileg á köflum. Þetta leiðir af sér að á listanum eru aðeins þrjár myndir eftir: Kryddlegin hjörtu, Kika og Carne Trémula.

Í kvöld er pizzakvöld hjá pabba sem þýðir að við komumst í tæri við myndabandstæki og sjónvarp. Því er árennilegt að reyna að glápa á þá síðastnefndu í kvöld. Spólan er reyndar komin ofan í einn af kössunum og því verður að bíða og sjá hvort við nennum að fara að gramsa í öllu draslinu okkar og færa allt úr stað.

Kassinn sem spólan er í er nefnilega einn af fyrstu kössunum sem við pökkuðum og það þýðir aðeins eitt: hann er neðst undir kassaturninum sem reistur hefur verið í þurrherberginu góða.

Má ekki bjóða yður sæti í sófanum frekar?

Í morgun fór ég í vinnuna. Ég fór alveg sömu leið og venjulega að einni smákrækju undantalinni. Hvað er svona merkilegt við það? Hvað ætli fólk varði um þessa aukakrækju? Ekki tel ég nú krækjuna merkilega en erindið var það, við þurftum nefnilega að komast heim til Eyglóar (sem við erum að fara að leigja hjá) til þess að (trommuþytur + 1x taratataaa) ná í lyklana að nýju, fínu íbúðinni okkar sem er náttúrulega alveg frábært og kallast á fræðimáli að fá íbúðina afhenta. Þess vegna taldi ég að þessi aukakrækja gæti þýtt eitthvað fyrir vini og vandamenn sem nú geta loksins komið í heimsókn og sest í SÓFA sem er inni í STOFU. Jibbíjeij!Jibbíjeijjibbíjibbíjei! Jibbíjeijjibbíjibbíjei! Jibbíjeijjibbíjibbíjeijibbíjeij!

Höfuð lagt í bleyti

Ég hef verið að pæla í þessu með mýsnar og leðurblökurnar. Sem félagsvísindamaður get ég ómöguleg á mér heillri setið með niðurstöðu heimspekinganna í þessu flókna máli. Þeir skilgreina fyrir það fyrsta ekki hvað þeir eiga við með hugtakinu engill. Ég sé fyrir mér bjarta, geislandi veru með geislabaug og stórt, hvítt vænghaf. Þeir eru þar að auki engilfríðir. Þetta eru svokallaðir ljósenglar.

Leðurblökur uppfylla engin af þessum skilyrðum þar sem þær munu ævinlega og ávallt vera ófríðar. Því spyr ég: Af hverju í ósköpunum ættu mýs að halda að leðurblökur séu englar? Væri ekki nær lagi að þær héldu að þær væru djöflar? Eða vampírur? Bliksvartar, með vígtennur og svínslegt andlit. Svo leggjast sumar þeirra á búfénað og sjúga blóð. Það eru sko engir englar sem gera slíkt.

En síðan má leiða líkum að því að leðurblökur séu eins og Lúsífer sem gerði uppreisn gegn Guði, var varpað í myrkrið fyrir vikið og hefur nú sveit myrkra engla hjá sér. Gætu mýs ekki hæglega álitið sem svo að þessi flugkvikindin væru myrkir englar? Og ef svo er, væri þá hægt að segja að jú, mýs telja að leðurblökur séu englar þar sem þær eru myrkir englar, eða væri réttara að álykta sem svo að slíkt væri fásinna því myrkir englar ættu ekki rétt á að fara í sama bás og ljósenglar?

Nei, ég held það hljóti að vera að mýs vilji ekkert með leðurblökur hafa og allra síst vilja þær vera ásakaðar um að verða að slíkum óskapnaði eftir dauðann. Eftir líkamsdauðann vilja þær líklegast komast á eitthvert mjúkt ský eða enn betra, að komast á tunglið þar sem það er nú einu sinni úr osti.

Annars sýnist mér glitta í bláan himinn úti og jú... bíddu... og sjá Guð sagði ljós og það varð ljós. Sólin er komin úr hreiðri sínu. Ég verð að fara út í glugga núna og horfa, það er orðið svo langt síðan síðast sást til sólar. Ætli ég borði ekki bara nestið mitt undir berum himni fyrst hann hangir þurr þessa stundina.

fimmtudagur, 25. júlí 2002

Af djömmurum

Í fyrradag átti Öddi stórafmæli og var okkur boðið í tilefni að því í partý á veitingastaðnum við Tjörnina. Þangað mætti stór og ákaflega vel valinn hópur fólks. Við fórum í fylgd með Stellu og Kristjáni þar sem við þurftum að velja gjöf saman. Það komu upp margar hugmyndir varðandi gjafaval en að lokum ákváðum við að drífa okkur í blómabúðina á Seltjarnarnesi þar sem við skoðuðum ýmislegt enda var búðin ákaflega flott og frumleg, fyrir utan frábæra þjónustu. Eftir að hafa skeggrætt og skoðað þá fundum við bambus sem að sögn sölumanns er lukkubambus og kýs ég að kalla hann Bent.

Nú svo mættum við bara í fjörið, átum vægast sagt snilldaröfgagóðan mat sem rennt var niður með guðaveigum undir kynngimagnaðri tónlist Puntstráanna og ríjúníoni Kamarorghesta. Vægast sagt klikkað fjör.

Halda mýs að leðurblökur séu englar?

Þessa spurningu er að finna á Vísindavefnum góða. Að mínu mati er hún ekki fráleit, í raun er ég hiss að mér skildi ekki hafa hugkvæmst að velta vöngum yfir þessu líkt og spyrjandinn hefur augsjáanlega gert. Sjálf get ég ekki svarað slíkum vangaveltum en læt svar vísindamannanna á vefnum fylgja með til gagns og gamans.

Til að komast að raun um hvort mýs haldi að leðurblökur séu englar fékk Vísindavefurinn Félagsvísindastofnun til að gera skoðanakönnun meðal músa, og var hlutfallið milli húsamúsa og hagamúsa jafnt. Því miður fékkst engin niðurstaða út úr þessari könnun þar sem svarhlutfall var ekki marktækt. Ekki var hægt að hringja í mýsnar þar sem engin þeirra var í símaskránni og því var þeim send spurningin á blaði. En mýsnar átu bara blaðið í stað þess að svara spurningunni.

Því næst hugsuðum við okkur að beita eigindlegum rannsóknaraðferðum og vildum taka viðtal við mýsnar. Á lóð Raunvísindastofununar var búinn til ágætis sandkassi til að geyma mýsnar í á meðan verið væri að taka viðtölin. Fyrst voru fengnar 10 mýs og áttu 9 að bíða í sandkassanum á meðan fyrsta músin var tekin í viðtal. En þegar viðtalinu var lokið voru hinar 9 horfnar.

Til að þetta endurtæki sig ekki var haft samband við háskólaköttinn og hann beðinn um að hafa auga með músunum á meðan verið væri að taka viðtölin. Þetta gerði kötturinn af mikilli samviskusemi, en því miður af minni vísindalegri forsjálni. Mýsnar fóru vissulega hvergi, en því miður voru þær ekki vel til þess fallnar að taka þátt í vísindalegum rannsóknum eftir gæsluna.

Þá brá ritstjórn Vísindavefsins á það ráð að hafa samband við Heimspekistofnun og athuga hvort heimspekingarnir þar gætu komist til botns í því hvort mýs halda að leðurblökur séu englar. Eftir miklar yfirlegur og þunga þanka fengust loks þær niðurstöður að líklega halda mýs að leðurblökur séu englar.

Röksemdafærslur heimspekinganna voru á þessa leið. Fyrst var því velt upp hvort mýs haldi að leðurblökur séu hestar. En það þótti heldur fráleitt. Sennilega halda mýs bara að hestar séu hestar og alls ekki að leðurblökur séu hestar.

(1) Mýs halda að leðurblökur séu ekki hestar.

Næst fékkst það staðfest hjá Náttúrufræðistofnun Íslands að englar eru ekki hestar.

(2) Englar eru ekki hestar.

Og nú virtist ekkert því til fyrirstöðu að setja ‘englar’ í staðinn fyrir ‘ekki hestar’ í setningu (1) og fá niðurstöðuna:

(3) Mýs halda að leðurblökur séu englar.

Til að tryggja að ekki væri verið að draga ályktun í fljótfærni var málið rannsakað aftur og nú með tilliti til hunda. Á svipaðan hátt og áður var talið líklegt að

(4) Mýs halda að leðurblökur séu ekki hundar.

Auk þess var talið ljóst að

(5) Englar eru ekki hundar.

Og með því að setja ‘englar’ í staðinn fyrir ‘ekki hundar’ í setningu (4) fékkst svo niðurstaðan:

(6) Mýs halda að leðurblökur séu englar.

Eftir að hafa rannsakað málið með tilliti til strúta, flóðhesta, múldýra og ísbjarna, var niðurstaða heimspekinganna sú að yfirgnæfandi líkur væru á því að mýs haldi að leðurblökur séu englar.


P.s. Þess ber að geta að þetta er föstudagssvar og því ber ekki að taka hvert orð alveg bókstaflega.

Brjálæði í búðinni

Við fórum í gær í nýju búðina sem var að opna í Hálsunum, EuroPris kallast hún og er víst norsk verslunarkeðja. Þegar við mættum á svæðið var lífsins ómögulegt að finna stæði á efra planinu og því fórum við rakleitt í bílageymsluna. Þaðan gengum við síðan ótrauðum skrefum í átt að búðinni algjörlega grunlaus um hvað biði okkar þar.

Þegar inn var komið tóku við troðningar, hárreisti og hártog (smá ýkjur). Það var rétt eins og Íslendingar hefðu aldrei komið í stórverslun áður eða þá að þeir hefðu verið sveltir í langan tíma því slíkur var hamagangurinn í öskjunni. Við gerðum okkar besta við að tína til það sem þurfti til heimilisins og gekk það bærilega.

Í grænmetis- og ávaxtadeildinni fengum við eitt kíló af kartöflum frítt fyrir að kaupa eitthvað af grænmeti. Það var ágætisboð sérstaklega í ljósi þess að Baldur tróð án efa hátt á annað kíló í pokann. Reyndar er ekki hægt að áfellast hann fyrir það því engin vog var á svæðinu og því varð maður að láta sér nægja að taka kíló af innpökkuðum tómötum, vega það og meta og bera síðan þá þyngd saman við kartöflupokann. Ekki mjög nákvæmar rannsóknir það!

Ég veit að þetta hljóma frekar lítilfjörleg innkaup sem þau og voru en sannast sagna og þótt ótrúlegt sé þá tók það okkur örygglega um rúma klukkustund að tína þetta smotterí ofan í kerruna vegna troðnings og fólksmergðar. Reyndar spilar líka svolítið inní að við þekkjum búðina ekki svo vel og því tók það meiri tíma en ella að finna þetta helsta. Þar að auki er mjög auðvelt að gleyma sér í vöruúrvalinu þarna því ekki vantar að úr vöndu sé að velja. Svolítið annað en í Bónus þar sem þeir eiga aðeins svo og svo margar gerðir og típur af sömu vörunni. Við keyptum til að mynda sokka á mig sem okkur hefur aldrei hugkvæmst í Bónus. Nú sit ég því og skrifa, hæstánægð í nýju sokkunum mínum.

En svo ég haldi áfram með smjörið þá drifum við okkur í biðröðina og vorum í henni hátt í þrjú korter. Vöruverðið er ansi lágt hjá þeim sérstaklega í ljósi þess hve mikið úrval þeir bjóða uppá. Þar skáka þeir Bónus alveg. En hvað varðar þrengsli, pirring, hávaða og fjölda yfirliða (harhar) þá á Bónus öryggan sigur þar. Því liggur það ljóst fyrir að Digraneshjónin versla ekki mikið oftar í Europris nema þá helst á tímum stundarbrjálæðis.

þriðjudagur, 23. júlí 2002

Tilraunadýr greiningar: Íslendingar

Ég fékk þetta skemmtilega email um daginn frá Elísabetu vinkonu og ég ákvað að birta það hér. Þetta er listi sem finnsk stelpa og vinir hennar gerðu eftir ársdvöl hér á landi. Þetta eru skemmtileg skot á Íslendinga og eins og höfundur bréfsins segir sjálf þá munu Íslendingar skemmta sér manna mest yfir þessu bréfi. Okkur tókst greinilega ekki að blekkja þessa Finna því þeir sjá alveg í gegnum okkur.

