mánudagur, 27. júní 2005

Á milli lífs og dauða

Í dag var fyrsti dagurinn minn á nýjum stað í vinnunni. Ekki sá ég nú kanínuunga en þarna er friðsælt og gott að vera enda staðsetningin góð. Það má eiginlega segja að maður sé staddur milli lífs og dauða bróðurpart dagsins.

sunnudagur, 26. júní 2005

Útskriftarpartý í dönskum stíl

Í gær útskrifaðist Stella Soffía systir mín og er hún nú orðin bókmenntafræðingur. Í korti til hennar skrifaði ég: Kæri bókmenntafræðingur til hamingju með að vera Stella Soffía.

Í tilefni af þessu bauð pabbi henni og okkur á Jómfrúna og snæddum við þar dýrindismat. Ekki slæm upphitun að fara á danska smurbrauðsstofu svona mánuði fyrir brottför okkar til Danaveldis.

laugardagur, 25. júní 2005

Er ég drekinn?

Í gær urðu miklar sviptingar á vinnustað mínum. Mér var reyndar aldrei sagt að ég væri drekinn en hópurinn sem ég stjórnaði var leystur upp og ég settur sem leiðbeinandi í Öskjuhlíðinni. Þessu fylgja vissulega kostir, gallar, tregi og tilhlökkun en hvernig sem allt fer þá tel ég að kanínuungar komi í staðinn fyrir andarungana semsagt hvorki betra né verra, bara öðruvísi.

laugardagur, 18. júní 2005

17. júní

Í morgun gengum við frá Hólavallakirkjugarði niður á Austurvöll og fylgdumst með setningu hátíðarhalda dagsins með tilheyrandi ræðum og tónlistaratriðum. Þegar það allt var búið hittum við ansi skemmtilegan mann frá Isle of Man. Hann hafði meðferðis þjóðfána Manxverja og fræddi okkur heilmikið um land og þjóð. Síðan var gengið um hátíðarsvæðið í allan dag, sólin sleikt og svo legið á Arnarhóli undir dillandi tónlist fram á kvöld.

sunnudagur, 12. júní 2005

Rusl og illgresi í miðborginni

Á fimmtudaginn hætti ég á lagernum, mætti á síðustu námskeiðin hjá Vinnuskólanum og byrjaði að vinna úti á föstudaginn. Ég vinn í Kvosinni sem er svæðið í kringum Tjörnina. Það mættu nú bara fjórir til mín á fyrsta degi en ég á von á fleirum á mánudag. Það er mjög gaman að vera þarna niðri við Tjörnina innan um sætu andarungana auk þess sem maður rekst á fullt af skemmtilegu fólki.

laugardagur, 4. júní 2005

Kvöld í Hveró

Í gærkvöldi drifum við okkur á tónleika í Hveragerðiskirkju hjá ekki ómerkari hljómsveit heldur en sjálfum Hjálmum. Ég hef hlustað þónokkuð á diskinn sem Hjálmar gáfu út á dögunum en að vera svona á staðnum og upplifa grúvið er alveg rosalega gaman, auk þess sem þéttleiki hljómsveitarinnar skilar sér rosalega vel live. Þeir spiluðu lög af plötunni, ný lög auk þess sem þeir tóku sögu úr sveitinni eftir meistara Megas. Það kom ótrúlega vel út að bæta öflugum reggíryþma við verk meistarans. Upphitari á tónleikunum var Helgi Valur Ásgeirsson trúbador og var hann fantagóður og ég spái því að þjóðin eigi eftir að heyra meira í honum. Það fylgdi sögunni að móðir hans hefði farið á Dylan-tónleika á meðgöngunni og er ég ekki frá því að það hafi verið heillaráð.