föstudagur, 31. janúar 2003

Miðnæturblogg

Hvað á það að þýða að blogga svona seint? Eru Baldur og Ásdís komin með nettengingu heima eða er opið upp í skóla? Nei ástæðan fyrir því að ég blogga svona seint er sú að ég sit sem vaktmaður á fornum slóðum og fíla mig bara vel...

laugardagur, 25. janúar 2003

Froskapartý

Við Ásdís vorum að koma úr tvöföldu afmælisboði frá Stellu og Kristjáni. Stella á afmæli í dag en Kristján átti afmæli fyrir fimm dögum. Til hamingju með afmælin kæru hjón!

Í morgun var ég í verklegri eðlisfræði að gera ljóstilraunir og að þeim loknum lagði ég af stað heim en komst ekki alla leið sökum yfirþyrmandi einmanaleikatilfinningar. Ég veit ekki hvernig ég á að segja það en ég læsti einn af mínum bestu vinum inni á tilraunastofu og lagði svo af stað heim.

Umræddur vinur losnaði svo ekki úr prísundinni fyrr en núna rétt áðan. Það er þó engin ástæða til að örvænta um vinskapinn því kaffibollar virðast vera fljótir að fyrirgefa.

föstudagur, 24. janúar 2003

Megavika

Það er greinilegt að enn einu sinni er skollin á svokölluð megavika hjá Dominos. Og hvernig veit ég það?

Jú, sjáðu til, í gærkvöld fórum við upp í VR til að lesa og þegar við gengum inn í bygginguna var pizzafnykurinn svo stækur að við lág að maður snérist á hæl og læsi frekar úti í slyddunni og myrkrinu.

En við hörkuðum af okkur, mér tókst að kasta ekki upp og Baldri tókst að hemja garnagaulið. Það versta var að því ofar sem dróg varð lyktin stækari og stafar það af því að fólk borðar iðulega á efstu hæðinni fyrir utan bókasafnið.

Þegar heim var komið fórum við á smá kvöldrölt um hverfið þar sem við náðum ekki í sund. Við komum við í lítilli sjoppu til að kaupa mjólk og er þá ekki þessi sama pizzastybba þar og var í VR.

Ég hef sterkan grun um að starfsmenn sjoppunnar hafi falið nokkur tonn af mega pizzum í skonsunni bakatil en lyktinni héldu engin bönd og þannig komst upp um átveisluna. Við stoppuðum stutt við í sjoppunni og ég held ég borði ekki dominos á næstunni.

fimmtudagur, 23. janúar 2003

Popp og kók

Nei, nei við fórum ekki í bíó í gær nema þá heimabíó í besta falli. Við erum nebbla enn að horfa á 8 seríu af Friends og eigum bara fjóra þætti eftir.

Nú, nú gærkvöldið var ekkert öðruvísi en önnur undanfarin kvöld að því leyti að við gláptum á 2-3 þætti af ofangreindri syrpu. Hins vegar tókum við upp á svolitlu sem við höfum, að ég held, aðeins einu sinni reynt áður, við poppuðum.

Og nú er ég ekki að tala um örbylgjupopp því ég held ég hafi klárað minn kvóta af því á unglingsárunum, heldur á ég við poppkorn að hætti 9. áratugarins, þegar við Baldur vorum enn pjakkar. Við poppuðum sem sagt í potti og sjá, það tókst!

Og svo átti ég hálfslítra kók inni í skáp sem Vífilfell gaf okkur stelpunum í styrk þegar við fórum til Grænlands (svolítið glatað ég veit haha) svo ég skellti henni bara í frystinn í hálftíma og viola: popp og kók.

P.s. Ég veit þetta hljómar furðulega en kókin var faktískt útrunnin, best fyrir 1. janúar 2003. En hver tekur svo sem mark á því, þetta er bara sykurleðja uppleyst í vatni, haha :)

mánudagur, 20. janúar 2003

Vinir

Gærdagurinn var fremur vinalegur. Sunnudagar eru nú oft vinalegir en þessi var meira svona Friends-legur.

Eftir að hafa tekið ágætis tiltektartörn þá lögðumst við upp í sófa og horfðum á vini í tölvunni. Stella systir mín kom okkur nefnilega upp á lagið með þetta vinadót um daginn og nú er ég bara kominn svo vel inn í þetta allt saman að ég bara verð að verða vinsælli (þ.e. eignast fleiri þætti).

Ég segi nú bara eins og Bjarni vinur minn sagði: Hver þarf vini þegar hann á Vini? Nei heyrðu mig nú ég er ekki svo forfallinn.

mánudagur, 13. janúar 2003

Hörkudjamm

Í gær fórum við Ásdís í fyrsta afmælispartý ársins. Það var haldið á Borginni og var afmælisbarnið Stella amma. Mætingin var góð, stemninging var góð og síðast en ekki síst voru snitturnar góðar.

Nú er ég staddur upp í skóla og ákvað að kíkja aðeins á vanræktu bloggsíðuna þar sem ég komst ekki í tímann sem ég á að vera í. Hvers vegna komst ég ekki? Það var einfaldlega ekki pláss í stofunni, en það á eftir að fækka í hópnum hvort sem er þannig að þetta er í orden. Af fenginni reynslu eru margir af fyrirlestrunum settir í of litlar stofur þar sem reglan er sú að færri sitja áfangana en skrá sig.

fimmtudagur, 2. janúar 2003

Gleðilegt ár allir saman og takk fyrir gamla!

Síðan ég opinberaði mig sem möndlugrís þá hefur ýmislegt gerst, t.d. komu áramót og ég hef legið í leti heima að lesa ævisögu Tolkiens sem Ásdís gaf mér í jólagjöf :)

Í gær sáum við svo myndina Tveggja turna tal sem var mjög jákvætt. Við höfum nefnilega ætlað að fara áður en þá var uppselt.