þriðjudagur, 29. janúar 2002

Hamstur haldinn víðáttubrjálaæði

Baldur fór niðrí dýraspítalann í Víðidal í dag og fékk gefins stórt kanínubúr. Við erum nefnilega að leggja drögin að flugi annars af strákunum úr hreiðrinu og þá er fínt að hafa búr undir litla greyið, það er þá einskonar heimanmundur. Við settum strákana báða í nýja búrið sem er ólíkt stærra en hið fyrra og síðan settum við Fríðu Sól í tóma búrið og leyfðum henni að flippa út í víðáttubrjálæðinu. Eins og henni er von og vísa tókst henni fljótlega að sleppa úr prísundinni með því að troða sér milli rimlanna.

Baldur er núna á kóræfingu eftir nokkurra æfinga hlé. Ég er hins vegar ein heima og hef það kósý, er að lesa fyrir etnógrafíu eyjaálfu á morgun, var m.a. að lesa um nýlendutímann á Kyrrahafssvæðinu. Ég hlakka til þegar Baldur kemur heim af æfingu, þá er nefnilega kominn tími fyrir kvöldlesturinn þar sem ég sit og sötra bangsate og Baldur les fyrir mig ævintýri Múmínálfanna. Eftir að fyrstu bók lauk fór ég nefnilega á bókasafnið og tók allar bækur sem ég sá um múmín. Bók tvö er víst ófáanleg, við erum búin að eltast við hana ansi lengi en Borgarbókasöfnin eiga bara eitt eintak eftir sem er týnt og Landsbókasafn á einnig bara eitt eintak sem er í geymslu niðrí þjóðdeild og er skilgreint svona: Notkun á staðnum.

Afmælistilkynningar

Kristján Rúnar átti afmæli þann 20. janúar og varð þar með 25 ára gamall. Þessi ungi eðlisfræðingur hélt upp á daginn í Santa Barbara í sól og blíðu.

Stella Soffía átti afmæli þann 25. janúar og komst þar með á þrítugsaldurinn, varð heilla 21 vetra ung. Hún hélt einnig upp á daginn í Santa Barbara í blíðskaparveðri.

Elfar pabbi átti afmæli þann 26. janúar og varð 47 ára gamall. Hélt hann upp á daginn á Íslandi, nánar tiltekið á Langjökli í félagsskap gamalla kunningja. Þar var eflaust frost og fimbulkuldi.

sunnudagur, 27. janúar 2002

Fjöldaafmæli og fimbulkuldi

Eftir áramótin ákváðum við Baldur að taka okkur á og skipuleggja okkur betur, þannig kemur maður nefnilega miklu meira í verk. Við settumst því niður og skipulögðum gróflega hvern dag vikunnar, vakna kl. þetta, fara sofa kl. þetta, kvöldmatur, lyftingar, sund, lærdómur, matarboð o.s.frv.

Við gleymdum reyndar að setja eitt inn á þetta plan, að skrifa í dagbókina. Við teljum það vera ástæðu þess hve vanhirt hún hefur verið undanfarið, litla greyið. En núna ætlum við að kippa því í liðinn, ætli dagbókarskrif verði ekki sett á 17:00, mér sýnist við eiga lausan tíma þá.

Að allt öðru, fólkið í kringum okkur, okkar nánustu, hafa verið alltof dugleg við að eiga afmæli undanfarna daga. Við biðjumst afsökunar á því að hafa ekki tilkynnt þessi merku tíðindi hér fyrr en sökum misritunar í tímaplani gleymdist það alveg. En við gleymdum þó ekki að óska afmælisbörnunum til hamingju með daginn, Kristján fékk tölvupóst frá okkur öllum (með kveðjum frá dýragarðinum), Stella var vakin árla morguns við blíða rödd bróður síns og pater meus fékk koss á kinn frá okkur báður strax á miðnætti. Við ætlum að bæta við smá upplýsingum um þessi merku börn hér fyrir ofan þessa færslu.

Af dýragarðinum er þetta helst: Bjartur og Rúdólfur er að fá spena og eru óskaplega skapillir þessa dagana. Pirringurinn er helst talinn stafa af meintu kynþroskaskeiði sem strákarnir eru að að öllum líkindum að ganga í gegnum. Þeir slást mikið og í þessu litla búri myndast lítil hringiðja við slík átök sem hefur í för með sér að sagkubbar og skítakúlur endursendast þvert yfir þurrkherbergið. Greyið Kisa, þessi virðulega frú, þarf að deila herbergi með þessum trúðum og stendur hreint ekki á sama. Við sjálf erum orðin þreytt á að vera í Öskubuskuhlutverkinu, þrífa skítakúlur af gólfinu á klukkutímafresti getur orðið verulega þreytandi starfi. Fríða Sól er svo heppin að hafa aðsetur í forstofunni og verður því ekki vör við þessi læti í drengjunum.

Að lokum er þetta helst: Baldur er enn að drepast í bakinu sökum tognunar sem hann hlaut er hann lyfti upp einhverju þyngslinu. Hann verður að öllum líkindum frá vinnu næstu viku. Ásdís er komin á fullt á vorönninni enda skráð í 22 einingar sem er rúmlega eitt og hálft nám ef það má orða það svo.

fimmtudagur, 24. janúar 2002

Þabbaraþabb!

Í morgun vöknuðum við Ásdís og allt var eins og venjulega. Ég ætlaði að skutla henni í skólann svo að hún gæti mætt í tíma klukkan 9:15. En þegar út er komið þá kemur í ljós að annað framdekkið er vindlaust en um daginn sprakk dekk á sama stað á bílnum og var þetta því varadekkið.

Ég hringi xpress í Bigga eftir að hafa vandræðast eitthvað yfir þessu og við skutlum Ásdísi í skólann (9:45) og reddum dekkjunum. Svo fer ég til læknis og næ svo í Ásdísi sem segir mér einn nokkuð fyndinn brandara sem fjallaði um það að í raun hefði hún ekki þurft að mæta fyrr en klukkan 10:15 það væri á föstudögum sem hún þyrfti að mæta klukkan 9:15. Ég sem stressaði mig svo mikið en það var bara ágætt. Kannski var þetta áminning um að maður eigi að leggja tímanlega af stað.

laugardagur, 19. janúar 2002

Hitt og þetta

Eins og kom fram í síðustu færlsu drifum við okkur á Jalla! Jalla! en þar sem við eru nú búin að sjá hana þá getum við mælt með henni við alla.

Á miðvikudaginn fór ég svo til læknis vegna þess hve slappur ég var í bakinu og við nánari athugun kom í ljós að ég hafði tognað rækilega föstudaginn síðasta í vinnunni ég tók mér frí þann daginn en sökum anna er hálfómögulegt að taka frí nema maður missi fót þannig að ég mætti fimmtudag og föstudag en í staðinn tók ég veikindafrí hjá mogganum þessa helgi.

Á miðvikudaginn ætluðum við að horfa á Braveheart á dvd en hún var hvergi fáanleg þannig að við sleppum hetjuglápi í bili. En við munum horfa á umrædda mynd bráðlega. Ásdís er nefnilega í áfanga í skólanum sem heitir gelískar þjóðsögur og siðir og eru allir alltaf að vitna í þessa frábæru mynd en gallin við það er sá að Ásdís hefur ekki séð hana.

Á fimmtudagsmorgun vorum við ógeðlega dugleg og fórum í sund fyrir klukkan sjö. Það var nú barasta frábært maður var eitthvað svo ferskur allan daginn. Ég hef að vísu prófað að stunda sund á öllum tímum sólarhringsins í gegnum tíðina og verið mishress eftir þær ferðir. Sundæfing og sundferð eru nefnilega ekki það sama.

Áðan gerðist eitt alveg voðalegt. Ég veit nú ekki hvort maður ætti að útlista slíku á hérna en ég ætla að kýla á það svo að fólk geti sýnt viðeigandi nærgætni. Þannig er mál með vexti að ég var að lesa um múmínálfana áðan fyrir Ásdísi og hvað haldið þið að hafi gerst. BÓKIN KLÁRAÐIST! Sökum þess þá treysti ég mér ekki til að skrifa meira í dag.

þriðjudagur, 15. janúar 2002

Jalla! Jalla!

Jæja, þá er skólinn byrjaður eina ferðina enn. Nú er þó öldin önnur, öll skyldunámskeið að baki og nú hef ég frjálsar hendur til að velja þau námskeið sem ég hef áhuga á. Ég fór í gær í tíma í þjóðernishópum, lofar góðu. Í dag fór ég síðan í Gelískar þjóðsögur og siði í þjóðfræðinni hjá Terry Gunnell og það er ferlega spennandi. Annars verð ég svo stressuð þegar ég sæki tíma hjá þjóðfræðinni, þetta er einhvernveginn svo ólíkt mannfræðinni, þá meina ég sko uppsetningu námsefnis en ekki endilega innihald þess.

Annars erum við á leiðinni í bíó núna, 10 mínútur í sýningu að sjá Jalla! Jalla!, sænsk mynd sem Balli heimtar að sjá. Eftir að hafa séð eina góða sænska mynd þá er hann bara húkkt, einu sinni smakkað, þú getur ekki hætt.

sunnudagur, 13. janúar 2002

Börnin okkar óþekku

Þetta er nú búinn að vera meiri dagurinn. Hann byrjaði ansi sakleysislega, við sváfum vel og komum okkur síðan af stað upp úr eitt leytinu. Við skiluðum bílnum hans Bigga og vorum aftur komin á Skjóna. Þegar við vorum búin að ræsa bílinn og keyra spottakorn tókum við eftir því að bensínnálin steig ekkert, stefnuljósin voru óvirk og blikkpungurinn var þögull sem gröfinn. Þá fattaði Baldur að öryggið væri farið þannig við upp á næstu bensínstöð að skipta um það.

Eftir þá smávægilegu viðgerð vildi bílinn einfaldlega ekki í gang, sprengingar heyrðust og Baldur hefði eflaust haldið áfram að þrjóskast með að starta druslunni hefði starfsmaður Olís ekki komið hlaupandi með angistarsvip til að tilkynna okkur að neistaflug og eldglæðingar stæðu undan bílnum. Svekkt í bragði ýttum við bílnum í næsta stæði og löbbuðum heim. Óþekki Skjóni!
En við höfðum ákveðið að heimsækja Stellu ömmu í dag og því kom Pétur afi að sækja okkur. Hjá þeim fengum við þessar líka fínu rjómabollur, namm. Eftir spjall og kósýheit keyrðu þau okkur út í Hamraborg þar sem Skjóni stóð einmana, Baldur var núna með nokkur heilræði frá Kalla afa í farteskinu, nú skildi bílinn í gang. Kraftaverk, hann fór í gang við þriðju tilraun og við brunuðum í mat til Ólafar og Jóa, cous-cous upp á afríska vísu, svakalega gott. Eftir heitan tebolla héldum við heim á leið, en aðeins til að verða fyrir öðru áfalli....

Þannig er mál með vexti að þegar við komum inn eftir að hafa verið að heiman í einhvern tíma kíkjum við á Fríðu Sól, ertu með nógan mat, ertu með nóg vatn, ertu lifandi, þú ert þvílíkt kríli, slíkar ástæður höfum við fyrir þessu. Í kvöld brá okkur þó heldur betur í brún, ekki sást tangur né tetur af Fríðu! Búrið var harðlæst, engin útgönguleið héldum við.

Við erum greinilega ekki nógu forsjál, Fríða Sól hafði nefnilega nagað sig í gegnum varnagarðinn sem við höfðum sett upp seinast þegar henni tókst að sleppa. Við tók taugastekkt leit þar sem Baldur tönglaðist á frasanum "vertu róleg, vertu róleg" en í raun var hann sá stressaði. Við náðum í vasaljós og allar græjur og byrjuðum á því að kíkja undir allar mublur en engin Fríða.

Sem ég stend fyrir framan hillurnar þar sem búrið hennar er heyri ég smá þrusk og hamstrahljóð. Ég kalla í Baldur: " Ég heyri eitthvað". Baldur: "Vertu róleg, vertu róleg, hlustaðu" en áður en hann náði að klára þennan frasa hafði ég séð lítið snjáldur gægjast út um einn blaðakassann sem er tveimur hillum fyrir neðan búrið. Hún hafði sem sagt nagað sig í gegnum allt, fleygt sér síðan niður að aftanverðu við hilluna og einhvernveginn náð taki á þessum blaðakassa, hysjað sig upp í hann en ekki komist upp aftur. Óþekka Fríða!

laugardagur, 12. janúar 2002

Popplag í g-dúr, Gaggó vest og Der bor en bager på...

Í dag fórum við í heillangan bíltúr austur fyrir fjall. Til þessarar veigamiklu farar fengum við lánaðan nýja bílinn hans Bigga og færum við honum mestu þakkir fyrir. Við keyrðum upp að Geysi þar sem við áðum og snæddum pizzasnúða og malt. Á leiðinni heim rembdumst við síðan við að muna texta á hinum ýmsu íslensku lögum og sungum þau hástöfum.

Annars er það helst að frétta að Stella amma á afmæli í dag. Til hamingju með daginn elsku amma!

Í dag kvöddum við líka Pétur frænda en hann er aftur farinn í víking til Fjarskanistan eða Langtíburtistan eftir vikustopp hér á Íslandi. Góða ferð.

ásdís og baldur

föstudagur, 11. janúar 2002

Ætli múmínálfarnir stundi jóga?

Í gær var ég aldeilis duglega að rækta á mér kroppinn. Við fengum nefnilega í gegnum lúguna bækling frá líkamsræktarstöðinni Betrunarhúsið þar sem manni er boðið að mæta frítt til þeirra í opna tíma og tækjasal í heila viku gegn því að maður framvísi þessum bæklingi. Ég hringdi því strax í mömmu og í gær fórum við í fyrsta tímann, taibo. Úff, ferlega erfitt, ég hélt það myndi líða yfir mig í lok tímans, það var svo ferlega loftlaust þarna inni og maður þurfti svo sannarlega á fersku lofti að halda.

Um kvöldið mættum við síðan aftur til leiks, en núna til að leggja stund á jógafræði. Sá tíma fólst í því að sitja á risastórri dínu í lótusstellingunni og anda djúpt inn og blása út. Síðan fórum við að gera ýmsar skrítnar æfingar sem allar hétu dýranöfnum, íkorninn, svanurinn, fiðrildið o.s.frv.

Það kom mér skemmtilega á óvart að ég kannaðist við nokkrar stellingarnar því ég gerði þær þegar ég var yngri, t.d. stellingin þar sem maður situr ekki á rassinum heldur á hálsinum og herðunum með fætur beint upp í loft og heldur undir mjöðmunum. Ég horfði nefnilega oft á sjónvarpið frá þessu sjónarhorni þegar ég var lítil.

Í heildina litið fannst mér jógað ósköp þægilegt og áreynslulítið en í dag finn ég fyrir heiftarlegum harðsperrum í mjóbakinu, en kennarinn benti einmitt á það að flestar þessara æfinga reyndu mjög á það. Ég veit þá allavega að ég stóð mig í stykkinu.

Undanfarin þrjú kvöld höfum við Baldur verið að lesa um múmínálfana í Múmíndal í bókinni Pípuhattur galdrakarlsins. Ég held ég hafi sjaldan lesið eins fyndna bók, við hlæjum svo mikið að tárin streyma niður kinnarnar og Baldur rétt kemur upp úr sér orðunum milli hláturkviða. Ég mæli eindregið með þessum snilldar bókmenntum.

miðvikudagur, 9. janúar 2002

Bækur, bækur og aftur bækur

Sælt veri fólkið. Þá loksins rís maður úr jóladoðanum og sest aftur við skriftir. Vonandi hafið þið haft það gott yfir jólin og ég óska ykkur öllum farsældar á nýja árinu.

Eins og Baldur hefur fjálglega lýst hér að neðan voru jólin yndisleg, mikið af pökkum og afslöppun í gæðaflokki. Svo var náttúrulega afmælið mitt og nú er ég orðin heilla 22 vetra gömul að mér lifandi. Ég fékk slatta af bókum í pakkaflóðinu góða enda fátt annað sem lýðst á þessu heimili (allavega frá mínum bæjardyrum séð). Ætli maður hafi ekki fengið um 7 bækur í jólagjöf og 13 í afmælisgjafir (NB þar af voru 9 frá Baldri brjálaða).

Af þessari hrúgu er ég búin með 9 bækur og er núna með 2 í takinu. Sex bókum þarf ég að skipta og vangaveltur eru hvað gera skuli við þá seinustu, 2 eru í biðstöðu. Úff, þá er þeirri greinargerð lokið. Venjulega eru mín jól bara bókajól en ég man þó ekki eftir svona gríðarlegu magni. Aðrar gjafir (non-books) voru myndarammi, súkkulaði, konfekt, klukka höggvin í álfastein, ilmvatn, baðolíur og lotion. Síðan má ekki gleyma því sem við fengum í búið, vöfflujárn og hnífaparasett úr "þýsku eðalstáli" (svo maður vitni í pabba).

Eftir slíkt maraþon í bókalestir mætti halda að ég gæti mælt með einhverjum gripum. Kannski að Harry Potter standi upp úr, spenna, drama og gaman. Artemis Fowl var líka skemmtileg lesning, best væri e.t.v. að lýsa henni sem blöndu af James Bond og Harry Potter eins og einn gagnrýnandi komst að orði. Nýja bókin hennar Amy Tan stóð vel fyrir sínu en það sama er kannski ekki hægt að segja um bókina hennar Isabel Allende. Engin bóka hennar kemst í hálfkvist við þá fyrstu, Hús andanna.