YOU HAVE BEEN IN ICELAND FOR TOO LONG WHEN:

1) you've stopped checking out the weather forecasts and get dressed according to the latest issue of Vogue instead.
2) you see a person walking outside with an umbrella and you immediately think to yourself: "TOURIST!!"
3) your summersandals have become every-weather-shoes.
4) 42 C in a hot pot is cold but 16 C in July is freaking hot!
5) it comes natural to you to eat cured shark, pickled ram parts, dried fish and another delicatesses at least once a year.
6) you have skyr on every meal.
7) you start calling the president Óli Gris (=pig)
8) ...although you still think of Vigdis Finnbogadóttir as the REAL president.
9) you start explaining to your foreign friends about the wonders of Iceland in the way of a THULE commercial ... ekkert mál fyrir Jón Pál ... we won the B world championships in football ... so you're a sheep on a footballfield ...
10) you've seen Björk in Vesturbæjarlaug.
11) after graduation you'll get hired for life at Háskóli Íslands.
12) you are a florist but you'll get hired as the nuclearpower expert at Keflavík airbase. Or vice versa (as long as somebody does the job!)
13) you don't notice anything strange about the smell of hot water.
14) you can decline the nouns correctly.
15) you can decline the adjectives correctly.
16) you can conjucate the verbs correctly.
17) you start a sentence always with SKO or HÉRNA.
18) 500 kr (5,75 ?) for a beer is relatively good price.
19) you know your Nokia cellphone better than your Finnish friends.
20) you don't consider owning a car until you own a jeep.
21) you are nationwide well-known folksong/rap artist....bleeeeessuuuuuð / bleeeeessaðuuuuur!!!

mánudagur, 22. júlí 2002

Þvottavél óskast!

Undirbúningur búferlaflutninga okkar hjónakorna er í hámarki. Við erum nú þegar búin að pakka niður í 16 kassa en enn er slatti eftir af bókum og öðru drasli í hillum vorum. Og við sem héldum að við ættum svo lítið! Við vorum greinilega illilega veruleikafirrt. Hvað sem slíkri firringu líður höldum við ótrauð við að troða ofan í kassa og vonumst eftir hvern kassa að nú sé bara einn eftir til að fylla.

Íbúðin sem við flytjum í er ívið stærri en sú sem við erum í nú. Helsti kostur hennar er tvímælalaust sá að þar er sér svefnherbergi sem þýðir að í ókominni framtíð munum við ekki lengur þurfa að bjóða gestum okkar að setjast á rúmið okkar og nota náttborðið okkar sem bollahaldara.

Þar að auki er ágætisbaðherbergi með risa sturtu. Helsti ókosturinn er eldhúsið því það er hræðilega lítið og það sem meira er, þar er engan ofn að hafa. Þar að auki missum við afnot af þvottavél og því erum við nú á höttunum eftir góðri, ódýrri og nær óbilanlegri þvottavél.

Við erum ekki að leita að einhverri ofurvél heldur einhverri sem þvær þvottinn okkar og vindur hann tiltölulega vel. Ef þið vitið um einhvern sem er að skipta út þvottavélinni sinni megið þið endilega benda þeim hinum sama á að hafa samband við okkur Baldur.

Með fyrirfram þökk, hlýhug og djúpri virðingu.

Hvað er Baldur eiginlega að gera?

svar: Ég skrifa lítið í dagbókina og hringi lítið í fólk. Ég er að undirbúa mig fyrir skólann og svo er ég að undirbúa flutninga um mánaðarmótin. Þannig að á venjulegum virkum degi þá vinn ég smá, læri smá, pakka smá, hendi smá og svo er dagurinn búinn. Ég henti einmitt einum ágætum kunningja í ruslið um daginn enda hafði Kisa heitin tekið hann svo rækilega í karphúsið að ekki var um annað að ræða. En til að koma honum í skottið á bílnum þá varð ég að taka fæturna af honum með tilheyrandi braki. Var hann dauður? Já hann var dauður þegar ég tók af honum lappirnar og reyndar held ég að hann hafi verið það lengi. Fyrir ykkur sem heima sitjið þá vil ég bara segja eitt, það tók fljótt af. Ef einhver er ennþá í vafa þá lógaði ég bara gömlum og einusinnigóðum hægindastól.

miðvikudagur, 17. júlí 2002

Meira af Kína og öðrum undrum veraldar

Ég hef verið að lesa mér til um hin ýmsu fyrirbæri veraldar á Vísindavefnum. Þessi vefur er hreint út sagt bráðskemmtilegur en þá ályktun get ég dregið út frá því hve vel ég hef skemmt mér við að lesa þá pistla sem þar er að finna!

Ég var að enda við að lesa mér til um hæsta mann veraldar og gat ekki annað en glott út í annað yfir kaldhæðni heimsins. Nú sjá flestir Kínverja fyrir sér sem litla og lágvaxna, feita og lágvaxna, gula og lágvaxna, hvað sem er, þeir eru lágvaxnir. Það skondna er þó að hæsti maður veraldar er Kínverji. Á Vísindavefnum segir: "Hæsti maður í heimi heitir Wang Fengjun frá Kína en hann er meira en 2,5 metrar á hæð. Fengjun er 22 ára og á að fara í aðgerð sem á að fá hann til að hætta að stækka. Aðrir spítalar hafa neitað að framkvæma þessa aðgerð af því að hún ku vera of hættuleg."

Fyrir utan þennan mjög svo gagnlega fróðleik um hæsta mann veraldar, sem mun án efa nýtast mér í leiðinlegum fjölskylduboðu, hef ég þar að auki fræðs um mannát Kelta, meðgöngu fílsunga, hvað veldur hiksta, hver bjó til íslenska fánann, hvort börn fæðist með fæðingarbletti, hver byggði píramítana, hvort tómatur teljist til ávaxta eða grænmetis, hvað húsfluga hefur margar tær (vitanlega enga einustu), hvað fúnksjónalismi sé, hvers vegna grísir séu tákn sparnaðar sem sparibaukar og síðast en ekki síst um það hversu oft þyrfti að margfalda fólksfjölda Íslendinga til að fá út fólksfjölda Kínverja.

Svarið við þeirri síðustu sýndi mér svart á hvítu hversu fámenn við erum þar sem fólksfjöldinn í Kína er 1.227.740.000 og 282.845 á Íslandi. Með smá útreikningum verður ljóst að Íslendingar yrðu að vera 4340,6813 sinnum fleiri til að jafngilda fólksfjöldanum í Kína. Til að strá salti í sár þjóðrembu minnar fyldi lítil mynd sem sýndi muninn á Kínverjum og Íslendingum. Væru Kína og Ísland sitthvor maðurinn væri Ísland minnsti dvergur veraldar, flatur og já, nær ósýnilegur.

miðvikudagur, 10. júlí 2002

Þessa dagana er ég í þvílíkum gír og geri fátt annað en að vinna, reikna og lesa. Það er nefnilega svo að ég er farinn að kvíða skólanum svolítið og best að fara að taka sig almennilegu taki.

Þegar við vorum búin með sólarskammt dagsins í Laugardalnum fór ég heim og sat sveittur við calculusinn í fjóra tíma eða þar til mér fannst ég vera kominn með hatt á hausinn. Nú er sú tilfinning horfin og ég er aftur kominn í bækurnar. Sveiattan! Til þess að hvíla sellurnar á milli þá les ég snilldarskemmtilega bók nefnilega Harry Potter, bók númer fjögur.

mánudagur, 8. júlí 2002

Þjófur í Kína og táfýla í Hollandi!

Ég var að vafra aðeins um á netinu og ákvað að updeita sjálfa mig hvað varðar fréttir. Við erum nefnilega ekki lengur með moggann og einhverja hluta vegna fáum við ekki fréttablaðið lengur. Ég held það hafi eitthvað að gera með sumarleyfi blaðburðarfólks. Rosalega er það sniðugt, bara sleppa því að bera út blaðið á meðan sumarið stendur yfir. Alger óþarfi að hafa svona afleysingarfólk, það les hvort sem er enginn blaðið á sumrin (hæðni). Hvað um það, ég fór á mbl.is og rak þá augun í tvær ansi skondnar fréttir. Ég læt þær fljót hér með.

