sunnudagur, 31. mars 2002

Páskadagur

Ég var vakin upp í morgun alveg eldsnemma. Baldur átti að mæta í messu kl. 7 og vakti mig um hálf sjö leytið til að segja mér að páskapósturinn væri kominn. Hann rétti með miða því til staðfestingar. Nývöknuð og vönkuð sem ég var átti ég erfitt með að lesa á miðann en loks tókst það.

Á miðanum stóð: "Halló, halló! Páskapóstur hefur borist þér. Finndu út hvað og hvar hann er. Þig vantar jakkaföt." Ég varð því að rífa mig úr vogu bælinu og kíkja inn í fataskáp því þótt ég væri syfjuð fattaði ég að um ratleik væri að ræða.

Inn í skáp, límdan á hurðina, fann ég miða # 2: "Þú nálgast! Pósturinn var hér en hann kann að labba. Gæti það verið panna?" Inní eldhús og upp í skáp og þar stóð: "Ekki panna. Þarf ekki að ryksuga?"

Nú fór gamanið að kárna, að þurfa að dröslast inní kalt þvottahúsið þar sem ryksugan er geymd. Ég lét mig þó hafa það og uppskar enn aðra vísbendingu: "Ekki ryksuga svona snemma. Fáðu þér frekar malt og slappaður af."

Aftur inní eldhús og nú opna ég ísskápinn. Þar er að finna fimmta miðan á maltdós: "Þú drekkur ekki malt á morgnana. Er ekki kakan tilbúin?" Ég kíkti inní ofn og þar fann ég stórt páskaegg með bókastrump ofaná. Núna er eggið komið ansi langt á leið og ég er að íhuga að fela restina. Þegar Baldur fær sér bita þá er það nefnilega ekkert slor.

Eftir messuna hjá Baldri fór ég að spariklæðast og Baldur þurfti að fara í önnur jakkaföt, alvöru sparijakkaföt. Síðan drifum við okkur niður í Grafarvogskirkju þar sem skíra átti litla prinsinn þeirra Maríu og Kára. Fyrir utan það að vera tekinn inní samfélag kristinna manna hlaut hann nafnið Gabríel Dagur.

Eftir á var síðan smá veisla á Tíu dropum. Þar áttum við í mestum vandræðum við að vísa burt glorhungruðum og hundblautum túristum sem héldu að loksins hefðu þeir fundið eitthvað opið á þessum degi. Fyrir utan það var veislan stórfín með ágætis veigum. Sá litli er orðinn svo stór að það var umtalað í veislunni og fötin sem hann fékk í skírnargjöf voru flest fyrir eins árs og eldri!

Sá stutti hlýtur blessun

Mæðginin að lokinni athöfninni

Gabríel Dagur og Björg

Núna ætlum við að skreppa upp í Þingás til pabba og glápa kannski á Ace Ventura 2. Baldur hefur nefnilega þann brest að hafa aldrei séð Ace Ventura myndirnar. Þar að auki bíður okkar annað páskaegg þar og ég hlakka til að sjá hvort strumpur sé ofaná því.

Gleðilega páska!

föstudagur, 29. mars 2002

Það varð smá breyting á planinu. Við vorum svo lengi í Bláa lóninu í gær að við höfðum ekki tíma til að fá okkur vöfflur þannig að til að bæta fyrir það er Baldur núna að baka vöfflur í morgunmat, nammmmmmmm. Þessi dagur er ekki síðri en gærdagurinn veðurfarslega séð og hvað er betra en að eiga framundan langan föstudag í blíðviðri?

Heilsuhornið

Þá erum við loksins komin með eitthvað nýtt efni á síðuna okkar eftir margra mánaða bið. Nýja síðan heitir heilsuhornið og þar er enn sem komið er að finna þrjá kafla um heilsusamlegt líferni. Kaflarnir fjalla um mataræði, lyftingar og gott form. Við ætlum síðan með tíð og tíma að bæta linkum á góðar síður um lyftingar og ýmsar aðrar æfingar jafnt sem síður um næringarfræði.

Þetta verður alveg ferlega skemmtileg síða sem Baldur mun að mestu leyti smá um en ég ætla að fá að skrifa eitthvað um jóga, það er bókað. Það er enn óvíst hversu reglulega síðan verður uppfærð en ætli við tilkynnum ekki nýjar færslur jafnóðum hér á dagbókinni?

fimmtudagur, 28. mars 2002

Blár himinn=Bláa lónið

Þetta er alveg yndislegur skírdagur og í tilefni þessa góða veðurs ætlum við að skreppa í Bláa lónið og reyna að fá smá lit. Mín túlkun á skírdegi er sú að þeir sem eru skírðir fái sérstaka athygli frá hinum óskírðu og því fæ ég (hin skírða kona) vöfflur frá Baldri mínum (hinum óskýrða karli).

Síðan er aldrei að vita nema froskarnir verði búnir að jafna sig á fluginu langa og við kíkjum á þau með vöfflur. Jæja, má ekki vera að þessu blaðri, við erum með tight schedule, Bláa lónið, vöfflur, skírdagsmatur og kirkjusöngur hjá Baldri kl. 19. Gleðilegan skírdag!

miðvikudagur, 27. mars 2002

Nú má hamsturinn passa sig

Bara svo að þið vitið það þá er ég ugla. Ég var nefnilega eitthvað að brima á öldum netsins og fann einhverskonar próf. Svona hvaðadýrertþú-próf.

þriðjudagur, 26. mars 2002

Fuglahræðu í fuglabjargið

Ég var að koma af hinni margrómuðu nestisstofu Bókhlöðunnar þar sem ég lét svo lítið að innbyrða samloku með osti, gúrku og tómötum og einum banana (keyptum í Fjarðarkaup, vitaskuld). Ekki sat ég lengi ein að snæðingi því áður en ég vissi af hafði þessi annars kuldalega, gluggalausa og ofnlausa (ég kemst bara ekki yfir þetta) stofa fyllst af allskyns fólki héðan og þaðan (mest viðskipta- og lögfræðingar held ég).

Allir voru að narta í bakaríisóhollustu og kvartandi undan umbúðafarganinu sem fylgir einni lítilli (ekki svo lítil að mínu mati) skúffukökusneið. Þegar ég loksins yfirgaf nestisstofuna og opnaði dyrnar út í þöglan lessalinn varð mér ljóst þvílíkt ógrynni af hávaða var þarna inni. Þetta var eins og að vera staddur í fuglabjargi á varptíma, allir gaggandi.

SOS, okkur vantar nauðsynlega fuglahræðu hingað. Heimilisfang: Nestisstofan 4. hæð, Bókhlöðunni, Reykjavík, Ísland.

Lasagna

Í gær þá var svona sitt lítið af hverju snövlað. Við fórum og versluðum í matinn í Fjarðarkaupum og fórum svo í Hagkaup og keyptum gsm síma. Ég var nefnilega kominn með akkúrat nákvæmlega nóg af því að vera alltaf að mixa þann gamla þannig að ég barasta keypti mér nýjan.

Svo kom kvöldið og ég bjó til lasagna en sá réttur hefur þau áhrif á mig að ég steinsofna ef ég neyti hans í réttu magni. Að sjálfsögðu borðaði ég þangað til ég var við það að líða út af og skreið þá inn í rúm og lá rotaður til sjö í morgun, að frátöldum fimm mínútum sem fóru í tannburstun.

mánudagur, 25. mars 2002

Hóhóhó

Jæja, nú er ég í nýju vinnunni minni að skrifa á bloggerinn. Ég er ekki á skrifstofunni minni þar sem tölvan mín er ekki nettengd ennþá en það verður ábyggilega gert í vikunni. Hvað geri ég í vinnunni? Það er einmitt það sem ég er að reyna að læra þessa dagana en aðallega held ég að ég hreinsi RNA.

Að allt öðru. Í gær söng ég í tveimur fermingum en í tveimur fermingarathöfnum eru u.þ.b. 60 börn teymd upp að altari þar sem þau síðan ljúga að samfélaginu og Guði fyrir viðunandi þóknun. En svona er það nú. Þetta fermingadót er nú samt atvinnuskapandi og svo finnst mér alveg ofboðslega gaman að syngja. Ég mæli með því við sem flesta að syngja þar sem það er svo gaman. Mér gengur ofsalega vel í þessum sönggeira og miklu betur en ég þorði að vona.

sunnudagur, 24. mars 2002

Ísöld

Í gær vorum við plötuðu af Andra brósa til að fara í bíó að sjá myndina Ísöld. Við vorum að pæla í myndum eins og Gosford Park, In the Bedroom eða A Beautiful Mind en fórum þess í stað að sjá Ísaldarmyndina sem er alveg ágætisskemmtun.

Andri vildi endilega fara að sjá þessa mynd þar sem honum fannst trailerinn svo fyndinn og tókst að sannfæra mig um ágæti hennar með því að tala um krúttlegan íkorna. Ég er alveg veik fyrir öllu krúttlegu og auðvitað varð ég að fara. Íkorninn var meira svona "ég-er-rosaleg-vitlaus" rottuíkorni heldur en "ég-er-rosalegt-kríli" íkorni. En hann fékk mig til að hlæja dátt, það skiptir máli.

laugardagur, 23. mars 2002

Smá tölfræði um launin hans Michael Jordans

Þetta fékk ég sent í pósti frá Maríu vinkonu. Maður vissi að gæinn væri ríkur en fyrr má nú rota en steinrota:
"Eftir að Michael Jordan hætti að spila körfubolta fékk hann starfslokasamning uppá 4 milljarða íslenskra króna. Hann fær samt sem áður 17,8 milljónir í laun á dag sem eru tekjur hans af auglýsingum og föstum samningum." Hér koma nokkrar staðreyndir um hversu mikið hann þénar í raun:

· Ef hann sefur 7 klukkustundir á nóttu þénar hann 5,2 milljónir á meðan.
· Ef hann fer í bíó kostar það hann 700 kall en hann græðir 1,8 milljónir á meðan hann horfir á myndina.
· Ef hann ákveður að fá sér harðsoðin egg í morgunmat þénar hann 61.800 krónur á meðan hann sýður þau.
· Hann þénar 371.000 krónur á meðan hann horfir á einn Friends þátt.
· Hann er 12 klukkustundir að safna sér pening fyrir glænýjum Acura NSX sportbíl.
· Ef einhver væri í því starfi að rétta honum þá peninga sem hann þénar samstundis þyrfti sá hinn sami að rétta honum 200 kall á hverri einustu sekúndu.
· Hann greiðir u.þ.b. 2000 kall fyrir að fara einn hring á sæmilegum golfvelli en þénar 3,3 milljónir á meðan hann fer hringinn.
· Ef maður fengi eina krónu fyrir hvern þúsund kall sem Jordan þénar væri maður með 6,5 milljónir í árslaun.
· Hann græðir u.þ.b. 19.600 krónur við að horfa á 100 metra hlaup á Ólympíuleikunum en heilar 1,6 milljónir við að horfa á meðal langt maraþon.
· Á þessu ári mun Jordan þéna rúmlega tvisvar sinnum meira en allir Bandaríkjaforsetar til frá upphafi hafa haft í laun til samans.
· Þó að Jordan myndi setja öll sín árslaun í sparnað næstu 450 árin ætti hann samt minna en Bill Gates á í dag!

Gettu betur!

Í gær var úrslitakeppnin í Gettu betur háð og mættust þar stálin stinn, þ.e. stálið frá MR (þýskt eðal) vs. stálið frá MS. MR vann keppnina tíunda árið í röð eftir æsispennandi og magakreppandi keppni. MR-ingar urðu náttúrulega ævareiðir þegar klukkan fór ekki í gang í hraðaspurningunum og ég held að fólk hafi vilja rífa hausinn af Loga greyinu sem fannst þetta allt mjög vandræðalegt.

Fyndnast var þegar hann og dómarinn voru næstum farnir að rífast. Sem sagt, keppnin var með óvenjuleg sniði þetta árið, RÚV sýndi hversu vel því tekst að klúðra svona hlutum á meistaralegan hátt og taka keppendur á taugum. Þetta hefur örugglega verið planað til að auka á spennuna, reyna að gera þetta að svona vinsælu efni eins og Survivor og Temptation Islands.

Að öðru, Baldur útbjó smá próf fyrir ykkur í gær til að komast að því hversu vel þið þekkið hann. Prófið rennur út eftir 29 daga þannig að það er um að gera að drífa sig að taka það og sjá hvar maður lendir á skalanum. Linkurinn á prófið er hér til vinstri fyrir neðan vefspjallslinkinn og kallast Gettu betur!

föstudagur, 22. mars 2002

Óttaleg teikn á lofti í Reykjavík

Það er sem ég óttaðist, góðviðrið undanfarna daga má rekja til til einhvers ills. Þetta kom fram á baggalúti í dag:

Grunsamlega gott veður hefur verið á suðvesturhorni landsins í morgun, auk þess sem ýmis fleiri annarleg teikn hafa verið á lofti. Ónáttúrulega hár hiti hefur verið í allan dag og ekki hefur komið deigur dropi úr loft, auk þess sem sögusagnir eru uppi um að lóa hafi sést í Grafarvogi. " Af þessum teiknum má augljóst vera að endalokin eru í nánd - sjálf ragnarök," sagði Magnús Skarphéðinsson, ræstitæknir, um málið. Vísindamenn telja að hitinn eigi eftir að hækka enn meira og muni að lokum þurrka upp úthöfin og steikja allt lifandi.
Hæ, hó! Ég er búinn að skipta um vinnu og farinn að vinna á rannsóknarstofu og er með mitt eigið skrifborð og mína eigin tölvu. Mér finnst þetta mjög gaman. Ég hef ekki skrifað mikið að undanförnu enda mikið að gera og því ekki minnst á að Einar og Sólveig urðu að folöldum þann 14. mars og eignuðust lítið kríli sem heitir Sædís Ósk. Til hamingju Einar og Sólveig!

Ég mæli með...

...að fara út í Blómaval með litlu krílin, kaupa sér ís og lítið páskaegg á 99 kr. og kíkja á Páskaland. Þar eru nokkkur kanínusystkin í búri, ógurlega falleg öll sömul. Þar eru líka páfagaukar í öllum regnbogans litum. Kaupið samt ekkert skraut þar, þetta er fokdýr búlla.

Framtíðarheimilið komið í notkun

Inná nestistofu rakst ég á tímaritið Tölvuheimur og þar sem ég hafði ekkert annað að gera fletti ég því í gegn og hafði gaman af. Það skrýtnasta sem ég rak augun í var greinin um framtíðarheimilið sem útbúið hefur verið hér á landi. Greinin er alveg lygileg og hljóðar svona:

"Teymi á vegum hins opinbera í Japan hefur í samvinnu við helstu tæknifyrirtæki landsins lokið byggingu netkerfis sem tengir saman öll raftæki og tól vísitöluheimilisins til að sýna hvernig heimili framtíðarinnar gætu virkað. Í heildina eru tækin sem tend eru saman 50 talsins og hafa þau öll sína eigin IP-tölu á netkerfinu.

Meðal þess sem þetta nettengda heimili býður upp á er að nota GSM-símann til að vökva garðinn og gefa gæludýrum að borða ef fólk er fjarverandi en vill hafa þessa hluti í lagi. Ekki þarf lykla til að opna útihurðina, heldur notar húsið fingrafaraskanna til að ákvarða hvort hleypa eigi fólki inn. Þvottasnúran fylgist með veðrinu og dregur sjálfkrafa hlíf yfir fötin sem verið er að þurrka ef rigning skellur á.

Það verður aldrei bjórlaust í húsinu, því þegar einungis þrjár flöskur eru eftir í ísskápnum sendir hann sjálfkrafa pöntun með tölvupósti til næstu matvöruverslunar og það sama gildir um hrísgrjón. Hvert herbergi hússins er svo með hljóðnema og hátalara, þannig að nú þarf móðirin ekki lengur að öskra sig hása til að kalla á börnin í matinn.

Einnig getur húsið lært á venjur einstakra fjölskyldumeðlima og hagað sér samkvæmt þeim. Ef ákveðinn fjölskyldumeðlimur fer jafnan á salernið um miðjar nætur, til dæmis, getur húsið aðlagað sig að því. Þegar viðkomandi skríður fram úr hitast salernissetan sjálfkrafa upp og ljósin á leiðinni að baðherberginu kvikna. Svo slokkna ljósin og hitarinn sjálfkrafa þegar rölt er inn í svefnherbergi aftur.

Skaparar hússins segja að allt sem boðið er þar upp á muni koma á almennan markað innan skamms. Þeir segja jafnframt að hugsað hafi verið um að hafa kostnaðinn við tæknina í lágmarki og því eigi að vera hægt að nettengja hús með þessum hætti fyrir 5 milljónir jena, sem eru um það bil 4 milljónir króna."

Jahá, mikið er gott að einhver sé þarna úti sem hugsar fyrir svona löguðu, það segir sig vitaskuld sjálft að ekki getum við haldið áfram að búa svona eins og moldvörpur, með þvottasnúrur sem hugsa ekki og með venjulegan ísskáp sem er ekki einu sinni nettengur! Hugsa sér hvernig við lifum, hversu oft lendum við ekki í því að verða uppiskroppa með bjór og hrísgrjón (samsetningin er algjört lostæti)? Nei, ekki meir, nú verður sko séð fyrir því að við eigum fullt búr af bjór og hrísgrjónum. Verst fyrir þá sem drekka ekki bjór eða fíla ekki hrísgrjón.

fimmtudagur, 21. mars 2002

Mannfræðingar til alls vísir

Mannfræðingar eru greinilega til alls líklegir samkvæmt fréttum Baggalúts og Ísland virðist vera mjög verðugur vettvangur rannsókna þeirra, alla vega á mannfræðingurinn Hörður P. Einarz létt með að finna týnda frumbyggjahópa á Íslandi. Ég þarf því ekki að kvíða framtíð minni því sem mannfræðingur ætti mér að nægja að skreppa á Vestfirðina og finna þar eitthvað kynlegt til að skrifa síðan um í hin ýmsu virtu mannfræðitímarit. Þetta hafði Baggalútur að segja um málið:

Landkönnuður finnur týnt sjávarþorp
Dr. Hörður P. Einarz, mannfræðingur og landkönnuður hefur birt grein í hinu virta riti "Popular Explorer" þar sem hann kynnir fund sinn á íslensku sjávarþorpi á Vestfjörðum, sem hefur verið "týnt" öldum saman. "Ég get staðfest að íbúar þessa þorps hafa ekki átt nokkurt samneyti við umheiminn í um 300 ár", sagði Hörður við blaðamann Baggalúts. Hörður var í útilegu í Þvörufirði Nyrðri ásamt móður sinni og stjúpa, þegar hann sá menn á áttæringi róa til fiskjar í firðinum. "Þeir voru allir búnir skinnfatnaði og mér brá allilla við þessa sjón", sagði Hörður og bætti við: "Ég leitaði svo þorpið uppi og fann það utarlega á Svaðnesi. Íbúar þess voru nokkuð hissa að sjá mig en þeir skildu ekki bofs í íslensku, presturinn kunni þó hrafl í latínu. Ég kallaði til sérfræðinga frá Árnastofnun og þeir hafa svona verið að ná kontakt við þá". Þjóðminjavörður hefur farið þess á leit við Menntamálaráðuneytið að þorpið verði varðveitt í heild sinni, ásamt íbúum þess.


Nú á dögunum lét Einar síðan aftur að sér kveða þegar hann fann tvær konur einhversstaðar út á landi:

Hinn kunni mannfræðingur og landkönnuður, Hörður P. Einarz fann á dögunum tvær eldri konur í Grundarvík, sem er löngu gleymt sjávarpláss í Hofmundarfirði á Vestfjörðum. Konurnar, sem eru tvíburasystur, voru sendar þangað af föður sínum frá Patreksfirði í síldarsöltun árið 1931 og hafa dvalið þar og saltað allar götur síðan. "Pabbi er nú sennilega bara á leiðinni sko", sagði Rannveig, eldri systirin við ljósmyndara Baggalúts. Að sögn Harðar munu konurnar hafa saltað allt hráefni bæjarins, sem fór í eyði skömmu eftir komu þeirra. Þegar það var upp urið söltuðu þær það sem hendi var næst: grjót, þang, timbur og jafnvel eigið hár.

miðvikudagur, 20. mars 2002

Sinfóníuhljómsveit Íslands í I.Q. test

Núna þegar ég dvel öllum stundum á Bókhlöðunni hef ég þurft að nýta mér nestisaðstöðuna þar en hún er eitt herbergi, glugga- og ofnalaust, brrrr.

Venjulega situr maður bara og snæðir sitt vonda skyr.is eða samloku með hnetusmjöri og hlustar á sínar eigin hugsanir. Oft getur maður þó ekki annað en lagt eyrun við það sem aðrir eru að segja en ég held ég fari að leggja þann sið niður því svo oft heyrir maður soddan vitleysu að manni blöskrar.

Núna áðan sátu þar tvær stelpur og voru að tala um eitthvað par sem er búið að vera sundur og saman svo lengi sem menn muna. Önnur var að hneykslast á gaurnum í sambandinu en hin sagði að hún skyldi alveg að hann vildi fara af landi brott því sem tónlistarmaður væri ekkert fyrir hann að gera á Íslandi. Síðan lauk hún romsunni með því að segja að henni fyndist það annars synd að hann skyldi vera tónlistarmaður því það væri svo mikil sóun á góðum gáfum.

Heyr heyr eða hittó, eigum við kannski öll að nota gáfur okkar í þágu viðskiptafræðinnar eins og hún virtist vera að gera? Eða var hún kannski að meina að það þyrfti ekki gáfur í tónlistarbransann? Það ætti kannski að senda Sinfóníuhljómsveit Íslands í I.Q. test svo við vitum nú hvar við höfum þessa kjána.

Lítil dæmisaga

Íslenskt og japanskt fyrirtæki ákváðu að keppa í róðri á áttæringi. Liðsmenn frá báðum fyrirtækjum æfðu stíft og voru í toppformi þegar að sjálfri keppninni kom. Japanirnir urðu 1 km á undan íslenska liðinu.

Eftir útreiðina var mórallinn að sjálfsögðu heldur slæmur í íslenska fyrirtækinu og yfirstjórnin ákvað að fyrirtækið yrði að vinna keppnina að ári. Var settur á fót vinnuhópur til að skoða vandamálið. Eftir heilmiklar pælingar komst vinnuhópurinn að því að Japanirnir létu 7 menn róa en einn stýra. Í íslenska liðinu var það einn sem réri og sjö sem stjórnuðu. Vegna þessarar miklu krísu afréð yfirstjórn íslenska fyrirtækisins að fá ráðgjafarfyrirtæki til að kanna strúktur íslenska liðsins og gera nýtt skipurit ef á þyrfti að halda.

Eftir margra mánaða vinnu komust stjónunarfræðingarnir að því að í íslenska bátnum væru það of margir sem stjórnuðu en of fáir sem réru. Með hliðsjón af skýrslu sérfræðinganna var strax ráðist í skipulagsbreytingar. Í stað þess að hafa sjö stýrimenn, einn áramann voru nú hafði fjórir stýrimenn, tveir yfirstýrimenn, einn leiðtogi stýrimanna og einn áramaður. Að auki var áramaðurinn "motiveraður" samkvæmt meginreglunni: Að breikka starfssvið starfsmanna og veita þeim meiri ábyrgð".

Næstu keppni unnu Japanirnir með 2 km forskoti.

Íslenska fyrirtækið rak að sjálfsögðu áramanninn með tilliti til lélegrar frammistöðu, en greiddi bónus til stjórnarinnar vegna þeirrar miklu vinnu sem hún hafði innt af hendi. Ráðgjafarfyrirtækið gerði nú aðra úttekt og komst að þeirri niðurstöðu að valin hefði verið rétt taktík og hvatning, því væri það búnaðurinn sem þyrfti að einbeita sér að.

Í dag er íslenska fyrirtækið að láta hanna nýjan bát.

mánudagur, 18. mars 2002

Í gær vorum við í mat hjá mömmu og pabba heima hjá Kristjáni og Stellu sem eru ekki heima hjá sér en eru alltaf á leiðinni. En af því að þau eru á leiðinni þá var þetta síðasta sunnudagsboðið á Eggertsgötunni í bili. Að vanda var kóngamatur á borðum enda enginn venjulegur Potter að verki. Við átum á okkur gat eða það gerði ég að minnsta kosti og svo var það desertinn og svo var það pólitíkin og þegar við kvöddum þá voru allir hálffluttir af landi brott því hálfnað er verk þá hafið er.

Páskar nálgast

Þá er ég komin í rúmlega tveggja vikna frí ef frí má kalla. Vinnuvikan í mannfræðinni hefst núna á miðvikudaginn og þar sem ég er ekki í skólanum á þriðjudögum er mitt frí hafið. Strax að vinnuviku liðinni tekur síðan páskafríið við og þá er sko nóg að gera. Baldur ætlar að syngja í eins mörgum messum og hann getur (maður fær svo góðan pening fyrir fermingamessur) og síðan er það skírnin hjá litla prinsinum hennar Maríu.

Mér tókst að klára þessa ritgerð í gær í grófum dráttum, nú er bara fínpússun eftir sem getur verið tímafrekasti partur ritgerðasmíða því maður les hana yfir aftur og aftur til að sjá hvort ekki sé allt í samhengi og hvort maður sé nokkuð að segja eitt á einum stað en sé seinna mér ekki samkvæmur sjálfum sér.

Plan þessarar viku er að gera ritgerðina fyrir þjóðernishópa en þar ætla ég að skrifa um innflytjendur í Vestur-Evrópu og taka Þýskaland sérstaklega fyrir og Tyrkina þar. Gróflega planað ætla ég mér daginn í dag og alla daga fram til sunnudagsins 24. mars í þessa ritgerð, eftir viku hefst ég síðan handa við að gera ritgerðina fyrir hagræna mannfræði og eyði einni viku í það og þá á ég eftir eina viku í ritgerðina fyrir etnógrafíu eyjaálfu.

Nú er bara að vera strangur við sjálfan sig, ég verð nefnilega að klára þessar ritgerðir áður en ég tek heimapróf í etnógrafíunni.

sunnudagur, 17. mars 2002

Another Kind of Magic

Pabbi bauð okkur á Queen sinfóníutónleika í gær í Laugardalshöll sem gekk undir nafninu Another Kind of Magic. Við mættum reyndar 10 mínútum of seint því að miðarnir höfðu gleymst heima. Þegar við föttuðum það fékk bílinn sko að kenna á því og pabbi sagði að loksins hefði ég fengið að finna fyrir hestöflunum sem ég var alltaf að kvarta yfir að væru ekki nýtt.

Into-atriðið fannst mér alveg frábært en restin var ekki eins rosaleg. Í heildina litið var þetta þó hin besta skemmtun og sinfóníuhljómsveit Íslands kom best út úr þessu að mínu mati. Kórinn blessaði var alveg úti að aka og söngvararnir höfðu ekki tærnar þar sem Freddie hafði fótsporin, svo ég brúki orðalag hans Baldurs míns.

Eftir tónleikana fórum við út að borða á Kínahofinu og það var ósköp notaleg stemmning. Við útbjuggum okkar eigið hlaðborð, keyptum fjóra rétti sem allir gátu síðan vaðið í. Ég heimtaði kjúkling í ostrusósu og fékk hann því mér leist ekkert á fisk í svartbaunasósu. Ég held við höfum öll étið á okkur gat nema Baldur, hann kláraði allar leifarnar og vildi meira.

Eftir þetta var síðan keyrt í rólegheitunum heim, sunnudagsfílingur á laugardagskvöldi.

Sól skín í heiði

Veðrið í gær var alveg yndislegt og mér sýnist að dagurinn í dag ætli sér að vera enn fallegri. Ég eyddi lungann úr deginum á Bókhlöðunni við að smíða ritgerð fyrir mentornámskeiðið sem ég ætla mér að klára í dag. Takist það er þetta fljótsmíðaðasta ritgerð sem ég hef samið.

Ég hætti frekar snemma því Baldur bauð mér upp á ís í góða veðrinu, svona smá verðlaun fyrir að vera hæst í heimaprófinu í hagrænni mannfræði. Þegar við komum niður í Álfheima var þar múgur og margmenni þannig að við drógum okkur einn gulann miða og fórum síðan að labba um og biða eftir að röðin kæmi að okkur. Við fórum í litla lundinn sem er þarna rétt hjá og Baldur fór að kenna mér smá taekwondo, að sparka og svona. Það var ansi gaman, ætli við förum ekki að æfa þetta þegar við komum til Danmerkur.

fimmtudagur, 14. mars 2002

Blessaðar kanínurnar

Gærdagurinn var ansi skrýtinn skal ég segja ykkur. Við ákváðum að auglýsa eftir góðum heimilum fyrir kanínurnar okkar tvær því við getum ekki lengur haft þær í okkar pínulitlu íbúð. Við bjuggumst innilega ekki við neinum viðbrögðum því seinast þegar við auglýstum eftir heimili fyrir Kaníku hringdi einn. Gærdagurinn var hinsvegar allt öðruvísi, síminn hreinlega stoppaði ekki. Það var ágætt, þannig gátum við valið úr sjálf þá sem okkur leist best á og núna eru þær báðar farnar frá okkur, litlu börnin okkar.

Fyrir nokkrum dögum uppgötvuðum við nefnilega að Bjartur var strákur en Rúdólfína er stelpa þannig að nú dugðu enginn vettlingatök og "strákunum" var komið fyrir í sitthvoru búrinum. Með tvö stór búr í litlu þurrkakompunni hennar Kisu gekk búskapurinn ekki nógu vel, allt út í sagkubbum og alveg rosalegt ryk á öllu.

Við vorum náttúrulega hætt að sjá það eftir 5 mánaða sambúð með krílunum en í gær þegar þær voru báðar farnar og við brettum upp ermar og hófum tuskurnar á loft varð okkur ljóst sá óþrifnaður sem fylgir þessu. Reyndar væri ekkert mál að hafa kanínur í herbergi sem ekki væri með leiðslur og króka og kima upp eftir öllum veggjum. Það tók þónokkurn tíma að smeygja sér á milli allra þessa pípa til að ná í rykagnir.

En nú er það líka búið og eina sagið sem er í íbúðinni núna kemur frá Snæfríði Íslandssól hamstri, en hún er svo nett og hreinlát að ekki tjóir að tala um ryk af henni. Elsku strákarnir mínir, vonandi hafði þið það gott á nýjum heimilum ykkar, ég held að við Baldur eigum eftir að sakna ykkar meira en okkur grunar á þessari stundu.

miðvikudagur, 13. mars 2002

Secret Message of Satan

Þeir eru nú alveg endemis ruglaðir gaurarnir á baggalút. Fréttir dagsins eru m.a. af stofnun kynlausra samtaka á Íslandi, sinnar fyrstu tegundar á Norðurlöndum, núnú svo er fjallað um hinar miklu vinsældir ásatrúar í Kína og að uppáhaldsskurðgoð þarlendra sé Hænir. Mögnuðust þótti mér þó fréttin um kenningar þær sem séra Validmar Kolbeinz hefur í frammi varðandi gemmsana. Á baggalút segir:

Séra Valdimar Kolbeinz, sóknarprestur í Engey, heldur því fram að farsímar séu tól skrattans og hafi það hlutverk eitt að "sjúga úr fólki sálina". Í bréfi sem Sr. Valdimar sendi til símafyrirtækjanna setur hann fram kenningar sínar um að farsímar þurfi alls engar rafhlöður til að virka, heldur séu rafhlöðurnar einungis notaðar sem geymslupláss fyrir sálarparta sem búið er að fjarlægja úr notendum. Svo þegar búið er að ná sál notendans allri yfir í rafhlöðuna (að sögn Sr. Valdimars) er hún send til helvítis með SMS (Secret Message of Satan) skilaboðum. Beðið er eftir viðbrögðum símafyrirtækjanna.

Jahá, ekki er öll vitleysan eins.

þriðjudagur, 12. mars 2002

Elsku kisa

Í gær fór ég og kvaddi hana kisu mína, Skottulíus. Hún er orðin 15 ára gömul og orðin frekar sjúskuðu greyið, með gigt og allt saman þannig að það á að fara að svæfa litla greyið. Ætli það sé ekki best fyrir hana eins og ástatt er fyrir henni, hún nennir ekki lengur að standa upp til að gera stykkin sín. Þetta er samt skrýtið, kisa er búin að vera einn minn besti vinur í 15 ár og svaf alltaf á koddanum mínum öll mín æskuár, hennar vegna get ég ekki sofið með kodda því ég er svo óvön því :)

P.s. ég tók þetta blessaða kaffipróf hjá Froskunum og úrslitin komu mér skemmtilega á óvart, ég er Frappi! Þau hitta naglann í höfuðið því ég get ekki hugsað mér að drekka kaffi nema ískaffi í háu glasi með röri. Ansi töff.

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Frappuccino!
ískalt kaffi með mjólk og ísmolum, borið fram í háu glasi með röri.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?

sunnudagur, 10. mars 2002

Ég tók kaffiprófið hjá Froskunum áðan og fékk vottorð upp á það að ég væri Latti, hmmm. Mér finnst það nú bara kúl.

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?

Hvað haldiði að hafi gerst á nýja bílnum? Já svona er það nú, eitt dekkið fór að leka. Ég fór að sjálfsögðu og pumpaði íða og hugsaði sem svo að ég myndi pæla í því seinna. Þá kom samviskuengillinn á aðra öxlina á mér og sagði: "Baldur, dekk laga sig ekki sjálf, lagaðu það núna, ekki fresta því." Þá sagði púkinn: "Iss, það er nú bara peningasóun að henda aurum í gúmmítuðrur." Þá sagði engillinn: "Í fjögur skipti hlustaðirðu á fíflið á hinni öxlinni og hvað græddirðu? Ekki neitt."
Já kæru lesEndur ég fór á fyrsta dekkjaverkstæði sem ég sá og viti menn ventillinn var ónýtur og líklega hefði lekið úr dekkinu á einni nóttu og þá væri nú ekki eins gott í mér hljóðið.

miðvikudagur, 6. mars 2002

Skjóni kveður

Á mánudaginn kvöddum við Skjóna sem hafði þjónað okkur ansi vel og réðum nýjan starfskraft í stöðuna. Sá heitir Nolli og nú er bara að vona að hann standi sig eins og sá gamli. Enn sem komið er virkar hann fínt og hestöflin á maður ekki að nota hvunndags en það er gott að geta gripið til þeirra þegar þess þarf.

Það fyndna við kveðjustundina hans Skjóna var það að hann virtist rata heim til sín eins og allir góðir hestar, en þannig var að ég hafði skilið hann eftir hjá mömmu og pabba þegar sprakk á honum og svo á mánudaginn þegar ég var á leiðinni að redda málunum þá talaði ég við Ólöfu ömmu sem sagði bara það að ég þyrfti þess nú ekki. Enda var Skjóni þá á planinu í Holtó. En svona er það nú.

Ég vona samt að Nolli fari ekki að stinga af heim þegar ég er í vinnunni þó ég telji það ólíklegt þar sem hann er ekki eins veraldarvanur.

Svefnryk

Um helgina fórum við á bókaútsöluna í Perlunni og festum kaup í nokkrum bókum. Ég keypti m.a. Ljúlí, ljúlí eftir Guðrúnu Evu og kláraði hana í gær. Reyndar virðist eintakið hafa verið gallað því það vantaði endinn þar sem stóð eftirmáli. Í stað hans kom sami textinn og á fyrstu blaðsíðu, frekar tortryggilegt. Ég ætla að tékka á bókinni á bókasafninu og hrista af mér alla möguleika um að svona eigi þetta að vera áður en ég fer að hringja í útgáfufyrirtækið, hver veit, kannski er þetta hennar hugmynd að endi.

Hvað um það, ég var mjög ánægð með bókina og fannst hún vinna á undir lokin (fyrir utan þetta með endinn skiljanlega). Á einum stað í bókinni talar hún um hvernig það er þegar maður vaknar á morgnana alveg dauðsyfjaður og finnst eins og sandur sé undir augnlokunum. Ég kannast við tilfinninguna. Hún kallar þetta svefnryk og mér finnst það ágætisorð og ætla mér héðan í frá að nota það. Hún hefur líka gaman af því að breyta orðum, misskilningur verður að skilmysingi. Minnir mig á orðið fjölmiðlar sem varð mjölfiðlar, harhar.

Við fengum bílinn í hendurnar á mánudaginn og fórum strax í að snurfussa hann, henda kókflöskum og pússa innréttinguna. Við fórum síðan til pabba og þrifum bílinn inn í bílskúr, núna er hann eins og nýr. Ég þarf reyndar að venjast einu, Baldur tekur það svo svakalega alvarlega þegar hann er að keyra BANDARÍSKAN bíl að við sniglumst áfram. Hálfsorglegt að nota hestöflin ekki betur en Baldur nýtur þess í botn og það er víst vissara að halda í hesta sína í þessari færð (hold your horses young lady).

sunnudagur, 3. mars 2002

Hamingjuhrólfar

Já eins og lesendur gærdagsins sáu þá er Ásdís María orðin Chrysler eigandi. Hún stríðir mér nefnilega alltaf þegar ég fer að tala um Chryslera. Þess vegna ákvað ég í gær að gera smá skammastrik og skrá hana fyrir bílnumm hehe. Þannig að nú erum við bæði Chrysler-menn.

Já svona er þetta nú allt saman og á morgun er mánudagur og þá kemur bíllinn, eins og allir vita er það alltaf mánudagur til... múmínlukku og massamikilsmargvíslegsmeistarameðbróður! Það mun ekki væsa um okkur þegar við keyrum í gegnum mulluna, maður mumpar sig bara framan í hana.

laugardagur, 2. mars 2002

Dodge neon

Þá er það komið á hreint, ég, Ásdís María Elfarsdóttir, er hér með orðin eigandi að bíl í fyrsta skipti, þ.e.a.s. svona opinberlega í fyrsta skipti. Við festum kaup á bandarískum bíl sem gengur undir þremur nöfnum, og það besta er að maður ræður því alveg sjálfur hvert þeirra maður brúkar. Plymouth, Dodge og Crysler eru nöfnin sem í boði eru.

Bíllinn okkar er kóngablár (geðveikt flottur), '95 árgerð, 2 lítra vél, 4 strokka og 130 og eitthvað hestöfl. Við fáum hann reyndar ekki í hendurnar fyrr en á mánudaginn :( Ó, jæja helgar hafa sjaldan verið þekktar fyrir að líða hægt.

Að allt öðru og merkilegra, ég var að koma úr heimsókn frá Maríu vinkonu og var að sjá litla prinsinn í fyrsta skipti. Hann er núna orðin 1 mánaða og algjör bolti. Hann er algjört krílí, ég sat þarna í 3 tíma og starði bara og sagði af og til: Skrýtið! Ég tók 56 myndir af honum og birti nokkrar á netinu næstu daga.

föstudagur, 1. mars 2002

Jeremías Jónsson

Við erum alveg bit skal ég segja ykkur, við erum búin að komast að því að við eigum ekki bara eina síðu á netinu hvort heldur tvær! Athugið síðurnar asdis.com og baldur.com, þær eru mjög töff.

En annað kom okkur þó algjörlega í opna skjöldu, ættingjar okkar eiga hver sína síðu, án okkar vitundar. Hver vissi t.d. að Jói bær hag gyðinga fyrir brjósti? Þau hjón eru greinilega á fullu í allskyns mannréttindabaráttu, Ólöf berst t.d. fyrir jafnrétti fyrir alla. Mamma leynir greinilega á sér, hver vissi að hún hefði slíkan brennandi áhuga á bílum?

Andra brósa líður greinilega best við kyrrlát vötn og Stella Soffía býður upp á leitarþjónustu á vefnum. Eins og pabba var von og vísa er hann með fjármálasíðu á netinu og Ólöf amma styrkir ungar, kaþólskar konur til mennta. Kalli afi er á kafi í fjarskiptatækni og Pétur afi hefur tvær síður, pétur og pg. Að lokum býður Stella amma upp á leit að kvikmyndum og annarri afþreyingu.
Jæja, ég hef nú aldeilis góðar fréttir fyrir ykkur netverjana. Hahahaa! Við Ásdís erum svo heppin að eitthvað hugulsamt fólk út í heimi hefur opnað heimasíður fyrir okkur. Hér koma slóðirnar disa.com og balli.com. Kíkið endilega á síðurnar okkar, við lumum á ýmsu skrýtnu.

The Italian Who Dined in New York

Hér er einn ágætur:

The Italian Who Dined in New York
(must be read with an Italian accent, preferably out loud)

"One day ima gonna New York to bigga hotel. Ina Morning I go down to eat breakfast. I tella waitress I wanna two pissis toast. She brings me only one piss. I tella her I want two piss. She say go to the toilet. I say you no understand . I wanna to piss onna my plate. She say you better not piss onna plate, you sonna ma bitch. I don't even know the lady and she call me sonna ma bitch."

"Later I go to eat at the bigga restaurant. The waitress brings me a spoon and knife but no fock. I tella her I wanna fock. She tell me everyone wanna fock. I tell her you no understand. I wanna fock on the table. She say you better not fock on the table, you sonna ma bitch. I don't even know the lady and she call me sonna ma bitch."

"So I go back to my room inna hotel and there is no shits onna my bed. Call the manager and tella him I wanna shit. He tell me to go to toilet. I say you no understand. I wanna shit on my bed. He say you better not shit onna bed, you sonna ma bitch. I don't even know the man and he call me sonna ma bitch. I go to the checkout and the man at the desk say: 'Peace on you.' I say piss on you too, you sonna ma bitch, I gonna back to Italy."

Finally

Þá er ég búin í þessu blessaða þriggja daga prófi og óskaplega er þægilegt að vera laus við það af bakinu. Ég var svo þreytt eftir öll ósköpin að ég sofnaði klukkan hálf ellefu í gær og lét Baldri eftir að klára það sem við vorum að stússast. Við vorum nefnilega að sækja um stúdentagarða í Danmörku.

Við förum reyndar ekki fyrr en eftir rúmt ár en það er sko vissara að sækja tímanlega um. Það eru til ógrynnin öll af stúdentagörðum í Kaupmannahöfn, ætli við höfum ekki sótt um eina 20-30 garða? Ég veit það ekki, ég lagði ekki í að telja það.

Annars kláruðum við að horfa á Final Fantasy í gær og nörtuðum í bónuspizzu á meðan. Eftir fyrsta daginn í prófinu fannst mér ég hljóta eiga skilið smá pásu og þá horfðum við á fyrri partinn eða alveg þangað til ég fór að heyra hroturnar í Baldri, þá var ákveðið að fara að sofa. Þetta er soldið flippuð mynd, a bit gross, en mikið rosalega ná þeir að teikna eða hanna allt saman vel. Ég gleymdi því oft á köflum að þetta væri tölvugerð mynd fra a-ö því "leikararni" eru svo raunverulegir. Ætli þetta sé framtíðin, við teiknum bara leikarana og ljáum þeim síðan rödd okkar?