laugardagur, 5. maí 2007

Ný uppgötvun

Nýjasta uppgötvun okkar skötuhjúa er kóreskur veitingastaður í tíbetsku þorpi í Indlandi, fjölþjóðlegt með meiru. Maturinn er algert hnossgæti og skemmtileg nýlunda fyrir þrautþjálfaða og víðsýna bragðlauka okkar. Matargerðin er ólík þeirri sem við þegar þekkjum frá öðrum hlutum Asíu.

Ég pantaði mér rétt sem heitir bibimpab með spínatbættri mísósúpu af bestu gerð og kimchi sem er sérpikklað grænmeti. Bibimpab-ið sjálft samanstendur af skál með hrísgrjónum, spældu eggi og sérdeilis bragðgóðu chili mauki. Ásdís pantaði sér jhapche-pab sem eru hrísgrjónanúðlur bornar fram ofan á hrísgrjónum. Með þessu drukkum við gingernade og grænt te frá Kóreu.

Allt var borið fram af stökustu natni; stálprjónar og skeiðar lagðar á postulínsendur svo sá hluti áhaldanna sem snerti matinn kæmist ekki í snertingu við borðið. Umhverfið var líka huggulegt, kóresk handrit notuð sem veggfóður sem passaði vel við kóresku popptónlistina.

Við vorum það ánægð með þennan stað að auk þess sem við ætlum aftur þangað sjáum við okkur knúin til að opna kóreskan veitingastað á Íslandi ef enginn annar gerir það fyrir okkur. Nú sér maður líka fram á aðra Asíureisu þar sem Kórea er heldur betur búin að stimpla sig inn sem áhugaverður staður til að heimsækja.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Galby restaurant er þegar til
Var rétt hjá Nings í Kóp en er fluttur
Desverre
El-Far

ásdís maría sagði...

Já, mér þykir þú aldeilis segja fréttir. Er okkur sem sagt óhætt að snúa aftur heim frá Asíu?