Elsti þjófur í Kína handtekinn
Lögregla í Peking hefur handtekið elsta þekkta þjófinn í Kína en hann er 79 ára gamall maður, sem starfar við vasaþjófnað í almenningsvögnum. Maðurinn er helmingi eldri heldur en næst elsti vasaþjófurinn, sem handtekinn hefur verið í landinu samkvæmt lögregluskýrslum, að því er segir í dagblaðinu Evening Post í Peking. Maðurinn tekur strætó númer 938 á hverjum degi „úr og í vinnu" ef svo má segja en hann rænir farþegana að staðaldri. Á fréttavef Reuters segir að gamli maðurinn hafi m.a. rænt tvítugan mann er trúði því ekki að sá gamli væri sökudólgurinn þegar lögregla sagði honum frá því.


Þessi frétt er nú bara fyndin en þessi hér er hreint út sagt lygileg!

Fékk sekt fyrir táfýlu
Hollendingur nokkur, sem fór úr skónum á háskólabókasafni í Delft, hefur verið sektaður um jafnvirði 20 þúsund króna. Að sögn hollenskra fjölmiðla virti maðurinn, sem er 39 ára gamall, ekki bann við að fara úr skóm. Að sögn blaðsins Het Financieele Dagblad töldu dómarar að táfýlan af manninum hefði verið svo megn að það hefði valdið truflun á almannafæri og því var sektin svona há.


Þeir eru ansi viðkvæmir þarna í Hollandi.

föstudagur, 5. júlí 2002

Jarðarberjakókómjólk

Eftir sundið í gær vorum við ansi spræk, þ.e.a.s. mun hressari en við vorum fyrir sundið. Ég er reyndar búin að vera kvefuð og smá veik held ég hreint bara, því ég hef verið með beinverki og höfðuverk, kvillar sem hrjá mig ansi sjaldan. Hvað um það, sundið gerði okkur gott. Það var reyndar margt um manninn en ekki svo margt þó að ég þyrfti að bíða eftir skápi í tíu mínútur sem gerist iðulega á sólríkum dögum.

Sem við göngum út úr Laugardalslaug sjáum við konu með stóran píramída af kókómjólk við hlið sér. Við gerðum ráð fyrir að þetta væri ekki ein mamman með nesti fyrir ungana, né væri þetta einhver farandsalinn þannig að við mjökuðum okkur nær og viti menn, þessi kona bara rétti fólki sem átti leið hjá kókómjólk. Baldur læddist því nær og bað um tvær, takk.

Þegar hann kom til baka eins og lítill prakkari sá ég að þetta var einhvað alveg splunkunýtt, kókómjólk með jarðarberjabragði! Namm, það hlýtur að vera gott sögðum við og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. En fyrst var að borða nestið sem smurt hafði verið um morguninn og það gerðum við samviskusamlega. Eitt stykki rauð papríka, tveir tómatar, ein gulrót, ein appelsína og síðan fullt af kruðum með osti.

Við vorum nú ekkert svakalega södd eftir þetta allt saman enda með endemum hungruð. En við geymdum mynd af jarðarberjakókómjólkinni í hjarta okkar. Synd að þurfa að drekka hana bara beint og hafa ekkert til að jappla á með henni. Hmm.... Við drifum okkur upp í bakaríið í Álfheimum, Bakarinn á hjólinu heitir það víst og báðum um einn snúð með karamellu, takk. Síðan skoppuðum við út í sólina og gæddum okkur á karamellusnúð og jarðarberjakókómjólk. Það var ógesslega gott :)

fimmtudagur, 4. júlí 2002

Líf í tuskunum

Í gærkvöldi vorum við Ásdís í smá tiltektarham og pökkuðum ýmsu í kassa en hentum líka helling. Pakka í kassa? Já við erum að fara að flytja í stærri og betri íbúð eftir tæpan mánuð þannig að það er eins gott að byrja á þessu. Við flytjum að vísu ekki langt en það þarf nú samt að sortera, pakka og henda.

Ég er akkúrat núna að bíða eftir að Ásdís sé búin í vinnunni og ætlaði að nota tímann í stærðfræði en það er bara svo ógeðslega mikill hávaði hér í Odda að ekkert gengur. Iðnaðarmenn að bora og mála og laga hitt og þetta með tilheyrandi skarkala. Annars hefur mér gengið nokkuð vel í stærðfræðinni undanfarið enda verið sæmilega iðinn miðað við að það sé sumar. Ég er að pæla í að vinna þetta bara upp á eftir þegar ég er búinn að hressa mig aðeins við í sundi. Farvel!