þriðjudagur, 31. júlí 2007

Af löppinni og ljúfa lífinu

Á hverjum degi núna heimsæki ég læknastofuna til að láta hreinsa skurðinn og skipta um umbúðir. Það er langt frá því að vera uppáhaldspartur dagsins hjá mér en ég læt mig hafa það því ég vil að sjálfsögðu losna við sýkinguna og geta gengið á ný.

Ég er það slæm að ég ligg meirihluta dags upp í rúmi með fótinn ofan á háum púða og fer minna leiða innan herbergisins hoppandi á vinstri fæti. Þegar ég þarf að fara út fyrir herbergið höfum við haft þann háttinn á að Baldur ber mig á bakinu niður í anddyri en þaðan haltra ég svo að næsta veitingastað (maður lætur ekki sjá sig á almannafæri hangandi aftan á manninum sínum).

Það liggur því ljóst fyrir að ég fer ekki langt í svona ástandi og fyrir vikið erum við að verða búin að prófa alla veitingastaði í 50 m radíus. Ég fer heldur ekki í neinar bæjarferðir svona á mig komin og Baldur og pabbi hafa því þurft að finna sér eitthvað til dundurs. Það hefur ekki reynst þeim neitt sérlega erfitt með allar þessar nuddstofur í nágrenninu, en þeir eru búnir að fara í nudd á hverjum degi síðan pabbi kom.

Í dag treysti ég mér til að kíkja með þeim tveimur í nudd og pantaði mér hálftíma af sænsku nuddi og hálftíma af jurtanuddi. Sænska nuddið var notalegt fyrir utan þessa hörðu hnúta sem hún var alltaf að þrýsta á. Jurtanuddið var með því sérkennilegra sem ég hef prufað: sjóðheitum og illalyktandi vöndlum þrýst á bakið í örfáar sekúndur í einu. Sjóðheitar er reyndar svolitlar ýkjur en ég saup stundum hveljur, og illalyktandi gefur kannski ranga mynd því í raun lyktuðu vöndlarnir af soðnum kryddjurtum eins og engifer, sítrónugrasi og eucalyptus, sem venjulega gefur tilefni til fagnaðarláta en getur augljóslega orðið of mikið af hinu góða.

Eftir nuddið tókum við bleiksanseraðan leigara á súperfína Amari hótel og borðuðum á überflotta tælenska veitingastaðnum Thai only. Fékk mér tígrisrækju- og polemo salat í forrétt, krabba í ostrusósu í aðalrétt og ramma súkkulaðiköku í eftirrétt. Kvöddum hótelið með trega, hefðum vel geta hugsað okkur að skjóta rótum þarna.

mánudagur, 30. júlí 2007

Pimpmóbíl

Nokkuð er nú liðið síðan ég fór í rakstur síðast og auðvitað hef ég ekki nennt að standa í að raka mig sjálfur svo það má segja að tími hafi verið til kominn að heimsækja rakarann góða. Með mér á rakarastofuna kom Elfar sem við höfðum nokkrum dögum áður sent fyrirmæli um að raka sig alls ekki fyrir heimsókn sína til Bangkok.

Raksturinn var ljúfur að vanda og ekki spillir að innifalið er alltaf smá axlanudd í lokin. Nýrakaðir tókum við svo púlsinn á eftirmiðdagstómstundum Bangkokbúa, svona á heimleiðinni. Á þeirri göngu sá maður ýmislegt t.d. afar líflegt sparkblak, kjúttaða kettlinga, krakka að dorga og suma sem komu einfaldlega til að slappa af.

Þegar maður lifir lúxuslífi í Bangkok koma reglulega upp erfiðar spurningar um hvaða nuddstofu eigi að fara á eða hvar skuli borðað. Ágætlega hefur gengið að leysa úr þessum flækjum og í dag var matarmálið leyst með heilsteiktum og ákaflega ljúffengum vatnafiski (red snapper).

Eftir matinn bauð Elfar okkur svo í hjólatúr með herra Tælandi enda eina leiðin til að fá einfætluna Ásdísi út á lífið. Við höfðum séð gaurinn hjóla um á vægast sagt áberandi léttivagni sínum og þegar Tælendingar skreyta þá er það sko ekki lítið, þess vegna köllum við vagninn aldrei annað en pimpmóbíl. Glitur og litadýrð virðist allmörgum í blóð borin hér um slóðir og fer síðan annað slagið úr böndunum á svona líka skemmtilegan hátt.

Með hinum flúraða fýr fórum við svo frá veitingastaðnum okkar niður á Khao San og tékkuðum á stemningunni. Það má samt eiginlega segja að tékkað hafi verið á okkur því ósjaldan stökk fólk fram fyrir vagninn eða hljóp að hlið hans til að smella af okkur myndum (en ekki hvað, við erum þrír fallegir Íslendingar).

laugardagur, 28. júlí 2007

Stefnumót í Bangkok

Dúóið okkar er orðið að tríói!

Í dag bættist pabbi við hópinn okkar og gerðist þar með bakpokaferðalangur. Við vorum vöknuð fyrir allar aldir til að taka á móti honum en vélin átti að lenda á Bangkok velli rétt fyrir sex í morgun. Rétt fyrir hálf átta var Baldur mættur niður í anddyri til að missa örugglega ekki af gestinum en kom stuttu síðar með þær fréttir að ekkert bólaði á manninum. Það var ekki fyrr en Baldur fór aftur niður og sat sem fastast að þeir hittu á hvern annan. Þá kom í ljós að pabbi var búinn að koma sér fyrir inn á herbergi og sprækur sem lækur. Vélin hans frá Stokkhólmi hafði fengið meðbyr og lent fyrr á áætlað var og það skýrði af hverju að Baldur missti af honum.

Við buðum gestinn að sjálfsögðu hjartanlega velkominn til Tælands, fórum því næst og fengum okkur morgunmat á bresku búllunni Oh My Cod, létum þó þorskinn vera að sinni en fylgdumst þess í stað með gullfiskunum í tjörninni. Slúðruðum heil ósköp og fengum fréttir að heiman.

Skemmtilegast var náttúrulega að fá allar gjafirnar. Við fengum risapoki af söltuðum lakkrísstjörnum, fjóra græna risaópalpakka, vakúmpakkaðan harðfisk frá Deplu, sólhattsgostöflur og önnur vítamín, nýútgefna plötu Sea Bear og föstudagseintakið af Mogganum. Best fannst mér þó að fá allar frábæru kveðjurnar af klakanum sem við urðum að pína dauðþreyttan ferðalanginn til að rifja upp fyrir okkur.

Pabbi kemur til með að vera á flakki með okkur næstu fimm vikurnar og við ætlum að gera margt sniðugt á þeim tíma.

föstudagur, 27. júlí 2007

Aðgerðin

Ég neyddist til að fara aftur til læknis í dag þar sem sýkingin í ilinni hefur ekkert hjaðnað. Að þessu sinni fengum við ótrúlega faglega þjónustu í ótrúlega lítilli en ofurhreinni læknastofu sem er inn af hótelinu okkar. Læknirinn ákvað að gera þyrfti aðgerð á ilinni og ég mátti velja á milli þess að hún yrði gerð á staðnum fyrir tvö þúsund baht eða fara á einkarekinn spítala og fá aðgerð upp á 20 þúsund baht. Það er augljóst að sumar ákvarðanir eru ekki erfiðar.

Baldur fékk að fylgjast með aðgerðinni og hef ég því frá honum hvernig allt fór fram. Fyrst sótthreinsuðu læknirinn og hjúkurnarkonan allt sem hægt var, því næst fékk ég deifingu í ilina og get frætt ykkur um það að það að láta stinga sig með nál í sýkt svæði á ilinni er eitt það allra versta sem ég hef þurft að þola. Næst skar læknirinn 1 cm skurð í ilina og hreinaði burt gröftinn, skolaði síðan sárið með joðblöndu, tróðu því næst sótthreinsaðri grisju ofan í sárið og bundu um fótinn. Deifingin virkaði vel en mér fannst samt afskaplega ónotalegt að vita til þess að verið væri að búa til holu ofan í fótinn og troða einhverju ofan í hana.

Læknirinn skrifaði að sjálfsögðu upp á sýklalyf og verkjalyf og að þessu sinni tek ég tvær gerðir að sýklalyfjum til að breiddin sé meiri og líkurnar á að kveða sýkinguna í kútinn aukast. Baldur varð að bera mig á bakinu upp í herbergi og þola urrið í mér þegar deyfingin fór að hjaðna. Til að gera mér lífið bærilegra keypti hann bókina The Shadow of the Wind og þar sem ég þarf að borða eitthvað með þessum sýklalyfjum fékk ég M&Ms og Snickers. Hann sér semsé mjög vel um mig. Ég verð þó að segja að það er alveg merkilegt hvað það er leiðinlegt að borða nammi þegar maður þarf þess.

Á landamærunum, II

Við kvöddum Kambódíu í dag og héldum til Tælands. Frá Siem Reap að Bangkok eru ekki nema u.þ.b. 330 km en engu að síður tekur ferðin þarna á milli allan daginn og meira ef eitthvað er. Vegurinn Kambódíumeginn er alræmdur fyrir holur og almenn óþægindi og Gróa á Leiti segir að ákveðið flugfélag múti ákveðnum stjórnmálaflokkum til að tefja allar vegabætur á þessum slóðum.

Til að gera ferðina þarna á milli eins þægilega og hægt er tókum við leigubíl að landamærunum. Leigubíll kemst mun hraðar yfir slæma veginn og auk þess leggur hann af stað þegar maður vill að hann leggi af stað. Við vorum komin upp í bílinn og lögð af stað til Tælands klukkan hálf sex í morgun og vorum komin að landamærunum á slaginu níu. Með rútunni hefðum við ekki verið komin að landamærunum fyrr en síðdegis.

Þar sem við fórum ekki með rútu yfir landamærin urðum við að þessu sinni að ganga yfir landamærin. Í mínu tilfelli var það reyndar frekar haltrað yfir landamærin. Allt gekk vel Tælandsmegin þó þeir hafi klórað sér lengi í kollinum yfir heiti landsins, Ísland eða Iceland, en það kom ekki að sök því við fengum inn.

Frá landamærunum tókum við túk-túk að næsta bæ, þaðan fara rútur til Bangkok. Á leiðinni í léttivagninum, sem er opinn á allar hliðar, fauk fína víetnam derhúfan af kollinum á Baldri. Ég bað bílstjórann vinsamlegast að stöðva, Baldur fór því næst úr sandölunum og hljóp síðan út eftir hraðbrautinni á táslunum. Sem betur fer var engin umferð og sá eini sem eitthvað sá að þessu var lítið hundskríli sem hélt að hlaupandi Baldur væri í einhverjum sniðugum hundaleik og tók því að elta okkar mann, geltandi út í eitt. Baldur sagðist eftir á hafa sýnt honum í tvo heimana, sem þýðir að hann snéri sér snöggt við, hleypti brúnum, sneri sér við og náði að hemja sig um að hlaupa ekki frá loðboltanum.

Þegar Baldur var kominn í öruggt skjól gátum við haldið för okkar áfram og náðum loks að smábænum, þaðan tókum við rútu til Bangkok. Við vorum ekkert að eyða óþarfa tíma í að bíða með að fá okkur tælenskan mat heldur kipptum með okkur frauðbakka af soðnum grjónum og góðum mat í rútuna.

Rútuferðin tók dágóðan tíma og í millitíðinni skipti veðrið skapi, svo mjög að þegar við renndum inn í borgina var verið að vökva hana af krafti. Okkur sakaði þó ekki því frá rútustöðinni tókum við leigubíl beint á Khao San. Við festumst margoft í umferðahnútum og vorum fyrir vikið óhemjulengi á leiðinni. Lengst sátum við í hálftíma föst en þá tók bílstjórinn rögg á sig, snéri bílnum og fór aðra leið og fimm mínútum síðar vorum við komin inn á hótel.

Það er sérkennilegt að koma aftur til borgar borganna og sjá að ýmislegt hefur breyst. Ný bókabúð er nú sprottin upp í hótelgötunni okkar, Soi Rambuttri, og alþjóðleg læknastofa komin þar sem áður var enn einn klæðskerinn. Götuveitingastaðurinn sem við dýrkuðum fyrir nokkrum vikum má nú muna fífil sinn fegurri, þau misstu kokkinn góða og þar með er allt bragð horfið af matnum. Svo er laydboy-inn fallegi sem stóð á horninu horfinn.

Flest hefur þó ekkert breyst: við fengum okkur hræring í plastpoka og grillspjót af götusölunum, ávaxtasölukonan okkar er enn í bransanum og klæðskerarnir frá Nepal mundu eftir okkur og vildu vita hvernig fríið í Víetnam hefði verið. Að því leyti er Bangkok jafnyndisleg og hún var áður.

miðvikudagur, 25. júlí 2007

Kambódía, fyrri hluti

Þar sem ég var enn ekki orðin fullfrísk í fætinum í gærkvöldi ákváðum við að leggja til hliðar öll áform um að heimsækja hið rómaða Angkor Wat. Við höfðum upphaflega hugsað okkur þrjá daga til að skoða hofin og byggingarnar en sýkingin í fætinum setti allt úr skorðum. Nú þegar þessir þrír dagar sem ætlaðir voru Angkor Wat eru liðnir verðum við að kveðja Kambódíu í bili og halda aftur til Bangkok, ekki viljum við verða of sein á stefnumótið okkar þar.

Þetta þýðir hins vegar það að við erum farin að skipuleggja aðra heimsókn til Kambódíu enda bara um dagsferð að ræða frá Bangkok. Við höfðum bæði hlakkað mjög til að heimsækja hofin í Angkor og ætlum að láta þann draum rætast. Það kemur sér í raun mjög vel að kíkja hingað aftur því rétt eins og Víetnam hefur Kambódía náð að heilla okkur með fallegu konungshöllinni, hryllilegri sögu sinni, jákvæða fólkinu, yndislegri náttúrufegurð og fáránlegum vegum :o)

Fyrir þessa fyrstu heimsókn reiknuðum við bara með tíu dögum og töldum það vera nóg. Þegar uppi er staðið finnst okkur Kambódía eiga skilið meiri tíma og við erum að gæla við að kíkja kannski á eitthvað fleira en bara Angkor næst. Ég held samt við komum til með að halda okkur rækilega á troðnu slóðinni, að þræða ótroðna slóð getur þýtt óvænt stefnumót við jarðsprengju og svoleiðis stefnumót vill maður ekki fara á.

þriðjudagur, 24. júlí 2007

Í óspurðum ferðafréttum, III

Asíureisan okkar hefur fram til þessa verið hreint út sagt stórkostleg. Allir skemmtilegu staðirnir, náttúrufegurðin, fólkið, maturinn, atvikin, samtölin, hlutirnir, reynslan... allt svo yndislegt að orð fá varla lýst. Ég held við náum að koma þessari jákvæðu reynslu á framfæri hér á dagbókinni og enginn ætti að hafa farið varhluta af því hve gaman er að ferðast um þessar slóðir.

Það væri hins vegar svolítil svik að ljóstra ekki upp um þær stundir sem maður verður þreyttur á þessu öllu, það myndi í raun ekki gefa eins raunsæja mynd af lífinu á flakkinu. Stundum koma til dæmis stundir sem við fáum heimþrá og viljum ekkert frekar en komast í Jerusalem grænmetisverslunina á horninu, heilsa upp á arabísku með salaam aleikum og velja sér því næst ferskan blaðsalathaus og lífrænar gulrætur. Eða hanga í pottunum í Laugardalslaug á froststilltu kvöldi, kaupa sér snúð með karamellu í Bakaranum á hjólinu, hanga á bókasafninu og veiða sér bækur í kvöldsnarl, kraftganga út Kársnesið... Semsé heimþrá sem skýtur stundum upp kollinum.

Þá gengur það ekki alltaf alveg þrautalaust fyrir sig að ferðast hér um. Tökum samskipti sem dæmi. Í Halong borg áttum við til að mynda í stökustu vandræðum með að fá upplýsingar um hvenær vagninn til Ninh Binh færi því enginn á hótelinu skyldi orð af því sem við sögðum. Ég er að tala um svo lélega enskukunnáttu að þau skildu ekki einu sinni hugtakið check-out sem ég hefði haldið að væri með fyrstu orðum sem hóteleigendur flettu upp í víetnamsk-ensku orðabókinni sinni.

Veðrið getur dregið út manni mikinn kraft; æpandi sólin, kremjandi hitinn og kæfandi rakinn gera sitt besta til gera úr manni slitti. Það getur orðið þreytandi að stanslaust þurfa að prútta um allt og það sama má segja um óþreytandi sölufólkið sem er alltaf að ota einhverju að manni með orðunum Look my shop, madame eða hvíslandi Smoke, grass, marijuana? Túk-túk bílstjórarnir sem eru alltaf að bjóða manni far geta pirrað mann og muggurnar fara í mínar fínustu, sérstaklega þær sem hafa gerst sekar um að bíta mig í andlitið, hálsinn og eyrun.

Svo fæ ég stundum hundleið á því að búa í bakpoka, sá leiði lætur helst á sér kræla þegar ég er að ná í flík sem er grafin neðst í pokanum og til þess að komast að henni þarf ég að ryðja öllum samanbrotnu flíkunum upp úr pokanum. Ekki að það skipti máli hvort þær séu samanbrotnar, þær krumpast allar í klessu og ég man ekki hvenær ég gekk síðast í sléttri flík! Í Indlandshluta ferðarinnar var ég þar að auki að verða vitlaus á fábrotnu fatavali mínu, hafði einungis tvo boli og tvennar buxur, en í Tælandi bættum við úr því og síðan aftur í Víetnam svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar.

Og þá yfir í fréttir um nýjustu tækni og vísindi: Skjárinn á Snabba, fartölvunni okkar, er að syngja sitt síðasta. Vírinn sem tengir tölvuna við skjáinn er að gefa sig og skjárinn því alltaf að detta inn og út. Í ljósi þessa er ég fegin að við keyptum ódýrustu fartölvuna. Baldur benti reyndar á að líklegast hefði þetta vandamál ekki komið upp hefðum við keypt aðeins dýrari fartölvu sem ekki væri úr plastskel en ég neita að hlusta á svoleiðis rök, ef ég gerði það færi ég að grenja.

Annars erum við loksins komin til Siem Reap, bæjarins í norðri sem hefur að geyma Angkor Wat í næsta nágrenni. Ég treysti mér að fara í rútuferðina í morgun en þar sem ég á enn erfitt með gang verðum við að sjá til hvort við skoðum Angkor Wat og öll hin hofin áttatíu að svo stöddu. Ég komst varla út á veitingastað í kvöld, svo það er í hæsta máta bjartsýni að ætla sér að klífa upp forna stíga þar sem maður þarf á öllum fjórum útlimum að halda á stundum.

Siem Reap virkar á mig sem frekar rykugur bær og vatnið lyktar af járni. Ég fékk samt einn besta smoothie sem sögur fara af á mexíkóskum veitingastað í kvöld, ískaldan mangó- og appelsínussmoothie.

Víetnam í myndum

Ég vil vekja athygli á að allar myndirnar frá heimsókn okkar til Víetnam eru komnar á netið. Þær eru hver annarri fallegri svo ég hvet alla til að kíkja!

21. - 30. júní: Hanoi & Halong flói
1. - 4. júlí: Ninh Binh & Hué
5. - 12. júlí: Hoi An & Nha Trang
13. - 16. júlí: Saigon

Smá sýnishorn frá Hanoi:


Smá sýnishorn frá Ninh Binh:


Smá sýnishorn frá Hué:

Smá sýnishorn frá Saigon:



sunnudagur, 22. júlí 2007

Harry Potter á læknastofunni

Ertingin í ilinni var ekki horfin í morgun eins og órökrétti hlutinn í mér hafði svo innilega vonast eftir. Þar með stóð ég í þeim sporum að velja milli þess að fara til læknis og missa þannig af rútunni til Siem Reap eða fara til Siem Reap og vona að ertingin væri horfin á morgun. Órökrétti hlutinn í mér náði meira að segja að smjatta smá á seinni valkostinum en þó ekki lengi, ég vissi sem var að í Phnom Penh væri kostur á betri læknisþjónustu en í Siem Reap.

Við fórum því á franska læknastofu snemma í morgun og með í för var að sjálfsögðu nýja Harry Potter bókin sem við höfðum svo mikið fyrir að verða okkur út um í gær. Ég var hálfpartinn að vonast eftir smá bið á læknastofunni og varð að ósk minni. Ég náði að glugga í bókina en alltof fljótt kom læknir sem bar að því er virtist vera austur evrópskt nafn og kallaði mig á fund við sig. Ertingin var, eins og við héldum, sýking sem engin getur í raun vitað hvaðan kom, en eins og læknirinn góði benti á höfðu örverurnar augljóslega fundið veikan blett á mér. Eftir að hafa átt við sýkinguna og bundið fótinn inn í sáraumbúðir, rétti hann mér sýklalyf og fyrirmæli og sendi okkur heim á leið.

Þar sem ég var nú orðin hálfgerður sjúklingur ákváðum við að fá okkur loftkælingu inn á herbergi, komum mér og mínum innbundna fæti svo haganlega fyrir í rúminu með einum kodda við höfuðgaflinn og öðrum undir fætinum og vitanlega bókina góðu í höndunum.

Það besta við sáraumbúðirnar er ljóðið sem Baldur skrifaði á þær:

Batni þér bífa,
betri en ný.
Tinda tær klífa,
toppa við ský.

laugardagur, 21. júlí 2007

Mótlæti við galdraveiðar

Við tókum rútuna aftur til Phnom Penh snemma í morgun. Við vorum búin að sjá allt sem við höfðum hugsað okkur að kíkja á í Kampot, næsti áfangastaður er Siem Reap en til að gera langa ferð þarna á milli bærilegri ákváðum við að klippa hana í tvennt og gista nótt í höfuðborginni. Aðalástæðan er samt sú að í dag er Harry Potter dagur og við vissum af einni bókabúð í borginni sem seldi bókina á útgáfudegi.

Miðja vegu til Phnom Penh byrjaði rútan að renna til á veginum svo við köstuðumst harkalega til og héldum að við hefðum lent á blautum moldarvegi. Út um framrúðuna sáum við hvar rútan óð áfram á vitlausum vegahelmingi og stefndi á lítinn skurð við vegkantinn. Sem betur fer náði bílstjórinn þó að stöðva vagninn áður en til þess kom og vil ég ekki hugsa til þess hvernig hefði endað hefði hann ekki náð því.

Þegar mér varð litið út um gluggann sá ég að við vorum alls ekki á neinum moldarvegi heldur hafði einhver bilun í stýrisbúnaði komið upp og orsakað stjórnleysið. Okkur farþegunum var smalað út úr rútunni og tíndumst við öll undir lítið bárujárnsþak hinu megin við veginn þar sem við hímdum í tvo tíma. Var ég búin að minnast á að það er regntímabil í Suðaustur Asíu núna? Það rigndi sumsé allan þennan tíma og við Baldur vorum bara með einn ponsjó svo við prísuðum okkur sæl með litla þakið og ég reyndi að hugsa ekki of mikið um bókabúðina í Phnom Penh og nýju Potter bókina sem biði mín þar.

Þegar við komumst til borgarinnar, tveimur tímum á eftir áætlun, héldum við rakleitt á sama hótelið og síðast, nema núna fengum við okkur mun stærra herbergi með tveimur viftum, almennilegu salerni og vaski. Reyndar nær vaskurinn upp undir bringuspjalir, grínlaust, svo ég á erfitt með handþvott og tannburstun, en það er bara kómískt.

Þegar þarna var komið sögu var erting á ilinni, sem hafði látið á sér kræla nokkrum dögum fyrr, farin að trufla mig svo mjög að ég átti orðið erfitt með gang. Ég vildi þó ekki láta það stöðva mig í að nálgast bókina, nógum tíma fannst mér hafa verið fórnað. Ég var nú þegar komin með áhyggjuklump í magann sem ég neitaði að horfast í augu við en var þó þarna samt: Hvað ef bókabúðin lokar snemma á laugardögum? Hvað ef bókin er uppseld? Svo við tókum mótorhjólaleigubíl að bókabúðinni og ég reyndi að reka ekki á eftir bílstjóranum, rútuferðin var enn of fersk í minni til þess.

Þegar allt kom til alls þá var bókabúðin enn opin og ég hefði þess vegna geta komið upp úr átta að kvöldi þar sem hún lokaði ekki fyrr en níu. Og bókin var ekki uppseld heldur var rekkinn hálffullur og vel það þegar okkur bar að garði. Eini Þrándurinn í Götu var að velja gott eintak og að velja hvort maður tæki eintak af barnaútgáfunni eða þeirri fullorðins. Eftir alvarlegar umræður urðum við sammála um að kaupa barnaútgáfuna (sem er Harry Potter-legri) og eftir að hafa grandskoðað nokkur eintök urðum við loks sátt við eitt þeirra sem við að endingu keyptum. Og nú eigum við splunkunýja Harry Potter bók sem ég get ekki beðið með að sökkva mér ofan í.

föstudagur, 20. júlí 2007

Draugabærinn í Bokor

Snemma í morgun settumst við á pallinn á Isuzu pikköpp til að bruna upp hlíðar Bokorfjalls, sem er þjóðgarður í suðurhluta Kambódíu. Vegurinn upp fjallið liggur í gegnum iðagrænan skóg sem fléttar sig upp allar hlíðarnar. Einhvern tímann í fyrndinni lögðu Frakkar þennan veg til að komast upp í lúxuslífið í lítilli en fallegri byggð þúsund metrum ofar nærliggjandi þorpum, með spilavíti, villum og mildu loftslagi. Í dag minnti vegurinn þó frekar á uppþornaðan árfarveg með hyljum og risahnullungum útum allar trissur.

Ekki vorum við einu farþegarnir, með okkur voru tveir Bretar og tveir Svisslendingar. Öllum þótti okkur mikið sport að sitja á pallinum og reyna eftir megni að forðast trjágreinar sem reglulega reyndu að löðrunga okkur. Eftir nokkra keyrslu fór þó nýjabrumið af harkalegu rassnuddinu og voru allir fegnir klukkutíma gönguferð í þægilegri rigningu til að kíkja á foss sem ég þekki því miður ekki nafnið á en fallegur var hann.

Næst á dagskrá var Svarta höllin sem á að hafa verið sumardvalarstaður konungsins eða staður sem hann leyfði góðum vinum sínum og opinberum gestum að nota í heimsóknum þeirra til Kambódíu. Höllin er löngu yfirgefin og ber ekki mikið yfir sér en útsýnið er fagurt. Nafngiftina fékk hún vegna svartrar viðarklæðningar sem útsjónasamt fólk hefur tekið sér til nytja en í staðinn hylur gullfallegur rauður mosi mikinn hluta af steinveggjunum. Náttúran er svo smekklegur arkítekt.

Síðasta áningarstaðnum var ég þó langtum spenntastur fyrir og má segja að hann hafi vegið þyngst á metunum þegar við ákváðum að taka á okkur þennan krók suðureftir: franski draugabærinn. Þegar okkur bar að garði skein sól í heiði og stöldruðum við hjá skógarverði til að njóta tófúkarrís með hrísgrjónum og bagettum, gott eftir gönguna. Eftir því sem leið á hádegisverðinn gerðist lágskýjað mjög og mátti sjá mistrið skríða á milli byggingana og færa vægast sagt magnaða dulúð yfir svæðið.

Tveir staðir urðu þó magnaðri en aðrir: Bokor Palace og kirkjan. Bokor Palace var spilavíti og hótel og gnæfði það yfir öðrum húsum bæjarins eins og heimili virðulegrar vampíru í góðri B-mynd. Við skoðuðum það í krók og kring og mátti sjá að ekki var sparað til verksins og hótelherbergin 33 hljóta að hafa verið hverju öðru glæsilegra á sínum tíma. Ekki skaðaði að í bakgarðinum voru þverhníptir klettar og geri ég ráð fyrir að nokkrir óheppnir spilarar hafi steypt sér tómhentir í skýjahafið. Þrátt fyrir magnað andrúmsloft lét Vincent Price ekki sjá sig, enda klukkan ekki einu sinni nálægt miðnætti.

Þess ber að geta að í Kambódíu tekur fólk drauga mjög alvarlega. Ég notaði orðið draugabær sem tilvísun í þennan bæ þegar ég var að spyrjast fyrir um staðinn áður en við fórum og var vinsamlega bent á að ríkisstjórnin passaði upp á að túristum væri ekki beint á staði þar sem reimt væri. Til að koma algerlega í veg fyrir draugavandræði var skilti í anddyri spilavítisins með skilaboðunum: Do not sleep here. Enn annað dæmi var að bílstjórinn okkar stoppaði þegar við vorum hálfnuð upp hlíðina til að brenna reykelsi á forfeðraaltari við veginn og færði þeim bananaknippi sem friðþægingu. Leiðsögumaðurinn lét okkur þá vita að hér réðu tígrar og draugar ríkjum.

Eftir yndislega stund á þessum fallega, rólega stað þar sem skýin dansa við yfirgefnar byggingar og strjúka augntóftir þeirra blíðlega lögðum við af stað til byggða á ný. Allt var gott um það að segja en fyrir rest heyrðist nú emjað og æjað þegar jeppinn skaust yfir stórgrýti eða ofan í holu. Mæli eindregið með þessari ævintýraferð fyrir ferðalanga sem vilja komast í gott loftslag. Oft á tíðum minnti það helst á góðan rigningardag í íslenskum júlí, ekki bara loftslagið heldur var landslagið oft skemmtilega kjarrskotið eftir því sem ofar dró. Ég get svo svarið það.

fimmtudagur, 19. júlí 2007

Í óspurðum ferðafréttum, II

Það er svo margt sem gleymist að nefna í okkar daglegu ferðasögu, en þá eru líka óspurðu ferðafréttirnar tilvaldar til þess að koma því að. Hér koma nokkrir fróðleiksmolar um Asíuferðalangana og lífið á “ródinu”.

Einhverra hluta vegna erum við skötuhjú enn með henna í hárinu sem við settum í forðum daga. Einhver plataði okkur allrækilega þar, sagði að liturinn færi úr eftir sex til átta vikur. Nú erum við eins og tveir litlir appelsínuhærðir kjánar sem ferðast saman og geta ekki losnað við hennalitinn, jafnvel þó liðnar séu 16 vikur.

Húðin á Baldri á ekki eins erfitt með að losa sig við lit, í hvert sinn sem hann fær smá slikju á sig byrjar hann að flagna. Kannski smá ýkjur, myndi Baldur segja, en samt, húðin er bókstaflega í tætlum þessa stundina.

Talandi um tætlur þá er nýjasta æðið okkar að tætla eitthvað í fílur. Til dæmis tætlum við Asíu í fílur en samt erum við enn ekki búin að fara á fílsbak. Skrýtið.

Af öðrum en okkur: Víetnamar voru alltaf snemma í því, yfirleitt komnir tíu mínútum á undan áætlun að sækja okkur. Eftir að hafa vanist Indlandi með sinni lágmarkshálftíma seinkun var erfitt að venjast þessu, hreinlega erfitt að trúa þessu.

Kambódíumenn eru nú að sýna og sanna að þeir séu ekkert síðri en Víetnamar, og svei mér þá að þeir gangi ekki of langt í þessum efnum. Í dag tókum við rútu og hún lagði þremur mínútum fyrr af stað en áætlað var. Þegar við vorum búin að keyra í þrjár mínútur kom upp að rútunni mótorhjól með farþega aftaná með tösku í fanginu, sá veifaði af öllum mætti í rútubílstjórann til að fá hann til að stöðva rútuna. Augljóslega farþegi sem missti af rútunni því hún lagði of snemma af stað. Hann var hins vegar ekkert að æsa sig yfir þessu svo ég ákvað að fara ekki í neitt uppnám.

Víetnamar eru alveg sjónvarpssjúkir og í öllum herbergjunum sem við gistum í þar á bæ var sjónvarpstæki til staðar með nokkru úrvali af stöðvum. Meira að segja í rútunum er sjónvarp og oftar en ekki er það í gangi. Það eru yfirleitt alltaf spiluð víetnömsk myndbönd nema á leiðinni frá Mekong, þá fengum við sígilda slagara frá 9. áratugnum eins og Careless whisper með Wham og Isla bonita með Madonnu. Við höfum líka fengið að hlusta á víetnamskt rapp og júrópopp. Í Kambódíu gætir meiri hindí áhrifa í tónlistinni, allavega ef eitthvað er að marka þau lög sem við hlustuðum á í rútunni í morgun.

Við kvöddum semsé Phnom Penh (eða Sean Penn eins og ég kýs að kalla hana) í morgun og erum núna í Kampot, smábæ sunnan af Phnom Penh. Þegar stutt var liðið á rútuferðina, en þó nóg til þess að við vorum komin út í sveitir og farin að hristast til í vagninum, sagði ég við Baldur: Jæja, þá er maður farinn að finna fyrir vondu vegunum. Baldur bendi mér þá blíðlega á að við værum á malbikuðum vegi. Ég held þetta sé gott dæmi um hve slæmir vegirnir hér eru og minnir helst á Indland, jafnvel verri vegir ef eitthvað er.

Það er fleira sem minnir á Indland hér í Kambódíu, nefnilega allt ruslið í bakgörðum og á víðavangi. Þá eru beljurnar svo horaðar og aðstæður fólks ósköp fátæklegar, margir búa til að mynda í bárujárnskofum við hrísgrjónaakra. Fleiri virðast þó búa í stultuhúsum, þau eru út um allt.

Eitt af því fyrsta sem við gerðum þegar við komum til Kampot var að finna okkur herbergi. Fundum hljóðlátt og rólegt hótel og festum okkur herbergi þar, fórum því næst í smá bæjarferð. Kíktum í litla smávöruverslun og skoðuðum okkur um. Sú verslun slær út þeirri sem við skoðuðum í Nha Trang þegar kemur að útstillingu varanna. Í einum rekka var áfenginu raðað, við hlið þess var þurrmjólk og barnaformúlur og í hillunni fyrir ofan þessar vörur voru bleyjur.

Heitasta slúðrið er þó þetta: Þegar við komum heim af veitingastaðnum í kvöld snarstönsuðum við og litum á hvort annað í forundran. Fyrir utan rólega og hálfdauða hótelið okkar var allt pakkað af jeppum og fólksbílum, af neðri hæðinu barst ómur af Asíubúum í karókí og við sáum ekki betur en staðurinn hefði þar að auki breyst í hóruhús! Ég er að tala um að gólfið í herberginu okkar titrar í þessum rituðu orðum. Við kunnum aldeilis að velja staðina.

Að lokum: hvað kallar maður öll sætu börnin, rúsínurnar, sem sitja stundum í hnapp út við vegkant og veifa þegar maður þýtur hjá í rútunni? Nú, rúsínupoka.

Tuol Sleng og Dauðavangur

Eins og Kambódía er fallegt land með glás af fallegu fólki er því miður ekki hægt að segja það sama um þann hrylling sem land og þjóð gengu í gegnum á síðari hluta síðustu aldar. Í dag kynntum við okkur söguna með því að heimsækja tvo sögufræga staði: Tuol Sleng fangelsið og Dauðavang (e. Killing Fields).

Tuol Sleng fangelsið er tiltölulega miðsvæðis í hinni fallegu höfuðborg Kambódíu, Phnom Penh. Fram til ársins 1975 gegndi byggingin hlutverki barnaskóla. Fangelsinu hefur lítið verið haldið við eða breytt frá því að ógnaröld Pols Pots og Rauðu Kmeranna lauk árið 1979 en er nú opið almenningi undir nafninu Þjóðarmorðssafnið.

Eitt af því fyrsta sem ég rak augun í á svæðinu voru skilti sem bönnuðu fólki að brosa og sprella. Varla var þó hægt að segja að þeirra hafi verið þörf þar sem flestir á svæðinu virkuðu frekar slegnir yfir þeim upplýsingum og myndum sem þarna eru til sýnis.

Við skoðuðum fangaklefa og yfirheyrsluherbergi og í sumum var ljósmynd af aðkomunni eins og hún var 1979, hræðileg. Í yfirheyrsluherbergjunum var yfirleitt rúm fyrir miðju með rimlum í stað dýnu. Við þetta rúm var fanginn hlekkjaður og svo pyntaður til að kjafta frá og nefna mögulega óvini ríkisstjórnarinnar. Þetta endaði nánast undantekningalaust með dauða, af þeim 10.499 (u.þ.b. 2.000 börn ekki talin með) sem fóru í fangelsið lifðu aðeins sjö af.

Óvinir ríkisstjórnarinnar voru allir þeir sem hlotið höfðu menntun að einhverju ráði, notuðu gleraugu eða voru með mjúkar hendur. Pol Pot vissi sem var að að auðveldara væri að halda niðri ólæsu og ómenntuðu fólki þar sem það væri ólíklegra til að skipuleggja uppreisn af nokkru tagi, hvað þá að láta alþjóðasamfélagið vita hvað gengi á. Klassískar þjóðernishreinsanir í anda Stalíns.

Á safninu voru til sýnis ljósmyndir af vistfólki, en í þeim efnum eru heimatökin hæg þar sem Rauðu Kmerarnir tóku passamyndir af hverri og einni manneskju sem fangelsuð var í Tuol Sleng. Einnig héldu þeir nákvæmt bókhald yfir fólkið með æviágripi sem hefur gert rannsóknir á þjóðarmorðinu auðveldari en ella. Myndirnar sem sýndar voru eru auðvitað aðeins brotabrot af öllum fjöldanum en gefa engu að síður nokkra tilfinningu fyrir því hve gríðarmikill fjöldi fór þarna í gegn.

Af þessu áhrifaríka safni héldum við rakleiðis á Dauðavang, þar sem meirihluti fanga Tuol Sleng voru drepnir, en þar fundust fjöldagrafir árið 1980. 8.985 lík voru grafin upp úr 86 gröfum en yfir 10.000 liggja enn þar sem fjármagn til rannsóknanna þraut. Þess ber að geta að þetta er aðeins einn fjöldagrafaklasinn af mörgum og fræðimenn telja að Rauðu Kmerarnir hafi drepið á bilinu tvær til þrjár milljónir manneskja.

Við gengum um svæðið ásamt hollensku pari og leiðsögumanni sem fræddi okkur um hvern stokk og stein. Ég var feginn að hafa fengið leiðsögumann því annars hefði maður ekki áttað mikið á því hvað væri hvað. Til að mynda eru nokkrir legsteinar á svæðinu en þeir tilheyra öðrum tíma því fyrir tíma fjöldagrafanna var þarna kínverskur kirkjugarður.

Einkennilegt að á þessum fallega stað hafi fólki verið stillt upp fyrir framan holur í jörðina, með bundið fyrir augun og slegið í hnakkann og látið falla í hrúgu af líkum sem þegar var komin í holuna. Markmiðið var að drepa allt liðið án þess að sóa byssukúlum og stundum nenntu þeir ekki einu sinni að mölva hauskúpurnar svo þeir bundu bara plastpoka yfir hausinn á fólki eða skáru það á háls með oddhvössum greinum pálma sem vaxa á svæðinu.

Eitt af því sem gerði gönguna magnaðri en ég hafði búist við var rigning gærdagsins. Það sem gerist í mikilli rigningu er að jarðvegur skolast burtu og því sáum við bæði bein og föt fórnarlambanna hálf ofan í jörðinni og hálf upp úr. Þetta var úti um allt, kjúkur og leggir að gjægast upp og tennur hér og þar á gangstígum og víðar. Í kærkominni andstöðu við þennan óhugnað er grænn gróður, heiður himinn, söngur, skrækir og hlátur í skólabörnum að leika sér.

Eftir gönguna skoðuðum við stúpu sem stendur á miðjum Dauðavangi en í henni eru u.þ.b. 8.000 hauskúpur af svæðinu. Stúpan er eins og himinhá útstilling í búðarglugga á vöru sem engan á að langa í þ.e.a.s. hún er reist til minningar um þá sem létu lífið í þjóðarmorðunum en einnig til að minna gesti á hvers lags veröld við viljum ekki búa í.

Það eiga flestir í erfiðleikum með að ákveða hvað gera skuli meðan á þessari jarðvist stendur og þar sem óendanlega margt er í boði getur verið skemmtilegt að nota útilokunaraðferðina. Ég veit ekkert hvað ég ætla að gera í þessu lífi en hér eru nokkur atriði af útilokunarlistanum:

Læra rafmagnsverkfræði
Vinna í álveri
Fremja þjóðarmorð


Púhe! Eftir þetta allt saman var sannarlega kominn tími til að slá á léttari strengi og gerðum við það með því að skoða Sjálfstæðisvörðuna (e. Independence Monument) og smakka á þjóðarrétti Kambódíu, amok. Borðhaldið heimsótti svo falleg kisulóra sem kunni vel að meta kókoshnetukarríblönduna.

þriðjudagur, 17. júlí 2007

Konungshöllin, árbakkinn og góða framtakið

Við byrjuðum þennan dag á því að heimsækja konungshöllina. Þar býr hinn umdeildi konungur Kambódíu, Sihamoni. Þar sem snyrtilegs klæðnaðar er krafist, og hlýrabolurinn minn stóðst ekki prófið, varð ég að taka hvítan bol á leigu fyrir 15 krónur.

Konungshöllin sjálf er skínandi falleg, gul með hallandi þaki og mjög svo skreyttum þakköntum, andlit Búdda snýr í höfuðáttirnar frá efsta punkti, tignarlegar súlur, glitrandi þakskífur, gullslegnar táknmyndir og sjöhausa snákar í styttulíki prýða höllina. Semsé mjög sjarmerandi arkitektúr.

Hallargarðurinn er einnig mjög fallegur og minnir helst á skrúðgarð. Þar er allt í blóma: grænar grasflatir teygja úr sér, nýsnyrtir runnar monta sig af rósunum og marglitu blómunum, tilklipptu trén minna helst á litla gorma, fiðrildi flögra allt um kring og fuglager hringsóla um háa turna. Þá standa glæsilegir ljósastaurar hnarreistir um allan garð og minna á Vínarborg á tímum Mozarts. Kambódía er skemmtileg blanda af búddisma og brahmanisma (hindúisma) og hallagarðurinn ber þess glögg merki, sér í lagi styttur garðarins sem sumar hverjar eru jafnvel ívið egypskar. Kyrrðin innan veggja hallarinnar er engu lík.

Í miðjum hallargarðinum stendur marmarahvít stúpa og steinsnar frá henni er að finna Silfur pagóduna sem er hlaðin fjársjóðum. Gólfið er úr fimm tonnum af silfri sem unnið hefur verið í fimm þúsund silfurflísar. Búddalíkneskin skipta hundruðum, mörg hver eru smá úr silfri, önnur eru stór úr dýrum marmara. Þau líkneski sem vekja mesta athygli eru emeraldgræni kristal Búddinn sem situr í hásæti sínu og mannhæðarhái Búddinn úr skíragulli (90 kg), skreyttur 2.086 demöntum, þeirra stærstur er einn 25 karata.

Hvítu skýin í bland við bláan himinn sem hægt og rólega breyttist yfir í þungskýjaðan himinn með gráum óveðurskýjum gáfu heimsókninni skemmtilegan blæ. Þegar tók að hellirigna urðum við að hlaupa í skjól og bíða af okkur dembuna í hallargarði konungs. Þegar loks stytti upp röltum við sem leið lá í átt að ánni Tonlé Sap. Í leiðinni skoðuðum við Þjóðminjasafnið að utan enda um einstaklega fallega byggingu að ræða, röltum því næst um árbakkann og fylgdumst með heimamönnum borða snigla með tannstönglum.

Við enduðum á því að borða á veitingastaðnum Friends sem er rekinn af frjálsum félagasamtökum. Allur ágóði veitingastaðarins rennur til samtakanna sem reka staðinn, á staðnum fer síðan fram þjálfun fyrir götubörn sem vilja verða kokkar og þjónar. Allt starfsfólk er því fyrrum götubörn sem stóðu áður fyrr í betli og voru mörg hver háð fíkniefnum en eru núna heilsteypt ungmenni sem útbúa frábæran mat, veita framúrskarandi þjónustu og reka besta veitingastaðinn í borginni.

Við fengum t.a.m. frábæran vanillu/hindberja hræring, dásamlega graskerssúpu með ferskum kóríander og hvítlaukskrútonum, sætar kartöflufranskar með karrýmajónesi, besta hummus Asíu borinn fram með kirsuberjatómötum og basilíkulaufi, kókoshnetu og chilí ís og allra, allra bestu brownie sem ég hef fengið, hlaðna kasjúhnetum, stökk að utan, mjúk að innan. Ef maður fær ekki trú á mannkynið af því að sjá svona framtak þá veit ég ekki hvað.

Á landamærunum

Við tókum rútu frá Saigon í morgun til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu. Við höfum áður farið landleiðina yfir landamæri, t.d. í Evrópu, en þetta var í fyrsta skipti í Asíureisunni sem við förum landleiðina milli landa og þar með yfir landamæri.

Það sem gerir landleiðina áhugaverða er ferlið sem maður fer í gegn til að komast úr einu landi og inn í annað. Þegar okkur bar að landamærunum í fullri rútu af spenntum útlendingum urðum við að dröslast með allan okkar farangur yfir í tollinn. Víetnamarnir yfirfóru síðan öll vegabréf og brottfararspjöld og þar sem ekkert okkar hafði dvalið framyfir þann tíma sem vegabréfsáritun okkar heimilaði gekk sú skoðun hnökralaust fyrir sig.

Aftur fórum við upp í rútu og keyrðum mjög stutta vegalengd, eða alla leið að hinum enda landamæranna, að hliði Kambódíumanna. Þar urðum við aftur að stíga út úr rútunni og að þessu sinni var vegabréfsskoðun sem fór frekar óformlega fram. Landamæravörðurinn stóð með búnka af vegabréfum í fanginu og las síðan nöfnin okkar upp hvert af öðru.

Þegar nafnið manns var lesið upp átti maður að gefa sig fram, landamæravörðurinn leit á mann til að sjá hvort maður passaði við myndina og ef svo var mátti maður fara aftur upp í rútu. Það fyndna við íslensku vegabréfin er að nöfnin okkar koma ekki fram í prentmáli á sömu síðu og myndin er, aðeins er um undirskrift að ræða. Þess vegna erum við alltaf að koma landamæravörðum og flugvallastarfsfólki í vanda þegar það lítur í vegabréfin og ófáir gera þau mistök að taka augnlitinn (sem er efst á vinstra horni) fyrir nafnið okkar.

Að þessu sinni leit kambódíski landamæravörðurinn á vegabréfið hans Baldurs, fann ekki það sem hann leitaði að, klóraði sér aðeins á hausnum, leit síðan upp og spurði: Brown? Þegar Baldur gaf sig fram og sagði honum að eftirnafnið hans væri í raun Jóhannesson varpaði landamæravörðurinn öndinni léttar og sagði: Það er betra. Brosti svo sínu blíðasta.

Eftir vegabréfsskoðunina Kambódíumegin og gegnumlýsingu á farangri héldum við aftur upp í rútu. Fararstjórarnir gengu á hópinn og tóku $25 af hverjum og einum fyrir að útvega okkur vegabréfsáritun. Á meðan þeir stóðu í því að fylla út pappíra fyrir okkur fór hópurinn á nærliggjandi veitingastað og fékk sér hádegismat á landamærunum. Að því loknu var okkur smalað inn í rútuna eina ferðina enn og vegabréfunum útbýtt. Að þessu sinni skörtuðu vegabréfin okkar þessari fínu vegabréfsáritun inn í Kingdom of Cambodia og með hana í farteskinu var okkur öllum frjálst að halda för okkar áfram inn í Kambódíu.

