fimmtudagur, 31. maí 2007

Maístjarnan

Af einskærri hégómagirnd hef ég verið á höttunum eftir að skrifa færslu með titlinum Maístjarnan. Maístjarnan er vitaskuld ljóð eftir Halldór Laxness og hefst á þessum orðum: Ó hve létt er þitt skóhljóð. Hver þekkir ekki þessa línu utanað? Þurftum við ekki öll að læra lagið í barnaskóla?

Nú er seinasti dagur maímánaðar og því seinasta tækifærið til að skrifa um stjörnur í maí. Núnú, þær hafa ekki verið margar stjörnurnar sem ég hef séð á himinhvolfinu þennan maímánuð. Við stoppuðum reyndar eitt kvöldið á leið heim úr bíó eða veitingastað til að kíkja á stjörnurnar, en þar sem rúmið beið heima varð stoppið og glápið ekki langt.

Ég held því að aðalmaístjarnan sé Richard Gere. Já, sko Baldur sat kannski í sætinu hans James Bond en myndin Richard Gere is My Hero var frumsýnd í maímánuði hér í McLeod Ganj. Mér þykir þetta ansi augljóst.

miðvikudagur, 30. maí 2007

Úr viðgerð

Tveir af ferðafélögum mínum voru farnir að láta á sjá eftir stöðugan þvæling og mikla notkun. Þetta voru bakbokinn og gallabuxurnar. Gallabuxurnar hafa reyndar átt við gömul íþróttameiðsl að stríða um langt skeið þar sem þær eru orðnar ansi þunnar um hnakksvæðið eftir miklar hjólreiðar, þetta var ekki þeirra fyrsta innlögn.

Ég fór því með þetta tvennt til skraddara í gær og tók hann verkefnunum með brosi á vör. Hann rekur litla stofu í bárujárnsskúr hér rétt hjá og vinnur öll sín verk á handstigna saumavél sem virðist duga vel til verksins.

Skraddaraskúr

Rétt áðan sótti ég svo ferðafélagana og er nú heldur betur annað að sjá þá núna. Bakpokinn er eins og nýr en gallabuxurnar líkjast helst hátískuvarningi sem maður sér í búðum heima. Að neðan er mynd af gallabuxnaviðgerðinni.

Klofið klof

Góða fólkið í N-Indlandi

Þá er komið að seinni hluta færslunnar Góða fólkið í Indlandi.

Strax í flugvélinni á leið til Delhi hittum við mjög viðkunnalegan mann sem er fæddur og uppalinn í Kerala en hefur undanfarin sjö ár verið búsettur í Kanada með konu sinni og börnum. Þessi sami maður hjálpaði okkur þegar við vorum að skrá farangurinn okkar inn í vélina og síðan kom í ljós að við vorum sessunautar í vélinni. Það að hann skyldi tala kanadíska ensku og alltaf kalla okkur “guys” var mjög góð tilbreyting frá hinglish og því að vera kölluð sir og madam.

Í Agra kynntumst við hjólaléttivagnsstjórunum Lala og Rama. Það voru þeir sem létu okkur vita að frítt væri inn í Taj Mahal kvöldið sem við ætluðum út í smá rölt. Það voru líka þeir sem alltaf voru að bjóða okkur skoðunarferð um Agra. Þeir gerðu það hins vegar á svo ljúfan máta og brosmildan að það var skemmtilegra en hitt að þurfa að hrista þá af sér.

Þegar við fórum að kaupa okkur rútumiða frá Agra til Jaipur hittum við herra Pradeep Parashar. Við sátum og spjölluðum saman í tvo tíma eftir að hafa fest kaup á miðunum. Það kom í ljós að herra Deep eins og hann kallar sig vann á sínum yngri árum sem aðstoðarmaður mannfræðingsins Dr. Paul C. Winther og úr því samstarfi kom út þriggja binda verkið Panihar sem nefnt er eftir þorpinu sem rannsókn Winthers fór fram í.

Ekki nóg með það heldur kenndi herra Deep okkur ýmislegt áhugavert úr vedísku fræðunum en það sem helst stendur upp úr eru ráðleggingar um hvernig maður kemur sér úr döpru skapi yfir í gleðilegt skap:

1. Maður syngur
2. Maður dansar
3. Maður borðar góðan mat (góður er hér skilgreint út frá vedísku fræðunum en ekki persónulegum smekk hvers og eins)

Í Meherangarh virkinu í Jodhpur hittum við fyrir faglegasta og vingjarnlegasta starfsmann Indlands. Og hún stóð sig ekki bara vel í samanburði við aðra Indverja heldur var hún heimsklassastarfsmaður. Þar við við höfðum gleymt öllum skilríkjum á hótelinu gátum við ekki sett þau upp í tryggingu fyrir leiðarhljóðbók um virkið. Hún leyfði okkur hins vegar að setja gemmsana og nokkra rúpíuseðla upp í trygginguna og óskaði okkur svo frábærra ævintýra í virkinu: I wish you wonderful time as you embark upon your magnificent journey. Vá!

Í Jaisalmer veiktist ég í maganum fyrsta kvöldið. Við sátum á tíbetskum veitingastað og vorum búin að panta okkur þegar flökurleikinn tók yfir. Ég varð að sitja með höfuðið milli fótanna í tröppum veitingastaðarins, föl og hvít. Þjónninn stakk upp á lemon sóda, skrifaði niður nafnið á ayurvedíska magalyfinu Pudin Hara og sendi okkur heim með tvær límónur í farteskinu.

Elskulegi hótelstjórinn okkar í Amritsar, sem við höfðum daginn áður prúttað mikið við um verð á herberginu, skutlaði okkur svefndrukkinn og ringlaður á spítala þegar Baldur var veikur. Hann túlkaði milli okkar og læknisins, náði í lyfin og lagði síðan út fyrir öllu saman.

Hér í McLeod Ganj eru allir vinalegir og því svolítið erfiðara að sigta út skærustu blómin þegar blómahafið er svona fallegt :o) Það er madamman á Gakyi og allt hennar brosmilda starfsfólk, það er úbertöffarinn á Nick’s og sá röggsami á Nick’s sem við köllum okkar á milli býfluguna, það er Bir Singh á McLLo sem er þjónn á heimsmælikvarða, það er litli búddinn á Kokonor sem er vandvirkasta manneskja heims, það er Diggí á Jimmy’s sem er svo ræðin og hress og opin...

Ég veit varla hvar ég á að hætta en ég held ég láti þennan lista duga. En kannski einn í viðbót. Ég held nefnilega að það sé óhætt að fullyrða, þó ég hafi ekki beina reynslu af því sjálf, að Dalai Lama geti fengið að fljóta með í hópnum góða fólkið í N-Indlandi.

Kveðjuhóf

Jamie göngufélagi minn er að fara að flytja til Chiang Mai á morgun, lukkunapamfíllinn sá, eftir tveggja ára dvöl hér í McLeod Ganj. Í tilefni af því bauð hann okkur og fleiri vinum sínum í kveðjuhóf á ítalskan veitingastað hér í götunni okkar.

Þessi veitingastaður er einn af þeim fáu sem við höfum getað hugsað okkur að borða á í kringum veikindin. Því var það svo að þetta var þriðja kvöldið í röð sem við borðuðum á staðnum, sem betur fer er maturinn mjög góður og ungi búddinn sem þjónar til borðs setur mjög hlýlegan svip á staðinn.

Eins og öll almennileg kveðjuhóf endaði þetta í allsherjar kjaftagangi og vorum við að sjálfsögðu síðustu gestir út.

mánudagur, 28. maí 2007

Góða fólkið í S-Indlandi

Ég veit ekki hvaða hugmyndir þið kæru lesendur hafið um Indverja eftir að hafa fylgst með ferð okkar fram til þessa. Kannski hafið þið fengið verri mynd af þeim en sanngjarnt er þar sem maður á það til að tala frekar um það sem fer í taugarnar á manni heldur en það sem vel er gert.

Þannig hafið þið fengið að lesa um að Indverjar stara á mann hvert sem maður fer, hóa í mann, eru utan í manni, vilja helst gleypa mann með húð og hári. Allir vilja þeir taka í höndina á okkur og fá mynd af sér með okkur. Við höfum meira að segja lent í því að sitja á góðu veitingahúsi að snæða kvöldverð þegar Indverji af götunni kemur inn og ætlast til að við stöndum upp frá matnum til að pósa fyrir framan myndavélina.

Þetta er allt rétt og satt, svona er þetta í Indlandi. Ég hefði reyndar orðið sársvekkt hefðum við ekki lent í neinu slíku og ekki fundist reynslan af Indlandi vera nógu “ekta”. En svo eru það skemmtilegu atvikin sem ég hefði heldur ekki viljað missa af og langar mig nú í tveimur færslum að tala um góða fólkið í Indlandi. Ég ætla að skipta þeim eftir suður og norður Indlandi, og byrja á sunnanmönnum.

Góða fólkið fyrir sunnan var:
o Gaurinn á lestarstöðinni í Mumbai sem þekkti til Íslands og meira að segja Reykjavíkur og bjargaði okkur undan betlurum. Og við sem höfðum stimplað hann róna og reynt að forðast hann!

o Nuddarinn í Goa sem gaf okkur góð ráð við niðurgangi, sagði okkur að drekka kókoshnetuvatn (þó svo að annað okkar hafi reyndar misskilið það sem water from cock).

o Strákarnir tveir í Hampi sem stukku úr buxunum sínum og óðu á undan okkur yfir ánna í niðamyrkri til að koma okkur yfir á hinn bakkann eftir að við misstum af síðustu ferjunni.

o Samstarfskonur mínar Elizabeth og Asha í Bangalore sem sýndu okkur svo mikla umhyggju og áhuga.

o Fjölmiðlafræðingurinn frá Kalkutta sem við hittum í Bangalore sem var svo áhugasamur um Ísland og var svo kurteis og vel máli farinn.

o Sætu flugustelpurnar hans Geira sem gáfu okkur rauða vatnsmelónu.

o Baptistinn í Kumily sem vann á netkaffi fjölskyldunnar og sagði okkur að Jesú Kristur byggi í hjarta okkar. Við eigum heimboð til hans og fjölskyldunnar en þá þurfum við örugglega að lesa Biflíuna á hverjum degi.

o Mæðginin í Alappuzha sem elduðu fyrir okkur besta morgunverð sem sögur fara af og sýndu okkur fjölskyldumyndir.

o Þjónninn í Kochi sem lánaði okkur risaregnhlífina í rigningunni miklu.

Fólkið í Suður Indlandi er nú einstaklega ljúft!

sunnudagur, 27. maí 2007

Á sjúkrabeði, III

Eins og algengt er með kvikmyndir kemur þessi líka í þremur hlutum, vonandi ekki fleiri samt. Það verður samt að segjast eins og er að nýja myndin hefur ekkert framyfir hinar ef frá eru talin nokkur ansi vel skrifuð uppkastsatriði.

En þegar söguþráður fyrri myndanna er farinn að endurtaka sig í magaverkjum og niðurgangi má segja að botninn fari aðeins úr myndinni. Einn meginmunur er þó á þessari nýjustu afurð Sjúkrabeðs seríunnar og liggur hann í því að aðalleikararnir hafa víxlað hlutverkum. Ásdís sem var í hlutverki vakthafandi yfirlæknis í myndum eitt og tvö lá nú rúmföst en frægasti sjúklingur seríunnar, Baldur, var kominn í læknasloppinn.

Það má segja að myndin hafi í heildina tekist ágætlega en sökum frumleikaleysis er verið að hugsa um að skipta um leikara og taka upp 600 þátta sápuóperu. Hafa nöfnin Tágrannar, Neyðarljós og Skítalalíf verið orðuð við hina nýju sápu, en hverjum er ekki sama.

laugardagur, 26. maí 2007

Mugfliðakaup

Nú styttist í að dvalarleyfi okkar hér í Indlandi renni út og erum við því farin að hugsa okkur til hreyfings. Það fer reyndar það vel um okkur hér í fjöllunum að við nennum varla að fara nokkuð því sama hvert stefnan er tekin þá liggur leiðin alltaf til Delhi og þar er hitinn 45-48°C!

Í dag horfðumst við þó í augu við þessa staðreynd af nægilega mikilli alvöru til að úr yrðu mugfliðakaup. Miðakaupin voru svosum bæði ævintýri og ferðalag í sjálfu sér. Fyrir það fyrsta var gaurinn sem rekur ferðaskrifstofuna svo eiturhress að leitun væri að öðru eins ef ekki hefði verið fyrir kjölturakkann hans sem ætlaði alveg að springa úr félagslyndi.

Þarna var líka þýsk vinkona gæjans sem var nýkomin frá Srinagar í Kashmir og fengum við heldur betur fróðleiksmolana um Kashmir og íbúa þess frá ferðaskrifstofugaurnum. Hann sagði þá svo tungulipra, segja eitt, meina annað og gera allt annað. Sterkasta dæmið var að þeir gætu stungið mann í bakið án þess að maður fattaði það.

Að lokum kom þó að greiðslu og kaus ég að nota kort svo að ferðatryggingarnar héldust í fullu gildi. Ekkert mál félagi, við förum bara í næsta hús og straujum það! Þar tók á móti okkur maður með skærappelsínugulan posa og sagði sá: Ekkert mál félagi, við förum bara yfir götuna og tengjum hann þar! Svo brostu þeir báðir, ypptu öxlum og sögðu: Svona er þetta í Indlandi.

Þetta var semsagt ævintýri og ferð í sama pakkanum auk þess sem við fengum skemmtilega innsýn í tengslanet tíbetskra flóttamanna í Indlandi. Þeir standa saman, eru eiturhressir og eiga fallega hunda.

föstudagur, 25. maí 2007

Heimsókn frá Svíþjóð

Morgnarnir hér á Green Hotel eru stundum svolítil áskorun fyrir eyrun því inn í herbergið berast öll hljóð af götunni: Bílflautur, búðaeigendabrölt, hringlur betlandi hindúa, hundsgelt, beljubaul og mótorhjólagnýr. Maður er nú orðinn öllu vanur en eitthvað teygði þetta sig inn í drauma mína.

Í morgun dreymdi mig að ég og Ásdís værum að passa Áslaugu Eddu og var, eins og við má búast, glatt á hjalla. Áslaug Edda lék við hvurn sinn fingur og veifaði háværum plasthringlum af miklum móð. Eftir smástund varð ég þreyttur á hringlunum og bauð henni önnur leikföng en hún vildi ekki sjá þau.

Ég rótaði um allt og bauð henni enn fleiri leikföng, hljóðlaus leikföng, en allt vildi fyrir ekki því hristur skyldu það vera. Ekki man ég glögglega hve lengi þetta gekk á en að lokum fattaði ég að litla frænka var alsaklaus af þessum hávaða. Þetta voru hinir hristuóðu og fégráðugu hindúar, menn af holdi og blóði en ekki draumverur.

Þeir hafa þann sið að ganga á milli hótela og verslana með hringlur og reykelsi og biðja um peninga í skiptum fyrir blessun. Venjulega henda búðareigendur í þá einhverju klinki því ekki er reykelsið alltaf ilmgott og því engin blessun fyrir viðskiptin. Sennilega telst það blessun að vera snöggur að borga því þá stoppa þeir stutt.

fimmtudagur, 24. maí 2007

Á sjúkrabeði, II

Lífið heldur áfram að endurtaka sig fyrir okkur skötuhjú. Eftir spítalaferð Baldurs um daginn versnaði honum stöðugt og í dag var svo komið að ég fór í Snow Lion apótekið til að kaupa sýklalyf og sölt með appelsínubragði. Á leiðinni heim kom ég við í litla súpermarkaðnum og keypti Pepsí og Snickers.

Eftir að hafa tekið "töfrasteinana" og drukkið vel af saltlausninni og Pepsínu sofnaði okkar maður værum og kærkomnum svefni. Það er ólíkt þægilegra að vera veikur hér í McLeod Ganj en í Amritsar. Hitinn hefur að sjálfsögðu mest að segja, hér er veðrið alltaf eins og á góðum sumardegi á Íslandi. Annað sem einnig skiptir máli er að hér er allt til alls og það í seilingarfjarlægð. Ólíkt Amristar er mér óhætt að fara einni út fyrir hússins dyr til að sækja björg í bú.

Eins og stendur eru innkaupin fyrir sjúklinginn mjög einföld, það eina sem Baldur hefur lyst á þessa dagana er Snickers og gosdrykkir.

miðvikudagur, 23. maí 2007

Apinn sem stal eplinu mínu

Ég sat á svölunum í dag og las eins og venjulega. Í þetta sinn hafði ég sankað að mér ýmsu dóti sem ég hafði dreift um allar svalirnar. Það var vasahnífur á öðrum kollinum, sæng til viðris á svalahandriðinu, kexpakki í gluggakarminum, bréfpoki með eplaskræli á gólfinu og ofan á honum rautt og girnilegt epli.

Ég ákvað að taka mér smá hvíld frá sólinni og fór inn. Ég lagðist upp í rúm þannig að ég sæi eitthvað út á svalir. Ekki vildi ég nefnilega að apinn færi að endurtaka heimsókn sína án minnar vitundar.

Til að sem best færi um mig hafði ég hátt en mjúkt undir höfði og bók í hönd. En ég dottaði og vissi ekki af mér fyrr en ég rumskaði, kannski hálftíma síðar. Ég fór þá út á svalir til að teygja úr mér. Í fyrstu tók ég ekki eftir neinu óeðlilegu jafnvel þó ég kíkti, allt virtist vera á sínum stað. Síðan varð mér litið á eplið mitt: það eina sem eftir var af því var bleika plastfrauðið. Mér varð svo hverft við því ég trúði ekki að apinn hefði leikið svona á mig. Ég leitaði af mér allan grun og komst þannig að því að allt hafrakexið var horfið og meira að segja hýðið úr bréfpokanum.

Ég veit ekki hvort þetta var vinur minn frá því í fyrradag en hver svo sem það var vona ég að hann hafi notið veiganna í botn. Ekki gat ég grátið eplið sem var "mitt", mannasetningar á borð við eignarétt og stuld eru nefnilega ekki til í hugum apa.

þriðjudagur, 22. maí 2007

Á spítalann, II

Einu sinni, einu sinni enn var sungið í einhverju júróvisjónlaginu og hefur þessi lína komið í huga minn mjög reglulega síðustu fimm vikur. Yfirleitt hef ég annaðhvort verið kominn eða á leiðinni á klóið þegar laglínan hefur látið á sér kræla. Ég hef semsé verið með stöðugan niðurgang í fimm vikur ef hægt er að kalla niðurgang stöðugan.

Einu sinni, einu sinni enn gerði ég mér því ferð á sjúkrahús en ólíkt síðustu ferð var ég að þessu sinni vopnaður litlu glasi sem innihélt sýnishorn af því hvernig meltingarvegurinn virkar ekki. Ég deildi leigubíl með belgískri kunningjakonu sem einmitt átti sama eirindi við spítalann. Meðan beðið var eftir niðurstöðum settumst við á kaffihús og ræddum málin.

Skoski læknirinn doktor John tók svo á móti mér og útskýrði niðurstöður rannsóknarinnar. Eitthvað vissi hann um íslenska menningu og sagði mér í framhjáhlaupi að við hefðum gleymt nokkrum genum í heimalandi hans fyrir nokkrum árhundruðum. Ég kvaðst alsaklaus af því og lét hann mér þá í té upplýsingar um að í Skotlandi sé staður sem beri merkingarlega nákvæmlega sama nafn og Reykjavík. Ekkert af þessu var þó að finna í glasinu sem ég kom með til rannsóknar.

Samkvæmt greiningu doktorsins var ekki um matareitrun að ræða þarna í Agra um daginn, heldur amöbur. Þetta frumstæða lífsform hefur nú til allrar hamingju yfirgefið mig en meltingarvegurinn er enn eitthvað skelkaður og berst nú við afleiðingar skemmdarverkanna. Doktor John skrifaði því lyfseðil fyrir töfrasteinum þeim er sýklalyf heita ef ástandið hefði ekki lagast innan tveggja daga. Nú er bara að sjá hvað setur.

mánudagur, 21. maí 2007

Svalapar

Í dag, einu sinni sem oftar, sátum við Ásdís og lásum bækur í þægilegri forsælu svalanna. Yfirleitt erum við þar óáreitt ef frá eru taldar skemmtilegar kjaftatarnir við nágrannana og tai chi einkatímar sem fara fram á planinu fyrir neðan.

Í dag bættist fallegur loðinn vinur í kreðsinn, bráðfimur og félagslyndur api. Okkur brá töluvert og höskuðum okkur inn því þó þetta séu meinleysisgrey eru góðar líkur á hundaæði ef eitthvað fer úrskeiðis, ekki eins og í Disney. Ég náði að festa á filmu þegar svalaparið eða svalaparnir áttu í orðalausum en djúpstæðum samræðum um náttúrufegurð Himalayafjallanna.

Svalapar

sunnudagur, 20. maí 2007

Morðsaga úr fjöllunum

Elskulegu lesendur, örvæntið ekki! Ég og Jamie komum báðir heilir úr göngunni í gær en á leiðinni sagði hann mér afar krassandi sögu úr nágrenninu. Hún byrjaði þannig að þegar við vorum komnir niður gilið og að ánni hér fyrir neðan benti Jamie upp eina hlíðina og sagði: Þarna er hótelið þar sem morðið var framið. Þetta sagði hann eins og um almenna vitneskju á borð við glímu Grettis við Glám væri að ræða. Ég hváði.

Þannig reyndist þá mál með vexti að nokkrum dögum áður en ég og lagskona mín komum til bæjarins var framið morð. Enginn skal halda að norðanmenn hér séu öðruvísi en annars staðar því sögunni fylgdi að vitanlega voru eingöngu utanbæjarmenn flæktir í málið.

Já og þá er sagan búin, neeeii djók. Fórnarlambið og morðingjar hennar, tveir ungir karlmenn, komu hingað frá fylkinu Punjab (öll indversk) og skráðu sig inn á hótel. Ekki stöldruðu karlarnir þó lengi og yfirgáfu hótelið fljótlega, kvenmannslausir og með lítinn farangur.

Eitthvað þótti hóteleiganda andrúmsloftið einkennilegt því hann ákvað að athuga hvort ekki væri allt með felldu í hinu nýleigða herbergi. Kannski heyrði hann eitthvað á borð við dynki eða óeðlilega háreysti, það fylgdi ekki sögunni. Hann bankar á dyrnar án þess að viðbragða verði vart úr herberginu. Hann bankaði meira en brá að lokum á það ráð að opna herbergið og blasti þá við honum nokkuð sem hann óraði sjálfsagt ekki fyrir og fáir vilja finna í sínum húsum.

Í herberginu blasti afhausaður kvenmannsbúkur við aumingja manninum, sami búkur og skömmu áður hafði borið höfuð og skráð sig inn á hótelið. Gera má ráð fyrir að aðkoman hafi verið frekar ömurleg því ef konan hefur verið lifandi þegar hún var hálshöggvin hlýtur blóðið að hafa spýst upp um alla veggi. Jafnvel þótt hún hafi mögulega verið dáin þegar hausinn var skilinn frá búknum gerir það upplifun hóteleigandans ekki skemmtilegri.

Farangur mannanna reyndist því vera höfuð konunnar og fannst það innpakkað í poka sem lá á veginum sem við búum við tveimur dögum síðar og er ég bara nokkuð ánægður með að hafa sloppið við að reka tærnar í eitthvað einkennilegt þungt rusl á veginum. Ekki fylgdi sögunni hvort ástæður morðsins væru einhverjar en ungu mennirnir voru víst að vinna fyrir konuna.

Að sögn Jamies telst málið upplýst því pokinn sem hausinn var settur í reyndist vera frá einhverri lítilli og sérhæfðri verslun í heimabæ þessara dularfullu gesta. Það reyndist því auðvelt að finna út hvaða viðskiptavinir hennar stóðu að ódæðisverkinu. Klókindi og morð fara víst ekki alltaf saman en ætli klókindi og það að vera utanbæjarmaður fari nokkurn tímann saman?

laugardagur, 19. maí 2007

Gönguferð um fjöllin

Í dag átti ég stefnumót við Jamie vin minn og var gönguferð um fjöllin á döfinni. Þar sem við erum í Himalaya fjöllunum er svo sem hægt að segja að hvert sem ferðinni sé heitið þá er það alltaf gönguferð um fjöllin en það er önnur saga.

Þar sem Jamie hefur búið hér í tvö ár og er vanur göngumaður þekkir hann ýmsar leiðir hér í grenndinni og veit hvað er markvert að sjá. Leiðin sem hann valdi fyrir okkur reyndist gullfalleg og friðsæl, úr alfaraleið túrhesta og sölumanna.

Til að byrja með lá leiðin niður að á sem rennur í gegnum gil hér rétt fyrir neðan og þaðan upp á fjallið sem ég horfi alltaf á af svölunum á hótelinu. Á leið okkar hittum við fólk sem býr afskekkt frá skarkala heimsins, svolítið eins og tímaferðalag eða í það minnsta ferð í aðrar víddir. Fólkið tók okkur brosandi, sumir kinkuðu vinalega kolli, aðrir heilsuðu upp á Hindí: Namaste.

Tvisvar á leiðinni gengum við fram á pínulitla og afskekkta barnaskóla og það er alveg á hreinu að þessi börn taka ekki skólabílinn til að komast þangað, eina leiðin eru slóðar troðnir af sandölum, tám og klaufum. Þegar okkur bar að fyrri skólanum var drekkutíminn að byrja. Börnin gengu í litlum halarófum út úr skólanum og af skólalóðinni hvert með sína blikkskálina fulla af hrísgrjónum og linsubaunadali.

Áfram gengum við og náðum að lokum upp á toppinn, þeir eru margir hér um slóðir en þetta var okkar toppur. Við blasti útsýni yfir nærsveitir, önnur fjöll þar á meðal hæðina sem hótelið okkar Ásdísar stendur á. Þetta var sérdeilis fallegur dagur, heiðskýr og sólríkur svo skyggnið var mjög gott. Á andartökum sem þessu er ekki aðeins auðvelt að njóta þess að vera í núinu, það kemur algerlega að sjálfu sér.

Séð yfir að McLeod Ganj

Einhvers staðar segir að það sem fari upp komi aftur niður og það gerðum við en þegar við vorum komnir niður þurftum við að arka upp aftur því hótelið er, eins og áður segir, í enn einni hlíðinni. Ferðin tók nálægt sex klukkustundum í heildina að meðtöldum tveimur stuttum stoppum og fann ég til þægilegrar þreytu í lærum og kálfum þegar við settumst á veitingastað hér rétt hjá í ferðalok.

Enn einn ótvíræður kostur við að þekkja alvanan mann eins og Jamie er sá að hann veit sko hvar er hægt að fá eftirrétti sniðna að bragðlaukum sælkera. Eftir veitingastaðinn kíktum við á stað sem selur súkkulaðikökur sem eru heimsfrægar hér um slóðir. Ég keypti tvo bita, fór heim til Ásdísar og saman smjöttuðum við á góðgætinu en skildum þó ekkert í því hvers vegna ég keypti bara tvo bita.

Vakin um miðja nótt

Í nótt dreymdi mig skringilega. Úti voru þrumur farnar að óma um himingeiminn og undirmeðvitundin skynjaði það og gerði úr því draum. Mér fannst sem sagt að einhver maður, sem ég skynjaði að ég þekkti, stæði í brekkunni fyrir neðan hótelið okkar og væri að magna upp þrumuveðrið. Það fyllti mig sérkennilegri tilfinningu, mér fannst það hálfóhuggulegt.

Og allt í einu var ég glaðvöknuð, veðrið úti sá til þess. Mér heyrðist vindurinn vera að færast í aukana svo ég stökk fram úr til að bjarga þvottinum af svölunum frá því að feykjast um allar sveitir. Þá var það hellidemba sem var skollin á en ekki vindur. Þvotturinn, hálfþurr aðeins einni mínútu fyrr, var nú orðinn rennblatur. Við Baldur bárum hann inn í eins miklum flýti og myrkrið leyfði okkur og fundum hverri flík stað í herbergi: handklæðin ofan á skápshurðirnar og hettupeysa með, gallabuxur á snaga inn á baðherbergi, bolur á handklæðaslá o.s.frv.

Það tók okkur síðan nokkra stund að sofna aftur, þrumurnar voru svo háværar, rigningin svo ofsafengin og eldingarnar svo bjartar að herbergi okkar minnti helst á diskótek. Þá stóð mér líka smá beygur af þrumuveðrinu eftir drauminn sérkennilega og í ofanálagt var ég alltaf að fara yfir það í huganum hvort allar flíkur væru komnar inn úr óveðrinu.

Núna er hins vegar kominn morgun og skínandi morgunsól. Þvotturinn er kominn út á svalir og þornar hratt og allur beygur er á bak og burt. Ég man ekki einu sinni eftir draumnum sem kallaði fram þennan beyg, hvað þá meir.

föstudagur, 18. maí 2007

Sókrates og félagar

Í bókinni sem ég er að lesa um þessar mundir, The Mustard Seed, vitnar höfundurinn Osho oft í aðra heimspekinga, suma sem ég kannast við og aðra sem ég veit lítið sem ekkert um. Þannig setur hann boðskap Jesú í samhengi við austræna speki eins og Zen og Vedafræðin en einnig sálfræði og gríska speki. Þetta gerir hann til að koma í veg fyrir að fólk tengi Osho nafnið við ein trúarbrögð, trúarhóp eða heimspekistefnu.

Af þeim heimspekingum sem hann hefur minnst og sem ég hef áhuga á að kynna mér frekar eru Búdda, Mahavira, Zarathustra, Lao Tzu og Sókrates. Svo má ekki gleyma blessuðum Mulla Nasruddin, bókin er öll full af frásögnum af honum. Hann telst þó varla til heimspekings.

Eins og ég sagði þá var forvitni mín á hugmyndum þessara heimspekinga og verka vakin. Til að byrja einhversstaðar ákvað ég að kynna mér Sókrates fyrst. Ólíkt öðrum menntskælingum lærði ég ekkert um gríska heimspeki á sínum tíma og verð því að gjöra svo vel og viða að mér þeim upplýsingum núna, kæri ég mig um að vera lesin á því sviði.

Í gær hlóð ég semsé niður nokkrum vefsíðum með upplýsingum um Sókrates og heimspeki hans. Í dag settist ég svo spennt niður og hóf lesturinn. Ég rakst hins vegar fljótlega á vegg. Svo virðist nefnilega í pottinn búið að ef maður vill kynna sér Sókrates verður maður líka að kynna sér Plató, þar sem Sókrates skrifaði ekkert sjálfur og öll heimspeki hans er samankomin í ritum Platós. Vandamálið sem skapast við þetta fyrirkomulag er að erfitt er að greina á milli raddar hans og raddar Sókratesar. Svolítið eins og að reyna að greina dansarann frá dansinum.

Svo nú er ég aftur komin á netið, leitandi að upplýsingum um Plató svo ég geti frætt mig um Sókrates.

fimmtudagur, 17. maí 2007

Skorkvikindin

Það er ekki hægt að hafa verið í Indlandi í fimm mánuði og ekki segja eitt orð um skorkvikindin hér. Þau eru af ýmsu tagi, ýmsum litum og lagi og af nógu er að taka. Gefðu mér maura, segirðu. Gjörðu svo vel, beint frá Auroville. Gefðu mér kakkalakka, segirðu. Gjörðu svo vel, beint úr örbylgjuofni í Bangalore. Gefðu mér mýflugur, blinda flugmaura, fljúgandi kakkalakka, sporðdreka, húsflugur, drekaflugur, bjöllur stórar og smáar, köngulær loðnar og litaðar, fiðrildi dags og nætur, þúsundfætlur feitar og langar, segirðu. Listinn er nær ótæmandi en komdu til Indlands, þar er úrvalið frábært.

Í Auroville voru maurar okkar helsta plága. Þeir voru allstaðar: upp á borðum, ofan í diskum, inn í innkaupapokum, upp um alla veggi og skápa, jafnvel í óhreina tauinu. Maurar eru mjög upptekin skorkvikindi: flytja þetta fiðrildi gegnum stjarnfræðilega litla sprungu á veggnum, bera brauðmola af eldhúsborðinu lengst upp í rjáfur, draga kexpakka þvert yfir gólfið. Okkar helsta dægrastytting var að stríða maurunum. Ef maður bleytir fingur með munnvatni og strýkur honum yfir mauraslóð þannig að hún þurrkist út á einum kafla verða þeir alveg ringlaðir og vita allt í einu ekkert í sinn haus. Og það tekur þá furðulangan tíma að átta sig á hvernig skuli tækla slíkar aðstæður. Kannski geri ég of miklar kröfur til vitsmuna þeirra.

Hér í McLeod Ganj er það húsflugurnar sem pirra mig hvað mest. Þetta eru hinar hefðbundnu húsflugur sem við þekkjum að heiman þó Baldur vilji reyndar meina að þar séu þær litríkari. Ég veit ekkert um það en get hins vegar staðfest að þær kunna sig betur heima, þær sækja kannski í matvæli en láta mann sjálfan að mestu vera. Flugurnar hér eru öðruvísi, þær eru alltaf utan í okkur og gefa okkur ekki stundarfrið. Meira að segja skorkvikindin hér á landi eru uppáþrengjandi.

Þegar maður sefur setjast þær á andlitið og helst varirnar svo mann kitli sem mest og rjúki upp bálreiður. Í hugleiðslu sækja þær í lófana og fingurna, dingla sér þar eins og um sé að ræða félagsmiðstöð. Svo er líka afskaplega pirrandi þegar þær fljúga í hárið á manni en þangað sækja þær mjög. Mig grunar að það sé hunangsjampóið sem ég nota. Ergo: ég hlakka mest til að sjampóbrúsinn klárist.

Sakleysislega spurningin

Við borðuðum í kvöld á Jimmy’s Italian Kitchen sem ég held að lesendur dagbókarinnar ættu að vera farnir að kannast við. Við borðum þar ansi oft þessa dagana og ástæðan er einföld: maturinn er góður, staðurinn verlega huggulegur og sú sem rekur staðinn, Diggí, er mjög alúðleg og ræðin. Svo skemmir heldur ekki að hún hefur góðan tónlistarsmekk, hvergi annarsstaðar höfum við t.d. fengið að hlusta á Jack Johnson.

Við höfum hingað til aðeins spjallað lítillega við Diggí en það hefur verið nóg til að sannfæra okkur um að hún er mjög góð í ensku. Í kvöld tókum við síðan eftir því að hún talaði við einn af kokkunum á hindí. Baldur spurði því af kurteisi og áhuga sakleysislegrar spurningar: “Hversu mörg tungumál talarðu eiginlega?”

Spurningin leiddi okkur út í áhugavert spjall sem stóð yfir alla máltíðina. Við komumst t.d. að því að Diggí talar frönsku því hún hlaut alla sína menntun fram að háskóla í klaustri í Pondicherry, klaustrinu sem er á vegum Móðurinnar, en Móðirin er einmitt sú sem byggði Auroville. Við fengum líka að vita að menntunin sem boðið er upp á í klaustrinu er óvenjuleg að því leyti að mikið er lagt upp úr því að nemendur verði meðvitaðir um sjálfa sig og umhverfi sitt og mikil áhersla er lögð á sjálfstæði hvers og eins. Þá lærðu þau einnig heimspeki Sri Aurobindo og öll kennsla fór fram á frönsku.

Við fengum líka að vita að Diggí ætlaði upphaflega að læra tölvufræði en leiddist út í að læra sanskrít, og til að læra sanskrít þarf maður að fyrst að ná góðum tökum á hindí. Hún kláraði B.A. í sanskrít og þýðingum og vann sem þýðandi áður en hún fór út í veitingahússrekstur. Hún þýddi m.a. fornrit úr Palí (tungumáli Búdda) yfir á sanskrít.

Að lokum fengum við að vita að fjölskyla hennar býr í Kathmandu í Nepal. Diggí ólst hins vegar upp í Pondy og fyrir vikið talar hún ekki nepölsku. Einhvern veginn nær hún samt að bjarga sér. Þegar hún er á markaðnum í Kathmandu blandar hún bara saman bengalí og hindí og nær þannig að gera sig skiljanlega í eyrum Nepalanna.

Sakleysislega spurningin varð semsé að smáævisögu! En hvert er svo svarið við spurningunni? Hvað talar Diggí eiginlega mörg tungumál? Sko, hún talar frönsku, ensku, tíbetsku, hindí, sanskrít, bengalí, tamíl og getur lesið Palí. Engin furða að það tók allt kvöldið að svara spurningunni, þetta er langur listi!

miðvikudagur, 16. maí 2007

Í sporum stórstjörnu

Fyrir tilstilli Dalai Lama og Tíbetanna í McLeod Ganj er bærinn einskonar pílagrímsstaður fyrir búddista hvaðan að æva. Á meðal þeirra sem heimsótt hafa staðinn eru stórstjörnurnar Richard Gere, Goldie Hawn og Uma Thurman. Richard Gere er meira að segja í svo miklum metum hér á bæ, fyrir að vekja athygli á málstað Tíbeta, að í bígerð er kvikmynd úr smiðju Tíbeta sem kallast Richard Gere Is My Hero.

Þrátt fyrir allan þennan stjörnuljóma höfum við ekki rekist á neinar stórstjörnur. Engu að síður höfum við fengið okkar skerf því í kvöld þegar við vorum sest inn á veitingastað fengum við að vita að Pierce Brosnan, sjálfur James Bond, borðaði á staðnum ekki alls fyrir löngu. Og ekki nóg með það heldur sat Baldur í sama stól og Brosnan. Þjónninn kom meira segja með mynd af leikaranum því til staðfestingar. Og hann fræddi okkur um hvað Brosnan pantaði sér: chicken tikka masala, butter naan og bjór.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Baldur og Bond fara saman. Sumarið 2001 héldum við í Evrópureisu og fyrsta stopp var London. Þar gistum við á fínu hóteli við Queen’s Gate Gardens. Svo skemmtilega vildi til að herbergið okkar var númer 007.

Einn morguninn var hringt í okkur inn á herbergi úr móttökunni og Baldur svaraði, nýlega vaknaður og ringlaður. Starfsmaður hótelsins hóf samtalið á því að ávarpa Baldur kurteisislega með eftirnafni. Hann átti hins vegar eitthvað erfitt með að bera fram Jóhannesson, svo mikið reyndar að Baldri fannst hann hljóta að vera að fara herbergisvillt. Til að hjálpa manngreyinu að átta sig á því að líklegast hefði hann hringt í rangt númer sagði Baldur hátt og snjallt í símtólið: This is Double O Seven. Eftir það fengum við alltaf sérstakt bros frá starfsfólkinu í móttökunni.

mánudagur, 14. maí 2007

Fyrri líf og framandi plánetur

Ég sat í dag á kaffihúsi og las í bók. Aldrei þessu vant var ég nefnilega einn á kaffihúsi, Ásdís heima að lesa á svölunum eins og henni er einni lagið. Þegar maður er einn á kaffihúsi er allt í lagi að lesa í bók.

Núnú, það var margt um manninn á kaffihúsinu og notaleg stemmning. Á næsta borði við mig sitja tvær virðulegar dömur á spjalli og komst ég ekki hjá því að heyra dágóðan hluta af því sem þeim fór á milli, nýjunga-radarinn sá til þess.

Sú eldri, sem var um sjötugt, spyr þá yngri, sennilega á fertugsaldri, hvar hún hafi fengið krafta sína. Án þess að blikna svaraði hún að kraftarnir hefðu komið úr kristal á fjarlægri stjörnu í fyrra lífi. Ýmislegt fór þeim fleira á milli en ég verð að játa að þetta stóð helst upp úr.

Auðvitað var ég frekar hissa, lét þó vera að spyrja, en á sama tíma opnaði ég hugann fyrir nýjum og ekki nýjum pælingum. Ef heimurinn er óendanlega stór er heldur betur sennilegt að líf finnist á öðrum hnöttum, annað hljómar fremur þröngsýnt. Sé þetta líf einhvers staðar aukast líkurnar á að einhvers staðar séu lífsform með svipaðan eða meiri vitsmunaþroska en mannkyn.

Ef fólk trúir á sama tíma á hringrás endurfæðinga hlýtur sú hugmynd að vera án landamæra, leyfi mér hér að ætla að pólitík hafi ekkert með þetta að gera. Ef endurfæðingin tekur ekki tillit til landamæra, litarháttar eða kyns og er tilkomin vegna einhvers almáttugs afls hlýtur það sama að gilda um alheiminn.

Samkvæmt þessu ættum við því vel að geta endurfæðst sem fjólubláir þríkynja drekar í þrettándu vídd Djúbb Tontont í Brabra sjtörnuþokunni á bak við fjöll bleiku sólanna þar sem Ikarus selur kerti úr endurunnu vaxi. Ja, hví ekki?

sunnudagur, 13. maí 2007

Tíbetdagur

Í dag er ellefti dagurinn okkar hér í herbúðum Dalai Lama og því kominn tími til að skoða bústað hans, tíbetskt safn og nágrenni. Marseruðum við því þangað ásamt Nicolasi og Sörujean.

Safnið var alveg magnað og þóttu mér líkindi Kínverja og Hitlers og félaga oft óhugnanlega mikil, komu ekki á óvart en staðfestu aðrar heimildir. Eini meginmunurinn er sá að Kínverjar segjast vera að frelsa Tíbet í staðinn fyrir að nefna þetta þjóðernishreinsanir og kúgun. Á safninu eru munir, myndir, myndbönd og brot úr frásögnum pólitískra flóttamanna sem gengið hafa í gegnum ýmsa þrautina. Ekki veit ég hve lengi umheimurinn ætlar að hafa hausinn í sandinum þegar kemur að þessum hörmungum og súrt þykir manni að íslenska ríkisstjórnin lýsi bæði leynt og ljóst yfir stuðningi við Kínverja og furðulega blöndu þeirra af kommúnisma, nasisma og fasisma. Stundum á ég ekki til orð.

Á sömu lóð og safnið er á stendur klaustur Dalai Lama og skoðuðum við það og Búddahof þess. Í klaustrinu er fullt af bænahjólum en þau virka þannig að á þau er rituð með tíbetsku letri mantran om mani padme hum og í hvert sinn sem þeim er snúið fer mantran góða út í alheiminn. Í klaustrinu eru mörg lítil bænahjól en eitt alveg risastórt og vitanlega snerum við þeim öllum, bæðu stórum og smáum.

Til að kóróna ferðina með stæl gengum við inn á lóð tíbetska barnaskólans í þorpinu og horfðum á þjóðdansa og hlýddum á hjarðmannssöngva frá landi snjóljónsins, Tíbet. Í lokaatriðinu voru áhorfendur hvattir til að taka þátt, sem við að sjálfsögðu gerðum og vorum við landi og þjóð til sóma. Þess skal þó getið að grunnsporin virkuðu einfaldari úr sætunum en þegar á hólminn var komið.

föstudagur, 11. maí 2007

Vindar og votviðri

Í morgun byrjaði að rigna og eldingum sló reglulega niður. Ekki það að ég hafi fylgst með því, ég kúrði mig nefnilega enn betur ofan í sæng og í svefnrofunum heyrði ég í regni á þaki og þrumum á himni. Gerist það betra?

Við fengum reyndar ekki að kúra alveg óáreitt. Vindurinn fór að færast í aukana eftir því sem leið á morgun og þá fengum bank á hurðina og vorum beðin um að loka öllum gluggum því “wind is coming”. Við (þ.e. Baldur) urðum því að fara fram úr heitu bóli til að festa gluggann tryggilega.

Nú þegar við erum komin á fætur, klædd og komin á ról, er enn vindur og votviðri og þrumuveður. Seinast þegar þrumuveður gekk hér yfir var rafmagnslaust allan seinnipart dags. Nú erum við því að hlaða tölvuna og nota tækifærið til að hlusta á góða tónlist. Í svona svölu veðri verður maður nefnilega að vera inni og getur lítið setið úti á svölum. Til að hlýja okkur inn að beini hlustum við á tónlist - eyrnasól – og það fallegustu tónlist heimsins: Pál Óskar og Móníku.

Lesið á svölunum

Ég las mikið í dag og ég eyddi miklum tíma á svölunum í dag. Því kemur kannski ekki á óvart að ég hafi lesið mikið á svölunum í dag.

Ég byrjaði á því að klára hina mjög svo áhugaverðu bók Jesus Lived in India. Um er að ræða sagnfræðilega rannsókn guðfræðings á því að líklegast hafi Jesú lifað krossfestinguna af, flust til Kasmírs eftir það og dáið í hárri elli. Grafreitur hans er meira að segja þekktur þar meðal heimamanna og er Jesú (eða Issa) álitinn heilagur maður á þessum slóðum.

Mér fannst mjög viðeigandi að klára sagnfræðilega nálgun á líf Jesú og fara beint yfir í heimspekilega nálgun á dæmisögur hans. Ég opnaði því bókina The Mustard Seed: The Gnostic Teachings of Jesus the Mystic sem indverski heimspekingurinn Osho skrifaði. Þar tekur hann fyrir nokkrar dæmisögur Jesú eins og þær koma fyrir í Tómasarguðspjalli, en það guðspjall fannst falið í hellum við Nag Hammadi í Egyptalandi árið 1945 og er af mörgum talið elsta og þar með upprunalegasta guðspjallið.

Svona bækur þarf að nálgast eins og smáskammtalækningar, maður má bara lesa smá í einu. Þess vegna las ég bara fyrstu kaflana og lét svo staðar numið. Ég tók fram Freakonomics, eitthvað léttmeti í samanburði við texta Oshos, og las áfram í sólinni á svölunum.

Seinnipartinn, þegar sólin var hætt að orna mér, fórum við að borða á Jimmy’s Italian Kitchen. Meðan við biðum eftir eftirréttinum blaðið ég í ljóðasafni sem ég fann í bókahillunni. Ég las nokkur ljóð eftir William Blake og hafði gaman af hrynjandinni, stuðlunum og ríminu.

Í bókinni var einnig að finna ljóð eftir William Wordsworth og við Baldur töluðum um hve skemmtilegt væri að ljóðskáld skyldi hljóta svona viðeigandi nafn. Vilhjálmur Orðavirði gerir sér grein fyrir virði orða og semur því ljóð. Freakonomics bókin lítur hins vegar ekki svona rómantískum augum á málið, hún bendir á að tölfræðin sýni að nöfn hafi engin áhrif á líf manns.

Dæmi: Bræðurnir Winner Lane og Loser Lane í Bandaríkjunum áttu mjög svo ólíka ævi. Winner varð bófi með langa sakaskrá, Loser varð sér úti um háskólagráðu og gerðist síðan yfirlögregluvarðstjóri. Svo mikið veit ég eftir að hafa lesið á svölunum.

fimmtudagur, 10. maí 2007

Myndir úr ferðinni

Við vorum að klára að setja inn myndir frá ferðalagi okkar um Rajasthan. Hér fyrir neðan eru tenglar á albúmin.

Delhi & Taj Mahal – ó hvað Taj er falleg!
Jaipur, Jodhpur & Jaisalmer – ó hvað bláa borgin kemur vel út á mynd, ó hve úlfaldarnir eru afkáralegir!
Bikaner & Amritsar – ó hve sóðalegt rottuhofið er, ó hve Ásdís og Baldur eru sæt með skuplu og slæðu við Gullna hofið!

Endilega kíkið – myndir segja meira en þúsund orð...

miðvikudagur, 9. maí 2007

Allra meina bót

Stundum hefur það komið fyrir á þessu ferðalagi að ég hef fengið alveg upp í háls af Indlandi. Þetta átti sérstaklega við í Rajasthan þegar við ferðuðumst hvað mest á hve stystum tíma, í hve mestum hita og ryki.

Það sem hjálpaði mér mikið þegar út af bar var að hugsa til alls þess sem ég hlakka til. Fyrir utan að hlakka til að koma heim og hitta fólkið mitt eru það listirnar sem halda mér gangandi. Ég ætla að gefa ykkur örfá dæmi um spennandi tíma framundan.

Nú er Tori Amos að gefa út nýja plötu, American Doll Posse, og sveitin Arcade Fire (sem froskar kynntu okkur fyrir) er nýbúin að gefa út plötuna Neon Bible. Ég hlakka ekkert smá til að koma höndum yfir þessa tónlist.

Af bókum bíð ég spennt eftir nýjust bók Khaled Hosseinis, höfundar Flugdrekahlauparans. Þegar ég var við það að klára að því er ég taldi nýjustu bókina úr Kvenspæjaraseríunni komst ég að því að enn nýrri bók kom út núna í apríl, The Good Husband of Zebra Drive. Ó, hvað ég get ekki beðið. Núnú, í sumar kemur síðan út síðasta bókin um Harry Potter. Hversu ljúft er lífið eiginlega?

Svo má ekki gleyma þeim listamönnum sem eru líklegir til að gefa eitthvað nýtt út á næstunni: Yann Tiersen, Katie Melua, Audrey Niffenegger, Diane Setterfield. Og þetta er bara brotabrot því ég minnist ekki einu orði á öll listaverkin sem þegar eru til og ég hef en ekki kynnt mér.

Smá svona áminning og lífið er aftur orðið frábærlega fallegt og spennandi. Ég er kannski ekki komin með nýjustu Tori Amos plötuna í hendurnar eða byrjuð að lesa síðustu Harry Potter en það er einmitt málið, ég hlakka svo til, og tilhlökkun er allra meina bót – sérstaklega þegar maður er í ofhlaðinni rútu í sumarhita Indlands :o)

þriðjudagur, 8. maí 2007

Kjaftatarnir tvær

Við eyddum í dag sjö klukkustundum í kjaftagang, sem, ef ég reikna það rétt út, samsvarar nær heilum vinnudegi.

Í gærkvöldi hittum við nágranna okkar sem svalir okkar liggja að, þau Nicolas og Sörujean frá Minneapolis í Minnesota. Við vorum öll að koma heim úr bíó af myndinni Babel og tókum spjall saman. En þar sem klukkan var margt og allir sybbnir teygðist ekki mikið úr því. Í morgun var hins vegar annað upp á teninginn. Það kom í ljós að Nicolas og Sarajean eru einstaklega opin og ræðin og höfðu frá mörgu áhugaverðu að segja. Það segir sig eiginlega sjálft að þau hafi verið ræðin fyrst við spjölluðum við þau í fimm tíma.

Þegar þau urðu frá að hverfa snerum við okkur að nágrannanum á svölunum hægra megin við okkur, en sá hafði komið út á svalir með bók meðan við vorum öll í hrókasamræðum og heilsað upp á okkur. Það kom í ljós að hann er Neil frá London, hingað kominn til að klifra í fjöllunum og kafa í höfunum. Stuttu síðar bættist vinkona hans Emily frá West Virginia í hópinn, en hún hefur verið að vinna á sjúkrahúsi í Suður Indlandi.

Við enduðum á því að kíkja öll fjögur á tíbetska staðinn Gakyi þar sem þjónarnir eru svo alúðlegir og madamman svo rösk og töff (maturinn líka vel ætur). Við héldum að sjálfsögðu áfram að kjafta við matborðið.

mánudagur, 7. maí 2007

Rótarskot í McLeod Ganj

Nú erum við búin að vera fimm daga í fjallabænum McLeod Ganj og okkur liggur ekkert á héðan. Í fyrsta skipti í marga mánuði er hitinn aldrei þrúgandi eða rakinn þreytandi, einfaldlega af því að hér er enginn hiti og raki. Reyndar veit ég fyrir víst að Íslendingar þægu með þökkum það sem ég kalla “engan hita”!

Fyrir utan loftslagið er, eins og ég hef áður minnst á, andrúmsloftið svo þægilegt. Ólíkt því sem maður á að venjast í indverskum bæjum og borgum er nánast ekkert um að fólk stari á mann, þeir fáu sem stunda það eru að sjálfsögðu Indverjar. Tíbetarnir eru bara þægilegri í umgengni, svo einfalt er það. Svo skemmir ekki að þeir elda öðruvísi mat en Indverjar; við erum búin að njóta þess að smakka momos með sojasósu, tíbeskar flatnúðlur og tíbeskt brauð sem er eins og risastór beygla, kemur mjög vel út með hnetusmjöri :o)

Svo spillir það ekki stemmningunni að heyra fólk sem maður mætir út á götu fara með möntrur og handfjatla bænaböndin sín eða heyra í munkunum kyrja og óminn sem kemur þegar þeir slá í stóru, flötu plötuna. Eða horfa á fólk sem snýr bænahjólunum til að senda bænir út í allar áttir eða horfa á marglitu, tíbetsku bænaflöggin bærast í vindunum og metta hann af om mani padme hum. Eða sjá að konur njóta virðingar og sjálfstæðis.

Návist ferðamannanna fer heldur ekki framhjá manni, þeir eru út um allt. Og þeir eru greinilega margir hverjir hingað komnir til að framkvæma. Upp um alla veggi eru auglýsingaspjöld sem gefa til kynna hversu mergjað úrvalið af ýmiskonar þjónustu er hér í boði: lærðu hindí, lærðu tíbetsku, lærðu á tabla, mættu í yogatíma (hatha og ashtanga), láttu lesa í lófann þinn, stundaðu t’ai chi, leyfðu okkur að búa til stjörnukort handa þér, lærðu thai yoga nudd, reiki eða tíbetska matreiðslu. Þá er líka hægt að fara í fríar kennslustundir um dharma sem búddamunkar hér á bæ standa fyrir.

Langi mann lítið til að læra er alltaf hægt að versla og hér er af nógu að taka: útivistafatnaður, Ganesh, Krishna og Búdda styttur, yoga mottur, reykelsi, talnabönd og bænabjöllur, bakku (tíbetskur kvenfatnaður), thangka málverk, prjónaðar húfur og vettlingar, pils, bolir og súkkulaði. Að sjálfsögðu eru bókabúðirnar í mestu uppáhaldi hjá okkur og ef þið eruð að leita að okkur kíkið þá í búðina á móti Chocolate Log ;)

Vinaarmböndin

Enn á ný var kompásinn okkar stilltur á bíó. Á leiðinni í bíóið rákumst við á roskna tíbetska konu sem seldi vinaarmbönd til að safna fyrir heimferð. Hún var klædd í hefðbundinn fatnað tíbetskra kvenna og bar með sér bænakefli.


Átti hún á lager gullfalleg armbönd og þar sem við höfum einmitt leitað að svoleiðis um nokkurt skeið þótti okkur tilvalið að kaupa þau af frúnni og ekki spillti að hún batt þau á okkur, sjálf í búðinni.


Eftir að hafa kastað kveðju á hina virðulegu tíbetsku konu drifum við okkur í bíósalinn. Myndin sem varð fyrir valinu var hin gullfallega og hjartavermandi Little Miss Sunshine. Ég var nú svolítið skeptískur í fyrstu, eins og oft vill verða, en henti öllum slíkum þönkum út og naut þess að sitja og flissa í myrkrinu með vinaarmband á hægri úlnlið.

laugardagur, 5. maí 2007

Ný uppgötvun

Nýjasta uppgötvun okkar skötuhjúa er kóreskur veitingastaður í tíbetsku þorpi í Indlandi, fjölþjóðlegt með meiru. Maturinn er algert hnossgæti og skemmtileg nýlunda fyrir þrautþjálfaða og víðsýna bragðlauka okkar. Matargerðin er ólík þeirri sem við þegar þekkjum frá öðrum hlutum Asíu.

Ég pantaði mér rétt sem heitir bibimpab með spínatbættri mísósúpu af bestu gerð og kimchi sem er sérpikklað grænmeti. Bibimpab-ið sjálft samanstendur af skál með hrísgrjónum, spældu eggi og sérdeilis bragðgóðu chili mauki. Ásdís pantaði sér jhapche-pab sem eru hrísgrjónanúðlur bornar fram ofan á hrísgrjónum. Með þessu drukkum við gingernade og grænt te frá Kóreu.

Allt var borið fram af stökustu natni; stálprjónar og skeiðar lagðar á postulínsendur svo sá hluti áhaldanna sem snerti matinn kæmist ekki í snertingu við borðið. Umhverfið var líka huggulegt, kóresk handrit notuð sem veggfóður sem passaði vel við kóresku popptónlistina.

Við vorum það ánægð með þennan stað að auk þess sem við ætlum aftur þangað sjáum við okkur knúin til að opna kóreskan veitingastað á Íslandi ef enginn annar gerir það fyrir okkur. Nú sér maður líka fram á aðra Asíureisu þar sem Kórea er heldur betur búin að stimpla sig inn sem áhugaverður staður til að heimsækja.

Af drekum ýmiskonar

Fyrsta kvöldið okkar í Dharamsala áttu sér stað átök milli Tíbeta og Indverja og tvennt lenti á spítala. Í dag mótmæltu Tíbetarnir þessu ofbeldi með því að hafa allan rekstur lokaðan.

Það var því frekar dauft yfir bænum í dag. Við vorum þó fljót að þefa uppi opna staði, allir Indverjar í rekstri hér héldu opnu, og svo fór að við hengum á Chocolate Log góðan hluta dagsins.

Um kvöldið kíktum við aftur í bíó, að þessu sinni í annað kvikmyndahús en jafnlítið fyrir því. Við sáum Eragon, mynd um drekann Safíru og drekariddarann Eragon. Ég las tvær fyrstu bækurnar í seríunni í baðstofunni á Þinghólsbraut síðastliðið haust og hafði mikið gaman af. Það var líka gaman að sjá söguna á tjaldi og tilhugsunin um að fara á bak dreka var allt í einu ekki svo fráhrindandi.

Á leiðinni heim eftir myrkum og þröngum götum McLeod Ganj rákumst við á okkar eigin dreka, lítinn svartan sporðdreka sem skreið eftir götunni. Þrátt fyrir að hann væri töluvert minni en drekinn Safíra vakti hann engu að síður mun meiri skelfingu. Við höskuðum okkur sem hraðast mátti heim á leið.

föstudagur, 4. maí 2007

Stefnumót í fjöllunum

Okkar fyrsta upplifun af Dharamsala sem Paradís bakpokaferðalangans stendur óhögguð. Hér er fólk indælt, aðrir ferðalangar eru að stjái, úrval veitingastaða er gott og hér eru meira að segja matvöruverslanir! Og þær selja eplasafa og hnetusmjör, finnska hrökkbrauðið Finn Crisp, majónes og súrar gúrkur. Allt í einu finnst mér ég komin heim þangað sem hlutirnir eru skiljanlegir og rökréttir :o)

Það besta við Dharamsala er þó án efa bíóhúsin. Þar sem við höfðum ekki séð kvikmynd í rúman mánuð var forgangsatriði að bæta úr því. Þegar við eigum stefnumót heima förum við yfirleitt á Devito's á Hlemmi og gæðum okkur á vel kryddaðri margarítu fyrir bíóferð. Í þetta sinn fórum við á Jimmy’s Italian Kitchen og fengum okkur margarítu með svörtum ólívum og pizza siciliana með eggaldin, lauk og ólívum.

Síðan fórum við inn í minnsta bíósal sé ég hef augum litið (rúmaði 22) og horfðum á The Last King of Scotland. Það vantaði vissulega góða poppkornið, sítrónutoppinn og gula strumpaópalinn, en þetta var engu að síður eins besta bíóferð sögunar. Svolítið eins og þegar hungrið er besta kryddið.

miðvikudagur, 2. maí 2007

Himalaya fjöllin góðu

Eftir að hafa þvælst um eyðimerkurfylkið Rajasthan og Sikka fylkið Punjab í rúmar tvær vikur í 40-45°C hita, þurru lofti og miklu ryki, vorum við sannarlega tilbúin til að stimpla okkur út og flýja til fjalla.

Veikindi Baldurs settu strik í reikninginn og í staðinn fyrir að eyða aðeins einum degi í Amritsar neyddumst við til að vera þar þrjá heila daga, föst inn á litlu og loftlausu hótelherbergi. Kvöldið áður en Baldur veiktist höfðum við einmitt verið að pakka niður full tilhlökkunar yfir að flýja hitann og komast í svalara loftslag. Það var því enn erfiðara en ella að þola hitann þessa auka daga sem við vorum í Amritsar, í huganum vorum við þegar komin til Himalaya.

Í morgun var Baldur sem betur fer ferðafær og við neyttum færis og tókum fyrstu morgunlestina til Pathankot. Þaðan tókum við síðan leigubíl til Dharamsala og deildum ferðinni með ágætishjónum, Greg frá Bretlandi og Stefani frá Nýja Sjálandi.

Á leiðinni uppeftir spjölluðum við heilmikið við þau hjónakorn, en þau eru búin að vera á heimshornaflakki í tæpt ár. Ég lærði m.a. að fólk frá Nýja Sjálandi talar um sjálft sig sem kiwi og er þar með að vísa í kiwi fuglinn sérkennilega.

Eftir því sem ofar dró urðu vegirnir þrengri og þverhníptari. Þá varð loftið svalara og svalandi, gróður grænni og sællegri og við sáum meira að segja á sem rann um grýttan dal. Áhrifin á sálina og andann voru ótvíræð: okkur leið eins og að koma til Paradísar.

Leigubíllinn keyrði okkur upp í lítinn bæ sem kallast McLeod Ganj, aðeins þremur kílómetrum norðan við Dharamsala. Þar fundum við herbergi með svölum og frábæru útsýni yfir grænan dalinn og snjóhvíta tinda.

Breytingarnar eru í stuttu máli sagt ótrúlegar, sérstaklega ef litið er til þess að aðeins er um tveggja tíma ferð að ræða frá Pathankot og Dharamsala. Okkur finnst við vera stödd í allt öðru landi. Dharamsala er dvalarstaður Dalai Lama og hér hefur tíbeska ríkisstjórnin aðsetur, hún er í útlegð rétt eins og Dalai Lama. Fyrir vikið er bærinn fullur af tíbesku flóttafólki sem flust hefur hingað til að vera í návígi við Dalai Lama. Viðmót Tíbetanna er gjörólíkt því sem við höfum hingað til upplifað í Indlandi. Fólk er miklu mun vinalegra og afslappaðra, konurnar klæðast sértíbeskum kjólum, svörtum eða gráum, sem eru bundnir í mittið og eru þar með allt öðruvísi en litríku saríar Indverjanna.

Í stað hinna hefðbundnu hindúahofa eru hér búddísk bænahjól og í stað hindí skrifmáls er allt á ensku eða tíbesku. Þá eru göturnar fullar af búddamunkum í rauðum og gulum kuflum og djúpum þönkum, afslöppuðum ferðamönnum með dredda og tíbeskum skólabörnum á þönum.

Ótrúlegasta breytingin er þó þessi: hér er svo svalt að maður fær gæsahúð í skugga, hér er svo svalt að ég varð að draga fram gallabuxur, hettupeysu, síðermabol og sokka, hér er svo svalt að það eru sængur á rúmum! Við eigum eftir að sofa svo vel í þessu svala lofti.

þriðjudagur, 1. maí 2007

Á sjúkrabeði

Sjúklingurinn lá allan gærdag upp í rúmi með hálfgerðu óráði. Ég reyndi mitt besta til að hugsa um sjúklinginn en verð að viðurkenna að ég sofnaði oft á vaktinni enda dauðþreytt eftir svefnlausar nætur í næturrútum.

Í dag er sjúklingurinn allur annar. Eftir góðan nætursvefn náði hann að drekka vatn, bað meira að segja um kasjúhnetukex og mangósafa og heimtaði að fara í nokkrar mínútur út af hótelinu til að skipta um umhverfi.

Við höfum þó mest megnis tekið því rólega í dag. Við erum búin að liggja upp í rúmi með viftuna á hæstu stillingu. Okkur til gamans hlustuðum við á plötuna Álfa og tröll og ég er ekki frá því að það hafi örlað á smá heimþrá á þeirri stundu.

Annars óska ég öllum gleðilegs 1. maí héðan frá Indlandi, landinu sem kallar daginn May Day!