mánudagur, 24. janúar 2005

Bara svona að pæla

Í gær fórum við á Næstu grös með Pétri afa, mömmu og pabba. Eftir að allir voru orðnir saddir og sælir var haldið á Súfistann til að sötra, fletta og kjafta. Í dag hef ég svo bara verið að læra hérna á hlöðunni og ákvað að blogga aðeins þar sem ég nennti að setjast við tölvu og úr því að ég var kominn á netið var allt eins gott að lesa helstu fyrirsagnir.

Ég rakst meðal annars á þetta og líst illa á. Ætli þessi vélmenni dreymi rafeindarollur. Þetta hljómar svolítið eins og þeir séu hræddir við að hermennirnir átti sig á því að stríð sé raunverulegt og að fólk deyi í alvörunni. Til þess að koma í veg fyrir slíkan skilning er best að láta það líta út eins og tölvuleik þar sem maður stýrir þykjustuskriðdreka sem skýtur vonda kalla. Æ, maður er bara kominn með svo nóg af þessu kjaftæði.

föstudagur, 21. janúar 2005

Gleðileg jól

Áðan kom Heiðar Þór til mín og skiptumst við á jólapökkum. Ég fékk snilldardisk með skosku bræðrunum í The Proclaimers. Fyrir þá sem ekki vita í hverju snilldin felst þá er þekktasta lagið líklega þetta. Eftir pakkaskiptin var slakað á í Vesturbæjarlauginni og farið í ísbúðina við Hagamel og keyptur gamaldags ís. Ákaflega gott kombó. Þegar ég svo kom heim var Ásdís búin að gera allt voða, voða fínt. Það var líka vel við hæfi að vígja diskinn í snyrtilegu umhverfi. Dæs :)

mánudagur, 17. janúar 2005

Labbilabbi

Í gær fengum við okkur labbitúr niður í miðbæ til þess að fara í Bónus. Á leiðinni hittum við mömmu og pabba tvisvar og Gústa frænda einu sinni. Þegar við svo komum að Bónus þá var sjoppan ekki opin á sunnudögum svo við gengum aftur heim. Um kvöldið fórum við út að borða og í bíó með Elfari, Andra og Snjólaugu og sáum þessa mynd. Þeir sem þekkja til leikstjórans vita að ekki er við öðru að búast en meistaraverki. Ég er viss um að vinir mínir í salnum gefa henni góða dóma.

Dagurinn í dag hófst á því að ég svaf yfir mig. Fyndið hvað það er gott að sofa þegar maður á ekki að vera sofandi. Eftir morgunmat (sem var eiginlega hádegismatur) og almennt súnn fórum við Ásdís gangandi í Bónus á Laugaveginum og keyptum í matinn. Að innkaupum loknum röltum við svo á Hlemm. Þar rákumst við á Einar frænda en náðum ekkert að spjalla því vagninn hans kom eiginlega strax. Eftir það biðum við smá stund og tókum strætó númer 5 heim. Þetta var mjög skemmtilegt ferðalag þrátt fyrir að ég væri með tvær torfur af pírönufiskum fastar við lappirnar á mér, ég tók nefnilega ansi vel á kálfunum í gymminu á laugardaginn og harðsperrunum verður ekki lýst öðruvísi en hér að ofan.

sunnudagur, 16. janúar 2005

Hjólasnjór

Þá er hjólasnjórinn kominn. Ég kalla hann þetta af því að undanfarna daga hefur ekki verið sérlega hjólfært vegna klakahryggja á götum og ísbreiðu á gangstéttum. Koma hinnar ágætu mjallar gerir það að verkum að hjólreiðar verða öruggari en á klakanum. Undanfarna daga hef ég gengið og hjólað það sem þarf að komast og kanna því vel. Ég hef alltaf verið hlynntur hreyfingu en fyrst eftir bílmissinn fannst mér ég eitthvað innilokaður í vesturbænum. Nú hefur hins vegar rifjast upp fyrir mér að maður kemst ansi víða á tveimur jafnfljótum ásamt smá hjálp frá ættingjum og vinum.

föstudagur, 14. janúar 2005

Að ýmsu að huga

Jæja nú er skólinn kominn á fullt og stefnir allt í skemmtilega önn. Kúrsarnir sem ég tek eru rekstrarhagfræði 2, markaðsfræði 2, stjórnun 2, markaðsrannsóknir 1 og nýsköpun og vöruþróun. Sá síðastnefndi er kenndur á ensku en það ætti nú ekki að vefjast fyrir manni, hehe.

Undanfarna daga hefur bíllinn verið bilaður og hef ég með hjálp góðra manna unnið að hagkvæmum lausnum í því máli. Allt bendir til þess að viðgerð á greyinu geti orðið ærið kostnaðarsöm. Sjáum þó hvað setur.

laugardagur, 8. janúar 2005

Hvurslags eiginlega egóisti er ég eiginlega orðinn? Í dag er áttundi janúar og ég tala um stundatöfluna mína. Í dag á fjölskylduvinurinn David Bowie afmæli og deilir hann deginum með ekki ómerkari manni en sjálfum Elvis Aaron Presley! Ekki nóg með það heldur valdi Biggi vinur minn þennan dag til þess að fljúga til Ítalíu á vit söngsins. Ég óska afmælisbörnum innilega til hamingju með daginn (kannski lesa þau bloggið) og Bigga góðrar ferðar.

Byrjar vel

Í gær fór ég á vef háskólans og púslaði saman stundatöflunni minni. Ég vona að ráðamenn flytji ekki tímana og breyti eftir á því taflan er sú besta sem ég hef fengið síðan ég byrjaði í háskólanum. Það má því segja að skólinn hjá mér hefjist ekki fyrr en þann 11. þar sem ég er ekki í neinum tímum á mánudögum, hehe :D

miðvikudagur, 5. janúar 2005

Áfram jólafrí!

Það sem af er ári hef ég notið þess að vera í jólafríi og leyft mér að vaka fram á nætur með bók í hönd eða yfir góðri mynd. Varla þarf að minnast á það en morgnunum er varið í iðju sem samræmist vökunum, nefnilega að sofa. Um daginn horfðum við á myndina Tootsie og grenjuðum úr hlátri. Ef einhver vill sjá Dustin Hoffman fara á kostum í góðum hópi þá mæli ég með þessari.

laugardagur, 1. janúar 2005

Gleðilegt ár!

Í kvöld bökuðum við fjórar alræmdar spelt pizzur og snæddum þær með fullt af öflugri hvítlauksolíu. Eftir að hafa horft á skaupið fórum við út í Holtagerði og djömmuðum þar fram á nýja árið. Þaðan fórum við svo til Atla frænda hennar Ásdísar í framhaldspartý. Nú erum við heima að skjóta úr svona litlum flöskuknöllum yfir allt, svo við höfum eitthvað til að þrífa upp árið 2005.

Gleðilegt ár kæru vinir og takk fyrir það sem var að líða!