mánudagur, 29. apríl 2002

Afmæliskaffi

Í gær var haldið upp á afmælið mitt með alveg hreint svakalegum stæl. Ég hefði nú aldrei náð að hafa svona fínt kaffiboð ef Ásdís væri enn í prófum en þar sem hún er búin í prófum þá voru trilljón sortir af kökum og veitingum sem hurfu barasta af borðinu og það var sko ekki af því að það væri lítið til. Ásdís er einfaldlega snillingur í eldhúsinu, takk fyrir mig Ásdis.

Fyrstu gestirnir á svæðið voru mín ástkæru folöld og á eftir þeim fylgdi kjarninn af vinahópnum. Stella og Kristján gáfu mér tvo diska einn með Leonard Cohen og annan sem er í raun breiðskífa af grænu gerðinni, nefnilega frisbídiskur :) Vonandi finn ég einhvern skjólgóðan æfingastað í sumar því ég ætla sannarlega að verða frisbífrík!

Til að gera langa sögu stutta þá var gærdagurinn alveg hreint frábær og mig langar að þakka ykkur öllum fyrir að hafa notið hans með mér.

laugardagur, 27. apríl 2002

Jæja nú er Ásdís í síðasta prófinu sínu, próf úr námskeiðinu þjóðernishópar. Ég sit hér og skrifa í dagbókina og ætla að senda Ásdísi góða strauma. Svo næ ég í hana klukkan tólf og þá er sumarið hafið fyrir alvöru.

föstudagur, 26. apríl 2002

Sumarbarn

Hann elsku Baldur á afmæli í dag og ég vildi koma eftirfarandi kveðju til hans: Til hamingju með daginn kríló!

P.s. GLEÐILEGT SUMAR!

Gleðilegt sumar allir saman!

Ég á afmæli í dag og er samkvæmt síðustu talningu orðinn 23 ára gamall :)

Mamma og pabbi sungu fyrir mig í símanum í morgun. Í raun hafa kveðjurnar dunið á mér síðan á miðnætti þar sem Biggi sendi mér afmælis-sms klukkan eina mínútu yfir tólf.

Í morgun, eftir að hafa skutlað Ásdísi á Bókhlöðuna, fór ég í sjúkraþjálfun og svo í sund og í staðinn fyrir að fara beint í vinnuna eftir það þá stal ég af Ásdísi frá skólabókunum og saman stungum við af á heimaslóðir ísskápsins okkar, nefnilega í Öskjuhlíðina og pikknikkuðum þar.

Í gær fór ég og heimsótti afa og ömmu í Holtó og fékk góðar móttökur að vanda. Eftir að hafa setið inni og spjallað drjúga stund fórum við afi í smá bíltúr um vesturbæ Kópavogs sem er alltaf ákaflega gaman.

miðvikudagur, 24. apríl 2002

Fagur fiskur í sjó

Þessa dagana er Bókhlaðan drekkfull af örvæntingarfullum nemendum sem friða samviskuna með því að koma hingað og þykjast læra. Ég er ekki ein af þeim, nota bene.

Í hádeginu tók ég mér minn vanalega matartíma uppí nestisstofunni. Að venju var mikið rætt í nestisstofunni enda margt um manninn. Stelpnahópur sat á næsta borði við mitt og snerust umræður þar í fyrstu um lélegt úrval Bónuss. Fljótlega fóru þær þó yfir í aðra sálma, nefnilega fiskibollur.

Allar höfðu þær sögu í pokahorninu um hvaða viðbjóð þær höfðu fundið í fiskibollum. Ein hafði lent í því að tengdamamma hennar útbjó fiskibollur og þegar komið var að því að borða þær stóð sporðurinn út úr einni þeirra. Þar að auki var fiskurinn óætur vegna offitu. Skeiðin með kaffijógúrti á leið uppí munn stöðvaðist. Klígja.

Næsta tók til máls, sú hafði hvorki meira né minna en fundið orm í sinni bollu. Hrollur. Búin að missa matarlystina, jafnvel þótt nestið hafi ekki samanstaðið af neinu fiskikyns. Varð að henda hálfkláraðri jógúrt og pína ofan í mig kexbita áður en ég forðaði mér úr þessu andstyggðar bæli.

Eitt er víst, ég ætla aldrei að borða fiskibollur. Reyndar er það ekki erfitt fyrir mig að efna, hef nefnilega ekki borðað fiskibollur síðan ég var 10 ára. Þar á undan voru fiskibollur í karrí mitt uppáhald en einn daginn gat ég ekki komið því niður fyrir klígju. Nú verður hins vegar ekki aftur snúið - fiskibollur, nei takk.

mánudagur, 22. apríl 2002

Doktorsvörn og dirrindí

Við Baldur vorum að koma af doktorsvörn sem haldin var í hátíðarsal Háskóla Íslands. Þar var Hákon læknir sem vinnur með Baldri að kynna niðurstöður rannsókna sinna á astma. Við Baldur áttum mjög erfitt með að halda einbeitingunni því allt var á svo svakalega fræðilegum nótum að við náðum ekki uppí það.

Kenningin hans er víst það umtalaðasta í læknavísindunum í dag og var vinnu hans hælt í hástert af andmælendum hans. Við læddumst nú reyndar út áður en yfir lauk því okkur var farið að verkja í eyrun af öllu þessu læknamáli. Nú hef ég hins vegar sankað þessari reynslu í sarpinn minn og veit aðeins betur en áður hvernig doktorsvarnir fara fram. Það er eins gott að hafa allt slíkt á hreinu áður en maður fer að verja sína eigin eftir x mörg ár.

Ég skilaði af mér heimaprófinu áðan og er Guðs lifandi fegin að vera laus við það. Ég hef núna lokið 12 einingum á þessari önn og á aðeins eftir prófið í Þjóðernishópum sem er þann 27. apríl. Sumarið er sem sagt í aðeins 5 daga fjarlægð. Orð dagsins: Dirrindí.

laugardagur, 20. apríl 2002

Í dag er ég búinn að gera marga frábæra hluti. Í morgun fór ég að lyfta með pabba. Við tókum aðallega létta bekkpressu, smá tvíhöfða og svo bakið. Þegar við vorum búnir að lyfta þá beið okkar glaðningur sem ég í daglegu tali kalla mömmu og hún var ekki ein á ferðinni heldur kom nesti með henni og var það vel þegið. Eftir að ég kvaddi folöldin þá kíkti ég á froskana sem voru líka að koma úr gymminu og fékk mér smá salat með þeim. Eftir að hafa verið þar á bæ fórum ég og Stella froskur til afa og ömmu á Þinghólsbraut. Ég og Stella vorum nefnilega í grasekkjufíling í dag, Ásdís mín á bókhlöðunni í heimaprófi og Kristján froskur að kenna einhverjum stærðfræði. Hjá afa og ömmu var kósí að vanda, matur ,drykkur og gott andrúmsloft. Nú verð ég samt að hætta, það er svo mikil sól og mig langar í sund.

föstudagur, 19. apríl 2002

Ég finn að þetta á eftir að verða langur og skrýtinn dagur á Bókhlöðunni. Enn eru 30 mínútur í að ég fái prófið afhent og ég er búin að vera að undirbúa mig eftir fremsta megni. Hins vegar er einbeitingin oft lítil því mér verður svo tíðlitið á sessunaut minn í hér í tölvuverinu. Eldri maður í gulri skyrtu og rauðum jakka. Við vitum alla vega að hann er ekki smekkvís. Þar að auki er hann að vafra um netið og er alltaf að skoða síður á hinum ýmsu tungumálum þar sem er að finna greinar eftir hann. Ég veit að þær eru eftir hann því við titil hverrar greinar er flennistór mynd af þessum gamla gaur, skælbrosandi. Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um gamla kalla sem klæðast eins og trúðar og borða pikarpúka frá Nóa-Síríu.

Kofinn í rjóðrinu

Eftir 3 tíma byrja ég í heimaprófi í etnógrafíu eyjaálfu og er ekkert alltof spennt. Fær maður aldrei frið fyrir kröfum kennara? Ég var að ljúka fjórum ritgerðum og er nýbúin að skila þeim af mér þegar ég þarf að eyða núna 3 dögum í að gera heimapróf.

Annars ætti ég ekki að kvarta, fyrir það fyrsta er ég fegin að fá að ganga í skóla en þar að auki klárast prófin 27. apríl hjá mér og þá er ég komin í 4 mánaða sumarfrí. Ég hef aldrei verið búin svona snemma í prófum áður og ætla sannarlega að njóta þess.

Að öðru. Um daginn minntist ég á uppgötvun okkar Baldurs á listhneigð okkar. Baldur var greinilega að slá ryki í augu mér með því að tala um sönglistina því áhugi hans liggur sko ekki bara þar.

Í gær fór hann nefnilega á málaranámskeið þar sem maður lærir að gera olíumálverk á striga. Hann kom síðan með herleg heitin heim og sannast sagna þá gapti ég af undrun. Í förum sínum hafi hann að geyma frábæra mynd af litlum kofa í rjóðri, alveg ofboðslega falleg. Ég ætlaði ekki að trúa því að Baldur hefði gert þetta og var á tímabili alveg viss um að myndin hefði verið prentuð á strigann og hann síðan málað í myndina.

En nei nei, ekkert slíkt. Nú er ég orðin spennt að fara sjálf á þetta námskeið og ætla að láta á það reyna strax eftir prófin. Ég er nú samt dáldið kvíðin því ef ég man rétt þá var það einmitt myndmennt sem ég þoldi síst í grunnskóla.

fimmtudagur, 18. apríl 2002

Insúlín og innsæi

Í vikunni fór ég með Stjörnu Snældudóttur til læknis. Hún lá inni á spítalanum frá klukkan átta um morguninn þangað til ég sótti hana eftir vinnu. Þá tjáði læknirinn mér það að hún væri með sykursýki en nýrun væru í góðu lagi. Nú er hún við hestaheilsu og bíður þess að fá insúlínið sitt í lag. En út í allt aðra sálma.

Í fyrravor þá fór ég í áhugasviðspróf með það í huga að fá einhverja hugmynd um hvað ég ætti að leggja fyrir mig. Svo átti ég að mæta í svokallaða úrlausn sem ég mætti ekki í fyrr en núna ári síðar þá ákvað ég að skella mér ef það væri enn hægt. Ég fór og eftir að hafa séð úrlausn prófsins þá var ég nú bara feginn að vera nokkurn veginn búinn að ákveða að fara í verkfræði. Enda las ég það í einhverri stjörnuspá að þessa dagana ætti nautið að treysta á innsæi sitt fremur en skoðanir annarra.

sunnudagur, 14. apríl 2002

Óþolandi listaspírur?

Við Baldur vorum að komast að því í dag, okkur báðum til undrunar, að við erum eftir allt saman listhneigt fólk. Baldur var að syngja í messu í dag og á meðan sat ég heima og skoðaði eina bók sem ég á, Eye to eye - childhood, en þar eru að finna býsnin öll af myndum af börnum um heim allan.

Sem ég sat og fletti í gegnum bókina fattaði ég að mig langar að læra ljósmyndun og hef lengi haft áhuga á ljósmyndum. Stuttu eftir þessa uppgötvun kom Baldur heim allur uppnuminn eftir sönginn og tjáði mér það að hann ætlaði að æfa söng samhliða háskólanáminu sem hefst næsta haust.

Við verðum sem sagt ansi skrautleg þegar við erum orðin gömul, Baldur útskrifaður sem verkfræðingur og ég orðin doktor í sál- eða mannfræði. Þar að auki verðum við óþolandi listaspírur, Baldur í óperusöng og ég að rausa um samspil ljóss og skugga.

Síðan erum við búin að ákveða eitt og það skal standa. Þegar við erum orðin ca. 55 dembum við okkur í fornleifafræðinám, hendumst síðan til á slóðir Indiana Jones og gröfum okkur í gegnum jörðina eins og mann hefur alltaf langað.

fimmtudagur, 11. apríl 2002

Bæn dagsins

Það er vor
ég er í sjöunda himni.
Helgin fyrir stafni - búinn að fara í ríkið.
Veðrið er æði, sólin skín,
hvergi ský á himni.
Búinn að panta súpu og brauð
og búinn að borga allar mínar skuldir.
Svo sem engin ósköp sem ég á af skuldunautum.
Er á leið í ofsa veislu,
ætla að láta öllum illum látum,
því þetta er lífið,
náttúran og dýrðin
að eilífu
gaman

þriðjudagur, 9. apríl 2002

Gátur

Þegar ég var í mat áðan í vinnunni þá lagði Bjarni vinur minn fyrir mig gátu sem var svolítið lúmsk.

Það var einu sinni maður sem var búinn að vera einn inni í herbergi í tvo mánuði og var kominn með leið á því þannig að hann slökkti ljósið, fór út og læsti hurðinni. Í kjölfar þess dóu 90 menn. Hvernig stóð á því?

Ég man líka eftir einni góðri sem Ólöf amma lagði fyrir mig.

Býr mér innan rifja ró,
reiði, hryggð og kæti,
kurteisin og kári þó
koma mér úr sæti.

Svör sendist hingað.

mánudagur, 8. apríl 2002

Mánudagskvöld (hí á Baldur)

Balli litli fékk ekki far með mér heim heldur hjólaði hann sjálfur með eigin fótöflum alla leið uppí Pókavog. Ég aftur á móti gerði no such thing, heldur settist uppí Nolla og brunaði heim til katta og músa.

Núna erum við hinsvegar stödd á Bókhlöðinni, hinni einu sönnu, í ritgerðarhugleiðingum. Þetta er fjórða og seinasta ritgerðin sem ég hefst handa á, tvær liggja fullmótaðar í valnum, ein er enn í "bleyti" og þessi er vart svo komin á blað. Ég ætla mér að skrifa um áhrif peninga á félagsleg tengsl á Papua Nýju Gíneau og hlakka satt best að segja til að takast á við nýtt viðfangsefni.

Ég er búin að uppgötva að mér finnst Woody Allen frábær leikari og hef einsett mér að horfa aftur á Manhattan Murder Mystery, sú er sko sprenghlægileg.

Mánudagur

Um helgina horfðum við á tvær bíómyndir, annars vegar End of an affair og hins vegar Annie Hall eftir Woody Allen. Ákaflega ólíkar myndir og báðar mjög góðar.

Í gærkvöldi ákvað ég að ég skyldi labba í vinnuna í dag en það þróaðist eitthvað á koddanum og ég hjólaði í vinnuna í morgun í bakstyrkjandi hugleiðingum og var snöggur að því. Það er nefnilega svo ofsalega gott að hreyfa sig svona á morgnana og vera orðinn vel ferskur þegar komið er í vinnuna.

Í hádeginu kom Ásdís og heimsótti mig í vinnuna og við fengum okkur snæðing saman sem uppistóð af túnfiski og kotasælu. Nú er ég að hugsa um að hjóla heim eða fá far með Ásdísi.

laugardagur, 6. apríl 2002

Hengikengúra

Ég fann annan leik á netinu, svona hengimann þar sem maður á að giska á orð og ef maður giskar x oft vitlaust verður kengúran hengd. Ágætis hvíld frá lærdómnum hérna upp á Bókhlöðu.

fimmtudagur, 4. apríl 2002

Myndaalbúm Gabríels!

Ég var að fá póst frá Maríu þess efnis að Gabríel Dagur væri kominn með sitt eigið myndaalbúm á netið. Hann er nú algjört kríli, þessi litli bolti.

Ég er búin að taka nokkrar myndir af honum en alls ekki nóg og mig langar að taka miklu, miklu fleiri myndir. Ætli ég fari ekki að skella mér í heimsókn sem allra fyrst?

Eggjum hent í kanínur

Ég fann einn leik á netinu sem gengur út á það að henda eggjum í kanínur, reyna að hitta þær og drepa þannig sem flestar. Þetta er dáldið bilað en skemmtilegt þrátt fyrir það. Þið ykkar sem prufið smellið HÉR, og góða skemmtun.

P.s. með þessu er ég alls ekki að lýsa frati á kanínur enda eru það hin sætustu dýr.

miðvikudagur, 3. apríl 2002

Páskaungar

Ég veit að páskarnir eru nýliðnir og allt það en ég fann þessa sætu mynd á netinu og varð að sýna ykkur hana. En hvernig ætli þeir hafi fengið þessa liti á sig, litlu skinnin?

þriðjudagur, 2. apríl 2002

Ég er...

Civilian Calvin!
You don't get to travel much outside your neighborhood, but you still manage to get in plenty of trouble. When you're not acting up, you like to wax philosophical.
Take the What Calvin are You? Quiz by contessina_2000@yahoo.com!

Brandarar

Enn bætist í síðusafnið okkar því nú höfum við bætt við brandarasíðu. Á henni er að finna allskyns brandara, fyndna jafnt sem ófyndna, skrýtna sem skemmtilega o.s.frv.

Aðallega er um að ræða brandara sem við fáum í pósti eða rekumst á á netvappi. Ykkur er auðvitað velkomið að senda okkur brandara í tölvupóst sem við getum þá birt á síðunni, við eigum nefnilega ekki svo marga eftir á lager.

-----Uppfærsla 10. mars 2006----
Brandarasíðan var færð haustið 2005 og er nú að finna á síðunni www.spaug.blogspot.com.

Hvaða Calvin ert þú?

Fyrir þá sem halda upp á þá Calvin og Hobbes er hér kjörið tækifæri til að komast að því hverskonar Calvin maður er. Ég tók prófið og komst að því að ég er Hobbes!

You are Hobbes!
You're a bit too mellow to be an incarnation of Calvin, but you're still his best pal. You don't mind having fun, though, and enjoy playing tricks on your friends when they least expect it.