fimmtudagur, 30. október 2003

Stjórnleysið algjört

Nú verður tíminn að enda. Ég er svo svangur... Í augnablikinu held ég að maginn á mér sitji við stjórnvölinn. Ég veit þetta hljómar fjarstæðukennt fyrir þá sem þekkja mig vel.

Matur, matur, maaaatur. Einhversstaðar las ég að til að borða fíl þá sé best að taka einn bita í einu. Í augnablikinu vil ég fá einn fíl í einu, takk, með smjöri og kartöflum.

Stjórnun

Nú sit ég í stjórnunartíma. Líklega er það ákveðið stjórnleysi að vera að blogga í miðjum tíma en það er nú í lagi. Sem stendur er kennarinn, hún Inga Jóna, að tala um væntingakenningar og umbun.

Næstu dagar munu mjög sennilega fara í að vinna lokaverkefni í stjórnun 1. Ætli maður þurfi ekki að temja sér eitthvað af kenningum um markmiðsbundna stjórnun áður en maður ræðst út í svona hópverkefni? Sennilega væri það ekki verra.

Nú er hún að tala um framlag og afrakstur. Ég er hættur að blogga í bili og fer aftur að glósa. Síjúleiter.

miðvikudagur, 29. október 2003

Lyftingar og skóli, það er lífið

Var að koma úr Reikningshaldstíma og ákvað að droppa inn smá færslu. Allt er gott af okkur að segja. Lyftingar og skóli ganga samkvæmt áætlun. Í kvöld ætlum við í bíó. Ég veit ekki hvaða mynd við ætlum að sjá.Við fengum boðsmiða svo það er best að skella sér.

Það er kominn vetur og líklega er best að ég fari og kaupi sköfu fyrir bílinn. Ekki ætla ég að fjölyrða meira um hvunndaginn, hann rokkar ágætlega óstuddur og án málalenginga. Ég kýs að ganga út í hann, svangur (það stendur til bóta) en bjartsýnn.

laugardagur, 25. október 2003

Flöbbur

Í gærkvöldi fengum við pizzu hjá Elfari. Við vorum ekki í neinu eldustuði þannig að einhver á einhverjum pizzastað bjó til fyrir okkur pizzur. Í hádeginu í dag fengum við okkur svo afganginn af pizzunum. En nóg um pizzur gærdagsins. Tölum um pizzur dagsins í dag. Líklega haldið þið að ég sé orðinn geðveikur en við ætlum að baka tvær pizzur í kvöld. hahahhhaha! Sagði einhver pizzah? Íííík!

Einhversstaðar heyrði ég pizzur kallaðar flatbökur sem þróaðist út í flöbbur. Það sem eftir lifir af þessari færslu verður talað um flöbbur og nú er hún búin :)

föstudagur, 24. október 2003

Hvað er á seyði?

Í gær var frí í stjórnun og í dag er frí í þjóðhagfræði. Ég ætla sannarlega ekki að láta mér leiðast eða setjast stúrinn og vorkenna sjálfum mér. Nehei! Ég ætla að vaða í námsefnið með penna fyrir lensu og vitsmunahroka sem skjöld.

Spurning hvort ég klæðist hefðbundinni riddarablikkdós, tarzan skýlu eða fjölbragðaglímuaxlabandagalla... Ég held að vitsmunahrokinn sé fremur stökkt efni í skjöld svo ég finn eitthvað annað.

fimmtudagur, 23. október 2003

Karrý

Síðan síðast hefur ýmislegt gerst. Í beinu framhaldi af síðustu færslu er eðlilegast að segja að rétturinn sem við smökkuðum, kjúklingabaunakarrýréttur, var frábær. Ég hef reyndar fundið fyrir örlitlum ófrómleika í hálsinum en líklega væri hann meiri ef ekki hefði komið karrýið.

Lífið á görðunum gengur ágætlega og virðist partýhald vera á undanhaldi (eða undanhald á partýhaldi?). Líklegt þykir mér að eftir því sem líði á önnina fækki partýum, mesti galsinn renni af hinum villuráfandi sauðum og skyldur hvunndagsins taki við. Hver veit svo nema búfénaður sá sem minnst var á læri til stafs og taki jafnvel jólapróf í ýmsum greinum. Vonandi gengur öllum bara vel.

laugardagur, 18. október 2003

Hverfandi líkur á ófrómleika

Um daginn fór Ásdís í Hagkaup og keypti nýju bókina hennar Sollu, Grænn kostur Hagkaupa. Bókin er prýdd sérdeilis fallegum myndum af mörgum girnilegum réttum. Ljóst er að ómögulegt er að þjást af ófrómleika ef matur af þessu tagi er etinn reglulega. Við ætlum að prufa eina uppskrift í kvöld.

Orðið ófrómleiki var notað í þessari færslu. Líklega tók enginn eftir því þar sem orðið flokkast undir selfölgeligheder. Reikningshalds-kennarinn minn notaði þetta orð í tíma um daginn og fannst mér að þarna væri á ferðinni svalt orð. Ég bara varð að nota það.

mánudagur, 13. október 2003

Á gervihnattaöld

Það er nú meira! Ég bara skil ekki hvers vegna kvörtunum rignir ekki inn. Hmmm... Það er nefnilega þannig að þann tíunda október síðastliðinn átti Smáralind tveggja ára afmæli og ég bara minnist ekki á það fyrr en núna!

Það sem er svona merkilegt við afmæli reðurtáknsins ógurlega er að forráðamenn þess ákváðu að opna það sama dag og við opnuðum dagbókina :)

sunnudagur, 12. október 2003

Rocksolid stagfræðingur

Jæja nú er vinnuhelgin að enda. Hef haft það fínt hérna og tekið á móti mörgum og góðum gestum. Af vinnuhelginni tekur svo við ein samsoðin massalestrar og lærdómsvika. Það er því eins gott að halda vel á laufunum og gerast gegnheill í stagfræðinni :)

miðvikudagur, 8. október 2003

Allir í stuði

Var að koma úr tíma í reikningshaldi. Er nú staddur á Bókhlöðunni, ákvað að skila bók sem ég var með í láni. Eins gott að nýta ferðina í smá blogg. Nenni þó ómögulega að vera með einhverja tölu. Kæru lesendur þið vitið þá í það minnsta að ég er enn á lífi.

laugardagur, 4. október 2003

Stagfræði

Er staddur í bókhlöðunni. Liggja nú fyrir verkefni í hagfræði og stærðfræði. Líklegt er að ég verði hagstærð, hægfræðingur eða stagfræðingur í lok dagsins. Til þess þarf ég líklega að halda betur á spöðunum en góðu hófi gegnir.

Lífið á görðunum gengur ágætlega og er elsku besta rútínan mín alveg að fara að jafna sig á því sjokki sem hún varð fyrir í flutningunum. Ef að líkum lætur verður næsta vika eðlileg. Í það minnsta eins eðlileg og unnt er ;)

miðvikudagur, 1. október 2003

Staðan betri en menn höfðu vonað

Jammjamm. Nú eru flutningar með öllu afstaðnir og að mestu búið að koma sér fyrir. Þáðum ís og spjölluðum við Eygló og Magga í gærkveldi og lékum okkur við kettlingana. Einn þeirra heitir Jónatan og hann er óskaplega hændur að mér, steinsofnaði hjá mér og allt. Kettlingar eru frábærir.

Auglýstum ísskápinn í Fréttablaðinu í dag og seldum þeim fyrsta sem hringdi. Þannig að ef þú, lesandi góður, varst að pæla í að kaupa hann þá þarftu að tala við einhvern annan en okkur.

Næstu dagar fara í að koma sér aftur á rétt ról í skólanum, hlutirnir fara óneitanlega úr skorðum þegar allt fer á annan endann. Reyndar vill svo fruntalega heppilega til að fyrir flensu og fyrir flutninga var ég þokkalega á undan áætlun svo þetta er nú þó nokkuð fjarri því að vera óvinnandi verk :)

Ef einhver er hissa á fyrirsögninni þá er það ágætt. Ég var ekki viss hvað ég ætti að setja svo ég setti þetta.