þriðjudagur, 26. mars 2002

Fuglahræðu í fuglabjargið

Ég var að koma af hinni margrómuðu nestisstofu Bókhlöðunnar þar sem ég lét svo lítið að innbyrða samloku með osti, gúrku og tómötum og einum banana (keyptum í Fjarðarkaup, vitaskuld). Ekki sat ég lengi ein að snæðingi því áður en ég vissi af hafði þessi annars kuldalega, gluggalausa og ofnlausa (ég kemst bara ekki yfir þetta) stofa fyllst af allskyns fólki héðan og þaðan (mest viðskipta- og lögfræðingar held ég).

Allir voru að narta í bakaríisóhollustu og kvartandi undan umbúðafarganinu sem fylgir einni lítilli (ekki svo lítil að mínu mati) skúffukökusneið. Þegar ég loksins yfirgaf nestisstofuna og opnaði dyrnar út í þöglan lessalinn varð mér ljóst þvílíkt ógrynni af hávaða var þarna inni. Þetta var eins og að vera staddur í fuglabjargi á varptíma, allir gaggandi.

SOS, okkur vantar nauðsynlega fuglahræðu hingað. Heimilisfang: Nestisstofan 4. hæð, Bókhlöðunni, Reykjavík, Ísland.