föstudagur, 28. mars 2003

Áðan rakst ég á skemmtilega klausu á mbl.is. Þar sem sagt er frá manni sem líklega var eitthvað ósáttur við ólaunaða kaffitíma. Sjá nánar um kauða hér. Nú er þessi fugl kominn í fjögurra ára kaffipásu, líklega ólaunaða.

Annars stefnir allt í venjulegan föstudag hjá mér. Skóli klukkan átta, skonsur í nesti og kannski kleina ef heppnin er með mér.

fimmtudagur, 27. mars 2003

Eru slöngur ekki dýr?

Frétt af mbl.is: "Sex ára gömul áströlsk stúlka hefur fengið sérstök heiðursverðlaun dýraverndarsamtaka, en henni tókst að bjarga lífi kettlingsins síns þegar kyrkislanga réðist á hann. Marlie Coleman, sem býr í Cairns í Ástralíu, bjóst til varnar þegar kyrkislangan beit kettlinginn Sóta fyrr á þessu ári. Slangan sleppti Sóta en réðist þess í stað á stúlkuna og beit hana í vörina og hékk þar þangað til móðir stúlkunnar kom og tókst að losa hana. „Snákurinn reyndi að éta Sóta," var það eina sem Marlie gat sagt þar sem hún stóð grátandi blóðug í framan með slönguna hangandi á vörinni. „Mark Townend, formaður konunglegu dýraverndarsamtakanna í borginni, sagði í yfirlýsingu, að samtökin vilji ekki að börn leggi sig í hættu, en þessi litla stúlka, sem var aðeins 5 ára gömul þegar þetta gerðist, hefði sýnt afburða hugrekki og sýnt hinn sanna dýraverndaranda. Talið er að slangan, sem slapp, hafi verið 2,5-3 metra löng."

Mér finnst þessi frétt svolítið kaldhæðin að því leyti að dýraverndarsamtök veittu verðlaun fyrir að bjarga kisulóru úr klóm slöngunnar. Einhvern veginn virðist svo vera að litið sé á kisur sem dýr sem ber að verja en ekki slöngur því hvað vitum við nema að slangan hafi verið að farast úr hungri. Það er jú bara náttúrulegt að slík dýr veiði og éti önnur dýr.

Mér virðast þessi samtök frekar vera gæludýraverndarsamtök. Ég hefði þó gert það sama í sporum stelpunnar ef ég hefði haft hugrekki til þess. Það getur nefnilega ekkert dýr keppt við kisur hvað varðar fríðleik og yndisþokka og því hefði slangan fengið að finna á því :)

Hjónabönd og samskipti kynjanna

Börn eru alveg frábærar manneskjur. Vissulega eru þau með staðlaðar myndir af kynjunum oft á tíðum en það breytir því ekki að maður getur hlegið sig máttlausan yfir hreinskilni þeirra. Nokkur bandarísk börn voru spurð spurninga um hjónabandið og samskipti kynjanna. Hér koma nokkur gullkorn.

Hvernig veit maður hverjum maður á að giftast?

"Maður verður að finna einhvern sem hefur gaman af því sama og maður sjálfur. Ef maður til dæmis hefur gaman af íþróttum verður hún að hafa gaman af því að þú hafir gaman af þeim og sjá um snakkið og dýfuna." - Alan, 10 ára.

"Það ákveður það enginn áður en hann verður fullorðinn hverjum hann ætlar að giftast. Guð ákveður það allt löngu áður og maður kemst ekki að því fyrr en það er orðið of seint." - Kirsten, 10 ára.

Á hvaða aldri er best að ganga í hjónaband?

"Það er best að vera 23 ára því þá er fólkið búið að þekkjast í heila eilífð." - Camille, 10 ára.

"Maður þarf ekki að vera á neinum sérstökum aldri, maður þarf bara að vera bjáni." - Freddie, 6 ára.

Hvernig sér maður hvort ókunnugt fólk sé gift?

"Maður verður bara giska út frá því hvort manni sýnist þau vera að æpa á sömu krakkana." - Derrick, 8 ára.

Hvað eiga foreldrar þínir sameiginlegt?

"Bæði vilja ekki eignast fleiri börn." - Lori, 8 ára.

Hvað gerir fólk á stefnumótum?

"Á stefnumótum á að vera gaman því fólkið er að kynnast hvort öðru. Meira að segja strákar geta haft eitthvað að segja ef maður hlustar nógu lengi. - Lynnette, 8 ára.

"Á fyrsta stefnumótinu lýgur fólk bara hvort að öðru og það er yfirleitt nóg til að það hafi áhuga á að hittast aftur." - Martin, 10 ára.

Hvað myndirðu gera ef þú færir á stefnumót sem endaði illa?

"Ég myndi hlaupa heim og þykjast vera dauður. Daginn eftir myndi ég hringja í öll blöðin og láta þau skrifa um mig í andlátsfréttunum." - Craig, 9 ára.

Hvenær er óhætt að kyssa einhvern?

"Ef hann er ríkur." - Pam, 7 ára.

"Það er bannað með lögum ef maður er ekki orðinn átján ára og það er ekki sniðugt að lenda í einhverju veseni út af því." - Curt, 7 ára.

"Reglan er sú að ef maður kyssir einhvern á maður að giftast honum og eignast með honum börn. Þannig á maður að gera." - Howard, 8 ára

Hvort er betra að vera einhleyp(ur) eða í hjónabandi?

"Það er betra fyrir stelpur að vera einhleypar en það er verra fyrir stráka. Það verður einhver að taka til eftir stráka." - Anita, 9 ára.

Hvernig væri heimurinn ef enginn giftist? (uppáhaldssvarið mitt)

"Það væri alla vega erfitt að útskýra alla þessa krakka." - Kelvin, 8 ára.

Hvernig á að viðhalda ástinni í hjónabandinu?

"Maður á að segja konunni sinni að hún sé falleg, jafnvel þótt hún líti út eins og vörubíll." - Ricky, 10 ára.

þriðjudagur, 25. mars 2003

Skin og skúrir

Veðrið hefur vægast sagt látið furðulega við landsmenn undanfarna daga. Eina stundina er sól og blíða en næst þegar manni verður litið út um skjáinn eru hvít snjókorn á þeytingi um loftin blá. Eða þá blanda af hvoru tveggja eins og akkúrat núna, heiðskýrt og skýjað, glampandi sól og snjókoma.

Gott dæmi um íslenskt veðurfar undanfarna daga kemur frá Pésa, frænda Baldurs. Hann settist út í blíðviðrið að morgni til með moggann og kaffi og var víst frjálslega klæddur. Þegar kaffið var uppurið fór hann inn að fylla á' ann (kaffibollann alt svo) og þegar hann kom til baka var skollinn á hríð! Án efa smá fært í stílinn en samt sem áður góð saga.

Ég held að þetta sé einmitt tækifærið til að grafa upp úr gömlum skruddum orðatiltæki á borð við: Það skiptast á skin og skúrir.

laugardagur, 22. mars 2003

Veðmál

Fimmtudaginn síðasta veðjaði ég í fyrsta skipti á ævinni að ég held, þ.e.a.s. fyrir peninga alla vega. Ég dró Baldur snemma heim um kvöldið til að geta fylgst með lokaþættingum af The Bachelor (skömm af því ég veit) og á leiðinni heim vorum við að velta því fyrir okkur hver myndi hreppa "hnossið", þ.e. piparsveininn sjálfan.

Ég var þess fullviss að Helene myndi verða fyrir valinu og þrátt fyrir að Baldur hafi verið sömu skoðunar vildi hann endilega gera þetta að veðmáli. Ég tók því og veðjuðum við upp á 1500 kall sem ég fengi í minn hlut myndi Helene vinna en Baldur ef Brooke yrði hlutskörpust. Og sjá, ég hafði rétt fyrir mér og nú er ég 1500 kalli ríkari sem ég má nota í hvað sem er. Þetta minnir mann bara á manns eigin piparsveinkutíð þegar ekki þurfti að leggja eyðslu manns undir einhvern annan :)

P.s. Mér finnst reyndar svolítið svindl að taka við þessum fjármunum því Aaron og Helene hættu víst saman fyrir áramót svo faktíst séð voru þau ekki saman þegar við vorum að fylgjast með rómantíkinni blómstra þeirra í millum. En ahh, ég læt mig samt hafa það.

fimmtudagur, 20. mars 2003

Rop

Fór að lyfta í dag með Ásdísi og tókum við handleggina. Þetta var pump æfing, þ.e.a.s. margar lyftur og tiltölulega létt lóð. Þegar lyftingarnar voru búnar hlupum við smá á bretti. Ég nýbúinn að uppgötva níu mínútna prógramm sem líkir eftir brekku og eykst hallinn stöðugt. Það er ómannúðlegt prógramm og skemmtilegt.

Einn fróðleiksmoli. Að rembast eins og rjúpan við staurinn, hvað þýðir það? Eða hvað er átt við? Það sagði Valgeir kunningi minn hér í skólanum mér. Þannig var nefnilega í fyrndinni að menn vildu veiða fálka og festu þeir rjúpur (lifandi) við staura sem beitu fyrir fálkann. Í nútímanum sleppir fólk þessu veseni (oftast) og étur rjúpuna bara sjálft eftir að hafa veitt hana (ef það nennir því þá). Svo eru það aðrir og enn gáfaðri sem sleppa því að veiða rjúpuna og éta hana og fara bara út í búð að kaupa gulrót :)

miðvikudagur, 12. mars 2003

Supplies

Hér sit ég uppi á bókasafni í VR2 og hlusta á dýrlega tónlist og er að hugsa um að læra líka. Morguninn hjá mér fór nefnilega að miklu leiti í kjaftagang. Hvern haldiðið að ég hafi hitt? Ég hitti Kristleif vin minn og félaga sem er mjög skemmtilegur og því var mjög skemmtilegt að hitta hann. Þannig að kjaftagangur var í góðu lagi.

Svo hef ég líka verið í beinu sambandi við bretónska garðyrkjubændur. Þaðan var allt gott að frétta, ég talaði við mömmu í þetta sinn og var mjög gott í henni hljóðið. Við Ásdís ætlum að heimsækja Bretanníufolöldin í sumar og hlökkum vægast sagt mikið til.

Kenavo!