sunnudagur, 14. október 2001

Dagurinn í dag var líka moggadagur eins og gærdagurinn. Ég byrjaði þennan vinnudag á því að skutla næturverðinum heim til sín, hann var mér afar þakklátur. Síðan reddaði ég nokkrum saklausum óafskiptum áskrifendum blöðum en ég hef búið til ofurhetjuleik úr þessu veigamikla starfi. Ég ímynda mér að ákrifendurnir séu foringjar óvinaherja og ég læt þá hafa eitt morgunblaður (sem er stórhættulegt vopn), með því granda ég þeim með dyggri aðstoð Heidda sem nú má kalla Robin. Já svona er nú lífið. Eftir að hafa ofurhetjast smá fór ég heim og vakti Ásdísi í rólegheitum og fékk mér morgunmat með henni. Svo grandaði ég nokkrum óvinahershöfðingjum til viðbótar og gaf Kalla afa og Ólöfu ömmu óvirkt morgunblaður sem er gjörsamlega meinlaus eftirlíking og er betur þekkt sem Morgunblaðið. Hjá þeim fékk ég helling að éta sem var hið besta mál. Eftir að hafa skilað Batmobile upp í Morgunblaðshús (Central Base) þá fór ég heim og lagði mig í litla tvo klukkutíma! Hah já það var nú gott. Svo fórum við Ásdís í virðulegt en ákaflega skemmtilegt matarboð til minna yndislegu foreldra (betur þekkt sem folöld á faraldsfæti) og fengum þar kræsingar úr eldhúsi meistaranna. Nú þegar ég sit og pikka þetta inn er ég staddur í húsi Decode að Lynghálsi og var að klára hin svokölluðu morgunverk. Þegar það allt er búið þá ætla ég nú barasta að fara heim og sofa.

Engin ummæli: