föstudagur, 30. júní 2006

Júníannáll

Í júnímánuði komst ég loksins á almennilegt skrið í MA verkefninu. Fram að þeim 19. sat ég við og las yfir viðtölin og náði meira að segja að afrita eitt þeirra sem var hálfgerð eftirlegukind frá því í fyrra.

Á sama tíma og ég stóð mig vel í lærdóminum tókst mér líka að kíkja í eina bók. Segjum öllu heldur að bókinni hafi tekist að lokka mig til sín. Stella hafði lánað Baldri Harry Potter and the Half-Blood Prince en þar sem ég hef hingað til lesið Harry Potter í íslenskri þýðingu ætlaði ég ekki að fletta henni. En eins og fyrr segir var ég ekki með sjálfri mér og að hafa bókina liggjandi á borðinu fyrir hunda og manna fótum veit aðeins á eitt: ég fletti henni þangað til það var ekki hægt að fletta meira, svo fór ég að vola.

Það eru fleiri stórverk sem hægt er að strika út af listanum en nýjustu Harry Potter bókina. Í júní sáum við báðar Kill Bill myndirnar og King Kong og Harry Potter and the Goblet of Fire og síðustu þættina af Lost. Þetta var sem sagt mjög skemmtilegur kvikmyndamánuður eins og I kan godt forstille jer.

Í heildina litið vorum við samt lítið inni við í júní og þeim mun meira utandyra: við kíktum í Østre Anlæg og stunduðum útileikfimi af kappi, röltum um Kongens Have og þefuðum uppi skuggasund, fundum þennan fína tennisvöll og urðum okkur í framhaldi af því úti um tennisspaða. Þá héldum við upp á 17. júní í blíðskaparviðri, heimsóttum Kristjaníu á góðum degi, fengum sumarvinnu og höfum síðan þá verið úti við á hverjum degi.

fimmtudagur, 29. júní 2006

Aldi

Síðan við fluttum til Danmerkur hefur Baldur lofsamað Aldi verslanirnar í bak og fyrir. Sérstaða Aldi í hans huga markast fyrst og fremst af því að þar á bæ skanna menn ekki inn vörurnar heldur muna starfsmenn á kassa verð hverrar vöru. Þannig þarf starfsfólkið aldrei að lofta vörunum og sparar sér því einhver tonn í burði.

Við kíktum áðan í Aldi því ein þeirra liggur svo vel við þegar maður er á leið heim úr vinnu. Það var ágætisupplifun, boðið er upp á annars konar varning en maður er vanur úr Netto og svo er verðið hagstætt. Við tíndum því til ýmislegt í körfuna og rúlluðum svo vagninum að kassanum. Og hvað haldið þið? Aldi notar víst skanna.

miðvikudagur, 28. júní 2006

Skattmann

Við komumst að því um daginn að skattkortið sem við fengum afhent í síðustu viku er almennt skattkort sem veitir lítinn persónuafslátt. Þar sem við erum stúdentar getum við hins vegar fengið skattkort með miklu meiri persónuafslætti svo við höfðum ráðgert að ganga í málið strax að lokinni vinnu einn daginn.

Við bárum þetta undir bossinn Kurt til að fá upplýsingar um hversu mikið lægi á nýja skattkortinu. Hann hringdi á nokkra staði fyrir okkur og gaf okkur svo skipun: takið bílinn og Tine, náið í skattkortið í Sluseholmen og keyrið svo niður á skrifstofu og afhentið Karoline það.

Þetta var ánægjulega óvænt breyting á okkar plönum og í stað þess að bíða í röð og þvælast milli deilda innan skattstofunnar í eiginn frítíma fengum við að gera það á launum.

þriðjudagur, 27. júní 2006

Auglýsingar

Ég var að horfa á brot úr þættinum hennar Ellenar þar sem hún er alltaf með smá uppistand í byrjun þáttarins. Hún var að tala um auglýsingar og hvernig þær geta fests í hausnum á manni. Síðan rifjaði hún upp nokkrar auglýsingar en þær hringdu engum bjöllum hjá mér.

Hefði hún hins vegar sagt orðið nektar hefði þessi maskína farið af stað í hausnum á mér: Vissir þú að í einu glasi af Nektar er ríflega dagskammtur af c-vítamíni? Nektar, sólarorkugjafi í skammdeginu, Sól hf. Talandi um hvernig auglýsingar festast manni í minni.

mánudagur, 26. júní 2006

Baldursbrár

Í dag var ég að rífa upp baldursbrár úr beði þegar konu ber að og spyr hvort hún megi taka smá af þeim með sér. Síðan raðaði hún þeim í fínan vönd og hélt á brott glöð í bragði yfir að hafa bjargað þessum verðmætum. Ánægjulegt að sjá að einhver kann gott að meta.

sunnudagur, 25. júní 2006

Dagur í Kristjaníu

Við kíktum í Kristjaníu í gær með Stellu, Áslaugu Eddu og PG. Þangað höfum við ekki komið síðan í Evrópureisunni 2001 svo það má segja að það hafi verið kominn tími til.

Sumt hefur breyst en annað ekki. Þarna eru enn sömu hundarnir gangandi um götur sem löggæslan, það er enn bannað að taka myndir og skiltið þar sem maður er minntur á að maður sé að yfirgefa ESB stendur enn. Núna eru hins vegar engir básar lengur sem selja hass og löggur ganga um svæðið í sex dósa kippum.

Við kíktum á veitingastaðinn Morgenstedet sem býður upp á lífrænt grænmetisfæði. Ég fékk mér myntusvaladrykk í forrétt og síðan vorlauks- og kjúklingabaunasúpu, rauðrófusalat og væna brauðsneið með þykkju smjörlagi, namm.

Fyrir utan hvað maturinn bragðaðist vel og hve félagsskapurinn var góður var umgjörðin alveg dásamleg: Falleg girðing með trjágróðri innan við, fuglar flögrandi og nartandi í mylsnur, sólskin og ljósblár himinn, verönd lögð steinvölum þar sem hægt er að borða utandyra. Svolítið eins og vera stödd í einhverri bóka Astrid Lindgren.

föstudagur, 23. júní 2006

Með- eða mótvindur?

Þessa fyrstu daga í vinnunni þegar það var hvað heitast og maður átti hvað erfiðast með að venjast því var ég fegin hverri einustu golu sem blés um mig.

Þetta kveikti líf í kollinum á mér og ég fór að pæla í hve með- og mótvindur er í raun afstæð skilgreining. Þegar ég ligg í sólbaði kæri ég mig ekki um golur og finnst vindurinn vinna gegn mér, sem sagt algjör mótvindur. Þegar ég hins vegar að stíg upp úr sólbaðinu og fer að erfiða sendi ég hljóða þakkabæn fyrir hverja golu sem ég tel þá vinna með mér.

Pælingar daxins voru í boði veðurguðanna nær og fjær, þó aðallega þeirra sem sjá um Danmörku og område.

fimmtudagur, 22. júní 2006

Annar vinnudagurinn

Á öðrum vinnudegi uppfærðum við Tine fararskjóta okkur - við yfirgáfum golfbílinn og fengum okkur pallbíl.

Til að byrja með keyrði Tine en eftir hádegi var mér kastað út í djúpu laugina: ég var sett bak við stýri og kúplingu. Ég var frekar stressuð yfir því að keyra enda komið tæpt ár síðan ég þurfti þess síðast. Það sem olli mér mestu hugarangri voru hjólreiðamennirnir sem virðast koma úr öllum áttum, ég hafði nefnilega einsett mér að keyra ekki á þá.

Það gekk vonum framar að keyra í borginni, ég var fljót að grípa taktinn í umferðinni og venjast því að fiska út hjólreiðamenn og engir þeirra slösuðust við gerð þessarar færslu.

miðvikudagur, 21. júní 2006

Fyrsti vinnudagurinn

Fyrsti vinnudagurinn var í gær. Við vöknuðum snemma til að vera mætt stundvíslega klukkan sjö við Enghavevej. Við þurftum nefnilega að hjóla í tæpan hálftíma til að komast í vinnuna en það var bara hressandi.

Ég var sett í að hreinsa beð með einni sem heitir Tine. Við keyrðum um hjólastígana á litlum golfbíl, það var skemmtilegt. Það var afskaplega heitt og mikil sól í þokkabót, ég var því mjög fegin að vera í stuttbuxum og með derhúfu. Við hefðum bara þurft að skipta út hrífum og hökum fyrir golfkylfur og þá hefði ég getað ímyndað mér að ég væri í fríi í Flórída.

Það gekk allt vel þennan fyrsta dag nema hvað við vorum svo þreytt eftir daginn að hjólatúrinn heim var ekki hressandi eins og hann hafði verið um morguninn, við orkuðum varla að fara í sturtu og vorum sofnuð fyrir hálf tíu.

mánudagur, 19. júní 2006

Drullumall

Áðan kenndum við Lindu í Døgnaranum nýtt íslenskt orð: Drullumall.

Hún tók bakföll af hlátri þegar hún heyrði okkar bera orðið fram en hún lagði ekki í það sjálf. Hver tekur þá bakföll af hlátri?

To sommerfugle

Í morgun mættum við í atvinnuviðtal hjá KTK (Kommune Teknik København) sem Nordjobb og góð tengsl redduðu okkur. KTK sjá um að halda Kaupmannahöfn hreinni og fínni og eru því eins konar bæjarvinna.

Við töluðum við Morten og Kurt og þeir buðu okkur að gerast sumarstarfsmenn eða sommerfugle eins og þeir eru víst kallaðir þarna niður frá. Við sögðum já takk og byrjum á morgun.

Það er eitthvað mjög skemmtilegt við þá tilhugsun að fá að vera fiðrildi yfir sumartímann :0)

sunnudagur, 18. júní 2006

Tíu mánuðum síðar

Þegar við vorum nýflutt inn á Frederikssundsvej og vorum enn að koma okkur fyrir höfðum við það fyrir sið að horfa á einn til tvo þætti af þáttaseríunni Lost í lok dagsins.

Þegar dró að lokum seríunnar tókum við eftir því að næstsíðasta þáttinn vantaði inn í. Við urðum því að láta staðar numið og bíða. Í gær lauk svo tíu mánaða bið þegar við fengum í hendurnar tvo síðustu þættina. Við ætlum að horfa á þá í kvöld og ég er mjög spennt.

laugardagur, 17. júní 2006

17. júní í Køben

Við héldum upp á daginn í selskap annarra Íslendinga á Femøren við Amagerstrand. Við mættum á svæðið í samfloti við Stellu og Áslu táslu og Fjalarfamily en hittum síðan enn fleiri vini og kunningja niður frá.

Þrátt fyrir öðruvísi umhverfi en maður er vanur á þessum degi var reynt eftir fremsta megni að skapa þjóðhátíðarstemmningu. Íslensk tónlist var látin óma úr hátölurum og kór fengin til að syngja ættjarðarlög. Við það tækifæri fór að rigna og Baldur sagði að almættið klökknaði við að heyra Ísland ögrum skorið.

Hvar væri 17. júní án sölubásanna? Nokkrum slíkum hafði verið hent upp og þaðan streymdi fólk með íslenskan varning eins og rækjusamlokur, harðfisk og lakkrískonfekt. Þá höfðu margir foreldrar stungið íslenska fánanum niður í barnavagnana og bundið gasblöðrur við. Milt veður, pikk-nikk stemmning og strandlíf kom samt upp um plottið, við vorum augljóslega ekki á Arnarhóli.

Tvær pæjur í pikk-nikki
Mæðgurnar í þjóðhátíðargír - takið eftir íslenska fánanum og gasblöðrunni hjá vagninum
Sætu systkinin náðust á mynd en aðalstjarnan var annars hugar
Fjalarfamily hefur það huggulegt
Hittum Fjólu, Ingólf og Kjartan - takið eftir íslenska fánanum á barnavagninum
Prakkarar taka sér aldrei frí, ekki einu sinni á Sautjándanum

föstudagur, 16. júní 2006

Spænsk veisla

Í gærkvöldi fór ég í kveðjuhóf til spænsku vina minna úr CBS: Cesars, Kikes og Lauru. Þetta var allt saman mjög spænskt, formlega átti maturinn að byrja klukkan níu en dróst til hálftíu. Það var ágætt því þannig varð ég vitni að því hvernig Spánverjar búa til spænskar ommelettur.

Þetta voru tvær risastórar ommelettur og þori ég ekki að spyrja hve mörg egg fóru í hvora. Hitt veit ég þó að takmarkalaust er hve mikinn lauk og kartöflur má hræra með.

Ég tók með mér nokkrar harðfiskflísar til að gefa þeim að smakka og voru þau öll mjög hrifin. Laura sagði mér meira að segja að á hennar heimaslóðum væri eitthvað svipað harðfiski búið til.

Seint og síðarmeir kom ég svo heim (nánar tiltekið um eitt leytið) eftir að hafa rætt um allt milli himins og jarðar við krakkana. Svo er bara að kíkja til Madridar einhvern tímann.

miðvikudagur, 14. júní 2006

Verslunarferð

Við fylltum á fataskápinn í dag enda löngu orðið tímabært þar sem engin sumarföt er að finna þar, sama hversu mikið maður gramsar og endurraðar.

