Hver hefði trúað því hve mikið þarf að kaupa inn fyrir bakpokaferðalag? Ég hélt að maður ætti að ferðast létt, en ég sé ekki hvernig það gerist þegar við höfum náð að troða öllum þessum smyrslum, lyfjum, vítamínum og verkjapillum í bakpokana.
Eins og staðan er núna höfum við keypt trefjatöflur og acidophilus töflur, sólhattsgostöflur, imodium, b-vítamín og múltí-vítamín, augndropa og einnota hanska, lórítín, kláðadrepandi krem, bílveikistöflur og hálstöflur. Það er eins og maður treysti því ekki að þetta fáist í Indlandi.
Fyrir utan apótekið höfum við líka þurft að redda okkur litlum tækjum og tólum eins og vasahnífi og vasaljósi, ferðainnstungu, hengilásum og keðjum á bakpokana, ferðakoddum og eyrnatöppum svo fátt eitt sé nefnt. Við erum meira að segja búin að kaupa póstkort af Íslandi og framkalla myndir af nánustu ættingjum til að sýna forvitnum heimamönnum. Ég held að þetta skrifist á bókstafstrú og hlýðni mína, ef það stendur í Rough Guide þá eru það lög fyrir mér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli