sunnudagur, 31. desember 2006

Uppgjör ársins 2006

Fyrir ári síðan gerði ég uppgjör fyrir árið 2005 til að súmmera það upp í nokkrum meginþáttum, mismikilvægum en þó aðallega skemmtilegum. Ég ætla mér núna að endurtaka leikinn, mér til gamans og vonandi öðrum líka.

Afrek ársins: Klára meistaranámið og stökkva út í djúpu laugina, nefnilega djúpa Indland.
Bók ársins: Sumarljós, og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson.
Plata ársins: Piece by piece með Katie Melua.
Kvikmynd ársins: Jafntefli milli Spirited away, Ferðalag keisaramörgæsarinnar og Corpse Bride.
Lag ársins: Sorry og Hung up með Madonnu (hækkaði alltaf vel í græjunum þegar þessi tvö heyrðust í útvarpinu í sumar, ég vona að Tine sé búin að fyrirgefa mér).
Mesta gleðin: Standa á sviðinu í stóra sal Háskólabíós og taka á móti prófskírteininu við lófaklapp.
Mestu vonbrigðin: Komast ekki með pabba til Spánar í sumar.
Besta gjöfin: Framkvæmdagleðin.
Skemmtilegasta uppgötvunin: Að enduruppgötva hve mannfræðin eru skemmtileg fræði og hve eigindleg rannsóknaraðferð er spennandi. Líka nýja matarræðið okkar B. Og Kraká að sjálfsögðu.
Skondnasta atvikið: Þegar ég lét piltinn sem vísaði okkur vegar í Kraká fá að launum seðill sem reyndist tilheyra tíma kommúnismans og ekki vera gjaldgengur lengur. Vandræðagangurinn í stráknum var ekkert á borð við minn þegar ég uppgötvaði hvers lags var.
Einkennusdýr ársins: Fálki.
Litur ársins: Rústrauður (eins og allir nýju bílarnir sem mér leist vel á og eins og Asíu bakpokinn minn).
Ljósmynd ársins: Af okkur kærustuparinu við útskriftina.

Góður dagur

Desemberannáll

Þá er komið að síðasta mánaðarannál þessa árs, mér til mikillar gleði. Þetta hefur verið skemmtileg tilraun en hér með gerist það heyrikunnugt að þeirri tilraun líkur hér og nú. Komi ég til með að sakna þessara samantekta get ég alltaf tekið upp á að gera fjórðungsannálla á borð vor-, haust-, sumar- og vetrarannála.

Núnú, desember var svolítill mánuður óvissu og öfga. Ýmist vorum við á leið til Indlands eða sáum fram á notaleg jól á klakanum. Framan af gat ég þó gefið mér tíma í smá lestur og las með mikilli ánægju tvær bækur úr jólabókaflóðinu: Nótt úlfanna og Sér grefur gröf. Eftir miðjan mánuðinn fór hins vegar mest lítið fyrir nefi mínu í bókum. Sömu sögu var að segja af kvikmyndum mánaðarins sem voru aðeins þrjár talsins, hver annari ólíkar og skemmtilegri: V for Vendetta, Casino Royal og Borat. Mæli með þeim öllum.

Fyrirferðast í mánuðinn var undirbúningur fyrir Indlandsferð sem náði hámarki eftir að við fengum vegabréfsáritun í hús. Þá keyptum við flugmiðana til Mumbai, kláruðum síðustu bólusetningarnar og fórum í að redda ýmsustu hlutum sem þarf í svona bakpokaferðalag.