Þær bækur sem voru hræðilegar einfaldlega af innihaldsástæðum en ekki vegna þess að þær væru illa skrifaðar, eru t.d. bókin um stríðið á Balkanskaga, þ.e. bókin hennar Leilu. Mikið leið manni illa eftir að lesa lýsingar á þeirri grimmd sem ríkir í stríðum, það er eins og menn klæði sig úr öllu því sem þeim hefur verið kennt og afmennskist. Þetta er ekki bók fyrir viðkvæmar sálir eins og mig en einhver verður að láta í sér heyrast og það dugir víst ekki að skella skolleyrum við slíku. Bókin Hann var kallaður Þetta er af svipuðum toga, hræðilegar lýsingar barns á ofbeldi sem það varð fyrir af hendi móður sinni. Sú frásögn er þó full af von og trú um að allt fari vel og endar á góðum nótum.

Af dýragarðinum er þetta helst: Mamma kanínustrákanna Bjarts og Rúdólfs, Kaníka kanína, hefur verið gefin annarri fjölskyldu og býr því ekki lengur við Digranesveg. Kanínustrákarnir hafa einnig flutt aðsetur sitt og búa nú í stóra bláa og hvíta kanínubúrinu en ekki litla gráa og svarta hamstrabúrinu. Þeir eru enn sprækir sem lækir og líður að vonum vel í nýju heimkynnunum.

Kisan Stjarna, sem öll börn ættu að þekkja, er við hestaheilsu og kúrir eins og er ofan á blómum prýddu rúmteppi. Hún hafði það gott um jólin, fékk fisk til tilbreytingar og varð ekkert alltof skelkuð á gamlárskvöld enda orðin gömul og reynd kempa. Hamsturinn Fríða Sól virðist hafa verið eilítið slöpp yfir hátíðirnar ef tekið er mark á svefnmagni og þess hve ódugleg hún var að mæta í earobic tíma (hamstrahjólið). Hún virðist þó hafa braggst og er orðin hress sem aldrei fyrr.

fimmtudagur, 3. janúar 2002

Gleðilegt ár!

Jæja þá er ég aftur sestur við tölvuna. Hvar á ég að byrja? Hmmm... Jólin voru frábær og ekkert smá gott að taka svona frí til að hlaða batteríið aftur. Aðfangadagskvöldi eyddum við með Elfari og Andra þar var mikið hlegið og margir pakkar opnaðir. Daginn eftir var aftur pakkadagur en í þetta sinn var það bara Ásdís sem opnaði pakka það vildi nefnilega svo skemmtilega til að afmælið hennar bar upp á jóladag að þessu sinni. Ég tók mér frí á mogganum til þess að fríið yrði algjört. Mér fannst líka frábært að ná að byrja að lesa bók sem ég fékk í afmælisgjöf frá Ásdísi í fyrra um píramídana, svo er ég að lesa eina sem hún gaf mér í jólagjöf nefnilega Silmerillinn eftir Tolkien. Enn sem komið er er ég bara búinn með eina af bókunum sem ég fékk í jólagjöf það er bókin um flissarana eftir Roddy Doyle, skemmtileg bók sem Ásdís gaf mér. Ég er líka að lesa kennslubók í nuddi sem Stella og Kristján gáfu mér og gengur vel með hana.

Þessa dagana er ég að koma skikki á hlutina aftur lyfta, synda, sofa, vakna og éta venjulega. Það gengur ágætlega og ég fór með Bigga að lyfta áðan og tókum við bak og tvíhöfða sem eru ákaflega skemmtilegar æfingar og þrátt fyrir mikið át og litla hreyfingu um jólin þá var maður nú barasta ekkert slæmur. Reyndar bara langflottastur.

Um áramótin skutum við ekki upp einni rakettu en í staðinn átum við massamikið af pizzu ala pabbi sem er eitthvað það besta sem hægt er að hugsa sér og það ótrúlega er að hún verður betri með hverju árinu sem líður. Eftir mat ætluðum við svo að labba á næstu brennu með mömmu og pabba og lögðum af stað vígreif með kyndla og stjörnuljós en sökum mikillar rigningar og roks snerum við aftur eftir korterslabb og bjuggum bara til okkar eigin brennu úr kyndlunum þannig að í raun fórum við langa leið að næstu brennu. Svo var bara farið inn í hlýjuna að horfa á skaupið og éta meira og þannig hafa hátíðarnar verið éta og éta meira en fyrir mér er þetta hátíð ljóss, friðar og matar.