Við erum búin að kaupa flugmiða til Indlands!
Á föstudaginn var fengum við í hús vegabréfin okkar frá sendiráðinu í Ósló og þá gátum við óhrædd fest kaup á flugmiðum. Eftir ítarlega rannsókn á netinu varð úr að við völdum að fljúga með Iceland Express til London, færa okkur síðan yfir á Heathrow og taka þaðan Gulf Air vél til Mumbai. Það er reyndar millilent í Oman í nokkra tíma en eins og PG benti á má líta á það sem kærkomna hvíld frá því að vera innilokaður í flugvél.
Þar sem aðeins vika er í brottför ríður á að við nýtum tímann vel því enn þarf að redda ýmsu fyrir ferðina. Hins vegar erum við komin með það mikilvægasta: Teva sandala sem við keyptum í Kraká, bakpoka á bæði, vegabréfsáritun og flugmiða. Þá erum við líka búin að sækja heilsugæsluna stífst síðan í október og erum núna bólusett gegn tauga- og barnaveiki, mænusótt, lifrarbólgu A og B, japanskri heilabólgu, kóleru og hundaæði. Við erum orðin, eins og Baldur segir, götótt og hriplek.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli