Við kíktum í Kristjaníu í gær með Stellu, Áslaugu Eddu og PG. Þangað höfum við ekki komið síðan í Evrópureisunni 2001 svo það má segja að það hafi verið kominn tími til.
Sumt hefur breyst en annað ekki. Þarna eru enn sömu hundarnir gangandi um götur sem löggæslan, það er enn bannað að taka myndir og skiltið þar sem maður er minntur á að maður sé að yfirgefa ESB stendur enn. Núna eru hins vegar engir básar lengur sem selja hass og löggur ganga um svæðið í sex dósa kippum.
Við kíktum á veitingastaðinn Morgenstedet sem býður upp á lífrænt grænmetisfæði. Ég fékk mér myntusvaladrykk í forrétt og síðan vorlauks- og kjúklingabaunasúpu, rauðrófusalat og væna brauðsneið með þykkju smjörlagi, namm.
Fyrir utan hvað maturinn bragðaðist vel og hve félagsskapurinn var góður var umgjörðin alveg dásamleg: Falleg girðing með trjágróðri innan við, fuglar flögrandi og nartandi í mylsnur, sólskin og ljósblár himinn, verönd lögð steinvölum þar sem hægt er að borða utandyra. Svolítið eins og vera stödd í einhverri bóka Astrid Lindgren.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli