miðvikudagur, 9. janúar 2002

Bækur, bækur og aftur bækur

Sælt veri fólkið. Þá loksins rís maður úr jóladoðanum og sest aftur við skriftir. Vonandi hafið þið haft það gott yfir jólin og ég óska ykkur öllum farsældar á nýja árinu.

Eins og Baldur hefur fjálglega lýst hér að neðan voru jólin yndisleg, mikið af pökkum og afslöppun í gæðaflokki. Svo var náttúrulega afmælið mitt og nú er ég orðin heilla 22 vetra gömul að mér lifandi. Ég fékk slatta af bókum í pakkaflóðinu góða enda fátt annað sem lýðst á þessu heimili (allavega frá mínum bæjardyrum séð). Ætli maður hafi ekki fengið um 7 bækur í jólagjöf og 13 í afmælisgjafir (NB þar af voru 9 frá Baldri brjálaða).

Af þessari hrúgu er ég búin með 9 bækur og er núna með 2 í takinu. Sex bókum þarf ég að skipta og vangaveltur eru hvað gera skuli við þá seinustu, 2 eru í biðstöðu. Úff, þá er þeirri greinargerð lokið. Venjulega eru mín jól bara bókajól en ég man þó ekki eftir svona gríðarlegu magni. Aðrar gjafir (non-books) voru myndarammi, súkkulaði, konfekt, klukka höggvin í álfastein, ilmvatn, baðolíur og lotion. Síðan má ekki gleyma því sem við fengum í búið, vöfflujárn og hnífaparasett úr "þýsku eðalstáli" (svo maður vitni í pabba).

Eftir slíkt maraþon í bókalestir mætti halda að ég gæti mælt með einhverjum gripum. Kannski að Harry Potter standi upp úr, spenna, drama og gaman. Artemis Fowl var líka skemmtileg lesning, best væri e.t.v. að lýsa henni sem blöndu af James Bond og Harry Potter eins og einn gagnrýnandi komst að orði. Nýja bókin hennar Amy Tan stóð vel fyrir sínu en það sama er kannski ekki hægt að segja um bókina hennar Isabel Allende. Engin bóka hennar kemst í hálfkvist við þá fyrstu, Hús andanna.

Þær bækur sem voru hræðilegar einfaldlega af innihaldsástæðum en ekki vegna þess að þær væru illa skrifaðar, eru t.d. bókin um stríðið á Balkanskaga, þ.e. bókin hennar Leilu. Mikið leið manni illa eftir að lesa lýsingar á þeirri grimmd sem ríkir í stríðum, það er eins og menn klæði sig úr öllu því sem þeim hefur verið kennt og afmennskist. Þetta er ekki bók fyrir viðkvæmar sálir eins og mig en einhver verður að láta í sér heyrast og það dugir víst ekki að skella skolleyrum við slíku. Bókin Hann var kallaður Þetta er af svipuðum toga, hræðilegar lýsingar barns á ofbeldi sem það varð fyrir af hendi móður sinni. Sú frásögn er þó full af von og trú um að allt fari vel og endar á góðum nótum.

Af dýragarðinum er þetta helst: Mamma kanínustrákanna Bjarts og Rúdólfs, Kaníka kanína, hefur verið gefin annarri fjölskyldu og býr því ekki lengur við Digranesveg. Kanínustrákarnir hafa einnig flutt aðsetur sitt og búa nú í stóra bláa og hvíta kanínubúrinu en ekki litla gráa og svarta hamstrabúrinu. Þeir eru enn sprækir sem lækir og líður að vonum vel í nýju heimkynnunum.

Kisan Stjarna, sem öll börn ættu að þekkja, er við hestaheilsu og kúrir eins og er ofan á blómum prýddu rúmteppi. Hún hafði það gott um jólin, fékk fisk til tilbreytingar og varð ekkert alltof skelkuð á gamlárskvöld enda orðin gömul og reynd kempa. Hamsturinn Fríða Sól virðist hafa verið eilítið slöpp yfir hátíðirnar ef tekið er mark á svefnmagni og þess hve ódugleg hún var að mæta í earobic tíma (hamstrahjólið). Hún virðist þó hafa braggst og er orðin hress sem aldrei fyrr.

Engin ummæli: