miðvikudagur, 1. október 2003

Staðan betri en menn höfðu vonað

Jammjamm. Nú eru flutningar með öllu afstaðnir og að mestu búið að koma sér fyrir. Þáðum ís og spjölluðum við Eygló og Magga í gærkveldi og lékum okkur við kettlingana. Einn þeirra heitir Jónatan og hann er óskaplega hændur að mér, steinsofnaði hjá mér og allt. Kettlingar eru frábærir.

Auglýstum ísskápinn í Fréttablaðinu í dag og seldum þeim fyrsta sem hringdi. Þannig að ef þú, lesandi góður, varst að pæla í að kaupa hann þá þarftu að tala við einhvern annan en okkur.

Næstu dagar fara í að koma sér aftur á rétt ról í skólanum, hlutirnir fara óneitanlega úr skorðum þegar allt fer á annan endann. Reyndar vill svo fruntalega heppilega til að fyrir flensu og fyrir flutninga var ég þokkalega á undan áætlun svo þetta er nú þó nokkuð fjarri því að vera óvinnandi verk :)

Ef einhver er hissa á fyrirsögninni þá er það ágætt. Ég var ekki viss hvað ég ætti að setja svo ég setti þetta.