mánudagur, 29. júní 2009

Glymur í Botnsá

Í gær gengum við Ásdís á Glym ásamt Stellu og Kristjáni. Við fengum ágætisútivistarveður með örlitlum skúrum sem voru vel þegnar þar sem bæði var lofthiti mikill og á brattann var sótt.

Glymur er hæsti foss Íslands, staðsettur í botni Hvalfjarðar, og er skottúr frá Kópavogi. Eftir aðeins einnar klukkustundar akstur vorum við komin að fyrrum aðalsjoppustoppi borgarbúa: Botnskála. Sá man nú sinn fífil fegurri.

Þegar við komum á svæðið röltum við sem leið lá áfram og völdum það sem Útivistarbók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar kallar austurleiðina upp meðfram gilinu. Sem betur fer völdum við þessa leið því aðeins er hægt að sjá fossinn frá þessari hlið. Til þess að komast þangað fórum við ævintýralega fallega leið, í gegnum helli og stikuðum yfir ánna á símastaur sem felldur hefur verið sem brú.

Okkur sóttist gangan vel en þó ber að hafa varann á sumstaðar þar sem grjót er víða laust og stígar þröngir. Alla leiðina nutum við fegurðar fossins en þó aldrei meira en á klettanípu einni nálægt miðju gljúfri. Þarna fær maður virkilega að meðtaka kraftinn í náttúrunni og dýpt gljúfursins, kjörinn staður til myndatöku. Bergið er þéttbýlt af fýl og flögrar hann makindalegur um og er bara nokkuð gæfur.

Þegar við vorum komin upp að fossinum sáum við fólk á göngu hinu megin við gilið og langaði auðvitað að ganga aðra leið niður en við komum upp. Brugðum við á það ráð að vaða yfir ána fyrir ofan fossinn með Stellu Soffíu sem forystukind, ahhhh eins og frítt fótanudd fyrir heita göngufætur.

Auðvitað voru allir með myndarlegt nesti og pikknikkuðum við á vesturbakkanum með útsýni yfir Hvalfjörðinn í dýrmætum félagsskap ágengra flugna. Vesturbakkinn er talsvert gróðursælli og léttari gönguleið en á göngunni nýtur maður ekki útsýnis í nánda nærri sama mæli og á hinni hliðinni.

Pakksödd rúlluðum við svo niður að eyðibýlinu Botni, röltum nokkra hringi í kringum kotið en ókum svo í humátt til Reykjavíkur. Fyrsta stopp var landsbyggðarlaugin í Grafarvogi þar sem sérstakt tilboð var á fótboltaleik og sundferð. Ekki veit ég hvaða lið voru að spila en rennibrautin var góð!

Ég mæli sérstaklega með þessari ferð en hún er afskaplega græn og falleg, gróður úti um allt og nokkuð fuglalíf þar sem enn er svolítið mýrlendi að finna. Gangan tekur um fjóra tíma og hvet ég fólk til að taka sérstakt tillit til fuglalífs og halda sig á stígum.

mánudagur, 22. júní 2009

Esjan aftur

Í gær fórum við Baldur með pabba í sjósund og var þetta hans fyrsta ferð í sjóinn hér við Íslandsstrendur. Í þetta sinn synti ég út að ytri bauju og var feikimontin þegar ég kom í land. Baldur hefur oft lýst því fyrir mér hvernig honum finnist sem veður bíti ekki á hann eftir sjósund og í gær fékk ég að upplifa þessa sömu tilfinningu, þ.e. að vera sem í töfrahjúpi.

Eftir sjósundið ákváðum við að kýla á Esjuna, en hana hef ég nokkrum sinnum klifið upp í hálfhlíðar en aðeins einu sinni hef ég farið á toppinn. Þá var ég 15 ára, árið var 1995 og dagurinn var Esjudagur. Að þessu sinni hafði ég hugsað mér að fara upp að fjarka en þegar þangað var komið lét ég tilleiðast að fara upp að Steini. Eftir stutt stopp þar sáum við að skýin sem umvafið höfðu Þverfellshornið voru á undanhaldi og þá fannst mér kjörið að láta slag standa enda mesta gangan þegar að baki.

Á toppnum sögðu við hæ við loftin blá, páruðum nöfn okkar í úttroðna gestabókina og gerðum síðan það eina sem var í stöðunni: klöngrast aftur niður.

fimmtudagur, 18. júní 2009

Maríusundið

Ég fór í mitt fyrsta sjósund í Atlantshafinu í gær, á sjálfan þjóðhátíðardaginn og þótti mér það einkar viðeigandi. Það var tiltölulega skýjað þegar við hjóluðum af stað í Nauthólsvíkina en létti stöðugt til sem mér þótti nú ekki verra.

Þegar ég var komin í sundbolinn og þar með til í slaginn fór ég að finna fyrir fiðringi í maganum. Ég einblíndi hins vegar sem minnst á það en rifjaði í sífellu þær tvær reglur sem mér höfðu verið settar:

1. Ekki hika eina sekúndu, bara demba sér út í
2. Einblína á að ná tökum á andardrættinum þegar út í er komið

Þess utan voru tvær staðreyndir sem mér fannst gott að rifja upp meðan við gengum niður að sjó:

1. Sjórinn ER kaldur
2. Fyrstu 20-30 sekúndurnar eru verstar, eftir það venst maður kuldanum

Ég get stolt sagt frá því að ég nýtti mér reglurnar tvær til hins ýtrasta, ég dembdi mér út í sjóinn án þess að hika eitt andartak og þegar út í var komið hófst ég strax handa við að synda kröftuglega og anda eins reglulega og mér var unnt í 11° C heitum sjó. Ég verð þó að viðurkenna að sjórinn var miklu, miklu kaldari en mig hafði órað fyrir.

Ég synti að innri bauju og þegar þangað var komið var eins og við manninn mælt, andardrátturinn var orðinn reglulegur, ég hætt að skjálfa eins mikið og kuldinn farinn að venjast. Ég var því til í að synda lengra og fórum við Baldur sem leið liggur frá innri bauju yfir í upphitaða lónið. Það var svolítið eins og að synda yfir í heitan pott þegar komið var inn í lónið, sem er að mér skilst um 18°C heitt.

Eftir þetta mikla þrekvirki lögðumst við í heita pottinn eins og lög gera ráð fyrir og möruðum þar í hálfu kafi. Ég fór reyndar aftur út í og synti út að innri bauju, en það gaf mér bara tækifæri til að fara aftur ofan í heita pottinn.

Já, ég er ekki frá því að þetta Maríusjósund hafi gengið vonum framar, ég er í það minnsta hæstánægð.