Seinni hluta mánaðarins eyddum við svo á Indlandi. Eftir að hafa upplifað dag í Mumbai tókum við af stað til Goa þar sem við fundum okkur fullkomna strönd og áðum þar. Þar fékk annað okkar fínan rakstur fyrir jólin en haldið var upp á þau í skreyttri strákofabyggð innan um svín, hænsn og trumbusláttur. Til að bæta í dýrsafnið fórum við að sjá höfrunga stökkva úr sjónum á jóladag og þannig held ég að desember hafi verið mánuður dýralífs.

laugardagur, 30. desember 2006

Magi í uppnámi

Einhvern tíma skrifaði ég um ólgusjó lífsins og tjáði Pétur frændi mér að sú pest væri góður undirbúningur fyrir Indland og í raun ekki annað en æfingabúðir.

Það reyndist hverju orði sannara því í nótt byrjaði einhver ókyrrð í maganum á mér og fór ég það oft á kamarinn að ekki tók því að fara upp í rúm aftur svo ég sat úti á verönd og las Flugdrekahlauparann á milli ferða, mjög góð bók.

Svo þegar Ásdís vaknaði las hún upphátt fyrir mig og átti ég þá hægara með að hlaupa í einu hendingskasti á kamarinn. Eins og Beggi vinur minn orðar það: Indland er frábært en það kýlir mann alltaf í magann!

fimmtudagur, 28. desember 2006

Jógalíf

Að stunda jóga er góð skemmtun hvort sem leikfimin er af andlegum eða líkamlegum toga. Við höfum mætt í Hathajógaleikfimi á tveimur stöðum, annars vegar hjá Indverja, sem kennir á ströndinni, og hins vegar hjá austurrískri konu, sem er búsett hér í bæ og kennir í sérstökum jógasal.

Boðið er upp á tíma kvölds og morgna hirst og her um svæðið svo ekki vantar úrvalið. Ef ég ætti að kveða upp einhvern dóm í málinu þá kunni ég mun betur við indverska jógatímann og þykir bastmotta á gullsandi vera hin fullkomna jógaaðstaða.

þriðjudagur, 26. desember 2006

Höfrungar og boðflenna

Á 27 ára afmælinu öðlaðist ég þroska til að umgangast skepnur hafsins, harhar. Afmælisgjöfin frá Baldri var að þessu sinni sjóferð út á Arabíuhaf að skoða höfrunga en Palolem strönd er einmitt þekkt fyrir að státa af mörgum slíkum.

Við sigldum út á eintrjáningi með hliðarskíði og sáum ansi marga höfrunga. Það er þó ómögulegt að segja hve margir þeir voru því kannski var alltaf um sama parið að ræða að dilla sporðinum. Við urðum að elta þá út um allan hafflötin svo í hvert sinn sem einhver sá glitta í gráan ugga, sporð eða bak þeyttust allir litlu eintrjáningarnir þangað með spennta ferðamenn um borð.

Afmæliskvöldverðurinn var síðan á tælenska vísu og er óhætt að segja að það hafi verið í fyrsta sinn. Afmælisveigar samanstóðu m.a. af mildu thai karrýi og avocado shake. Við sem héldum að þetta yrði í fyrsta sinn sem við héldum upp á afmælið mitt tvö ein urðum að sætta okkur við loðna boðflennu að þessu sinni. Hundspott frá veitingastaðnum hringaði sig nefnilega undir borðið okkar og haggaðist ekki sama hvað. Ég vil ekki vera dómhörð en að mæta óboðinn í afmælisboðið mitt sem ferfætlingur er frekar sérkennilegt.

sunnudagur, 24. desember 2006

Jólakveðja

Það er kominn aðfangadagur!

Svínin í bakgarðinum ríta, hundarnir gjamma, trumbusláttur frá nágrannanum, annar nágranni liggur í hengirúmi, við sitjum á veröndinni og stiknum. Ekki beint hátíðleg stemmning en við höfum hugsað okkur að bæta úr því með því að versla praktískar jólagjafir, fara á góðan veitingastað og kíkja síðan í kirkju Móður Teresu í nágrannabænum Chaudi til að hlýða á miðnæturmessu.

Annars eru margir í kringum okkur búnir að skreyta kofana sína með ljósaseríum, blómakrönsum, jólastjörnum og englahárum. Við ætlum að skreyta eftir miðnætti þegar jólum er hringt inn heima, þá ætlum við að kveikja á kertum og myrru á veröndinni, hlusta á plötu Páls Óskar og Moniku, skiptast á pökkum og vonandi narta í súkkulaði (ef við finnum það einhversstaðar!).

Gleðileg jól öll sömul, við söknum ykkar nú alveg pínulítið sko.

laugardagur, 23. desember 2006

Indverskur Þorlákur

Óhætt er að segja að þessi Þorlákur sé öðruvísi en nafnar hans úr fortíðinni. Ekki aðeins hvað Laugarvegsleysi varðar, né hita, sól og sjó.

Í dag fór ég á rakarastofu og þá meina ég RAKARAstofu. Fékk þvílíka meðferð á allt andlitið, olíur, krem og hvaðeina. Er að sjálfsögðu eins og nýr á eftir.

Herlegheitin kostuðu mig 45 krónur en þetta er náttúrulega frekar dýrt þar sem Goa er ferðamannastaður.

fimmtudagur, 21. desember 2006

Palolem

Komum til Margao í Goa nálægt hádegi í dag, eftir langa en ljúfa ferð í næturlest, og byrjuðum strax að reyna að komast að því hvernig auðveldast væri að koma sér á Palolem strönd. Okkur til mikillar ánægju kom til okkar áströlsk stelpa og spurði hvort við værum á leið til Palolem, við kváðum svo vera. Reyndust hún kærasti hennar á sömu leið og voru að leita að einhverjum til að slá saman í leigara, heppilegt.

Bílferðin var praktísk í alla staði, kom okkur til Palolem meðan við yfirheyrðum Ástralina sem höfðu einmitt bakpokast um svipuð svæði og við stefnum á síðar í þessari ferð. Það var líka skemmtilegt að hitta vestrænt fólk á okkar reki.

Hér í Palolem leigðum við okkur svo sætan kofa innan um pálmatré á ströndinni, ljúft. Umhverfið er allt mun afslappaðra en Mumbai og maður sker sig ekki lengur eins brjálæðislega úr þar sem mikið er um evrópska ferðamenn. Ég veit eiginlega ekki hvar ég ætti að hefja dásemdarlýsinguna. Kókospálmar, blíður andvari, heiður himinn, sól, öldugjálfur, heitur sjór og fleiri og fleiri atriði sem lýsa draumaströnd.

miðvikudagur, 20. desember 2006

Magnað í Mumbai

Við erum komin til Indlands!

Mér finnst það sjálfri hálf ótrúlegt en svo lít ég í kringum mig og fæ það staðfest. Hér er heitt og rakt, mannmergðin mikil og áreitið líka, allir vilja selja manni eitthvað. Enn sem komið er höfum við þó aðeins séð tvær beljur á götunni en mér skilst að í Delhi séu þær fleiri en hér í Mumbai.

Við lentum í gærkvöld í Mumbai og tókum pre-paid taxa niður í bæinn. Umferðin hér er algjört brjálæði. Hér ægir saman ýmsum sortum af bifreiðum, bifhjólum, reiðhjólum, en líka strætisvagnar og fólk ýtandi kerrum á undan sér. Þrátt fyrir að stundum sé merkt fyrir akbrautum á götunum virða ökumenn það að vettugi og keyra svo þétt upp við hvorn annan að við á Íslandi myndum móðgast ef einhver legði bíl sínum svo nálægt í stæði.

Svo er svínað og flautað út í eitt, menn keyra óhikað á fullri ferð í átt að konu með barni og sem betur fer sveigir hún frá á síðustu stundu. Við lá að maður lokaði augunum á köflum. Við vegakantinn gat svo að líta allt heimilislausa fólkið. Í rökkrinu var auðvelt að koma auga á eldana sem loguðu í ólíkustu eldstæðum og við bjarmann frá bálinu sá maður börn sitja saman, borðandi, kjaftandi, sofandi.

Við vorum búin undir allt þetta en ekki að þurfa að leita að hóteli seint um kvöld eftir að bókunin sem við gerðum á flugvellinum reyndist, þegar til kastanna kom, vera loforð upp í ermina. Við enduðum í litlum kústaskáp ef svo má segja, Baldur gat varla staðið uppréttur og ég svaf lítið um nóttina af svalanum frá loftkælingunni! Skemmtilegasta reynslan var að baða sig: við þurftum að sitja á hækjum okkar og ausa yfir okkur vatni úr stórri fötu. Það besta var að vatnið var heitt og gott og við gátum skriðið upp í rúm, laus við ferðarykið.

Núna erum við á einhverju uppa-kaffihúsi og bíðum eftir að taki að kvölda. Þá ætlum við að finna okkur einhvern veitingastað til að nasla á (borðuðum bara súkkulaði og möndlur í kvöldmat í gær) og síðan tökum við næturlestina til Goa í kvöld. Á sínum tíma fannst okkur sniðugt að fá farrými með loftkælingu en af fenginni reynslu veit ég að mér verður kalt í nótt.

þriðjudagur, 19. desember 2006

Í millibili

Við erum stödd í landinu Oman eins og stendur. Við lentum klukkan rúmlega átta í morgun en í raun var klukkan að skríða í þrjú að morgni hjá okkur skötuhjúum. Við áttum áfallalaust flug með Gulf Air og gott betur en það þar sem flugvélin var tiltölulega þægileg og við gátum sofið með nýju uppblásnu koddana okkar. Ef maður rumskaði gat maður síðan alltaf svæft sig við eina af bíómyndunum sem í boði voru.

En eins og áður sagði erum við í Oman og erum að bíða eftir tengifluginu til Mumbai sem fer seinna í dag. Hér er reyndar ekkert netkaffi að finna svo ég pára þetta í dagbók sem keypt var sérstaklega fyrir tilfelli sem þessi. Á flugvellinum í Oman er ekki mikið við að vera annað en skoða í verslanir og hlusta á jólalög spiluð á pan pipe.

Við eigum nokkrar ríölur, sem er gjaldmiðillinn hér í Oman, og við ætlum að losa okkur við þær áður en við höldum af landi brott. Fram til þessa höfum við rekist á kennsludisk í magadansi, myrru, útskorna úlfalda og lampann hans Aladdins. Ég held við látum þó frekar freistast í döðlu- og möndludeildinni.

mánudagur, 18. desember 2006

Upp er runninn ferðadagur

Það er ennþá myrkur yfir borginni og ljósin speglast í lygnum Kópavoginum. Það er varla sála á ferð en tvær mýslur eru komnar á stjá því þær eru á leið til Indlands.

Þessar mýs eiga að mæta í flug kl. 7:15 sem þýðir að það tekur því varla fyrir þær að sofa þessa síðustu nótt. Og ef einhver spyrði þær hvort þær hefðu eitthvað geta sofið fyrir spenningi gætu þær eiginlega ekki svarað því þar sem ekki reyndi neitt verulega á það. Þær minnast hins vegar varnarorða um að mæta aldrei ósofinn í próf og ef þetta ferðalag er ekki próf þá vita þær bara ekki hvað.

Ósofnar eða ekki þá eru þær tilbúnar í slaginn. Þær kvíða voðalega fyrir moskítoflugum og gríðarlegum hita, mengun og raka, mannmergð utan þeirra eigin skilnings og þess að vera án síns venjulega mýslutengslanets. Á sama tíma er það einmitt þessi reynsla sem þær leita í, eins og skrýtið og það er.

Mýslurnar verða, ef kallinn í tunglinu leyfir, komnar til Mumbai annað kvöld. Þær lofa að vera ofsalega varkárar, taka leigubíl beint inn á hótel og væflast ekki um stórborgina eftir sólsetur. Þær ætla líka að láta vita af sér við fyrsta tækifæri en fram að því má segja að engar fréttir séu góðar fréttir.

sunnudagur, 17. desember 2006

Allt að smella saman

Einn dagur í brottför.

Ég trúi því nú bara ekki að ég sé að leggja upp í einhverja langferð á morgun, það er bara alltof, alltof óraunverulegt. Samt pakka ég niður á fullu í fullri alvöru eins og einhver sem skynjar að þetta sér raunverulegt. Það er eins gott því maður þarf að gefa sér mjög góðan tíma í að vega og meta hvað skal taka með og hvernig skuli pakka því niður.

Við erum nánast búin að pakka öllu niður í þessum töluðu orðum. Öllum snyrtivörum er búið að ráða snyrtilega í lásapoka, búið er að rúlla upp öllum flíkum og stinga í bakpoka og búið er að huga fyrir síðbuxum og síðbolum. Við eigum bara eftir að panta far með næsturlest frá Mumbai til Goa, kveðja ættingja, kaupa skordýrafælu og losna við spennuhnútinn í maganum sem fær mig til að skjálfa.

fimmtudagur, 14. desember 2006

Undirbúningur í algleymingi

Hver hefði trúað því hve mikið þarf að kaupa inn fyrir bakpokaferðalag? Ég hélt að maður ætti að ferðast létt, en ég sé ekki hvernig það gerist þegar við höfum náð að troða öllum þessum smyrslum, lyfjum, vítamínum og verkjapillum í bakpokana.

Eins og staðan er núna höfum við keypt trefjatöflur og acidophilus töflur, sólhattsgostöflur, imodium, b-vítamín og múltí-vítamín, augndropa og einnota hanska, lórítín, kláðadrepandi krem, bílveikistöflur og hálstöflur. Það er eins og maður treysti því ekki að þetta fáist í Indlandi.

Fyrir utan apótekið höfum við líka þurft að redda okkur litlum tækjum og tólum eins og vasahnífi og vasaljósi, ferðainnstungu, hengilásum og keðjum á bakpokana, ferðakoddum og eyrnatöppum svo fátt eitt sé nefnt. Við erum meira að segja búin að kaupa póstkort af Íslandi og framkalla myndir af nánustu ættingjum til að sýna forvitnum heimamönnum. Ég held að þetta skrifist á bókstafstrú og hlýðni mína, ef það stendur í Rough Guide þá eru það lög fyrir mér.

mánudagur, 11. desember 2006

Vika í brottför

Við erum búin að kaupa flugmiða til Indlands!

Á föstudaginn var fengum við í hús vegabréfin okkar frá sendiráðinu í Ósló og þá gátum við óhrædd fest kaup á flugmiðum. Eftir ítarlega rannsókn á netinu varð úr að við völdum að fljúga með Iceland Express til London, færa okkur síðan yfir á Heathrow og taka þaðan Gulf Air vél til Mumbai. Það er reyndar millilent í Oman í nokkra tíma en eins og PG benti á má líta á það sem kærkomna hvíld frá því að vera innilokaður í flugvél.

Þar sem aðeins vika er í brottför ríður á að við nýtum tímann vel því enn þarf að redda ýmsu fyrir ferðina. Hins vegar erum við komin með það mikilvægasta: Teva sandala sem við keyptum í Kraká, bakpoka á bæði, vegabréfsáritun og flugmiða. Þá erum við líka búin að sækja heilsugæsluna stífst síðan í október og erum núna bólusett gegn tauga- og barnaveiki, mænusótt, lifrarbólgu A og B, japanskri heilabólgu, kóleru og hundaæði. Við erum orðin, eins og Baldur segir, götótt og hriplek.

miðvikudagur, 6. desember 2006

Sunnudagur á þriðjudegi

Á þessu þriggja manna heimili, sem Þinghólsbrautin eru um þessar mundir, hefur skapast hefð á sunnudögum. Þessi hefð var reyndar einstaklega fljót að myndast og ná fótfestu meðal fjölskyldumeðlima enda má færa rök fyrir því að allir teljst þeir til rútínufólks.

Þessi umrædda hefð felst í því að borða kvöldmat á Grænum kosti og drekka kvöldkaffið og hlýða á húslestur á Súfistanum. Síðasta sunnudag vorum við skötuhjú hins vegar vant við látin og vorum tilneydd til að sleppa sunnudagsrútínunni. Við vorum þó langt því frá af baki dottin og tókum á það ráð að efna til sunndags á þessum blessaða þriðjudegi.

Til þess að það hæfist borðuðum við próteinbollur með cashewhnetusósu á Kostinum, sötruðum á swiss mokka og, í mínu tilviki, hélt ég áfram með Wuthering Heights. Ég er að vonast til að klára hana áður en ég hverf af landi brott, og kannski ekki óraunhæft ef litið er til þess að ég er hálfnuð með bókina þökk sé sunnudagsrútínunni.

laugardagur, 2. desember 2006

Nostaldamus

Í dag var tekinn einn af hinum margfrægu Kársnesgöngutúrum, margar góðar minningar sem maður á af þessu ágæta svæði. Margt hefur breyst en þó er ég ekki frá því að sum af bílhræjunum, sem prakkararnir Biggi og Baldur bröltu í kringum og byggðu skýjaborgir úr, séu þarna enn.

Hvorki var göngu- né nostalgíuskammti dagsins þó algerlega fullnægt, have a potatoe... Því eftir Kársneshringinn örkuðum við ásamt Pétri afa að Gerðarsafni til að vera viðstödd þegar einhver stingi ljósaperum, sem var búið að raða á stórt grenitré, í samband. Þar stóð Össur Geirsson og stjórnaði Skólahljómsveit Kópavogs með miklum sóma.

Í mína ungu daga stóð ég einmitt einhvers staðar í Borgarholtinu rétt fyrir jól og blés í lúður með þessari sömu hljómsveit. Í þá daga stjórnaði Björn Guðjónsson og sonur hans Jónas hafði mig í einkatímum. Það var gaman að standa í fjöldanum og hlusta, fyllast stolti í hvert sinn sem trompetinn fékk að njóta sín og gleði yfir því að Kópavogur eigi svona góða hljómsveit jafnvel þótt Ham sé hætt.

Fullveldi og alnæmi

1. desember er ekki aðeins merkisdagur í augum Íslendinga því dagurinn sá er líka alþjóðlegi alnæmisdagurinn. Í tilefni af því drifum við Ásdís okkur niður í bæ í kvöld til að taka þátt í auglýstri blysför, fjöldagöngu niður að tjörn.

Þegar við mættum á auglýstan stefnumótsstað, nokkrum mínútum of seint að vísu, var ekki að sjá nein ummerki mannfjölda né kyndlafjöld á leið niður Bankastrætið. Við strunsuðum því sem fætur toguðu niður að Tjörn og engan sáum við. Vorum meira að segja farin að halda að minnið væri eitthvað að stríða okkur.

Ekki dugði þó að gefast upp, síðasti dagskrárliður þessa dags var hugvekja í Fríkirkjunni og læddum við okkur þangað inn. Þar var þá saman kominn allur hópurinn, u.þ.b. 20 stykki. Séra Ása fríkirkjuprestur ræddi alnæmi, náungakærleik og margt fleira við söfnuðinn og inn á milli fluttu Regína Ósk og Friðrik Ómar tónlistaratriði ásamt undirleikara.

Stundin var öll hin besta en þó verð ég að hafa orð á því hve sorglegt mér þykir fámennið. Fámennt en góðmennt, jújú. Ég væri samt alveg til í að sjá a.m.k. tífaldan til þúsundfaldan þennan fjölda rölta saman, ræða saman og vekja athygli á málstaðnum saman.