miðvikudagur, 31. október 2001

Ég hélt kynningu í Mannfræðikenningum II í dag þar sem ég kynnti ritgerðina mína í þeim áfanga. Ég er nýbyrjuð á henni og er að skrifa um mannfræði líkamans. Ég veit ekkert um þetta efni en það tengist áfanganum sem fjallar um kenningar eftir 1950. Ætli ég skrifi ekki um sögu líkamans í mannfræði, hvenær menn fóru fyrst að velta honum fyrir sér og sjá hver tengslin eru þarna við tvíhyggju, þríhyggju o.s.frv. Það er alveg ferlega erfitt að finna heimilidir um þetta efni og Bókhlaðan er alltaf jafn fátæk af bókum. Sem dæmi get ég nefnt að ég fann eina bók sem er alveg kjörin og heitir Anthropology of the Body en sú er í láni til maí á næsta ári! Ekki þarf að nefna að þetta er eina eintakið sem til er...

Baldur var veikur heima í gær en var samt nógu fríkur til að ryksuga alla íbúðina, gefa strákunum að borða og elda besta hrísgrjónagraut sem ég hef nokkur tíma fengið. Svo segist hann hafa verið latur í dag....ég held að hans skilningur á því orði fari ekki alveg saman við hina félagslega samþykktu skilgreiningu á orðinu leti.

Í gær var stór dagur fyrir litla Bjart, hann opnaði augun í fyrsta sinn og núna staulast hann markvissara áfram á litlu kanínufótunum en áður þegar hann sá ekkert hvert förinni var heitið. Rúdólfur hlýtur að hafa sagt við sjálfan að hann væri enginn eftirbátur Bjarts og til að sanna það opnaði hann augun í fyrsta sinn áðan. Það urðu mikil fagnaðarlæti hér á heimilinu en ég veit ekki hversu hrifnir þeir sjálfir eru, þeir sofa allan daginn. Aðrir fjölskyldumeðlimir (þ.e. Kisa og Fríða) virðast mjög sáttar við þessa viðbót og Kisa er mjög forvitin, alltaf að sniglast í kringum strákana.

Þyngd og þroski: Báðir búnir að opna augun, farnir að rölta um vistarverur sínar og sofa ekki eins svakalega mikið, Bjartur er núna 104 g og Rúdólfur 64 g.

þriðjudagur, 30. október 2001

Úff! Í dag var ég veikur heima. Ég var reyndar orðinn slappur í gær en hélt það væri bara þreyta en svo var ekki. Í morgun vaknaði ég snemma til að sjá hvort ég væri ekki orðinn hress en hringdi í Kidda (aðalgaurinn í vinnunni) og sagði honum að því miður kæmist ég ekki til vinnu í dag.

Næst á dagskrá var að fóðra og vigta Bjart og Rúdólf. Fyrir mat voru þeir sem hér segir: Bjartur 96g og Rúdólfur 59g. Eftir mat var Bjartur svo orðinn 105g og Rúdólfur 65g enda voru þeir vel útbelgdir. Eftir fóðrun fór ég nú bara að sofa í félagsskap Kisu og við sváfum og sváfum og sváfum. Á meðan ég var sofandi var Ásdís að stússast um íbúðina og læra. Ég drakk mikið af tei, c vítamíni, sólhatti og rauðum pipar í dag. Ég held að það eigi stóran þátt í því að ég sé að hressast þó ég sé nú ekki orðinn alveg góður.

Svo fór Ásdís til Láru tannlæknis. Á meðan hún var þar þá leyfði ég Kaniku að fara aðeins út í garð að fá ferskt gras. Nei hún er ekki svona hlýðin heldur var hún í löngu bandi. Svo horfði ég á myndina Swordfish (ekkert spes) en náði ekki að klára því að Biggi vinur kom og kíkti á mig. Svo sátum við bara í mestu makindum inni í stofu að skoða bækur og svo lít ég upp og sé að Biggi er steinsofnaður. Ég notaði tækifærið og tók myndir af því. Á meðan Biggi lá sofandi í stólnum var bankað á útidyrnar og Biggi hrökklaðist þá á lappir því hann vissi nú ekki alveg hvað var á seyði. Ábyrgðina á bankinu báru foreldrar mínir sem voru komin að kíkja á kjúklinginn. Þau komu nú ekki bara að kíkja heldur komu þau færandi hendi beint úr hinni frábæru verslun Fjarðarkaupum. Það sem þau voru með var: c vítamín, valhnetubrauð, greipsafi, hnetusmjör, jógúrt, meira jógúrt og vanilludesert. Jahá! Svo þegar þau voru nýfarin þá kom Ásdís heim og var hún þá búin að koma einhverri nýjung á heimasíðuna. Það er komin spurning á dagbókina, svona til gamans. Stundum verður þetta gáta eða skoðanakönnun og ykkur er velkomið að svara, reyndar eru allir lesendur eindregið hvattir til að svara spurningunni, því það er svo gaman.

mánudagur, 29. október 2001

Mikið er gaman af ungunum okkar, við gerum ekki annað en að dást að þeim. Við vöknuðum eldsnemma í morgun og þvinguðum Kaníku til að gefa þeim spena. Mikið voru þeir ákafir í að fá að drekka og meira að segja Rúdólfur var aktívur. Í gær var hann nefnilega mjög máttfarinn og ég varð að halda honum upp við spenan og þar hékk hann og saug af lítilli græðgi. Bjartur aftur á móti var algjör fjörkálfur og baðaði út öllum öngum, snéri sér á bakið og á haus og vildi helst alla spenana í einu. Í morgun var Rúdólfur allur annar, þegar við settum hann á spenann byrjaði hann strax að sjúga af miklum ofsa og baðaði út öllum öngum rétt eins og bróðir sinn.

Þetta prógram er strax farið að skila árangri, þeir eru mun snarplegri og þyngjast óðfluga. Við vigtuðum þá í fyrsta sinn í dag, settum þá ofan í skál og síðan ofan á eldhúsvogina. Bjartur var þá 93 g en Rúdólfur aðeins 54,5 g. Í kvöld vigtuðum við þá síðan aftur eftir að þeir höfðu fengið fylli sína af mjólk og þá var staðan þessi: Bjartur 98 g og Rúdólfur 63 g! Hann var 8,5 g þyngri en í morgun, það þýðir að hann hefur drukkið sig stútfullan. Það sást nú líka á þeim, magarnir voru útbelgdir og stinnir af mjólk :)

Við fórum síðan aftur að tína arfa áðan, þessi kanína étur eins og ég veit ekki hvað. Að því loknu skelltum við okkur á El Estilo Americano (hint til pabba hehe) og tróðum okkur út þar til magar okkar voru útbelgdir og stinnir af seddu :)

sunnudagur, 28. október 2001

Sjö manna fjölskylda!

Afsakið biðina, við höfum verið mjög upptekin, við fengum nefnilega ótrúlega gjöf í gær og við höfum verið upptekin af henni síðan. En áður en ég fer út í þá sálmana var ég víst búin að lofa að greina frá fyrsta mentorfundi okkar Karitas sem var alveg æðislegur, hún er algjör snúlla.

Ég sótti hana í skólann og síðan fórum við heim og hún sýndi mér herbergið sitt og kisuna sína og síðan röltum við niður á tjörn og gáfum öndunum, svönunum og gæsunum brauðmola. Eftir það fórum við að tína laufblöð og blóm og söfnuðum því saman og þegar heim var komið skiptum við fengnum bróðulega á milli okkar, þú færð eitt laufblað og ég fæ eitt, þú færð eitt blóm og ég fæ eitt....

Þetta var alveg frábær dagur og ég komst að því að ég hef mjög ranga mynd af börnum. Þegar ég var í Frakklandi að passa 8 ára stelpu þá varð ég að gera allt fyrir hana, hún mátti ekki ná í glas upp í skáp, hún mátti ekki hella sjálf í glasið, ég varð að baða hana og það kom aldrei til greina að hún fengi að vera ein heima þó svo að við værum rétta að skreppa út í bakarí.

Enda var Juliette ótrúlega ósjálfstæð greyið, fékk aldrei að gera neitt. Þetta er mín reynsla af börnum og síðan er ég auðvitað með strákinn í liðveislunni og þar sem hann er framheilaskaðaður þarf að gæta hans hvert augnablik. Mér brá því ansi mikið þegar ég komst að því að Karitas, sjö ára, gengur alltaf ein heim út skólanum, fær sér að borða og sér síðan um sig alein þar til foreldrarnir koma heim út vinnunni. Maður sér líka stórmun á þeim tveimur, Juliette og Karita.

Um kvöldið fórum við í hina hefbundnum pizzu hjá pabba og þegar við komum heim brá okkur heldur betur í brún. Baldur var á leið inn í sturtu sem er inni í þvottahúsi þegar hann gaf hann frá sér undrunaróp og bað mig að koma í hvelli. Ég ætlaði ekki að þora að kíkja inn í þvottahús, alveg viss um að þar hengju dauðar rjúpur eða einhvað álíka en það var sko aldeilis ekki því á gólfinu var stórt blátt búr og þar inn í var hvít kanína!

Þegar við fórum að virða hana betur fyrir okkur sáum við hrúgald í einu horninu og viti menn, þarna lágu tveir pínulitlir kanínuungar, annar ljósbrúnn og hinn nánast svartur. Þeir lágur þarna horaðir og kaldir á plastbotni með ekkert undir sér, ekki einu sinni hálm.

Daginn eftir fréttum við að ungarnir væru eins vikna gamlir, fæddust föstudaginn 19. október, sex í goti, fjórir dánir og mamman gefur þeim ekki spena. Barnabörn fólksins fyrir ofan áttu þessar kanínur og vildu nú losna við þær og hvað var gert, okkur var boðið að fara úr fjögurra meðlima fjölskyldu yfir í sjö meðlima fjölskyldu. Auðvitað sögðum við já takk!

Þeir eru nefnilega alveg yndislegir ungarnir en mjög horaðir og nú þurfum við að bretta upp ermarnar til að halda í þeim lífinu. Við byrjuðum strax á því að setja búrið inn í þurrkherbergi til kisu (sem er mjög sátt við það ótrúlegt en satt) þar sem er mjög heitt, settum það alveg upp við heita leiðslu, settum síðan fullt af saginu hennar Fríðu í búrið, ungarnir voru síðan settir í þvottapoka inn í búr næst þessari hitaleiðslu.

Eftir það var farið út að reita hellings arfa fyrir mömmuna sem hún tróð í sig. Hún var ekkert smá svön, át og át og át. Eftir það var farið á stúfana, við fórum í apótekið og keyptum hitapoka og tvær sprautur og síðan í búðina að kaupa lífræna mjólk. Þegar heim var komið gáfum við englunum að drekka og það sem sá svarti var svangur, litli engillinn. Hann er nefnilega miklu horaðri og minni en sá ljósbrúni.

Við skírðum þá strax, sá ljósi heitir Bjartur, það var ég búin að ákveða áður en ég vissi að við fengjum þá (þ.e. þegar ég vonaði að við fengjum á). Hinn svarti heitir Rúdólfur af því að þessir ungar minna mig svo á hreindýr, með svona flatt trýni, þannig að Baldur sagði að hann ætti að heita Rúdólfur. Mamman heitir Kaníka. Við erum reyndar ekki alveg viss um að þetta séu strákar þannig að ef við höfum rangt fyrir okkur erum við með back-up-names, Bjartur verður þá Birta og Rúdólfur verður þá Rakel eða Rut (við munum ekki eftir neinni frægri hreindýrskú!).

Seinna um kvöldið fórum við í afmæli til Sóveigar og Einars, það var mjög gaman og mikið hlegið. Í gær var fyrsti vetrardagur og í tilefni þess féll fyrsti snjórinn. Áðan vorum við síðan í sunnudags- matarboðinu góða, það var mjög kósý líka eins og ávallt.

Þegar við komum heim gáfum við strákunum úr sprautunum en síðan ákváðum við að þetta gengi ekki lengur, þeir verða að fá kanínumjólk. Baldur tók þá Kaníku og hélt henni fastri og á meðan leyfði ég englunum að sjúga eins og þá lysti. Mikið svakalega voru þeir svangir, það fékk bara á mann að sjá það. Núna liggja þeir sælir og mettir inn í búri, undir handklæði, nýþvegnir meira segja. Mamman meig nefnilega á þá í gær, mjög lekkert.

föstudagur, 26. október 2001

Hæ öll sömul, þessi færsla verður í styttri kantinum því klukkan er orðin frekar margt og ég er hálfsofandi held ég bara. Dagurinn í dag var æðislegur, fyrsti Mentorfundurinn okkar Karitas var í dag og ég segi betur frá því á morgun.

Ég ætla nú eiginlega að kynna tvær nýjungar til sögunnar, nei reyndar þrjár, ein er gömul nýjung sem við gleymdum alltaf að segja frá. Sko, dagbókin er komin með netfang eins og sjá má hér til vinstri og þar megið þið lesendur góðir endilega senda inn ýmsar fyrirspurnir og tillögur að breytingum á síðunni, þ.e breytingum til batnaðar:) Þetta var gamla nýjungin. Hinar nýjungarnar er: a) hugleiðingahorn og b) vefspjall.

a) Hugleiðingahornið er ætlað til skemmtunar og mun samanstanda af ýmsum spakmælum, orðtökum og pælingum sem menn hafa komið í skemmtilegan orðabúning. Við ákváðum að kalla þetta hugleiðing líðandi stundar því við erum ekki viss hversu oft við getum skipt um hugleiðingu, þar af leiðandi köllum við þetta ekki hugleiðing dagsins eða eitthvað álíka. Nú biðjum við ykkur, lesendur góðir, að vera með í þessum hugleiðingaskiptum, sendið alveg endilega inn skemmtileg spakmæli, vel mæld orð eða eitthvað sem ykkur finnst fallegt eða fyndið. Sendið þetta bara á dagbókina eða okkur, nú eða í vefspjallið og við söfnum því saman og getum þannig gert þetta meira víxlverkandi (svo ég noti nú óþolandi orð!). Þannig getið þið verið með og þannig getum við fengið fleiri spakmæli en okkur hefði ella dottið í hug og þannig skipt oftar eða reglulegar um hugleiðingu.

b) Vefspjallið er nýr þáttur hér í dagbókinni, þetta er einskonar ræðupallur ykkar, hér getið þið nefnilega tjáð ykkur um það sem við erum að rita í þessa dagbók eða þá um það sem efst er á baugi. Við hvetjum ykkur eindregið til að notfæra ykkur þetta.

Jæja, ég held að þetta sé komið í bili, þetta varð víst ekki eins stutt færsla og ég hafði ætlað mér en það stafar af þörf minni til að taka allt mjög skýrt fram í því sem hér kom fram að ofan (a.k.a. endurtaka mig). Segi það gott í bili, sjáumst á morgun.

P.s Ég gleymdi einu, við bættum við um daginn þættinum Linkar hér í hægri dálk eins og þið sjáið. Þetta eru linkar á heimasíður sem okkur finnast áhugaverðar og ef þið vitið um e-r áhugaverðar síður látið okkur þá endilega vita!

fimmtudagur, 25. október 2001

Komið nú sæl og blessuð! Fimmtudagurinn byrjaði, eins og nokkrir aðrir dagar þessarar viku, á því að við Ásdís ætluðum að vera voða dugleg og vakna snemma til að fara í göngutúr. Svo skemmtilega vill til að þessir göngutúrar verða alltaf göngudúrar og eru alveg hreint ágætir. Á fimmtudögum er tími hjá okkur báðum í skólanum þar sem við hlustum á Jónínu Einarsdóttur þylja hinar ýmsu pælingar um líf barna. Þessir tímar eru í Lögbergi í pínuponsulítilli stofu sem verður loftlaus á nóinu en það er ástæðan fyrir því að ég verð stundum syfjaður í þeim tímum. Ég sofnaði nú samt ekkert og tók ágætan þátt í umræðum um líf barna í Sierra Leone. Svo fór ég nú bara í vinnuna, sem ég hafði skotist úr til að komast í tíma.

Um kvöldið fórum við svo í matarboð til Stellu ömmu og Péturs afa þar sem við fengum salat og dýrindis síld sem amma hafði steikt svo var ís í desert. Þar voru bæði pabbi og mamma mætt á svæðið enda síldarfólk hið mesta. Eftir að allir höfðu kýlt út á sér vömbina horfðum við á Kastljósið þar sem Megas var í viðtali, það var kúl.

Sumsé, alveg frábær dagur, eins og þeir eru nú allir. Ég held að við séum bara mislagin við að taka eftir því.

miðvikudagur, 24. október 2001

Jæja, þá kveð ég Weber, seinasti tíminn var í dag hjá Svani og þá er næstur á dagskrá hann blessaður Durkheim. Hann er sá eini af þessum köllum sem við í mannfræðinni höfum eitthvað lært um áður, hann er bara eins og gamall vinur, allavega í samanburði við hina tvo harðfiskana. Í morgun var ég að lesa í bókinni góðu Marx, Durkheim, Weber og þar rakst ég á frekar forvitnilegar og skemmtilegar upplýsingar, nefnilega það að bækur sem seljast í dag eins og heitar lummur eins og Hvernig á að græða pening, Milljónaviðskipti og fleiri með álíka lélegum titlum voru einnig að meika það í denn tid. Með denn tid þá á ég við ártalið 1736 þegar Benjamin Franklin skrifaði "self-help guide" sem hann kallaði Necessary Hints to those that would be Rich en þar skrifaði hann m.a.:

Remember, time is money. He that can earn ten shillings a day by his labour and goes abroad, or sits idle, one half of the day, though he spends but sixpence during his idleness, ought not to reckon that the only expense; he has really spent, or rather thrown away, five shillings besides.
Þetta er náttúrulega algjör snilld, við erum alltaf að barma okkur og lítum til baka með björtum augu, æ það var allt svo gott í gamla daga, en mér sýnist fólk hafa verið að hugsa jafn kapítalískt og í dag. Og þetta orðtak, tími er peningar, er ekki alltaf verið að hamra á þessu? Hugsum við ekki ansi mikið út frá nákvæmlega þessu, tíminn er gulls ígildi og svo fram eftir götum? Já, það er snilld að læra mannfræði, maður dettur alltaf niður á eitthvað athyglisvert.

þriðjudagur, 23. október 2001

Við vorum ósköp dugleg í kvöld, elduðum mat í fínni kantinum og höfðum það kósý. Ég bakaði nefnilega míní pizzur, ítalska snúða og bjó til súpu. Nú liggjum við afvelta á meltunni (þá einkum og sér í lagi hann Baldur haha) með tærnar upp í loftið. Reyndar er ég hrædd um að við fáum ekki mikið að gæða okkur á snúðunum því við erum með gesti í heimsókn, pabba og brósa, og þeir eru í þessum mi casa, tu casa fíling. Ástæða þessa að þeir droppuðu við svona seint er sú að Andri brósi er að fara að halda eitthvað sjó á morgun á árshátið MR á Broadway. Hann og fleiri stæltir strákar ætla að leika löggur og hann vantaði lögguhúfu. Hann leitaði því til mín því ég á stúdentshúfuna frá því í denn (1999 hehe) og hann hafði þá grillu í hausnum að fá hana lánaða og nota hana í þessu sjói. Ég held að það gangi ekki upp. Húfan er nefnilega allt, allt, allt of lítil á hans haus og þetta kom afkárlega út, leit helst út eins og hann væri með pottlok á hausnum.

Jæja, ég reyndist þá sannspá eftir allt saman (eða á maður kannski að kalla það að hafa fengið ósk sína uppfyllta?). Það kom nefnilega mynd af okkur Karitas í Mogganum í dag, jibbí, við vorum frægar í dag! Dögg minntist á myndina í dag í leshópnum og sagði að hún væri bara nokkuð góð og þá varð ég rígmontin.

Jæja má ekki vera að þessu, ég á eftir að lesa alveg heilan helling fyrir umræðutímann á morgun hjá Svani, hann er nú snar, ætlast til þess að við lesum rúmlega 200 blaðsíður fyrir einn umræðutíma. Við eigum nefnilega að vera búin að lesa hina mjög svo spennandi titluðu bók The Protestant Ethics and the Spirit of Capitalism eftir Webba. I´ll see that happen!

mánudagur, 22. október 2001

Í seinni tímanum í mannfræði barna í dag fengum við til okkar skemmtilegan fyrirlesara sem var að tala um vinnu barna á Íslandi. Við Baldur sátum frekar framarlega og þeir sem til þekkja vita að Baldur á oft mjög erfitt með að halda sér vakandi í tímum. Hún tók greinilega eftir því og spurði hann hvort hann væri mjög þreyttur. Eina svarið sem hún fékk var kinkandi kollur. Eftir tíma vorum við síðan að hlæja að því að hún skildi hafa tekið eftir þessu því í raun var hann óvenju vakandi, sat meira segja uppi og fylgdist með. Hún ætti að sjá hann þegar kennarinn kennir, þá liggur hann annað hvort fram á borðið eða situr með hausinn lafandi ofan í bringu :)

Ég gleymdi að minnast á það í gær að á þessari hátíð var krökkt af fréttamönnum, Ásdís ljósmyndarinn frá Mogganum tók fullt af myndum af okkur Karitas þegar við vorum að hittast í fyrsta sinn, svaka stuð. Ég býst því jafnvel við að það verði mynd af okkur í Mogganum en það er náttúrulega ekki víst. Ég vona það þó, ég sagði nefnilega Karitast frá því og hún varð svo spennt, hélt að núna yrði hún sko fræg!

sunnudagur, 21. október 2001

Í dag var mikilvægur dagur, ég hitti nefnilega barnið sem ég er mentor fyrir. Opnunarhátíðin var haldin í safnaðarheimili Lauganeskirkju og byrjaði kl. 16. Ratleikurinn góði með hundamyndunum fór fram um hálf tíma síðar. Við mentorarnir hlógum dátt á meðan á honum stóð því út um allt voru lítil börn á vappinu með litla mynd af hundi í höndum sér, glápandi á okkur og rýnandi í þessar litlu myndir. Ég var eiginlega strax fundin, allt í einu stóð fyrir framan mig lítil og feimin stelpa, hélt myndinni sinni þétt upp að sér og stóð síðan bara og þagði. Ég bað um að fá að sjá myndina hennar og hún var eins og mín, jibbí ég hafði fyndið barnið mitt, eða réttara sagt barnið hafði fundið mentorinn sinn. Hún heitir Karitas og er 7 ára gömul.

Eftir að hafa heilsað upp á foreldrana, spjallað við Karitas og fengið mér köku var farið í leiki, eldri krakkarnir (ellefu ára) fóru í actionary en við hin með litlu snúllurnar settumst í hring og síðan var farið í hvísluleik og gátuleik. Gáturnar voru ekki auðveldar og ég varð mjög fegin þegar ég sá hina mentorana alveg eins ráðalausa og mig. Börnin áttu hinsvegar ekki í miklu erfiðleikum með þær. Dæmi: Af hverju eru storkar með svona langar fætur? Til að þeir náið niður á jörðina! Hvað er sameiginlegt með jakka og hesti? Nú, fóðrið. Hvaða klukka sýnir aðeins réttan tíma tvisvar á sólarhring? Klukka sem er stopp. Á hverju stóð Palli þegar hann fór upp á Esjuna? Á löppunum. Hvísluleikurinn var einnig mjög skemmtilegur og við hlógum dátt að allri vitleysunni sem úr varð, t.d var orðið háhyrningur orðið að orðinu hestungur í lokinn!

Hátíðinni slúttaði síðan um sex leytið og þá fórum við Baldur í matarboðið góða á Eggerts- götunni. Þar fengum við rófur og gulrætur með hrísgrjónum, allt mjög gott nema hvað helst grænmetissafinn. Jæja, þá er kominn háttatími, stór dagur framundan. Ciao.

laugardagur, 20. október 2001

Ég fór á námskeið í dag varðandi Mentorverkefnið. Námskeiðið samanstóð af þremur fyrirlestrum, einn um samskipti, einn um tengslakenningar og síðan náði ég aldrei hvað sá þriðji fjallaði um. Þetta námskeið átti að kynna okkur Mentorstarfið, segja okkur við hverju við mættumst búast af börnunum og af okkur sjálfum, hvernig gott væri að bregðast við ýmsum aðstæðum o.s.frv. Hugmyndin að slíku verkefni kemur frá mentorverkefninu í Perach í Ísrael. Mentorstafið er margþætt en aðalatriðin eru þessi:

Orðið mentor er alþjóðlegt og er notað um ráðgjafa, leiðbeinanda sem aðstoðar yngri, óreyndari aðila við að víkka sjóndeildarhringinn. Mentor veitir stuðning, er fyrirmynd, eins konar stóri bróðir eða systir. Mentorhlutverkið sem þið takið við núna snýst ekki um að vera sálfræðingur eða kennari viðkomandi barns. Öllu heldur snýst það um það að skapa trúnað og traust, sýna samkennd og tillitssemi, tengja saman virkni og hlýjur í leik og starfi. Samverustundir mentors og barns þurfa ekk i að vera úthugsaðar og skipulagðar því oftast er návistin mikilvægust. Tengslin styrkjast þegar barn og mentor eru saman.

Að vera mentor snýst um að gefa sjálfum sér tíma með barninu, leyfa sér að læra af samskiptunum við barnið, taka þátt í lífi barnsins og læra að skilja þann heim sem barnið lifir í og læra að skoða sjálfan sig í nýjum aðstæðum. Margir mentorar telja að þeir hafi öðlast jákvæða reynslu með því að eignast yngri vin, það veiti þeim tækifæri til að setja sig inn í hugsunarhátt barna og hjálpi þeim aðskilja mismunandi gildismat, menningu og sýn á lífið og tilveruna.

Að vera mentor þarf hvorki að vera erfitt né erilsamt. Það snýst einfaldlega um að vera sá sem maður er og veita öðrum einstaklingi athygli. Mentor er fullorðin fyrirmynd sem getur eflt jákvæða reynslu barna og þannig haft jákvæð áhrif á sjálfsmat þeirra.

Langtíma markmið Mentorverkefnisins Vinátta er að bæta við möguleika barna til lífsgæða með því að bæta við reynslu þeirra jákvæðum upplifunum af samveru við fleiri fullorðna aðila en eru í lífi þeirra.
Í lokin fengum við síðan að vita hvaða barn við eigum að vera með, ég verð mentor sjö ára stelpu.Við hittumst einu sinni í viku, þrjá tíma í senn. Þetta er alveg ótrúlega spennandi og ég hlakka mikið til að eignast lítinn vin og ég er sko búin að plana hvað við getum gert saman, farið niður í fjöru og tínt skelja, tínt laufblöð og þurrkað þau, safna skordýrum í krukku, fara á söfn, perla, púsla, lita o.s.frv. Ég er með endalausar hugmyndir og sú nýjasta er að nota einn dag í að taka myndir, labba um bæinn og leyfa stelpunni að taka eins margar myndir og hún vill. Þetta er svo lítið mál þegar maður er með stafræna myndavél, þá þarf maður sko ekki að hugsa um að nota filmuna vel heldur tekur maður eins margar myndir og maður vill og af hverju sem er. Síðan fæ ég Baldur til að brenna þær á disk og ég get gefið stelpunni.

Enn og aftur get ég ekki orða bundist yfir háttalagi veðursins, það er þetta blíðskapar veður á daginn en síðan skellur á þessi drungalega þoka, svo þétt að manni stendur ekki á sama. Baldur var að segja mér um daginn að þegar þoka væri þýddi það að vampírur væru í grenndinni og nú vil ég helst ekki vera ein á vappi þegar þoka skellur á. Í gær var hún svo þykk að ég sá ekki Rauðavatn þegar ég keyrði framhjá því á leið til pabba, og það er nú ansi mikið, heilt vatn sem sést ekki fyrir hvítu skýi.

Jæja, læt þetta nægja í bili, hef öðrum hnöppum að hneppa, á morgun er opnunarhátíð Mentorverkefnisins og þar hitti ég barnið "mitt". Það á víst að gera ratleik úr þessu, mentorar og barn eiga að finna hvort annað í ratleik sem fer þannig fram að hvert par nælir á sig krúttlega mynd af hundi og síðan á maður að finna þann sem er með alveg eins hundamynd og maður sjálfur.

föstudagur, 19. október 2001

Í dag byrjar helgarfrí jibbí! Það átti að vera fótadagur í dag en ég og Biggi ákváðum að krydda hann svolítið með því að príla upp á Keili. Okkur varð nú ekki kápan úr því klæðinu þrátt fyrir góða gönguskó og djarfan hug. Það var nefnilega svo mikil þoka á leiðinni að við sáum aldrei skiltið sem vísar á hólinn, þannig að við héldum bara áfram alla leið til KEF. Þar sagði Biggi að hægt væri að finna undur, þegar ég kom að undrinu þá hét það Langbest og reyndist nú standa nokkuð vel undir nafni því þar var dýrindis matur. Biggi splæsti.

Eftir að hafa troðið út belginn var ferðinni heitið til Elfars föður Ásdísar í pizzu, ég var nú reyndar ekki orðinn svangur aftur en pizzan féll vel í kramið þar sem maður getur alltaf á sig blómum bætt. Eftir að hafa torgað öllum þessum mat stungu þeir Andri og Elfar upp á því að leigð yrði spóla. Við Ásdís höfðum nú ekkert á móti einni ræmu og horfðum á Enemy at the gates sem reyndist vera bráðfín stríðsmynd. Nú er myndin búin og ég dauðsyfjaður, gúnatt.

fimmtudagur, 18. október 2001

Í dag vorum við Baldur með drenginn sem við erum með í liðveislu. Það gekk mun betur í dag en fyrir viku síðan, þá var ég í fyrsta skipti alein með hann og það gekk mjög illa. Hann er framheilaskaðaður, slasaðist í bílslysi þegar hann var sjö ára, og það einkennir slík börn að þau eru mjög hvatvís og hömlulaus. Hann á það t.d. til að hlaupa allt í einu út úr húsinu og þá verð ég að gjöra svo vel og hlaupa á eftir honum á sokkaleistunum. Hann getur nefnilega aldrei verið einn, það þarf að passa hann hverja stund og ég get ímyndað mér hversu pirrandi það hlýtur að vera fyrir barnið. Hvað varðar hömluleysið þá vill hann helst borða og borða og það gengur ekkert að fá hann ofan af því. Mamma hans sagði að þetta væri alltaf erfitt fyrst og að hann léti alltaf svona fyrst þegar hann væri kynnast fólki.

Dagurinn í dag og undanfarnir dagar hafa verið alveg magnaðir, þetta líka sumarveðrið. Ég las í Mogganum um daginn að það hafi aldrei mælst eins hár hiti hér á Íslandi svona seint á árinu síðan mælingar hófust, það var seinast árið 1956 að mig minnir sem veðrið var eitthvað svipað, en þá mældist hitinn um 16° þann 1. október. Í tilefni þessa góða veðurs fórum við Baldur í hádeginu og fengum okkur ís, settumst síðan á bekk í góða veðrinu og nutum þess að vera til. Það var bókstaflega vor í lofti og ég vona svo sannarlega að það haldist í einhvern tíma.

miðvikudagur, 17. október 2001

Ég gleymdi alveg í gær að skrifa færslu dagsins þar sem ég var svo upptekin við að lýsa því sem gerðist á mánudaginn. Núnú, leshópurinn Verð að skilja hittist í annað sinn en í þetta skiptið vorum við aðeins fjórar því Lísa var veik. Við ætluðum að taka fyrir þrjá kafla og sáum fram á að í versta falli tæki það okkur þrjá tíma og okkur hryllti við að þurfa að sitja við og ræða kenningar í þrjá tíma. Við erum greinilega of bjartsýnar því við vorum langt frá því að vera sannspáar. Á þessum þremur tímum tókst okkur að fara yfir einn kafla, einn vesællegan kafla. Hveru mikið er eiginlega hægt að skrifa um marxíska mannfræði, mér er bara spurn?

Baldur hringdi í dýralækni uppí Víðidal og spurði hvað amaði að kisu. Hún drekkur og drekkur vatn í lítravís og að sama skapi pissar hún í lítravís. Læknirinn sagði að þetta væru nýrun og að það þyrfti að gefa henni sterasprautu til að koma þessu í lag. Greyið litla, sæta kisa er að verða að steratrölli.

Hmm, ég er að velta fyrir mér deginum í dag og hef komist að þeirri niðurstöðu að nákvæmlega ekkert markvert gerðist í dag. Jú, reyndar eitt. Kennarinn í kenningum í félagsvísindum, hann Svanur, mætti í umræðutímann í dag. Nú hljómar það ekkert stórfenglega, kennari mætir í tíma, en þetta markaði tímamót. Þannig er mál með vexti að fyrir viku síðan var fyrsti umræðutíminn okkar um Weber og allir nemendur mættu galvaskir og vel lesnir til leiks enda búið að banna okkur að mæta ólesin í þessa tíma. Eftir langa bið voru nemendur farnir að líta í kringum sig með undrunarsvip sem síðan breyttist í frábært-það- er-ekki-tími svip. Heim á leið héldum við því flest, litlu nær um skilgreiningar Webers á Ideal Types. Á mánudaginn var síðan tími og við biðum spennt eftir að vita hvað hafði komið upp á, eitthvað hræðilegt varð það að vera til að sleppa tíma með okkur. Við vorum því alls ekki tilbúin til að heyra að kennarinn góði hafði einfaldlega gleymt að mæta í tímann! Hann vildi þó taka það skýrt fram að þó hann væri prófessor væri hann ekki oft utan við sig.

þriðjudagur, 16. október 2001

Við biðjumst afsökunar á því að hafa skrópað í gær en málið er að við komum svo seint heim að við gátum ekki mögulega hugsað okkur neitt annað en sofna á stundinni. Mánudagar eru nefnilega ansi langir og dagurinn í gær var extra langur því við vorum búin að ákveða að hafa kósýkvöld og gera eitthvað skemmtilegt saman. Eftir skóla og lyftingar fórum við því á Hlöllabáta og fengum okkur rosagóðan bát. Eftir það fórum við upp á Bókhlöðu og þar var ég að leita að heimildum fyrir ritgerðina í Mannfræði barna. Ég er búin að ákveða að skrifa um leiki barna og það er sko til nóg af upplýsingum um það efni. Það versta er að þetta er svo stutt ritgerð, aðeins 2500-3000 orð. Reyndar mismælti kennarinn sinn í fyrsta tíma og sagði að ritgerðin ætti að vera 2500-3000 blaðsíður en var fljót að leiðrétta sig þegar hún sá nemendur falla umvörpum í yfirlið. Svenni í kenninugum II gerði þetta líka, sagði okkur að ritgerðin þar ætti að vera 10000 blaðsíður í stað orða. Ég vona svo sannarlega að þau í mannfræðiskor séu ekki að reyna að koma á breytingum varðandi lend á ritgerðum og séu með þessum "mismælum" að láta okkur venjast þeim.

Þegar Bókhlöðunni var lokað röltum við síðan yfir í Háskólabíó og keyptum miða á Some Like It Hot með þeim félögum Jack Lemmon, Tony Curtis og Marilyn Monroe. Þessi mynd er algjör perla, alveg frábær og ég mæli með því að allir taki frá eitt kvöld og glápi á hana. Það eru víst margir sem telja hana eina af bestu grínmyndum okkar tíma. Nóg um það, myndin var heilir tveir tímar (ekkert hlé) og við vorum því komin heim eldsnemma að þriðjudagsmorgni, þ.e. kl. 01:00. Við höfum því góða afsökun fyrir að skrifa ekki í gær.

Það er eitt að lokum. Sunnudagurinn seinasti var æðislega skemmtilegur, ég fór eftir matarboðið til Maríu vinkonu, hún var með smá stelpukvöld og mikið var gaman að hittast. Við höfum ekki hist í marga mánuði og núna þegar við hittumst var hún komin með litla, sæta bumbu þar sem kúlubúinn, eins og hún kallar hann, dvelst. Þetta verður ábyggilega myndarpiltur og ég bíð spennt eftir 24. janúar.

sunnudagur, 14. október 2001

Dagurinn í dag var líka moggadagur eins og gærdagurinn. Ég byrjaði þennan vinnudag á því að skutla næturverðinum heim til sín, hann var mér afar þakklátur. Síðan reddaði ég nokkrum saklausum óafskiptum áskrifendum blöðum en ég hef búið til ofurhetjuleik úr þessu veigamikla starfi. Ég ímynda mér að ákrifendurnir séu foringjar óvinaherja og ég læt þá hafa eitt morgunblaður (sem er stórhættulegt vopn), með því granda ég þeim með dyggri aðstoð Heidda sem nú má kalla Robin. Já svona er nú lífið. Eftir að hafa ofurhetjast smá fór ég heim og vakti Ásdísi í rólegheitum og fékk mér morgunmat með henni. Svo grandaði ég nokkrum óvinahershöfðingjum til viðbótar og gaf Kalla afa og Ólöfu ömmu óvirkt morgunblaður sem er gjörsamlega meinlaus eftirlíking og er betur þekkt sem Morgunblaðið. Hjá þeim fékk ég helling að éta sem var hið besta mál. Eftir að hafa skilað Batmobile upp í Morgunblaðshús (Central Base) þá fór ég heim og lagði mig í litla tvo klukkutíma! Hah já það var nú gott. Svo fórum við Ásdís í virðulegt en ákaflega skemmtilegt matarboð til minna yndislegu foreldra (betur þekkt sem folöld á faraldsfæti) og fengum þar kræsingar úr eldhúsi meistaranna. Nú þegar ég sit og pikka þetta inn er ég staddur í húsi Decode að Lynghálsi og var að klára hin svokölluðu morgunverk. Þegar það allt er búið þá ætla ég nú barasta að fara heim og sofa.

laugardagur, 13. október 2001

Í dag var moggadagur hjá mér, fyrir þá sem ekki vita þá vinn ég aðra hverja helgi á Morgunblaðinu sem bílstjóri. Þegar ég loksins náði að rusla mér af stað út i bíl þá brá mér nú töluvert, það var klaki út um allt og engin skafa í bílnum. Þá var það bara harkan, guðsgafflarnir. Skjóni (mazda 1987) rauk í gang með hávaða og látum og skilaði mér á því sem næst réttum tíma til vinnu. Ég fór og gaf Kalla afa og Ólaf ömmu blaðið og fékk í staðinn franskar kartöflur sem ég færði Ásdísi samviskusamlega og varð það til þess að ég varð að kaupa meira af þeim eftir vinnu hjá Góa í Þrumuvideo.

Þegar ég var nýkominn heim og rétt búinn að leggjast upp í rúm þá hringdi síminn. Það var Svenni vinur minn að ná í mig í sund, þar sem við láum svo í leti dágóða stund (pottur, gufa, pottur, gufa, pottur...) en mönnuðum okkur svo í 50 rólega skriðsundsmetra. Þegar ég kom svo heim aftur fór ég að segja Ásdísi frá því að kötturinn hans Svenna, Grettir, væri nú orðinn ansi feitur. Ásdís svaraði heldur fálega þannig að ég sagði, svona til að undirstrika fyrri orð, að hann væri riiisastóór og feeeituur. Þá kom í ljós að Ásdísi hafði eitthvað misheyrst og hélt ég hefði sagt að Svenni væri feitur eins og Grettir (Garfield) og þegar ég sagði að hann væri risastór þá varð hún nú að segja að hún væri ósammála og skildi ekki alveg hvað ég væri að fara. Eftir þennan ágæta misskilning ákvað ég að sjóða grænmeti og kartöflur sem við borðuðum með bestu lyst eftir að hafa bætt á það slatta af smjöri og þess má til gamans geta að ég, alveg sjálfur, bjó nú barasta til kryddsmjör, jahá og hananú. Það kom ágætlega út og kemur uppskrift kannski síðar. Ég á nefnilega eftir að gera langtímarannsókn á umræddu kryddsmjöri.

föstudagur, 12. október 2001

Ég fékk áttundu afmælisgjöfina mína í dag frá Baldri. Þannig er mál með vexti að jóladaginn næsta verð ég 22 ára og Baldur ákvað í sumar að gefa mér 22 afmælisgjafir í tilefni þess(!!). Í þetta sinn var gjöfin kennslubók í HTML því ég er orðin svo mikið tölvunörd. Fyrsta gjöfin sem hann gaf mér var Mastering FrontPage 2000 og þessi síða er gerð í því forriti. Nú er greinilegt að ég á að fara að bæta við mig vitneskju, gera síðuna flottari og það er frábært. Ég er sko alveg til í að geta fíneserað hana betur en það er takmarkað sem maður getur gert ef maður kann ekki HTML.

Í dag fór ég í viðtal varðandi Mentor-starfið og við sem sóttum um förum á námskeið laugardaginn þarnæsta þar sem verkefnið verður kynnt okkur, sálfræðingur kemur og talar við okkur um erfiðleika sem upp geta komið í samskiptum okkar við börnin og hvernig leysa eigi úr slíkum málum. Þetta hljómar allt mjög spennandi og mér finnst frábært að fá tækifæri til að verða fyrirmynd einhvers barns því út á það gengur þetta verkefni, leyfa börnunum að kynnast eldra fólki sem er þeim góð fyrirmynd.

Leshópurinn Verð að skilja sat sinn fyrsta fund í Odda í dag. Nú orða ég þetta allt mjög formlega en þannig var það alls ekki, þetta líktist helst kjaftaklúbbi en leshópi. Við höfðum einsett okkur að komast yfir lesefni tveggja fyrstu viknanna sem samanstóð af fjórum köflum í bók einni afspyrnu leiðinlegri. Okkur tókst með naumindum að komast yfir fyrsta kaflann. Allur tíminn fór nefnilega í harmakvein, við skiljum ekki efnið o.s.frv. en þetta hjálpaði nú samt. Nú erum við allar búnar að fá útrás fyrir gremju okkar í garð ákveðinna kennara, námskeiða og bóka og næst þegar við hittumst munum við væntanlega (vonandi) vera afkastameiri.

Annars var lyftingardagur í dag og Baldur kom með mér niðrí Háskólagym því Biggi komst ekki á æfingu, var að fara í kórferðalag. Það var bekkpressan í dag í annað sinn á ævi minni og ég bætti mig um 25%, Baldur var mjög stoltur af mér og þá varð ég það líka. Hann eyddi reyndar mestum tíma í að spotta einhvern gaur í bekknum og gat ekki á sér setið að kenna honum réttu handtökin: Nei, settu hælana í gólfið, þannig nærðu að spyrna þér, nei sko það er betra að stöngin sé hér en ekki..... Hann er ótrúlegur, hann er hinn sjálflærði einkaþjálfari.

Eftir lyftingar var það pizza hjá pabba. Reyndar var pabbi út í sveit, Yngvi Páll var að þjálfa held ég svo Andri var bara einn heima. Við horfðum á uppáhaldsþáttinn minn, Frasier, sem Andri hafði tekið upp. Stundum er leiðinlegt að hafa ekki sjónvarp en það er samt þess virði bara svo lengi sem Andri tekur upp alla Frasier þættina!

fimmtudagur, 11. október 2001

Við ætluðum að vera voða sniðug í gær og fara snemma að sofa í eitt skipti. Klukkan 21:30 stóð ég upp frá bókunum, tannburstaði og ætlaði að vera sofnuð um tíu leytið. Örlögin sáu hins vegar til þess að svo fór ekki. Þegar ég kom inn í forstofu eftir tannburstun sá ég einhverja hreyfingu út undan mér, nálægt skógrindinni og þessari hugsun flaug í gegnum huga minn: Nei sko hamsturinn er sloppinn! Þetta var svona með fáránlegri hugsunum og ég held ég hafi hugsað hana í gríni upphaflega en það entist ekki lengi því þetta var í raun og sann Fríða Sól í göngutúr á gólfinu. Búrið hennar er hinsvegar alltaf harðlokað.

Ég leit því á búrið, svo á hamsturinn (sem stóð á afturlöppunum og glápti ámátlega á mig), aftur á búrið sem var harðlokað og hugsaði með mér: Guð þetta er annar hamstur. Athugið að þetta var allt hugsað í miklu paneki og þá er maður hvað síst skynsamur. Athugið líka að allt þetta gerðist á örfáum sekúndubrotum. Eftir að hafa útilokað að þetta væri annar hamstur datt mér í hug mús. En nei, þetta var hún Fríða Sól sama hvað ég reyndi að neita því. Ég tók hana upp, titrandi og skjálfandi, fegin að hafa ekki stigið á hana og hljóp með hana inn í stofu til Baldurs sem var í mestu makindum að rabba við Stellu á netinu. Til hans kom ég óðamála með hamsturinn í annarri hendi og sagði: Sjáðu hamsturinn, er þetta ekki Fríða okkar? Hún slapp úr búrinu, hvernig má það vera??! Þá var farið í spæjaraleik, Sherlock Holmes búningurinn þefaður uppi og fljótlega lá orsökin augljós fyrir: gat á botni búrsins.

Hamstrar eru nefnilega ekki nagdýr fyrir ekki neitt. Fríða okkar hafði nagað gat á botninn, ekki mjög stórt en samt nóg til að troða sér út um það, flaug þaðan niður af hillunni og lenti á gólfinu og fékk sér síðan þann labbitúr sem ég reif hana svona líka fruntalega úr þegar ég fann hana. Allt þetta varð til þess að við fórum miklu seinna að sofa heldur en við ætluðum. Hvers vegna? Nú, við urðum að finna eitthvað til að setja fyrir gatið á búrinu svo hamsturinn slyppi ekki aftur út og það tók drjúgan tíma. Það varð að vera eitthvað sem hamsturinn gæti ekki nagað og það er ansi fátt nema þá einhver málmur. Að lokum fundum við lausnina: Plastgrind teipuð við búrið. Nú lítur litla, sæta, bleika hamstrabúrið út eins og grill á bíl.

P.s. Ég notaði tækifærið og lagaði hamstrahlaupakúluna sem brotnaði um daginn. Ég teipaði hana bara saman og það kemur vægast sagt mjög illa út svona útlitslega séð.

miðvikudagur, 10. október 2001

Dagurinn í dag var fínn. Mér finnst alltaf svo ógeðslega kósý að kúra þegar það er rigning úti. Þannig var það í morgun og gærmorgun og það er svo gott. Eftir vinnu fór ég að lyfta með Bigga vini og tókum við á því eins og óðir menn, axlir og handleggir. Ásdís var á æfingu á svipuðum tíma og náði ég í hana upp í Háskóla þegar ég var nánast búinn að myrða mig og Bigga lifandi. Já það var líka gaman í vinnunni í dag. Allir voru að spyrja mig hvernig maður færi á síðuna. Ef þið, kæru heimasíðugestir, eruð í stuði þá eru allar tillögur um betri útfærlur á síðunni og leiðréttingar á ljótum villum mjög vel þegnar.

Kæru vinir og vandamenn!

Velkomin á heimasíðuna okkar, nánar tiltekið á dagbókina sjálfa. Þessa dagbók höfum við haldið í smá tíma og ákváðum að birta þær færslur sem eru frá því að heimasíða vor kom á netið. Hún er nefnilega ekki alveg splunkunýtilkomin, við höfum verið að vinna mikið í henni undanfarið og það er fyrst núna að þið fáið að vita um tilvist hennar. Enn sem komið er er ekki hægt að senda póst á dagbókina þannig að ef þið viljið senda okkur athugasemd hvað heimasíðuna varðar er bara að smella á nöfnin okkar sem eru undir dagbókarfærslunum og hér til hliðar.

Þið ykkar sem fenguð frá okkur skilaboð með tölvupósti eða sms vitið að síðan var sett á netið kl.10:10. Það er kannski ekki alveg rétt en hún var opnuð þá þannig að það kemur út á eitt. Ástæðan fyrir því að velja daginn í dag og þennan tíma er í anda nýju kringlunar sem er að opna hér í Kópavoginum, ekki vegna óstöðvandi kaupæðis okkar og að við fögnum þessu svo gífurlega, heldur er þetta aðeins til gamans gert. Þetta kemur betur fram hér í eldri dagbókarfærslu.

Eins og er er síðan mjög nýleg og á eftir að taka miklum breytingum á næstunni, þá sérstaklega dagbókin. Við getum enn sem komið er ekki sett myndir dagsins inn á dagbókina, það hefur reynst okkur dálítið erfitt, en það er eitthvað sem kemur til með að blessast. Á meðan getið þið skoðað myndasíðurnar Sumarið 2001 og Skot úr veröld okkar, þar er að finna nokkuð margar myndir.

Mikið vonum við að þið hafið gagn og einnig nokkurt gaman af þessu öllu saman, þessi síða er nefnilega bæði gerð fyrir okkur og ykkur. Ástarkveðjur

þriðjudagur, 9. október 2001

Mikið að gera í lestrinum í dag, klára Marx og byrja á Weber, ekki beint draumalesning. Við fórum í sund seinnipartinn, ætlum að reyna að fara 3 sinnum í sund á viku. Við ætlum einnig að lyfta 3 í viku þannig að það verður nóg að gera með náminu í vetur.

Heiddi kíkti í heimsókn áðan, hann var að láta Baldur fá afmælisgjöfina sína (hann á afmæli í apríl!) og í staðinn fékk hann loksins verðlaunin sín fyrir þátttöku í leiknum Hvar erum við? Við leyfðum nefnilega fólki, þ.e. vinum og ættingjum, að giska hvert lokalandið í ferð okkar væri, og sá sem giskaði rétt átti að fá verðlaun. Við vorum því búin að finna einn sætan verðlaunagrip handa hinum klóka og bjuggumst allt eins við að enginn giskaði á rétt land og ætluðum bara að eiga verðlaunin sjálf, en nei það var ekki hægt, þrír giskuðu á Holland og þeir fengu því verðlaun. Þessir þrír voru: pabbi minn (Elfar), Stella Soffía (systir Baldurs) og síðan Heiddi (vinur Baldurs).

Annars á heimasíðan að vera "gefin út" á morgun, við ætlum að láta vini og vandamenn vita hver slóðin er og þá fara þeir vonandi að fylgjast með. Já á morgun verður þú sett á netið dagbók kær. Hmm, ég vona sannarlega að ég lendi ekki í einhverju veseni með að setja hana inn á morgun, Baldur í vinnunni og getur ekki hjálpað...katastróf.

Annars er ég búin að finna annað orð sem svipar til orðsins vesen, en það er þýska orðir Wesen sem er nafnorð yfir sögnina að vera, á ensku being. Allir þekkja frasann að á færeysku þýðir vesen klósett og mín fjólskylda er löngu búin með sinn kvóta af bröndurum byggðum á hugsanlegum misskilningi milli okkar og þeirra vegna þessa orðs. Ég vissi hins vegar ekki að Þjóðverjar þyrftu kannski líka að þola þessa brandara í hverju fjölskylduboði. Athyglisvert.

P.s. Hef ekki verið dugleg við Allende-lesturinn, er enn að lesa Sannleikann, en ég fer örugglega að setja meiri kraft í þetta núna því ég var að blaða í næstu bók, sem er Afródíta, og fannst hún spennandi.

mánudagur, 8. október 2001

Lengsti dagur vikunnar brátt liðinn. Kennarinn í kenningum í félagsvísindum (þessi strangistrangi) var að tala um tilgang kenninga og reyna að sýna okkur fram á það að allt sem við gerum byggist á kenningum. Til að koma þessari hugmynd inn í hausa okkar notaði hann nærtækt dæmi, þ.e. Bandaríkin og ástandið þar, og sagði að núna væru þau að fatta það að þau hefðu haft ranga kenningu í langan tíma. Ranga kenningin var sú að þau héldu að þeim stafaði mest hætta af kjarnorkuvopnum en annað kom á daginn. Hann sagði margt fleira sem ég nenni ekki að endurtaka hér en þessi kennari er þrælfínn og maður fer út tíma hjá honum með hausinn stútfullan af allskyns hugmyndum.

sunnudagur, 7. október 2001

Við keyptum okkur bók í dag eftir Salman Rushdie. Sú heitir Hinsta andvarp márans og ég verð að viðurkenna fáfræði mína hvað þessum höfundi viðkemur því ég hef aldrei heyrt hans getið. Þetta er önnur bókin sem við kaupum í þessari viku, við keyptum okkar fyrstu bók eftir Salman Rushdie um daginn, bókina Söngvar satans, og því eigum við nú allt í einu tvær bækur eftir þennan kall. Ástæðan fyrir því að við keyptum þær var sú að Baldur varð þvílíkt upprifinn, já þetta verður maður að lesa, og þegar hann sá verðmiðann varð hann enn ákveðnari. Samanlagt kostuðu bækurnar okkur tæpar 2000 kr., innbundnar og alles.

Eftir þessi mögnuðu bókakaup fórum við í sund, syntum í sprettum og það tekur þvílíkt á. Eftir sund var farið í sunnudagsmatarboðið, í boði var ofnbakaður réttur með rófum, eggjum, grænkáli og fleira hollu og góðu.

Þegar við komum heim tókum við eftir því að hringt hafði verið í okkur frá Þingási, þegar við hringdum til baka komumst við að því að þar á bæ átti líka að bjóða okkur í mat. Reyndar ekkert merkilegt (enda bara um pabba og brósa að ræða) heldur bara hina hefbundnu föstudagspizzu sem varð að færast vegna Silungaveislunnar. Við erum greinilega vinsælir gestir í matarboð, það er líka fínt, spara okkur matarpeninginn!

P.s. Búin með Paula, frábær bók, er nýbyrjuð á Sannleik allífsins.

laugardagur, 6. október 2001

Í dag gerði ég svolítið alveg nýtt, ég fór nebblea á kajak með pabba. Við rerum út Fossvoginn þar til við komum út fyrir gömlu ruslahaugana á Kársnesinu. Svo rerum við til baka og alveg að fjörunni fyrir neðan Fossvogsnesti við ósa skítalæksins og svo aftur inn í Nauthólsvík.

Það er svolítið erfitt að útskýra þetta svona og gæti verið að mörgum þyki þetta óspennandi en þá er bara að prófa. Ég mæli með því ef fólk er stressað eða þreytt að skella sér í góðan róðrartúr til að hlaða batteríið aftur.

föstudagur, 5. október 2001

Í morgun fór ég niðrá féló og skrifaði undir samning varðandi liðveisluna. Ég er bundin út árið en síðan sé ég til hvort ég haldi áfram næsta ár.

Ég er aftur farin að lesa Isabel Allende á fullu. Ég tók bækurnar á mánudaginn og er bara búin með Ást og skugga, síðan byrjaði ég á Paula en varð að hætta fljótlega því í vikunni hef ég verið upptekin við að koma þessari síðu á netið, með slæmum árangri. Núna er ég aftur komin á fullt skirð og þarf að setja mér takmörk, bara 50 blaðsíður á dag.

Við erum búin að ákveða að opna heimasíðuna almenningi þann 10 10.01 á slaginu10:10 eða klukkan tíu mínútu yfir 10. Þetta er gert í anda nýju kringlunnar sem opnar þann 10.10.01 kl. 10:10. Okkur finnst það hálf hjákátlegt að rýna í einhverja dagsetningu en til að losna við þessa fyrirfram gerðu fordóma ákváðum við að taka þátt, þetta verður því einskonar þátttökurrannsókn eins og mannfræðingar gera á vettvangi, nema hvað við munum rannsaka okkur sjálf og okkar viðbrögð, mun okkur finnast þetta hallærislegt eða þrælskemmtilegt? Spennan eykst.

Annars vorum við að koma úr hinni árlegu Silungarveislu sem pabbi og vinir hans halda. Þetta er eina skiptið á árinu sem þessar karlre... elda matinn en ekki konurnar þeirra og þá er sko tilefni til að fagna. Þeir fara saman nokkrir vinir, pabbi, Stjáni, Ómar, Fúsi, Yngvi og stundum fleiri, árlega að Hítavatni og veiða þar silung í veisluna. Síðan er hann borinn fram smjörsteiktur í svakalega góðri sósu sem er alveg ógeðslega óholl.

Kristján "Vítamín" var skrautlegur eins að vanda og Ásdís litla dóttir hans er alltaf söm við sig, hún er alveg frábær stelpa, svo skýr og greind (enda nafna mín). Andri brósi var reyndar ekki á svæðinu sem gerði þetta óneitanlega leiðinlegra, okkur skildist svo á honum pabba að hann hefði farið á MR-VÍ daginn. En í stuttu máli sagt var þetta ákaflega skemmtileg kvöldstund og sem betur fer var enginn að reykja enda pabbi búinn að banna það í húsinu, hipp hipp húrra.
P.s. ég las yfir kvóta minn í Paula í dag en sleppti í staðinn að lesa grein Marx um laun, verkaskiptingu, blætiseðli vörunnar etc. Ég verð að fara að taka mig á.

fimmtudagur, 4. október 2001

Nú er tæp vika síðan við gerðumst áskrifendur að Mogganum. Svo er mál með vexti að Baldur er að keyra út Moggann og sem starfsmaður fær hann fría áskrift. Þetta er náttúrulega frábært fyrir okkur, nú þurfum við ekki lengur að gera okkur sérstaka ferð niðrí Mogga til að ná í blessað blaðið. Í fyrsta sinn í langan tíma getum við fylgst með því sem er að gerast í heiminum í kringum okkur, þó með þeim fyrirvara að fjölmiðlar (mjölfiðlar) eru ósköp hlutdrægir og því ber að taka öllu sem frá þeim kemur með huga fullum af efasemdum.

Þessum Mogga-plús fylgir þó einn löstur sem við höfðum ekki séð fyrir, heimilið er á hraðleið með að fyllast af blöðum og pappír! Þetta var viðráðanlegt þegar við fengum bara Fréttablaðið í gegnum lúguna, þann blaðsnepill var hægt að nota undir kattasandinn og í hamstrabúrið (ekki dettur okkur í hug að leggja þennan sora okkur til lesturs) en nú er svo komið að hvorki kisa né hamsturinn ráða við að skíta og míga á öll þessi blöð. Við stöndum því frammi fyrir ákveðnum vanda og enn sem komið er sjáum við aðeins tvær leiðir úr úr vandanum: 1. að fá okkur fleiri ketti og hamstra sem skíta úr blöðin eða 2. henda blöðunum.

miðvikudagur, 3. október 2001

Í dag féll niður umræðutíminn í kenningum í félagsvísindum. Strangi kallinn sagði að maður mætti ekki mæta í tíma ólesinn og þar sem hann gerði ekki ráð fyrir að við næðum að lesa allt fyrir tímann gaf hann frí. Því var dagurinn viðráðanlegur, aðeins þrír tímar í mannfræðikenningum seinni ára hjá Svenna. Og það sem meira var, við stelpurnar gátum næstum haldið þráði allan tímann. Ég held að það sé nú bara vegna þess að talað var um hluti sem við skildum og orð og hugtök notuð sem við höfðum heyrt áður eins og samkynhneigð, tvíhyggja Descartes, kyn og kynferði etc. Við Lísa ræddum við stelpurnar um leshópinn og þær voru mjög spenntar, við létum þær skrá sig á blað og nú erum við orðnar sjö talsins. Þetta verður öflugur leshópur og nú er bara að passa það að hann breytist ekki í einhvern kjaftasaumaklúbb, við verðum að skilja námsefnið!
Eftir tímann sótti ég Baldur í vinnuna og hann kom með mér að lyfta upp í háskólagymmi. Þar þrælaði hann mér út og kenndi mér réttu handtökin. Það er alveg frábært að hafa svona sætan einkaþjálfara sem er svona yndislegur eins og hann :)

þriðjudagur, 2. október 2001

Í morgun skutlaði Ásdís mér í vinnuna á Skjóna. Skjóni er gömul mazda sem Kalli afi og Ólöf amma lánuðu okkur um daginn. Síðar í morgun kom ég heim vegna ótta um það að þvottavélin væri biluð en Ásdís benti mér á að það var skrúfað fyrir vatnið þannig að við skrúfuðum frá og þvoðum þvott. Eftir vinnu skutlaði ég Ásdísi í liðveisluna. Á meðan hún var í því dæmi var ég heima að færa síðuna inn á netið í gegnum ftp þjón uppí háskóla. Þess ber að geta að það er sennilega það eina sem ég hef komið nálægt við gerð þessarar síðu. Í kvöld ákvað svo F.F.S.K.E.S. að hafa samband við okkur tvisvar. Að minnsta kosti voru það fulltrúar frá þeim, ég veit ekki hvaða störfum þeir gegna hjá þessum alræmdu samtökum en það kemur í ljós. Hvað er F.F.S.K.E.S.? Jú það er Félag Fólks Sem Kann Ekki Símanúmer. Þetta eru sauðameinlaus samtök og geta oft verið ansi skemmtileg. Hlutverk þeirra er einfalt, að standa vörð um hagsmuni þeirra sem hringja oft í vitlaust númer.

mánudagur, 1. október 2001

Úff, erfiður dagur, skóli frá 8-16, heill vinnudagur í pælingum. Bestu tímarnir eru mannfræði barna, þeir eru alveg frábærir. Við erum eins og er að lesa etnógrafíuna hennar Jónínu um mæður og börn í Guinea-Bissau, nánar tiltekið í Biombo sýslu. Það er magnað að lesa um hugmyndir fólks sem snúa að barneignum, meðgöngu, getnaði og barnauppeldi. Fólk er eins misjafnt og það er margt. Sem dæmi má nefna tvíburafæðingar, hjá sumum þjóðarbrotum eru þær tákn um frjósemi og hamingju en hjá Guinea fólki er hún talin ónáttúruleg, aðeins dýr fæða fleiri en eitt afkvæmi í einu, og því er hefð fyrir því að farga öðrum tvíburanum. Þessar hugmyndir eru reyndar að breytast með auknum samskiptum og áhrifum frá Vesturlöndum. Ég held ég tjái mig ekki meira um mannfræði í bili, ég finn að ég gæti haldið áfram í langan tíma.

Við erum komin með nýjan kennara í kenningum í félagsvísindum. Námskeiðið er nefnilega þrískipti, farið er í kenningar þriggja kalla (Marx, Weber ,Durkheim) og því eru þrír kallar sem kenna námskeiði. Yfirferð yfir kenningar Marx er lokið og nú er komið að Weber. Sá sem það kennir er strangur kall sem hræddi alla í bekknum (enda stjórnmálafræðingur) og minnti mig svo um munaði á Hauk sögukennara í MR. Þeir sem til þekkja vita hvað ég á við þegar ég segi að helst vildi ég hlaupa út grenjandi, segja mig úr kúrsinum og þurfa aldrei að snúa aftur. Ekki nóg með að þeir séu líkir að innræti, þeir eru nauðalíkir í útliti, ætli þetta séu bræður?

Þess ber að geta að Háskólinn hélt upp á níræðisafmæli sitt í dag, í tilefni þess fengum við nemendur skúffukökusneið og léttmjólkurfernu. Til hamingju með afmælið HÍ! Annað markvert gerðist í dag, ég ákvað að stofna leshóp og fékk Lísu til liðs við mig. Við vissum í fyrstu ekki hvað við ættum að kalla hann en þar sem við urðum að okkar mati að finna nafn á hann í dag þá lögðum við hausa tvo í bleyti og komum upp með nafnið Verð að skilja! Þetta einkennir mannfræðinema mjög mikið, þegar kemur að kenningarlegri umræðu skilur maður ekkert í því sem maður verður að skilja.

Annars fórum við að lyfta og það var frábært, ég var að taka bekkpressuna í fyrsta skipti og er þvílíkt stolt af mér:) Ég læt þó enga tölfræði fylgja með, látum það liggja milli hluta. Við fórum síðan á Bókhlöðuna þar sem ég tók einar 6-7 bækur, allar eftir Isabel Allende nema ein. Ég ætla núna að leyfa mér að lesa allar bækurnar hennar, ég las nefnilega um daginn Hús andanna og varð svona líka hrifin. Við settum líka heimasíðuna inn á netið en það gekk eitthvað illa, hún vildi ekki keyra upp og að endingu slökktum við á apparatinu og fórum snemma að sofa.

P.s. Við keyrðum yfir nýja brúna í dag, hún er ekkert smá mannvirki.