Við gengum Strikið þvert og endilangt og gerðum okkur að leik að kíkja í allar "hinu" verslanirnar sem við höfum ekki kíkt í fyrr. Þessar "hinu" verslanir eru allar þær búðir sem ekki eru úr Vero Moda eða H&M keðjunni :0)

Við komum klifjuð heim eins og vera ber úr verslunarleiðangri og erum tilbúin í sumarveðrið sem á að vera þann 17. júní.

þriðjudagur, 13. júní 2006

Sumargjafir

Ég hef ekki fengið sumargjafir í langa tíð. Í svona steikjandi hita eins og hefur verið í Danmörku undanfarið er gaman að gleðja sig og kaupa sínar eigin sumargjafir.

Við fundum heilan rekka af sumardóti í Nettó áðan. Við keyptum okkur sitthvorn tennisspaðann til að nota á tennisvellinum góða. Svo átti ég bágt með að kaupa ekki allt sem var í boði eins og götukrítar og marmarakúlur, en ég lét það nú eiga sig og keypti bara sápukúlur og bókina 3003 sporsgsmål & svar. Í sumargjöf fyrir sig keypti Baldur sippuband og Mozzarella di Buffala.

mánudagur, 12. júní 2006

Tennisvöllurinn

Við fundum í dag þennan líka fína tennisvöll við hliðina á fótboltavellinum sem er eins og stendur nýja þrekstöðin okkar.

Við mættum í kvöld með tvo litla borðtennisspaða og bolta og tókum nokkur köst - frekjuköst. Nei, segi svona. Það er ekki mikið frekjukast að vilja fá almennilegan tennisspaða.

sunnudagur, 11. júní 2006

Rölt í skuggum

Púhe, þvílíkur hiti! Í gær fórum við í Kongens Have til þess að upplifa danska sumarstemningu. Það tókst með endumum vel enda fólk á strandfötum út um allan garð, inni í miðri borg.

Við entumst ekki lengi í steikjandi garðinum og leituðum skjóls í skuggasundum við Strikið. Við höfðum nefnilega verið upplýst um að þessa helgi yrðu geislar sólar sérdeilis sterkir og jafnvel varasamir.

Skuggaröltið leiddi okkur inn í Søstrene Grene, sem er ein af mínum uppáhaldsbúðum (þar er svo mikið dót!). Eftir hraða yfirferð kom í ljós að í körfunni okkar voru komin gullfalleg glös myndskreytt með göfugum skepnum (Hlöðveri grís og félögum).

Á bakaleiðinni keyptum við okkur sólgleraugu til að sjá handa okkar skil í allri birtunni. Þannig gátum við líka skoðað litlu, sætu andarungana í Kongens Have á leiðinni heim aftur.

Sólbökuð fegurð

Ættarmót Hlöðvers gríss

Herra Grís


Sæll með sólgleraugu

Ekkert ljótt við þessa andarunga - en litlir eru þeir!

Sæl með sólgleraugu

föstudagur, 9. júní 2006

Kúkalabbi

Linda í Døgnaranum er farin að brosa til okkar þegar hún afgreiðir okkur. Það er kærkomin tilbreyting frá fýlupokasvipnum sem mætti okkur alltaf áður.

Í gær spurði hún okkur hvaðan við værum og þegar hún fékk að vita að vor móðurjörð væri Ísland varð hún upprifin og sagði síðan við okkur: Kúkalabbi.

Við skildum það að sjálfsögðu ekki alveg strax en svo áttuðum við okkur og urðum mjög kát og glöð. Ætli það séu eðlileg viðbrögð þegar einhver kallar mann kúkalabba?

fimmtudagur, 8. júní 2006

Mínútulærdómur

Á þessum fallegu júnídögum getur reynst erfitt að halda sér að verki í lærdómi. Ég hef því þurft að prufa nýjar leiðir til að nálgast lærdóminn og finnst svolítið skondið til þess að hugsa að eftir sex ára háskólanám sé ég núna að gera tilraunir með námstækni.

Í dag fann ég upp á því að beita mínútu-nálgun að lærdómnum. Ég setti upp skema um hversu margar og langar vinnutarnir ég tæki og hversu margar og langar pásur ég tæki. Síðan fylgdi ég þeim út í ystu æsar og það gekk svona líka rosalega vel.

Ég hélt mér að verki í samanlagt 420 mínútur (hefðbundinn vinnudagur) sjö tímar og tók innan við klukkutíma í samanlagðar pásur. Í lok dagsins gat ég síðan séð augljósan árangur erfiði míns. Það er gaman að vera afskastamikil.

miðvikudagur, 7. júní 2006

Rocky

Kvikmyndin Rocky eftir Sylvester Stallone er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Ég hef horft á hana nokkrum sinnum og alltaf nýt ég þess mjög og ekki síst fyrir þann innblástur sem myndin veitir mér.

Í myndinni er meðal annars sýnt frá æfingum Rockys t.d. þegar hann hleypur um götur Philadelphiu og almenningur sem er að hefja vinnudag hvetur hann áfram við hlaupin. Öllum að óvörum þá horfðum við Ásdís á myndina fyrir nokkrum dögum, einu sinni enn.

Síðan þá hefur Rocky veitt mér aukaorku við morgunæfingarnar. Æfingarnar byrja ég nánast undantekningalaust á því að taka hlaupaspretti og eitt skipti vildi þannig til að nokkuð margt var um manninn á svæðinu.

Ég læt það ekki á mig fá og byrja sprettina. Strax í öðrum spretti byrjar bláókunnugur maður að hvetja mig áfram við hlaupin og naut ég andlegs stuðnings hans um tveggja spretta skeið meðan hann gekk sína leið.

Þegar þessi náungi var farinn tók annar gaur upp þráðinn þar sem hann hafði hætt og þegar sá var var farinn fékk ég stuðning þriðja aðilans. Ég naut því ekki bara innblásturs kvikmyndarinnar því í morgun var ég Rocky.

Þetta er langt því frá að vera eina hvatningin eða innblásturinn því sem ég er í miðri æfingasyrpu, upphífingum og fleiru, fékk ég fjögurra manna áhorfendahóp. Allir voru þeir u.þ.b. 20 árum yngri en ég og vildu ólmir læra þessa hluti.

Fyrst vildu þeir þó athuga og bera saman vöðvana á mér og á sér. Ég lét þá vita að þeir hefðu allt til að bera til þess að verða tröllsterkir, svo hófust æfingar. Eftir spretthlaupin stilltum við okkur upp í hring og gerðum armbeygjur af miklum móð. Hei, hann gerir þær svo hratt! heyrðist kvakað úr hópnum, meiri hvatning í þessu kvaki en kvakandann grunaði.

Því næst voru það armbeygjur á annarri höndinni í einu, strákunum leist nú ekkert á blikuna en reyndu samt. Að lokum kenndi ég lærlingum mínum hvernig ætti að gera upphífingar og gekk það vel, ég fékk smáaukaæfingu út úr því þar sem ég þurfti alltaf að lyfta þeim upp á stöngina. Að lokum kvaddi ég hópinn og þeir spurðu hvort ég gæti ekki komið alla daga klukkan 11 því þá væru þeir í frímó. Ég sagðist sjá til.

Í heildina litið er gott að veita öðrum innblástur með því að vera fordæmi um heilbrigt líferni. Það besta er þó innblásturinn sem ég fæ sjálfur við það að sjá fordæmið bera ávöxt.

þriðjudagur, 6. júní 2006

6-6-6

Eins og ég hef áður greint frá á þessum vef hef ég gaman af flottum dagsetningum. Mér finnst samt alveg óþarfi að leyfa þeim að ná tökum á mér svo ég verði alveg gagntekin. Ef eitthvað er hins vegar að marka fréttir dagsins eru margir tilbúnir til að líta á þennan dag sem einhvers konar ragnarök.

Á þessum meinta degi djöfulsins ákvað ég baka bananabrauð. Ef eitthvað er til í þessum kenningum um dag djöfulsins veit ég að ég hef gert mitt til að sporna gegn myrkum öflum Satans. Bananabrauð er nefnilega bara af hinu góða.

sunnudagur, 4. júní 2006

Útileikfimi

Í maímánuði fórum við skötuhjú að þreifa fyrir okkur með æfingar utandyra, fyrst og fremst til að breyta til og brydda upp á einhverju nýju.

Til að byrja með hjóluðum við alltaf upp í Bellahøj og hlupum á mjúkum stíg undir þykkri laufkrónu trjáganga. Í þá daga vísaði ég í þessi hlaup sem Skokka-spretta prógrammið en í dag finnst mér flottara að tala um HIIT hlaup (High Intensity Interval Training).

Nýlega fundum við hins vegar miklu betri staðsetningu: íþróttavöllinn á bak við Frederikssundsvejens Skole. Sú aðstaða er fyrst og fremst betri því hún er svo nálægt heimili okkar en hún bíður líka upp á hlaup á grasflöt milli marka og ýmis tæki til æfinga. Þar er meðal annars hægt að gera upphífur og þríhöfðaýtur sem er óneitanlega stór plús.

Síðan við uppgötvuðum þennan grenndaríþróttavöll höfum við mætt reglulega í útileikfimina og verið að þróa æfingakerfi sem fyrst og fremst snýst um æfingar með eigin líkamsþyngd. Mér finnst þetta skemmtileg rútína, ekki síst vegna þess hve maður er góður með sig allan daginn ef maður nær að bæta sig um eina armbeygju eða eina upphífu.

HIIT hlaup

Uppsetur í halla

Upphífur

Þríhöfðadýfur


Rocky-magi

Hindu armbeygjur

Hindu hnébeygjur

laugardagur, 3. júní 2006

Ybbum gogg!

Þegar ég var í bæjarvinnunni sumarið 1997 notaði ég eitt sinn orðalagið að ybba gogg. Það vakti mikla lukku meðal vinnufélaganna sem höfðu víst ekki heyrt orðalagið notað í háa herrans tíð.

Mér finnst að í viðleitni til að halda blæbrigðum í tungumálinu verði maður að ybba gogg reglulega eða í það minnsta banna öðrum að ybba gogg. Rétt í þessu bað ég til að mynda Baldur að vera ekki að ybba gogg, allt í þágu tungunnar að sjálfsögðu.

föstudagur, 2. júní 2006

Østre Anlæg

Lærdómur hefur verið ofarlega á blaði að undanförnu, ritgerðarskrif hjá báðum. Á þessum sólríka degi gáfum við okkur þó smábreik, áttum hvort eð var erindi niður í bæ. Það var steikjandi hiti og ef þið hafið lesið fréttir af allsberum manni á reiðhjóli þá var það sennilega ég. Mér var a.m.k. skapi næst að kasta af mér klæðum en lét mér nægja að bretta upp á buxurnar.

Eftir erindagjörðir ákváðum við að kíkja í garð sem heitir Østre Anlæg og liggur rétt við Statens Museum for Kunst. Það var svo mikið af börnum þar að við vorum ekki viss hvort fullorðnir væru leyfðir en svo sáum við fullorðnar endur og vörpuðum þeim léttar.

Skömmu eftir að við komum inn á svæðið fundum við frænda Loka (bátur sem familían átti einu sinni) og ákváðum að skella okkur í stórferð. Að fyrirmælum kafteinsins yfirfór ég akkerisvindu, björgunarbáta, stórsegl og fokku og athugaði hvort nokkuð vatn væri í kjalsogi. Þvínæst tryggði ég að leiðarsteinninn væri um borð. Þá var hægt að leggja úr höfn.

Þetta var sannkallað happafley og klauf hvítfreyðandi grasöldutoppana tignarlega. Dagurinn var vel til siglinga fallinn og er ég ekki frá því að ég sé kominn með vísdómshrukkur, svo sjóaður er ég eftir að hafa verið háseti hjá kafteini Ásdísi á Largó. Nafn nökkvans er dregið af Loka og Argó.

Komumst örugg til hafnar á ný og teymdum hjólin um garðinn, pikknikkuðum á bekk og já, tókum myndir. Sáum að einhver listamaðurinn hefur tekið það ansi bókstaflega að skera út í tré, flatbökuðumst aðeins við hliðina á því. Til að ná svo úr mér sjóriðunni stóð ég á haus um stund, sérdeilis gott.

Ekki fullorðinsgarður?

Jú, greinilega fullorðinsgarður

Kafteinninn á Largó

Land á stjórnborða!

Kafteinninn fylgist með áhöfninni vinna

Rósahaf

Tréskurður

Sjóriðan flæmd út

fimmtudagur, 1. júní 2006

Sumarmánuðir framundan

Er ekki frábært að upp sé runninn júnímánuður? Júhú, þá fyrst er komið almennilegt sumar.

Eins skrýtið og það hljómar þá sakna ég þess að vera í Reykjavík núna, það er betra að vera í rigningu þar en hér því þar kemst maður þó í heitan pott og þá getur rigningin ekki truflað mann :0)