Restin af rútuferðinni var keyrsla um slæma vegi og fallegar sveitir og stutt ferjuferð. Við reyndum að nota tímann til að skipuleggja dvöl okkar í Phnom Penh en það var erfiðara en við höfðum gert okkur í hugarlund að merkja inn í ferðabókina þegar rútan kastaði manni til og frá í sætinu. Þá var betra að horfa út um gluggann og sjá drekkhlaðnar rútur með farþega ofan á þakinu og öll húsin á stultum.

Þegar við loks komumst til Phnom Penh seint og um síðir tókum við stefnuna á svæðið kringum stöðuvatnið Boeng Kak, nánar tiltekið götu 93 (nær engin götuheiti í Phnom Penh, aðeins númeraðar götur) og fundum þar hræódýra gistingu (4$). Reyndar er enginn vaskur inn á baði og við sturtum niður með því að ausa vatni úr fötu en því erum við nú vön frá Indlandi. Salernið er allavega ekki sitja-á-hækjum-sér gerðin.

Við höfðum lítið sem ekkert undirbúið Kambódíuferðina hvað snertir peningamál. Við áttum nokkuð hundruð ríkisdali í veskinu en létum vera að verða okkur úti um kambódískar ríölur. Um kvöldið þegar við fórum út að borða sáum við að það hefði líka verið hinn mesti óþarfi, hér er allt verð gefið upp í dölum, maður greiðir með þeim og fær skiptimyntina í dölum svo fremi að um sé að ræða einn dal eða meira. Allt undir einum dal er gefið til baka í ríölum. Meira að segja hraðbankarnir dæla út ríkisdölum. Kannski þess vegna sem allt er miklu dýrara hér en í Víetnam. Þegar ég hugsa hins vegar til Íslands veit ég að ekkert er dýrt hér í samanburði. Eins og sakir standa held ég þó að verðskyn okkar sé skaðað út árið.

mánudagur, 16. júlí 2007

Víetnam í hnotskurn

Þá eru vikurnar okkar þrjár í Víetnam á enda og nýr kafli að taka við. Við erum búin að hafast svo margt við hér í Víetnam að ég á erfitt með að trúa að við höfum aðeins verið hér í þrjár vikur.

Það sem stendur upp úr ferðinni um Víetnam:
Við tókum höfuðborgina Hanoi með trompi enda átti borgin mjög vel við okkur. Þar er aðvelt að ganga um og skoða en þurfi maður að leita lengra er fátt auðveldara en að fá sér xe om. Reyndar þarf alltaf að prútta um verð og setja á svið leikrit en að lokum kemst maður alltaf á áfangastað, til þess er leikurinn gerður.

Á Halong flóa sáum við ógrynni af glæsilegum klettamyndunum rísa úr hafi og í Ninh Binh sáum við sömu klettamyndunina rísa upp úr hrísgrjónaökrum. Þá voru sveitirnar í kringum Ninh Binh einstaklega fallegar og mótorhjólið okkar líka!

Hué, Hoi An, Nha Trang og Saigon voru pakkabæirnir í þeim skilningi að við nýttum okkur óhikað skoðunarferðir ferðaskrifstofanna. Náðum þannig að sjá keisaraarfleifðina í Hué, hindúaarfleiðina í Hoi An, kóralrifin í Nha Trang og Cu Chi göngin og Mekong fljótið við Saigon.

Víetnamar fá feitan plús í kladdann fyrir það hve auðvelt er að ferðast hér um. Allsstaðar er hægt að fá loftkældar rútur og ástand vega er fínt. Þá er hægt að fá bagettur, beljuost og jógúrt á hverju horni. DVD diskar eru mjög ódýrir, aðgangur að neti hefur nær undantekningalaust verið frír á hótelunum, úrval af þurrkuðum ávöxtum eins og papaya og stjörnuávexti er gott, maður getur fengið góða æfingu í frönsku af því að hlusta á sjónvarpið og á öllum hótelum eru inniskór í herbergjum. Ég veit samt ekki hvort það er sérstakur plús, það er í það minnsta ómótstæðilega sætt.

Svo skemmir ekki fyrir Víetnömum hve duglegir þeir eru að hrósa manni: En falleg eiginkona, þú ert svo heppinn! Eiginmaðurinn svona hávaxinn, haltu í hann, hann er góður. Ó, þú ert svo falleg, ég vil vera alveg eins og þú!

Nokkrir lokapunktar um Víetnam:
* Víetnamar borða út á götum og það á pínkulitlum kollum við pínkulítil borð
* Í Víetnam fékk ég æði fyrir núðlum í Hanoi og vorrúllum í Saigon
* Ég fékk ótrúlega góða þjálfun í að borða með prjónum, ber mig nú að eins og innfæddur sé á ferðinni
* Á grænmetisstöðum er hægt að fá svokallað gervikjöt sem er unnið úr tófú og sveppamassa. Ég hafði litla lyst á því en Baldur smakkaði gervikjúkling sem hann kallaði gúmmíönd. Þetta er mikið sport í Víetnam
* Við elskuðum Víetnam: fólkið frábært, náttúran glæsileg, maturinn gómsætur.
* Og síðast en ekki síst þá gaf Víetnam okkur leyfi til að nota frasann: “When I was in Nam...”

sunnudagur, 15. júlí 2007

Siglt á Mekong

Þá er enn ein bátsferðin að baki, að þessu sinni var siglt um Mekong fljótið risastóra. Mekong á upptök sín í Tíbet, rennur þaðan gegnum Myanmar, Tæland, Laos og Víetnam, þaðan út í sjó. Mekong státar af næstum því jafnfjölbreyttu lífríki og Amazon og þá er mikið sagt.

Við sigldum þvert yfir þriggja kílómetra breiða Mekong. Fljótið er brúnt og breitt og á því sigla stórir prammar og litlir spíttbátar. Einhver veginn tókst mér að fá hálfa Mekong í fangið, buslugangurinn var svo mikill við borðstokkinn þar sem ég sat. Þegar við vorum komin yfir á hinn bakkann skiptum við yfir í minni bát. Á honum gátum við síðan haldið förinni áfram og siglt inn um þrönga kanala. Þar er grænn gróður á báða bóga, sérstaklega kókoshnetutré og bananalauf.

Við áðum við eina bryggju og stigum á land til að heimsækja litla sælgætisverksmiðju. Okkur var sýnt hvernig kókoshnetusælgæti er unnið úr kókoshnetum og fengum meira að segja smá smakk, sem var svo gómsætt að við gerðum stórkaup. Gengum burtu frá sælgætisverskmiðjunni með drekkhlaðinn poka af kókoshnetukarmellum með jarðhnetum, sykruðum engifer og bananasælgæti með jarðhnetum og sesamfræjum.

Næst á dagskrá var kyrkislanga. Þeir sem vildu fengu að halda á kyrkislöngu og leyfa henni að vefjast um hálsinn. Að sjálfsögðu lét ég slag standa og sé ekki eftir því, kyrkislöngur eru magnaðar. Það er eins og þær séu ekkert nema vöðvar og maður finnur þá hnyklast í höndum sér. Ég hafði mjög gaman af kyrkislöngunni alveg þangað til hún fór að hringa halann utan um lærið á mér, vagga höfðinu til og beygja hálsinn í sikk-sakk. Þá skildu leiðir okkar slöngu sætu, hún hélt uppteknum hætti við að vefja sig utan um hálsa ókunnugra og ég fór í hádegismat áður en ég yrði sjálf að hádegismat.

Í seinni hluta ferðarinnar heimsóttum við býflugnabúgarð sem vinnur hunang, hunangsvín, blómafrjókorn og hunangssælgæti úr hunangi. Býflugurnar á býlinu eru mjög smáar en margar voru þær. Við enduðum Mekong siglinguna á ávaxtasnarli og smökkuðum þar pomelo í fyrsta sinn, stigum því næst upp í mjóa árabáta sem sigldu með okkur bakaleiðina gegnum kanala og báru okkur að lokum að bátnum okkar.

Það byrjaði ekki að rigna fyrr en við vorum komin upp í rútu og það rigndi eins og hellt væri úr fötu alla leiðina heim. Það þýddi að ég hafði eitthvað að gera í rútunni, nefnilega að fylgjast með vatnsskvettunum sem komu undan dekkjum rútunnar og sjá hvort þær lentu á einhverri vesalings sál á bifhjóli.

laugardagur, 14. júlí 2007

Umheimurinn og sandalarnir mínir

Það er merkilegt hvernig heimurinn virkar. Í gær sagði ég við Baldur: Þetta gengur ekki lengur, ég verð að fara að láta gera við sandalana mína. Þetta sagði ég eftir að hafa nær hrasað í n-ta skiptið vegna þess að sólarnir eru lausir og vill oft beyglast upp á þá. Lausi sólinn verður líka til þess að sandalarnir eru lausari á mér en ella sem gerir það að verkum að það beyglast enn auðveldar upp á þá. Semsé hringavitleysa hin mesta.

Ég sendi þessi ummæli út í alheiminn í gær, reyndar hélt ég bara að Baldur væri að hlusta en viti menn, í dag gerðust undur og stórmerki. Sem við sátum inn á veitingastað rétt við hótelið eftir góða ferð í Cu Chi göngin kemur upp að mér maður og tekur upp annan sandalann sem lá laus undir borðinu. No, no madame, see, segir hann og flettir upp illa förnum sólanum svo við lá að ég roðnaði af skömm. Síðan bauðst hann til að gera við skónna og sýndi mér límið sitt því til sönnunar. Við sömdum um að hann gerði við skónna fyrir $1 og á þeim kostakjörum endurheimti ég sandalana mína.

1 par leðursandalar í Kaupmannahöfn: 110 DKK
1 stykki viðgerð í Saigon: $1
Að ganga um á sandölunum eftir viðgerð og vita að umheimurinn hugsar svona vel um mig: Ómetanlegt.

Cu Chi göngin

Fyrsti og eini dagskrárliður þessa ágæta dags var heimsókn í hin víðfrægu Cu Chi göng. Göngin voru u.þ.b. 250 kílómetrar þegar þau voru hvað lengst og voru grafin af víetnömsku handafli. Þróun gangnanna hófst einhvern tímann á tímum síðari heimstyrjaldar og voru þau í stöðugri byggingu og hönnun þar til Víetnamstríðinu lauk þrjátíu árum síðar. Í þessum heimshluta heitir þetta fræga stríð vitanlega Ameríkustríðið.

Fólkið sem bjó í göngunum er betur þekkt sem Viet Cong, og var hlynnt kommúnistunum í norðri. Þarna bjó það um árabil og stundum liðu vikur á milli þess sem hægt var að komast út undir bert loft. Þarna lifði fólk einfaldlega sínu lífi í leyni frá óvininum sem fyrst var franskur og síðar amerískur. Gangnalíf er hins vegar ekki alveg eins og það er ofanjarðar og einkum og sér í lagi ekki þegar einhverjir brjálæðingar drita B-52 sprengjum í tíma og ótíma yfir allt svæðið.

Þegar sprengja fellur á jörðina myndast höggbylgja og sé maður í nálægum göngum getur höggbylgjan hæglega orðið banvæn. Þess vegna var hvorki hægt að sitja í stólum né leggjast til svefns á gólfinu. Einhvern tímann þurfti þetta fólk samt að leggja sig eða setjast og voru hengirúm notuð til þess. Þannig að í stað að þeytast með banvænni höggbylgju yfir móðuna miklu dinglaði hengirúmið bara fram og til baka.

Leiðsögumaðurinn okkar var ákaflega litríkur karakter og kunni margar skemmtilegar sögur enda hafði hann unnið sem túlkur fyrir Ameríkana í stríðinu. Hann sagðist líka kunna svör við öllum þeim spurningum sem upp kynnu að koma. Yfirleitt fékk hann nokkrar spurningar við hverja sögu og þar af helming frá sjálfum sér með orðunum I have a question og meira að segja rétti upp hönd og allt. Ef einhver spurði einfaldrar spurningar eins og why eða how var viðkvæðið jafnan Very good question eins og þarna hefði velígrunduð og þrældjúp spurning verið lögð fram. Góður leiðsögumaður.

Það fyrsta sem hann sýndi okkur var hola ofan í jörðina, engin venjuleg hola. Þetta var einn margra leyniinnganga í göngin og það besta var að við fengum að prófa. Þessi inngangur var ágætis forsmekkur af þeim lúxus sem göngin höfðu upp á að bjóða því svo þröngur var hann að ekki lögðu allir í að prófa og einhverjir þurftu hjálp til að komast upp úr.

Á göngunni um svæðið sáum við hve afburðaslyngir víetnömsku hermennirnir voru í hinni ýmsu hertækni, göngin sjálf reyndar gott dæmi um þá snilld. Gamaldags veiðigildrur fengu t.d. það nýja hlutverk að veiða hættuleg rándýr úr vestri. Sumar gildranna voru hannaðar með það í huga að drepa og var ekki nokkur vandi að þekkja þær frá þeim sem hannaðar voru til að ná föngum. Oftar en ekki gegndi oddhvass, tálgaður bambus stóru hlutverki.

Enn annað dæmi um kænsku voru sandalar sem hægt var að fara í bæði á hinn hefðbundna hátt og á þann óvenjulega hátt að hælarnir sneru fram. Þessir sandalar voru notaðir til að búa til ruglandi slóðir fyrir Bandaríkjamenn til að rekja. Víetnamar á þessu svæði notuðu líka stundum óhefðbundin vopn eins og t.d. jarðsprengjur til að granda þyrlum. Ha? Það var gert þannig að priki var stungið ofan á jarðsprengjuna og ofan á það eitthvað sem tæki í sig vind, hálfgerðir þyrluspaðar. Þvínæst var klifrað upp í tré og sprengjunni komið þannig fyrir að ekki þurfti meiri hreyfingu á loftið en eftirlitsþyrla í lágflugi myndi valda.

Eftir nokkra göngu um svæðið og heilmikla fræðslu týndi ég hópnum þegar ég ásamt tveimur af samferðarkonum stoppaði til að taka mynd af einum sprengjugígnum. Ég arkaði rösklega af stað en hvergi sá ég hópinn og benti einn starfsmaður mér á að fara niður í nærliggjandi göng. Stemningin var rafmögnuð, ég tvísté en tók svo á mig rögg og stefndi í humátt að gangnamunnanum. Önnur af konunum kallar á eftir mér eins og í alvöru stríðsmynd: I’m coming with you! Hin konan hélt leitinni áfram ofanjarðar.

Þegar niður í göngin var komið sá ég hvorki tangur né tetur af hópnum og dúndraði í gegnum þröng göngin á sérdeilis hröðum en vitanlega tignarlegum gæsagangi. Það má segja að þetta hafi verið raunsannasta upplifun af stemningunni í þessum göngum sem ég kærði mig um. Í göngunum var kolniðamyrkur, hiti og raki. Eftir þessar hremmingar fundum við hópinn sem beið í óþreyju við annan gangnainngang ásamt leiðsögumanninum góða.

Í þetta sinn gafst tími til að taka upp vasaljós og var ég sendur inn manna fyrstur, enda orðinn veteran. Sá ég þá nokkuð sem ég hafði ekki séð í fyrri göngunum vegna skorts á ljósi: leðurblökur. Þessi kríli héngu í loftinu, sem notabene er metra frá gólfinu, og til að forðast að vekja þær með því að reka hausinn eða bakið í þær brá ég á að vekja þær með því að blása undurblítt á þær og sendi þær fljúgandi út í dagsbirtuna.

Heimsóknin í þessi göng var æðisleg og mælum við með þeim við alla. Reglulegir skothvellir og vélbyssuhríðir juku á stemninguna og héldum að þetta væru upptökur spilaðar í þeim tilgangi en komumst svo að því að gestum er boðið að prófa AK-47 riffla og einhverjar aðrar svakabyssur gegn vægu gjaldi. Skothvellirnir voru semsé ekta.

Föstudagurinn þrettándi í Saigon

Við eyddum föstudeginum þrettánda í Saigon að þessu sinni. Þar með erum við búin að þræða strandlengju Víetnam og koma okkur frá Hanoi til Saigon. Reyndar heitir Saigon nú til dags Ho Chi Minh en mér þykir Saigon bæði fallegra og þjálla.

Við komum til borgarinnar eldsnemma í morgun en það skipti engu máli því allir voru löngu komnir á fætur að því er virtist og farnir að æfa í almenningsgörðunum. Við fundum herbergi á aðalhótelgötu borgarinnar (Minihotel Alley) og það á tveimur hæðum! Á efri hæðinni eru tvö rúm, sjónvarp, loftkæling og ísskápur, á þeirri neðri er hjónarúm, baðherbergi og vifta.

Eftir stutta hvíld lögðum við á ráðin um hvað skyldi gera þennan tiltekna happadag. Leituðum uppi grænmetisstað og fengum okkur bröns: ferskar vorrúllur, núðlur og tófú. Gengum gegnum mjóan almenningsgarð sem er í laginu eins og blýantur, gengum eftir það gegnum Ben Thanh markaðinn þar sem við sáum m.a. þurrkaðar rækjur, útskorna ávexti, ferska heila og baunir í bala.

Leiðin lá næst í Forsetahöllina sem Víetnamar kalla Sjálfstæðishöllina. Sagan á bak við þessa tilteknu höll tengist stríðinu milli norður og suður Víetnam, þaðan voru gefnar skipanir um að Saigon skyldi gefast upp fyrir fylgissmönnum Ho Chi Minh. Því miður áttum við í stökustu vandræðum með að skilja leiðsögumann okkar um safnið og gátum þar með ekki smattað sem skyldi á öllum upplýsingunum. Við komumst samt sem áður að því að forsetinn var ávallt með þyrlu til reiðu ef hann þyrfti að leggja á flótta. Svo fannst mér líka áhugavert að sjá uppstoppaðan hlébarða inn á skrifstofu hans og fílsfætur í garðinum.

Frá Forsetahöllinni röltum við yfir að Stríðsglæpasafninu og keyptum okkur á leiðinni sitthvora kókoshnetuna á sitthvoru verðinu. Á stríðsglæpasafninu fræddumst við um stríð norður Víetnama við suður Víetnama og stuðningsmenn þeirra, Bandaríkjamenn, Ástrali, Tælendinga, Suður Kóreumenn og Nýja Sjálendinga. Það var óhuggulegt að sjá hve margt minnti á stríðsrekstur Seinni heimsstyrjaldarinnar, t.a.m. stóðu Bandaríkjamenn í miklum efnahernaði og dreifðu gríðarlegu magni af agent orange yfir akra og þorp. Þrátt fyrir allar óhuggulegu myndirnar og vansköpuðu fóstrin tvö sem geymd eru í krukkum veit ég fyrir víst að það sem sýnt er á þessu safni er aðeins toppurinn á ísjakanum. Hvernig getur mannskepnan verið svona vitlaus?

Þegar safnaferðinni lauk áttum við frítíma þar sem við höfðum sinnt öllum erindum dagsins. Þeim frítíma vörðum við vel á veitingastaðnum Original Bodhi Tree þar sem við pöntuðum alþjólegt hlaðborð: mexíkóska búrrítu, kínverskar vorrúllur, indverskt karrý með chapati og víetnamskar núðlur.

Eina óhappið sem átti sér stað þennan föstudaginn þrettánda reyndist vera nokkurs konar lán í óláni. Á safninu týndum við dýrmætu Lonely Planet ferðabókinni okkar en ótrúlegt en satt þá fundum við hana aftur. Og nú kunnum við svo miklu betur að meta blessaða bókina. Það kalla ég heppni.

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Rebbaeyru, Nancy Reagan & víetnamskt kaffi

Það er búið að vera gaman hjá okkur í Nha Trang. Í gær fundum við litla verslun sem selur aðallega áfengi, snakk og sælgæti. Þarna var reyndar hægt að kaupa mjólk frá Tasmaníu en þar með er upptalið þær vörur sem innihéldu einhverja næringu. Þá var vörunum stillt upp á einstaklega ósmekklegan hátt, að mínu mati ætti whisky, vodka og konjak ekki að vera við hlið snyrtivaranna og snyrtivörurnar ekki að vera við hlið sælgætisins.

Það eru ekki bara verslanirnar sem fá okkur til að brosa, fólkið er frábært líka. Fyrr í dag gengum við framhjá gömlum kalli sem rekur rakarastofu út á stétt. Eina sem gefur til kynna að þarna sé rakarastofa á ferðinni er rakarastóllinn og afskorna hárið allt um kring. Í dag þegar við gengum framhjá honum fór hann að kalla á eftir Baldri en þar sem við erum svo ryðguð í víetnömskunni náðum við því ekki alveg. Við spekúleruðum þó helling og komumst að þeirri niðurstöðu að líklegast hefur hann verið að hrópa: Þú þarft að fara að láta raka þig, strákskott!

Sem betur fer sá hann ekki hárprútt höfuð strákskottsins, hann hefði heimtað klippingu líka. Ekki það að Baldur sé ekki meðvitaður um hve hárprúður hann er um þessar mundir, eins og hann orðaði það sjálfur þarf hann alltaf að skella húfu á höfuðið eftir sturtu svo hann komi ekki til með að líta út eins og Nancy Reagan. Það sem gerist hins vegar þegar hann setur húfuna á kollinn er að hárið við eyrun stendur út fyrir, stílbrot sem við köllum rebbaeyru.

Við höldum för okkar áfram í kvöld, enn ein næturrútuferð framundan. Hver veit nema við endurtökum leikinn frá gærkvöldi áður en við leggjum í'ann, þ.e. fá okkur grænt salat og ítalska flatböku á Good Morning Vietnam og jógúrt í eftirrétt á Café des Amis. Ég er þó nokkuð viss um að Baldur fái sér ekki víetnamskt kaffi í bráð, það fannst honum nóg að gera í morgun.

miðvikudagur, 11. júlí 2007

Sólbrennd á bakinu

Það mætti ljúga því að mér að ég væri ogguponku sólbrennd á bakinu eftir snorklævintýri gærdagsins. Hvað Baldur snertir get ég frætt ykkur á því að hann hvarf seinnipartinn í gær en í hans stað kom sætur karfi sem elti mig á röndunum. Það er sannarlega ekki tekið út með sældinni að vera í fríi...

Með tilliti til ástandsins á sumum okkar voru allar sólbaðs- og strandferðir snarlega afskrifaðar og við urðum að finna okkur eitthvað annað til dundurs. Þetta annað reyndist vera hangs á ískaffiteríu sem býr til dýrindis bananasplitt. Það sem ég tel að geri gæfumuninn eru muldu jarðhneturnar og kókoshnetuísinn, namm.

Við, eða öllu heldur ég, höfðum einnig nokkuð gaman af dramaleikritinu sem öllum að óvörum hóf göngu sína hér í næsta húsi. Þannig var að meðan ég sat við tölvuna niðri í anddyri hótelsins tóku að berast köll og hróp úr skrifstofu í næsta húsi. Thu, sú sem talar ensku hér á hótelinu, dró mig út til að fylgjast með og túlkaði jafnóðum fyrir mér hvað væri að gerast. Svo var málum háttað að eiginkona, systir hennar og sonur voru stödd fyrir utan skrifstofuna þar sem eiginmaðurinn vann. Mágkonan ásakaði hann um að eiga viðhald á skrifstofunni, sagði hann ekki lengur vera mág sinn og hótaði að drepa hann á hverri stundu. Þá heimtuðu þær að sjá viðhaldið sem þær töldu hann fela í einu herbergja skrifstofunnar.

Að sjálfsögðu var múgur og margmenni að fylgjast með þessu drama og að sjálfsögðu kom lögreglan á svæðið áður en langt um leið. Og að sjálfsögðu vildi löggan taka skýrslu af gerendum og ein þeirra bannaði konunni vinsamlegast að drepa mág sinn. Dramað endaði á mjög dramatískan máta: meinta viðhaldið kom hágrátandi fram í dyragættina og var reidd heim af samstarfsmanni.

Víetnamarnir héldu áfram að slúðra sín á milli í smá tíma og þannig komst ég m.a. að því að meinta viðhaldið ætti kærasta og þar með gat enginn skilið hvort hún væri í raun að halda við skrifstofublókina eða ekki. Fljótlega eftir þetta fór áhorfendahópurinn þó að þynnast og ég ákvað að láta mig hverfa, fór upp að segja Baldri frá heitasta slúðrinu úr hverfinu.

Bátsferð út í eyjarnar

Við skemmtum okkur þvílíkt vel í dag. Við fórum nefnilega í bátsferð á partýbát um Suður-Kínahaf og það getur ekki verið annað en gaman.

Við vorum sótt á hótelið klukkan hálf níu í morgun og brunaði full rúta af Víetnömum, Tævönum og hinum og þessum Vesturlandabúanum niður að bryggju. Þar gengum við um borð í partýbátinn. Þegar sjálft partýið hófst runnu hins vegar á okkur tvær grímur því tónlistin var júrópopp af verstu sort. Það var reyndar svolítið fyndið þegar leiðsögumaðurinn tók Titanic lagið My Heart Will Go On.

Eftir dágóða siglingu um hafsflötinn var kominn tími til að snorkla. Og ég hef aldrei á ævinni snorklað! Það þurfti að kalla til skynsemdarröddina til að halda mér ofan í vatninu: Nei, þú ert ekki að drukkna, mundu að anda í gegnum pípuna í munninum, auðvitað kemur saltvatn upp í nefið ef þú andar með því...

Loks þegar ég var komin upp á lagið með að snorkla sá ég sebrafiska og pínkulitla fiska, synti kringum kóralrif (geggjað) og gerði mitt besta til að forðast marglytturnar, held samt að einni hafi tekist að klípa mig í ristina.

Næst á dagskrá var hádegisverður upp á dekki. Í boði var steikt svínakjöt og vorrúllur með vafasömu innihaldi. Við vorum svo heppin að hafa pantað grænmetisfæði og fengum velútlátinn tófúrétt í bland við franskar kartöflur, skondin blanda.

Eftir hádegismat synti leiðsögumaðurinn út í sjó með rauðvínsflöskur og ananas, síðan var björgunarhringjum hent til hans og þar með var kominn svokallaður fljótandi bar. Þeir sem þorðu stukku af dekkinu en aðrir klifruðu niður á neðra þilfar og smokruðu sér þaðan ofan í vatnið. Ananas ofan í sjó er alveg ágætissnarl.

Restin af deginum fór í að heimsækja Tam eyju og Mun eyju, á annarri hvorri þeirra var áð og margir lögðust í sólbað, við hins vegar dreyptum á íste í öruggri fjarlægð frá sólinni. Ótrúlegt en satt þá var ávaxtateiti á partýbátnum síðdegis sem var kjörin leið til að endurhlaða sig af vítamínum og steinefnum og sætum safanum. Í boði voru ávextir sem allir þekkja eins og bananar, ananas og vatnsmelónur en síðan voru einnig sérkennileg aldin á boðstólum eins og rambútan, langsat og fleiri sem ég kann ekki að nefna.

Seinasti dagskráliður var heimsókn í sædýrasafnið þar sem við sáum fleiri kóralrif og gott sýnishorn af dýraríkinu þar. Litadýrðin er ótrúleg og við sáum nokkra sem líktust Nemo og félögum bara miklu flottari.

Myndir af deginum eru komnar á netið: Hér!

mánudagur, 9. júlí 2007

Nha Trang strandbærinn

Við komum í morgun til Nha Trang og erum þar með komin í suðurhluta Víetnam. Ólíkt síðustu næturrútuferð náðum við að sofa að einhverju ráði þessa nóttina. Eina sem truflaði svefninn voru stoppin, þá eru ljósin nefnilega kveikt og allir ryðjast út. Það var í sjálfu sér merkilegt að fólk skyldi komast út úr rútunni, sessunautur okkar á vinstri hönd maulaði rauð fræ framan af ferðinni og henti hisminu á gólf rútunnar svo veglegur hraukur var farinn að myndast.

Besta stoppið er alltaf það fyrsta, þá fær maður sér bagettu með La vache qui ri, ommelettu og chilísósu, prúttar um banana og fer svo saddur og sæll að lúlla í sinn haus.

Við stigum úr rútunni rétt upp úr sex í morgun, komin til Nha Trang. Að þessu sinni tókum við fyrsta herberginu sem okkur bauðst, sem er óvanalegt því venjulega kíkjum við á nokkra staði. Þegar manni býðst hins vegar rúmt og snyrtilegt herbergi á $6 þarf ekki að leita lengra. Og ekki skemmir að herbergið er eins og skál af blönduðum rjómaís: súkkulaðiís í loftinu, vanilluís í köntum og jarðarberjaís á veggjunum sjálfum.

Í stað þess að byrja daginn á því að leggjast til svefns vorum við mætt á ströndina upp úr hálf átta. Við héldum að það væri sniðugt að taka út strandlengjuna meðan morgunsvalans nyti enn við en þar misreiknuðum við okkur lítillega, klukkan hálf átta að morgni en orðið óbærilega heitt í Víetnam. Við vorum því fljót að þefa uppi gott skjól sem að þessu sinni reyndist vera Café des Amis og þar fengum við okkur síðbúinn morgunverð.

Við erum ekki búin að ákveða hvað við ætlum að gera en við fréttum af súpermarkaði í nágrenninu, bókabúðir meðfram ströndinni selja notaðar bækur og svo er hægt að bóka sig í bátsferð út í eyjarnar. Núna langar okkur hins vegar helst að leggja okkur.

sunnudagur, 8. júlí 2007

Sonur minn vísundurinn

Önnur skoðunarferð! Í dag fórum við í skoðunarferð um rústir Hindúahofa í My Son. Síðla á fjórðu öld varð staðurinn að mikilli trúarmiðstöð fyrir Cham ættbálkinn og var ekki fullkláruð með öllum sínum turnum og hofum fyrr en á þrettándu öld. Cham-fólkið lagði mikinn metnað og natni í notkun múrsteina og notuðu einhvers konar trjákvoðu til að líma steinana niður. Tíminn og loftárásir hafa þó sett rækilegt mark á staðinn sem nú er á heimsminjalista UNESCO.

Eitt af því fyrsta sem leiðsögumaðurinn útskýrði fyrir okkur var að í Víetnam væri orðið bison (vísundur) ekki borið fram eins og í enskumælandi löndum (bæson) heldur væri það bíson.
Eitthvað var ég nývaknaður og skyldi ekkert hvers vegna maðurinn væri að tala um víetnamska vísunda þegar við værum að fara að skoða rústir og af hverju framburðurinn skipti svona miklu máli.

Þrátt fyrir það þótti mér gott að hann væri að vara hópinn við því þeir geta jú verið dyntóttir eins og Murugan í Kodai Kanal sagði okkur. Ég bar þetta undir Ásdísi sem gerðist óviðræðuhæf af hlátri og þá fattaði ég að nafn staðarins (My Son) í munni Víetnama hljómar helst til mikið eins og bæson. Morgunstund gefur gull í mund, ik'os...

Skoðunarferðin var bæði fróðleg og skemmtileg þrátt fyrir brennandi heitan dag. Rútan okkar var full af Áströlum en leið þeirra liggur gjarnan um þessar slóðir í sumarfríum, fara norður í hitann eins undarlega og það kann að hljóma fyrir íslensk eyru.

laugardagur, 7. júlí 2007

7-7-7

Í dag er þessi skemmtilegi dagur, 7. júlí 2007. Ekki að ég hafi eitthvað merkilegt fram að færa á þessum degi, annað en að hafa skrýtinn áhuga á dagsetningum og tölum. Það sem mér finnst kannski áhugaverðast er að þann 6. júní í fyrra var talað um dag djöfulsins með tilheyrandi fjaðrafoki í litlum hópum, en í dag vilja allir sem vettlingi geta valdið gifta sig við prúðlega athöfn.

Ég hlakka mest til að sjá hvernig fer 8. ágúst á næsta ári, 8 er nefnilega happatalan hjá Kínverjum og feng shui fræðunum. Talnaröðin 888 er meira að segja sérstaklega í hávegum höfð, svo ég vænti mikils af Kínverjum þegar þar að kemur.

Annars var hálfgerður annar í Innipúka í dag. Við gerðumst reyndar svo kræf að fá okkur morgunmat, síðbúinn hádegismat og kvöldmat í dag sem þýðir að við urðum þrisvar að fara út úr húsi til málsverðar. Til að svæla restina af kvefinu út vorum við passasöm með að fá okkur ferskan safa í hvert mál. Ananas-, gulróta- og appelsínublandan er gullin.

föstudagur, 6. júlí 2007

Innipúkar

Við tókum því rólega í dag, fannst við eiga skilið smá hvíld eftir þeyting undanfarinna daga. Auk þess vorum við með vott af kvebbelsi og það ber alltaf að taka alvarlega. Það vildi svo vel til að sólin skein í fyrsta skiptið í þrjá daga svo það hefði ekki getað verið betri innidagur, við viljum bara vera úti þegar það er skýjað!

Í staðinn fyrir að fara út í sólina héngum við á netinu því tölvan góða þefaði uppi þráðlausa og ólæsta nettengingu. Við kíktum líka á sjónvarpið, á Star World var verið að sýna Dirty Work sem var fyndin og eftir hana horfðum við á Being Julia sem var bæði dramatísk og fyndin.

Með kvöldinu stungum við nefinu út fyrir hússins dyr. Vorum í stuði fyrir einfaldan kvöldmat og fengum okkur a la Digranesvegur: egg með hrísgrjónum og sætri chillísósu. Meira að segja sólhattsgostöflu með eins og gert er ráð fyrir.

Kvöldgönguna tókum við síðan um gamla hluta Hoi An. Þar er allt morandi í klæðskerum og margir koma hingað til að kaupa sér klæðskerasniðinn fatnað. Þar sem við höfum engan áhuga á því létum við okkur nægja að skoða úrvalið og strjúka flíkunum.

Enduðum bæjarferðina á skemmtilegu spjalli við stelpu í einu listagalleríanna. Sú er menntaður efnafræðingur sem hefur mikla ferðaþrá en sér ekki hvernig hún á að fjármagna ferðadraumana. Við ráðlögðum henni að fara í starfaskipti til Kína en þangað langar hana helst að fara.

fimmtudagur, 5. júlí 2007

Í óspurðum ferðafréttum

Við erum komin til Hoi An sem er nokkurn veginn fyrir miðju Víetnam. Í rútunni út eftir var gert stutt stopp og þar hittum við lítinn og ákafan myntsafnara. Hann varð vonsvikinn að heyra að við værum ekki með neitt íslenskt klink á okkur og varð að gera sér að góðu seðil frá Óman og eina rúpíu.

Þegar við vorum komin á hótelið hér í Hoi An fóru þessu stuttu en alltof algengu samskipti fram:

Hún: Where you from?
Við: Iceland.
Hún: Oh, Ireland!

Ég get ekki sagt hve oft á dag þessi misskilningur kemur upp. Svo hjálpar það ekki þegar fólk spyr hvort við séu ekki rétt við Bretland því tæknilega séð er Bretland nágranninn í suðri og við getum ekki neitað. Þar með erum við þó að staðfesta í huga viðmælenda okkar að þeir hafi rétt fyrir sér, við séum í raun frá Írlandi og þannig botna þeir ekkert í því hvað við séum eiginlega að væla. Sumsé misskilingur sem er kominn til að vera.

Í óspurðum þá er tónik vatn drykkur drykkjanna hjá okkur skötuhjúum þessa daganna. Það vill svo heppilega til að í tónik vatni er kínín sem vinnur gegn malaríu. Svo hagkvæmt!

Af daglegu drykkjarvatni ber Aquafina höfuð og herðar yfir aðrar tegundir, 1,5 lítra flaska er á sex-átta þúsund dong, svona yfirleitt. Jógúrtin í Víetnam er mjög góð (og dísæt) en að horfa á erlent sjónvarpsefni er ekki gott. Maður heyrir í röddum leikaranna en yfir þær kemur síðan hljómlaus og óspennandi rödd sem snarar yfir á víetnömsku. Leikrænir tilburðir þar á bæ núll.

Að lokum vil ég benda á að við komumst ekki inn á blogspot síðuna okkar hér í Víetnam. Það var reyndar hægt í Hanoi en síðan ekki söguna meir. Við komumst hins vegar inn á blogger síðuna og getum því sent út færslur en fáum ekki að sjá útkomuna. Þetta er því nokkurs konar bloggað í blindni. Þetta þýðir að sjálfsögðu að við getum ekki svarað þeim skemmtilegu ummælum sem síðunni hafa borist að undanförnu, göngum í það strax og stjórnvöld leyfa. Góðar stundir.

Stimpill á ennið

Þegar við vöknuðum í morgun skrifuðum við orðið túrhestar á ennin á okkur, fórum niður í móttöku klukkan átta og biðum eftir að túrhestarútan kæmi að sækja okkur. Við áttum nefnilega bókaða sýnisferð um helstu ferðamannastaði bæjarins.

Þegar við komum í rútuna sáum við að stærstur hluti samferðafólks okkar var asískir ferðamenn. Þegar rútan rúllaði af stað og fararstjórinn var búinn að útlista dagskránni fór fólk að skrafa eins og venja er og fæstir á þeim tónamálum sem við erum vön að heyra hér um slóðir og ekki var það enska. Þau töluðu nánast öll hollensku!

Hué er helst þekkt fyrir að hafa verið höfuðvígi Víetnam á árunum 1802-1945, hún er nú á heimsminjaskrá UNESCO. Á þessum árum var Víetnam stjórnað af Nguyén keisaraveldinu og urðu keisarar þess þrettán talsins, þó misvaldamiklir. Fyrsti keisarinn var sennilega þeirra áhrifamestur og vísaði fararstjórinn í hann sem föður landsins.

Meðal þess sem hann kom í verk var að gefa landinu nafnið Víetnam. Fyrsta tillaga hans var reyndar Nam Viet en þeirri tillögu var hafnað af Kínverjum sem töldu nafnið minna um of á hérað í Kína (minnir aðeins á deilur Makedóníu og Grikklands á vorum dögum).

Fyrsta stopp útsýnisferðarinnar var borgarvirkið en inn í því er hin forboðna fjólubláa borg. Borg þessi var eingöngu ætluð kóngafólki en í dag mega allir koma sem séð geta af 55.000 víetnömskum dongum (u.þ.b. 200 ISK) og það gátum við bæði. Í borginni koma tölurnar fimm og níu við sögu aftur og aftur, enda tölur keisarans. Litur keisarans var gulur (eins og í Tælandi) og var þessu svo öllu blandað saman í myndum af drekum með fimm klær, en drekar voru að sjálfsögðu enn eitt af táknum keisarans.

Í ferðinni skoðuðum við líka tvö grafhýsi konunga og eina pagódu. Fyrra grafhýsið, Tu Duc, var sveipað nokkurri dulúð því enginn veit hvar líkið er. Eitt er víst að það er ekki í grafhýsinu en gæti mögulega verið einhversstaðar í garðinum umhverfis, sem er ekki lítill.

Ég verð nú að segja að seinna grafhýsið, Khai Dinh, líktist helst blöndu af listasafni og kastala, svo stórt og litríkt var það. Trilljón postulínsskálum, bjórflöskum og fleiru smallað og raðað upp í ótrúlegar myndir upp eftir öllum veggjum.

Síðasta stoppistöðin var Thien Mu pagódan sem hefur verið starfrækt síðan 1601. Miðað við kyrjið sem við heyrðum frá lókalmunkadrengjum virðist hún enn vera í fullum gangi. Eftir stutt stopp sigldum við heim á leið í drekabáti eftir Ilmá. Áin heitir þessu skemmtilega nafni því á árum áður lagði af henni blómaangan að vori þegar blómin uxu meðfram bökkum hennar.

Váááá, hvað ég veit mikið um Hué! Allt eftir eina svona ferð. Það er alveg nauðsynlegt að taka svona túra annað slagið því stundum nennir maður ekki að setja saman dagskrá sjálfur og þá fylgir heldur ekki loftkæld rúta í kaupbæti.

þriðjudagur, 3. júlí 2007

Svefnlaus nótt

Um þessar mundir er mikið um frí hér í Víetnam og þegar við ætluðum að kaupa okkur miða frá Ninh Binh til Hué reyndist uppbókað í bæði lestina og svefnrútur. Við létum okkur því duga sæti í loftkældri næturrútu. Skilaði hún okkur af sér hér í Hué um hálfsjöleytið í morgun, örþreyttum og svefnlausum.

Ég fór á hótelveiðar meðan Ásdís passaði farangurinn og bar nú heldur betur vel í veiði. Við fengum herbergi með loftkælingu, herbergisþjónustu, gervihnattasjónvarpi, ísskáp og síðast en ekki síst nettengdri tölvu. Öll herlegheitin fyrir átta dollara á sólarhring.

Þegar upp á herbergi var komið fórum við í yndislega sturtu og lögðum okkur. Restin af deginum var tekin á þessu þægilega tempói og svo er planið að fara snemma í háttinn því morgundagurinn verður sko tekin með trompi.

mánudagur, 2. júlí 2007

Cuc Phuong þjóðgarðurinn

Það er ekki ofsögum sagt að Víetnam sé fallegt land, það vitum við nú eftir hjólarúnta gærdagsins og dagsins í dag. Hvergi höfum við litið eins mikinn gróður og mikla grænku. Hrísgrjónaakrar á hverju strái, maísakrar þess á milli, limestone klettar rísa upp úr jörðinni, ár renna um landsspildur og forfeðraaltörun bæta skærrauðum inn í landslagið og mynda skemmtilega andstæðu við heiðbláan himininn.

Í dag fengum við að horfa á fegurð landsins meðan við rúntuðum annan daginn í röð um sveitirnar í kringum Ninh Binh. Að þessu sinni vorum við á leið í þjóðgarðinn Cuc Phuong sem er sá merkilegasti í Víetnam (Ho Chi Minh gaf sér meira að segja tíma til að heimsækja garðinn á sínum tíma). Við höfðum í fórum okkar ansi einfalt kort af svæðinu (hálfgerðan uppdrátt) sem átti að hjálpa okkur að komast leiðar okkar. Oft stoppuðum við þó til að spyrja til vegar og í hver sinn bættum við framburð okkar á víetnömskunni. Að lokum vorum við farin að hrópa á fólk Kúkk Fooong! og halda förinni í þá átt sem handa- og höfuðbendingar gáfu til kynna.

Miðja vegu lentum við í smá skúrum og urðum að leita skjóls undir stóru tré við veginn. Við drógu við það tilefni fram tvo bláa ponsjóa sem við steyptum yfir höfuðið, stukkum því næst á fákinn og héldum áfram. Það þarf varla að taka fram að þegar við loks vorum búin að troða okkur í plastpokana með milli fyrirhöfn var hætt að rigna.

Þegar við náðum að þjóðgarðinum tókum við stefnuna beint á björgunarmiðstöð prímata í útrýmingahættu. Þar sáum við svarta lemúra með löngu skottin sín og skottlausu gibbonana með löngu handleggina sína. Við sáum líka nokkra prímataunga sem voru drop-dead-gorgeous, excuse my French.

Frá björgunarmiðstöðinni héldum við lengra inn í þjóðgarðinn, eina sjö kílómetra, allt að helli frummannsins. Við tókum vasaljós á leigu, klifum þessi tvö hundruð hálu þrep upp að munna hellisins, virtum fyrir okkur reykelsin sem potað hafði verið þar niður til heiðurs forfeðrunum (í þessu tilfelli frumforfeðrum), héldum lengra inn í hellinn þangað til við heyrðum í leðurblökum tísta og fundum fyrir vængjaslættinum við eyrum. Römbuðum á fáránlega brattann stiga sem við að sjálfsögðu urðum að klífa, gengum um ýmsa ranghala hellisins, lékum draugahljóð og tókum draugamyndir, príluðum upp kletta sem ekki á að príla á, virtum fyrir okkur leðublökuskít og tókst að forðast að ganga gegnum kóngulóarvef. Sem sagt allt sem tilheyrir góðri hellaheimsókn.

Þegar við komumst aftur til siðmenningar (mótorhjólakrílisins) urðum við að draga fram sítrónellu og Tiger balm því móskíturnar við hellinn höfðu staðið sína vakt og bitið okkur í tætlur. Við vorum því fegnust að komast aftur á fákinn og fá gustinn í fangið. Sögðum það gott af þjóðgarðinum, urðum að leggja tímanlega af stað til að ná heim fyrir rökkur.

Ferðin út eftir tók okkur tvo tíma, ferðin heim ekki nema rúman klukkutíma. Á leiðinni keyrðum við framhjá óteljandi mörgum og stórum hrísgrjónaökrum og sáum ófáan hrísgrjónaverkamanninn speglast í vatnsfletinum. Við stoppuðum til að mynda vatnabuffala í bak og fyrir og gefa sveitabörnunum víetnamskt gotterí, bættumst síðan í hóp verkamanna á leið heim að loknum vinnudegi í verksmiðjunni.

sunnudagur, 1. júlí 2007

Rúntað um sveitir

Í morgun tókum við vespu á leigu, þvílíkt frelsi. Í dag þurfti ég ekki að prútta um eitt einasta far því bensínverðið er fast. Frelsið nýttum við okkur til að keyra út fyrir bæinn á stað sem heitir Tam Coc og er stundum kallaður Halong flói hrísgrjónaakranna.

Landslagið á þessum stað er alveg magnað og einkar notalegt að fylgjast með því meðan maður líður hjá á litlum árabáti. Ekki fórum við framhjá öllum klettunum því stundum var hægt að róa undir þá með því að fara í gegnum hella. Öfugt við það sem tíðkast í kexverksmiðjunni töldum við okkur heppin með veður þar sem sólin skein ekki.

Báturinn var knúinn áfram af tveimur hressum kerlingum, 49 og 60 ára, eitthvað hjálpaði ég nú líka til sjálfur. Sérstakt þótti mér að sjá hvernig þær báru sig að róðrinum. Ýmist réru þær með höndum eða fótum og líktist það helst hjólatúr þegar fótunum var beitt en handaflið notuðu þær akkúrat öfugt við það sem við gerum heima og sneru fram í bátnum.

Þær kjöftuðu við okkur á víetnömsku í bland við frönsku- og enskuhrafl. Með mátulegum endurtekningum og handapati skildist flest. Þegar ferðin var hálfnuð fengu þær sér eitthvað sérvíetnamskt orkukex og gáfu okkur með. Nokkrum mínútum síðar kom í ljós að kexinu var ætlað að mýkja okkur fyrir háalvarlegan viðskiptafund um útsaum og stuttermaboli. Við stóðumst freistingarnar.

Ekki svalaði jullan á hrísgrjónaakrinum ævintýraþorstanum meira en svo að sakleysisleg heimsókn í klettahofið Bich Dong varð að heljarinnar fjallgöngu með klettaklifri í bland. Hvött áfram af þremur litlum stelpuskjátum og eðlislægri forvitni klifum við hamarinn og horfðum yfir iðagræna hrísgrjónaakra meðan við gæddum okkur á bagettu, hressum beljuosti og túnfiski í tómatsósu.

Á einu af makindalegustu augnablikunum rákum við augun í drengjahóp í sigurvímu. Þeir voru að rifna af stolti yfir að hafa komið sér upp á nálægan en nokkru lægri hól en okkar. Sem þeir litu upp og sáu okkur hvarf úr fasi þeirra öll sú gleði sem einkennir fjallgöngumenn á toppnum og í staðinn kom yfir þá óþreyja þess sem er alveg að ná á tindinn.

Þetta var allt eins og í teiknimynd og í hugsanablöðrum þeirra stóð: Hei, til hvers að príla upp á litla grjóthrúgu þegar þessi við hliðiná er miklu stærri? Furðufljótt voru þeir svo komnir upp til okkar og deildu með okkur vissu þess sem veit og getur.

Sennilega ekki hægt að kalla þetta lautarferð en eftir þetta brölt var ævintýraþörfin alveg orðin södd og rólegur vesputúr um nærsveitir látinn duga fram að kvöldmat. Í túrnum sáum við daglegt líf hrísgrjónaverkafólks, krakka að baða sig í ánni, anda- og gæsasmölun, flugdreka á lofti og margt, margt fleira.